Agritechnica nálgast
22.09.2015
Nú eru rétt tæpar 8 vikur þar til þýska stórsýningin Agritechnica, sem haldin er annað hvert ár, hefst. Að þessu sinni verður hún haldin dagana 10.-14. nóvember og sem fyrr verður hún í Hannover. Þessi sýning, sem er sú stærsta sem haldin er í heimi, er sérhæfð fyrir vélar og tæknibúnað í landbúnaði. Eins og áður segir er sýningin haldin annað hvert ár en hitt árið á móti er svo haldin búfjársýningin EuroTier, þ.e. sýning sem sérhæfir sig í öllu er við kemur nautgriparækt og tæknibúnaði fyrir þá búgrein.
Árið 2013 voru nærri 2.900 sýnendur til staðar á sýningunni og er útlit fyrir að fjöldinn verði áþekkur í ár. Þá voru gestir sýningarinnar um 450.000. Alls er sýningarsvæðið á 380.000 fermetrum í 24 sýningarhöllum svo dagljóst er að ef einhver ætlar á þessa sýningu þá þarf amk. 2 daga til þess að ná að skoða flest af því sem í boði er.
Eins og áður segir er þetta tækni og tækjasýning og bera þar af dráttarvélar, þreskivélar, upptöku- og sáningarvélar ásamt jarðvinnslu og heyvinnutækjum. Auk þess allt fyrir flutninga, varahlutir og fleira.
Ef þessi upptalning hefur vakið áhuga einhverra á að fara á sýninguna, er ekki seinna vænna en að panta flug og gistingu því verðið mun væntanlega einungis hækka eftir því sem nær dregur opnun Agritechnica 2015/SS.