Agrial og Eurial horfa á heimamarkaðinn
27.06.2013
Frönsku félögin Agrial og Eurial, sem bæði eru samvinnufélög kúabænda, eru í samrunaferli eins og við greindum frá í janúar sl. Nú er að verða komin mynd á hvernig hið nýja félag muni starfa í framtíðinni en móttökugeta þess er um 2 milljarðar lítra mjólkur árlega, þar af er 10% þess magns geitamjólk.
Félagið ætlar að leggja áherslu á sinn heimamarkað og verður þar sérstaklega horft til þess að ná aftur tökum á jógúrtmarkaðinum en einkafélagið Danone hefur þar fyrir ráðandi stöðu. Þessi stefna er nokkuð frábrugðin áherslum annarra stórra samvinnufélaga kúabænda í Evrópu en flest þeirra horfa aðallega á útflutning. Það verður því afar fróðlegt að fylgjast með hinu nýja félagi á komandi mánuðum, enda mikið er í húfi fyrir hina rúmlega fimm þúsund félagsmenn/SS.