Beint í efni

Afurðaþróun á réttri leið

13.03.2012

Niðurstöður skýrsluhaldsins fyrir febrúar 2012 eru nú komnar út hjá Bændasamtökunum, en litlar breytingar hafa orðið frá síðasta mánuði. Meðalafurðir í Hraunkoti reiknast enn hæstar yfir landið í flokki fjósa með færri en 40 árskýr, Kirkjulækur II með mestar afurðir fjósa með 40-80 árskýr og Gunnbjarnarholt sem fyrr með mestar afurðir í flokki fjósa með fleiri en 80 árskýr. Á afurðalista kúa er nú í efsta sæti kýring Blíða frá Flatey.

 
Alls komu 597 bú til uppgjörs sem eru hlutfallsleg skil upp á 95%. Fjöldi árskúa í þessum skýrsluskilum var 22.343 eða 39,5 árskýr að jafnaði á hvern skýrsluhaldshafa.
 
Þegar horft er til meðalafurðanna kemur fram að nokkur hækkkun verður á milli mánaða en meðalafurðirnar mælast nú 5.526 kg sem er 16 kg meira en í janúar sl. Próteinhlutfallið var 3,38  og fituhlutfallið 4,20 og framleiðsla verðmætaefna því 418,9 kg. Sé horft til sambærilegra niðurstaðna í febrúar í fyrra þá voru meðalafurðirnar 5.295 kg og 36,6 árskýr svo árangurinn er afar jákvæður.

 

Samtals reiknast nú 21 bú yfir 7.000 lítra meðalnyt sem er einu búi færra en í janúar.

 

– Mestar meðalafurðir búa með færri en 40 árskýr eru sem fyrr í Hraunkoti (16,4 árskýr) en þar var meðalnytin 8.136 kg.
 
– Mestar meðalafurðir búa með 40-80 árskýr eru sem fyrr í Kirkjulæk II (42,2 árskýr) þar sem meðalnytin reiknast nú 7.848 kg.
 
– Mestar meðalafurðir búa með fleiri en 80 árskýr eru sem fyrr í Gunnbjarnarholti (105,3 árskýr), en þar var meðalnytin 7.201 kg.
 
Afurðahæsta kýr landsins (reiknað út frá kg mjólkur) er enn á toppnum en það er kýrin Blíða frá Flatey (undan óskráðu nauti) en Blíða mjólkaði 12.447 kg. sl. 12 mánuði. Skammt undan er svo hún Samba frá Útvík en hún mjólkaði 12.232 kg/SS.

 

Smelltu hér til þess að sjá nánari upplýsingar úr skýrsluhaldi BÍ.