Beint í efni

Afurðastöðvaverð ytra lækkar

28.04.2014

Eftir all langt tímabil með óvenju hátt afurðastöðvaverð hafa, nú fyrstu merki komið fram um heldur lækkandi verð. Nokkrar afurðastöðvar í Evrópu lækkuðu verð fyrir innkeypta mjólk í liðinni viku og í dag mun Arla lækka afurðastöðvaverðið hjá félaginu um 2,3 krónur á kílóið og fyrir meðalmjólkina fá kúabændur félagsins nú 62,90 krónur/kg. Félagið breytti ekki áætlun sinni um uppbótargreiðslu í lok ársins, um 4,5 krónur á hvert innvegið kíló frá eigendum félagsins.

 

Um leið og tilkynningin frá Arla var send út voru frekari verðlækkanir boðaðar á næstunni, en skýringin felst í því að nú er all mikil framleiðsla víða um heim og sem stendur geta vinnsluaðilar ekki tekið við allri mjólk – jafnvel þó svo að kaupendur séu til staðar að vörunum! Iðnaðurinn hefur með öðrum orðum ekki náð að hafa undan við að setja upp vinnslustöðvar í takti við hina miklu eftirspurn og fyrir vikið hefur verð á stoðvörum fyrir þennan markað farið lækkandi undanfarið/SS.