Beint í efni

Afurðastöðvaverð hækkar erlendis

05.09.2016

Í kjölfar hækkunar á heimsmarkaðinum undanfarnar vikur eru nú helstu afurðastöðvarnar sem vinna á útflutningsmarkaði byrjaðar að hækka afurðastöðvaverðið á ný eftir langa lægð. Þannig hafa bæði Fonterra í Nýja-Sjálandi og Arla í Norður-Evrópu tilkynnt um hækkun. Undanfarið hafa bæði þessi stóru fyrirtæki horft upp á verulega minni innvigtun mjólkur miðað við sama tímabil í fyrra og því kom sér afar vel að á sama tíma og fyrirtækin þurftu að ná í meira magn mjólkur, þá hækkaði heimsmarkaðsverðið.

 

Hjá Fonterra nemur samdráttur í innvigtuninni 4% miðað við í fyrra og hjá Arla reyndar ekki nema 0,9% en þess má þó geta að það er í fyrsta skipti í sögu Arla að ekki er um aukningu að ræða á milli ára. Í rekstraráætlunum Arla er gert ráð fyrir aukningu á árinu um tæpt 1% og því er ljóst að ef fyrirtækinu berst ekki meiri mjólk á næstunni þarf að endurskoða framleiðslulínur og markaðsstarf/SS.