Beint í efni

Afurðafélag frá Víetnam fjárfestir í Evrópu

12.08.2015

Afurðafélagið Vinamilk frá Víetnam er í mikilli sókn og hefur verið undanfarin ár. Svo mikill er atgangurinn að undrun sætir enda hefur félagið keypt upp afurðafélög um allan heim og virðist ekkert lát vera á uppkaupunum. Á aðalfundi félagsins nýverið kom fram að nú stefnir félagið á að hefja fjárfestingar í Evrópu, en hingað til hefur Vinamilk haldið sig við fjárfestingar í nágrenni við Víetnam.

 

Fram kom í máli stjórnarformanns Vinamilk, Mai Kieu Lien, að hún ráðgeri að félagið fjárfesti í ár fyrir heila 24 milljarða króna í uppkaupum og yfirtökum! Félagið er tiltölulega nýtt á þessum „markaði“ en það var ekki fyrr en árið 2014 að félagið fékk heimild víetnamskra yfirvalda til fjárfestinga erlendis. Síðan þá hefur Mai Kieu Lien verið stórtæk, en hún er ein valdamesta kona Asíu, enda sýnir yfirtöku- og uppkaupalistinn sitt: Í janúar 2014 keypti félagið 51% hlut í Angkor Dairy Products í Kambódíu sem og 70% hlut í bandaríska fyrirtækinu Driftwood Dairy. Þá keypti félagið 19,3% hlut í nýsjálenska félaginu Miraka Limited einnig og nú er svo röðin komin að Evrópu en Mai Kieu Lien vildi þó ekki gefa upp hvaða afurðafélag væri um að ræða, en það kemur væntanlega fljótlega í ljós/SS.