Beint í efni

Áframhaldandi framleiðsluaukning í ungnautakjöti

11.07.2007

Þegar skoðaðar eru ásetningstölur fyrir tvö undanfarin ár, 2005 og 2006 kemur í ljós að ásetningur nautkálfa hefur aukist nokkuð. Gerist það í beinu framhaldi af hagstæðri verðþróun á nautakjöti sem hófst árið 2004. Árin þar á undan lækkaði verð hins vegar samfleytt, sem leiddi af sér samdrátt í nautakjötsframleiðslu. Í fyrra var innflutningur á nautgripakjöti á sjötta hundrað tonn, en hefur verið nokkuð minni það sem af er þessu ári, m.v. sama tímabil í fyrra. T.d. var innflutningur á tímabilinu janúar-mars 2006 95 tonn, en í janúar-apríl í ár var hann 64 tonn. Kemur það m.a. til af framleiðsluaukningu innanlands sem hefur verið talsverð.

Samkvæmt tölum úr gagnagrunni einstaklingsmerkinga, MARK, um fjölda lifandi gripa um síðustu áramót, var ásetningur nautkálfa 17,6% meiri á síðasta ári en árið 2005. Má því búast við tilsvarandi framleiðsluaukningu á næstunni, þar sem vænta má að breytingar á fallþunga verði óverulegar. Það er því vonandi að innflutningur á nautakjöti haldi áfram að minnka í takt við aukningu á framleiðslu innanlands.

 

Með því að smella hér má sjá töflu yfir fjölda lifandi gripa í MARK þann 31.12.2006, sem fæddir eru á árunum 2005 og 2006. Nautkálfar úr þessum árgöngum koma væntanlega til slátrunar á þessu og næsta ári.