Beint í efni

Áfram veginn kúabændur!

22.01.2020

Á stjórnarfundi Landssambands kúabænda þann 20. janúar síðastliðinn tilkynnti ég að ég mun ekki gefa kost á mér til áframhaldandi formannssetu fyrir LK.

Þegar núverandi búvörusamningur var í smíðum árið 2015 fór af stað atburðarrás sem leiddi til þess að ég ákvað að bjóða mig fram á þeim tímapunkti. Vart var við talsverða óánægju með ákveðin atriði samningsins, þó sérstaklega þá stefnu sem þar var mörkuð, að leggja niður framleiðslustýringu í mjólkurframleiðslu, og var ég tilbúinn að leggja mitt að mörkum til að svo færi ekki.

Það var töluvert krefjandi verkefni að taka við formennsku í LK á þessum tíma. Stjórnin hætti öll á sama tíma auk framkvæmdastjóra stuttu seinna. Ný stjórn renndi því nokkð blint í sjóinn hvað varðar rekstur á samtökunum okkar. Það kom hins vegar skemmtilega á óvart hvað starfsemi LK er viðamikil og verkefnin áhugaverð og hvað við eigum öflug samtök þegar kemur að hagsmunagæslu. Ég held að margir sem ekki hafa komið að starfseminni átti sig á hve viðamikil sú vinna er og hve víða við eigum fulltrúa til að gæta hagsmuna okkar kúabænda.

Miklar breytingar á stuttum tíma

Á sama tíma urðu miklar breytingar á tekjupóstum samtakanna. Búnaðargjaldið, sem var eina tekjulind flestra búgreinafélaganna og Bændasamtakanna, var lagt niður og við tók tekjuöflun í formi félagsgjalda fyrst og fremst.

Stjórn LK einhenti sér í að ná utanum þessi mál og vann baki brotnu í því að safna félögum til að tryggja starf samtakanna. Það tókst með ágætum og á þessum tímapunkti, þegar þriðja heila starfsárið frá niðurfellingu búnaðargjaldsins er að renna, höfum við náð endum saman í rekstri LK.

Ég er afar stoltur af starfi stjórnar LK á þessum fjóru árum sem ég hef setið í formannsstóli. Við höfum náð að efla starfið og erum nú með tvo starfsmenn í fullri vinnu auk  vinnuframlags stjórnar.

Verkefninu sem ég tók að mér er lokið, þ.e. að tryggja það í endurskoðun samningsins um starfsskilyrði okkar að framleiðslustýring yrði ekki lögð niður í þeirri mynd eins og við þekkjum hana. Endurskoðaður samningur liggur fyrir og reglugerðasmíð í kringum hann er lokið.

Verkefnin framundan

Að mínu mati eru sérstaklega skemmtilegir og krefjandi tímar framundan í mjólkurframleiðslu á Íslandi. Nýjar áskoranir koma reglulega fram. Nú ber hæst umræðan um umhverfis- og loftslagsmál, umræða sem við munum taka fullan þátt í. Höfum við látið greina kolefnislosun nautgriparæktarinnar á Íslandi og verður sú skýrsla kynnt á næstu vikum. Í þessum málaflokki liggja líklega okkar stærstu áskoranir sem bænda. Þar tel ég að áherslan á heimaræktað fóður komi til með að skipta hvað mestu máli fyrir okkur.

Málefni nautakjötsframleiðslunnar hafa verið tekin föstum tökum en í ágúst 2019 var ráðinn inn starfsmaður sérstaklega til að sinna þeim hluta. Nú þegar höfum við öðlast mun meiri gögn og yfirsýn yfir stöðu framleiðslunnar og markaðarins en áður og framundan eru stór verkefni því tengdu.

Við höfum nú tækifæri og tíma til að sækja fram og veita faglegum málum meiri athygli, leggja til hliðar pólitísk átök -inn á við og út á við-, og einhenda okkur í að ná betri árangri á öllum sviðum í rekstri okkar og starfsemi.

 

Ég þakka stjórnarmönnum, framkvæmdastjóra og félagsmönnum um land allt fyrir gott og gefandi samstarf á þessum tíma. Saman höfum við áorkað miklu. Ég geng stoltur og þakklátur frá borði og óska verðandi formanni og stjórn velfarnaðar í öllum þeim skemmtilegu verkefnum sem framundan eru.

Arnar Árnason