Áfram góð sala á nautakjöti
30.10.2012
Landssamtök sláturleyfishafa hafa nú tekið saman nýjar framleiðslu- og sölutölur kjötgreina fyrir september en nokkur dráttur varð á uppgjörinu að þessu sinni af óviðráðanlegum ástæðum. Í samantektinni kemur fram að sala á nautgripakjöti í mánuðinum var töluvert meiri en hún var í sama mánuði í fyrra og að ársfjórðungssalan hafi verið 5,4% meiri. Árssalan, þ.e. salan sl. 12 mánuði, er nú 4.115 tonn sem er aukning um heil 8,9% miðað við síðustu 12 mánuðina þar á undan.
Heildarframleiðsla nautgripakjöts sl. 12 mánuði var 4.106 tonn, en framleiðslan í mánuðinum var 328 tonn. Er ársframleiðsla nautakjöts enn verulega mikið meiri en fyrir ári síðan og nemur framleiðsluaukningin 8,7%. Sé horft til sundurliðunar á sölu nautgripakjöts í mánuðinum var sem fyrr mest sala í ungnautakjöti eða 203 tonn og á 12 mánaða grunni nemur ungnautakjötssalan 2.352 tonnum eða 57,2% af heildarsölunni. Sala á kýrkjöti síðustu 12 mánuði var 1.507 tonn eða sem nemur 36,6% af heildarsölunni.
Sé litið til annarra kjöttegunda kemur fram í samantektinni að heildarsalan á landinu öllu hefur aukist sl. 12 mánuði um heil 5,2%. Mest er sem fyrr salan á alifuglakjöti eða 7.595 tonn (31,2%) og þar á eftir kemur lamba- og kindakjöt með 6.523 tonn eða 26,8% markaðshlutdeild/SS.