
Afkvæmarannsóknir hrúta hjá búnaðarsamböndunum haustið 2008
02.06.2009
Haustið 2008 voru afkvæmarannsóknir á hrútum vegna kjötgæða umfangsmeiri en nokkru sinni áður á vegum búnaðarsambandanna í landinu. Þessar rannsóknir eru byggðar upp á tvískiptum grunni. Í öðrum hlutanum er byggt á ómsjármælingum og stigun á lifandi lömbum undan hrútunum. Hinn hlutinn er aftur á móti niðurstöður úr kjötmati sláturlambanna undan sömu hrútum.
Nú liggur fyrir yfirlit um allar þessar rannsóknir haustið 2008. Þessar rannsóknir eru gerðar á nokkuð á þriðja hundrað fjárbúum um allt land og samtals koma þar til dóms um tvö þúsund afkvæmahópar. Allar tölulegar niðurstöður fyrir hverja einustu af þessum rannsóknum ásamt umfjöllun um hrútana sem áttu athyglisverðustu afkvæmahópana á hverju búi má skoða hér. Þarna er að finna ákaflega mikið yfirlit um ræktunarstarfið á flestum þeim búum landsins sem eru virkust í því starfi.
Um leið er rétt að minna á að þarna á vefnum má skoða allar niðurstöður afkvæmarannsóknanna allt frá árinu 2002 þannig að mögulegt er að fylgja ræktunarstarfi á einstökum búum hátt í heilan áratug í gegnum þessar rannsóknir. Þá var í vetur birt tafla með yfirliti um þá hrúta sem efstir stóðu í heildareinkunn yfir landið haustið 2008 í rannsóknunum og hana má einnig skoða hér.