
Afkoma nautakjötsframleiðenda
29.06.2022
Komin er út skýrsla um rekstur og afkomu nautakjötsframleiðenda fyrir árin 2017-2021. Niðurstöður skýrslunnar staðfesta það sem nautakjötsframleiðendur hafa bent á undanfarin ár, að afkoma greinarinnar sé með öllu óviðunandi. Þegar upp er staðið ná afurðatekjur af nautaeldi ekki að mæta framleiðslukostnaði.
Sumarið 2020 hóf RML að rýna í afkomu nautakjötsframleiðenda enda hafði þá afurðaverð nautakjöts lækkað og biðlistar í slátrun voru farnir að myndast. Í júní 2021 voru fyrstu niðurstöður verkefnisins birtar. Ákveðið var að halda áfram með verkefnið, kallað var eftir fleiri þátttakendum, auk þess sem bætt var við rekstargögnum fyrir árin 2020 og 2021. Alls tóku 25 bú þátt í þetta skiptið en mismunandi fjöldi búa veldur breytileika í tölulegum upplýsingum milli útgáfa.
Í skýrslunni kemur fram að framleiðslukostnaður á hvert kíló nautakjöts hafi verið frá 1.440 krónum upp í 1.590 krónur á árunum 2017-2021, að meðaltali 1.544 kr./kg. Afurðatekjurnar (innlagt kjöt, beint frá býli sala, seldir lifandi gripir o.s.frv.) í kr./kg. hafa að meðaltali lækkað frá árinu 2017 en sláturálag aukist jafnt og þétt. Á árinu 2021 fengu nautakjötsframleiðendur tvær aðskildar viðbótargreiðslur ofan á sláturálag sem hækkar sláturálag það ár. Um var að ræða annars vegar sérstakan styrk vegna Covid-19 ástandsins sem greiddur var á allt UN kjöt og hins vegar viðbótargreiðslur á sláturálag af fjármunum 6. liðar samnings um starfsskilyrði nautgriparæktarinnar. Um var að ræða tvær einskiptisaðgerðir en ekki fastar greiðslur. Rekstrarniðurstaða áranna var í öllum tilfellum neikvæð, hvort sem horft er á framleiðslukostnað með eða án afskrifta og fjármagnsliða. Árið 2021 borguðu nautakjötsframleiðendur að meðaltali 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti sem er þó jákvæðari staða en árin á undan. Mest var borgað 603 krónur með hverju framleiddu kílói af nautakjöti, árið 2019.
Framleiðslukostnaður með afskriftum og fjármagnsliðum. Gögn fyrir árin 2017-2021 eru byggð á upplýsingum úr skýrslu RML en gögn fyrir 2022 eru áætluð af Bændasamtökum Íslands.
Grófir útreikningar benda til þess að viðbótargreiðslur sláturálags á árinu 2021 hafi að meðaltali numið 40% af heildarupphæð opinberra greiðslna það ár. Á myndinni hér að ofan hafa þessar greiðslur verið merktar sérstaklega þar sem ekki er um að ræða fastar greiðslur. Byggir myndin á gögnum úr skýrslu RML fyrir árin 2017-2021. Gögn fyrir árið 2022 eru áætluð af Bændasamtökum Íslands og byggja m.a. á 8% afurðaverðshækkunum að meðaltali ef horft er á alla flokka UN gripa. Samkvæmt upplýsingum frá Matvælaráðuneytinu hækkar sláturálag um 28% á milli áranna 2021 og 2022 og gert er ráð fyrir því að opinberar greiðslur hækki um 50 kr./kg vegna álagsgreiðslna á sláturálag, gripagreiðslur holdakúa og á jarðræktar- og landgræðslustyrki miðað við tillögur spretthóps um alvarlega stöðu í matvælaframleiðslu. Þá er gert ráð fyrir 40% hækkun á breytilegum kostnaði milli ára sem gerir um 19% hækkun á heildarkostnaði. Nákvæmar útfærslur á greiðslum liggja ekki fyrir og er því um að ræða gróft mat á stöðunni. Samkvæmt þessu minnkar framlegð nautakjötsframleiðenda milli áranna 2021 og 2022 úr 36% í 15% en frá árinu 2017 hefur framlegðarstig búanna minnkað úr 38,6%. Ekki er gert ráð fyrir hækkun á föstum kostnaðarliðum og er kostnaður milli ára því líklega vanmetin.
Út úr skýrslunni má jafnframt lesa að nautakjötsframleiðendur hafa hagrætt töluvert í sínum rekstri, breytilegi kostnaðurinn hefur lækkað frá 2018, búin stækka og framleiddir eru gæðameiri og þyngri gripir, án þess þó að meðalaldur sláturgripanna fari upp. Bændur hafa því verið að skila betri vöru á markað og eru að reyna að koma í veg fyrir aukinn framleiðslukostnað með aukinni hagræðingu. Auk þess hafa bændur jafnt og þétt verið að ganga á eigin launalið en frá árin 2017 hefur kostnaðarliðurinn „laun og launatengd gjöld“ lækkað um 26%. Á sama tíma fjölgar kúnum um tæpan helming og má því áætla að vinna við búin hafi aukist að einhverju leiti.
Það er deginum ljósara að staða nautakjötsframleiðenda er grafalvarleg. Framleiðslukostnaðurinn undanfarin fimm ár hefur verið umfram tekjur og sveigjanleikinn sem eftir er hjá bændum til að taka á sig stórfeldar aðfangahækkanir er lítill sem enginn. Í lok skýrslunnar greinir verkefnishópurinn frá því að samdráttur hafi átt sér stað í ásetningi nautkálfa milli áranna 2020 og 2021 og merki séu um að að mjólkur- og holdakúm sé heldur að fækka það sem af er ári 2022. Vert er að benda á að samdráttur í dag hefur ekki áhrif á markaði fyrr en eftir 2-3 ár. Telur verkefnishópurinn að samhliða innri hagræðingu á búunum að nauðsynlegt sé að stjórnvöld og bændur taki samtal um hvernig stuðningsfyrirkomulagi sé best háttað við greinina með tilliti til fæðuöryggis og rekstarafkomu.
Skýrsluna má í heild sinni lesa hér.