Beint í efni

Afkoma kúabænda 2007 og staðan núna

08.10.2008

Í gær kynnti Hagþjónusta landbúnaðarins niðurstöður búreikninga ársins 2007. Hvað nautgriparæktina varðar, þá er raunar fátt sem kemur á óvart. Helst þó að liðurinn ,,óreglulegar tekjur’’ hækkaði mjög á frá fyrra ári, en í þessum lið mun einkum vera söluhagnaður og sala greiðslumarks. Breytingar á rekstrarforsendum mjólkurframleiðslunnar á árinu 2008 eru svo miklar að afkoman 2007 er sagnfræði en ekki mat á stöðunni núna. Þó má nýta upplýsingarnar til að glöggva sig á stöðunni að ýmsu leiti. Það má til dæmis draga þá ályktun að líklega komi nú nálægt 40 % mjólkurframleiðslunnar frá kúabúum sem eru skuldsett að eða yfir hættumörkum. Þetta er ekki nákvæm greining þar sem einvörðungu er stuðst við skuldir sem margfeldi af veltu sem viðmiðun. Það er þó ljóst að verðbólgan og lækkun gengis íslensku krónunnar hefur aukið skuldir kúabænda um nokkra milljarða króna það sem af er árs 2008.

Allur kostnaður við mjólkurframleiðsluna hefur hækkað geigvænlega frá því mjólkurverð var síðast leiðrétt 1. apríl sl., en sú leiðrétting byggði á talnagrunni frá síðari hluta febrúar þegar gengisvísitalan var nálægt 125.  Þannig hefur t.d. kjarnfóður hækkað um 30% frá því í febrúar til ágústloka. Til viðbótar mun það hækka um 9-15% næstu daga. Framreikningur Hagstofunnar á verðlagsgrundvelli kúabús 1. september byggir á verðmælingu í ágúst en þá var gengisvísitalan nálægt 158. Líklega þarf  afurðastöðvaverð til bænda að hækka um allt að 16 krónur á lítra til að mæta þeim hækkunum sem komnar voru fram 1. september sl. Í ljósi þess að gengisvísitalan er nú langt yfir því sem hún var í ágúst, er ljóst að staðan er nú orðin umtalsvert erfiðari en fyrir mánuði síðan.  Á haustfundum Landssambands kúabænda sem nú eru framundan verður farið yfir stöðu þessara mála.

                                                          

Ferjubakka II   8.10.  2008

Þórólfur Sveinsson