Beint í efni

Afkoma danskra kúabænda 2013

12.11.2014

Í ágúst sl. gaf Þekkingarsetur landbúnaðarins í Danmörku út ritið Produktionsøkonomi Kvæg 2014. Í ritinu eru að finna niðurstöður búreikninga á dönskum kúabúum fyrir árið 2013, auk ítarlegrar umfjöllunar um ákveðna efnisflokka; mjólkurframleiðsla án kvótakerfis, hagkvæmara kvíguuppeldi, blendingsrækt í kjötframleiðslu og framleiðslukostnað á gróffóðri.

 

Árið 2013 skiluðu 1.839 kúabú inn búreikningum til úrvinnslu, en heildarfjöldi búa í mjólkurframleiðsla var 3.445 það ár. Fækkun búa frá fyrra ári var 171. Meðal bústærð, mæld í fjölda árskúa var 162 sem er aukning um 2,5% og nyt árskúa jókst um heil 2,9%. Ræktað land sem búin höfðu til umráða var 153 ha, sem er aukning um 5,5%. 77% búgreinatekna koma af sölu á mjólk og kjöti, 21% af kornrækt og ræktun gróffóðurs og 2% af öðrum þáttum. Nánar má sjá þróun einstakra liða í töflunni hér að neðan, allar upphæðir eru í þús. íslenskra króna og miðast við gengi dönsku krónunnar 31. desember 2013.

Ár 2012 2013
Fjöldi búreikninga 2.354 1.839
Heildarfjöldi kúabúa 3.616 3.445
Meðalfjöldi árskúa 158 162
Meðalfjöldi hektara 145 153
Upphæðir í þús. íslenskra króna
Búgreinatekjur 119.038 132.378
Breytilegur kostnaður 60.947 67.723
Framlegð 58.091 64.633
Hálffastur kostnaður (laun, orka, viðhald o.s.frv.) 32.519 35.544
Afskriftir 11.848 11.763
Hagnaður af reglulegri starfsemi 13.724 18.348
Óframleiðslutengdar stuðningsgreiðslur 10.250 10.399
Fjármagnskostnaður 19.882 19.286
Heildarafkoma af búrekstri 4.092 9.462
Eigið fé 107.786 97.877
Skuldbindingar (ógreiddir skattar, o.s.frv.) 34.288 36.078
Heildar skuldir 487.658 508.584
Heildar eignir 629.732 642.560

 

Fóðurkostnaður pr. kg af orkuleiðréttri mjólk jókst milli ára úr 33,24 isk/kg í 35,58 isk/kg eða um 7%. Viðhaldskostnaður jókst um 7,8%% og launakostnaður um 9,5%. Skýrsluhöfundar benda á að aukning í viðhaldskostnaði skýrist að hluta til af litlu viðhaldi áranna á undan, þegar þyngra var fyrir fæti í rekstri búanna. Hækkun launakostnaðar á m.a. skýringu í að stuðningur vegna launa til búfræðinema var felldur niður árið 2013.

 

Þrátt fyrir að heildar afkoma af búrekstri 2013 hafi verið sú besta síðan 2007, telja skýrsluhöfundar hana engu að síður vera óviðunandi. Afkoman geri lítið meira en að borga eigandanum sæmileg laun en ávöxtun eigin fjár sé lítil sem engin. Þrátt fyrir aö löng hefð sé fyrir því að meta árangur í búrekstri eftir heildar afkomu, þá dugi sá mælikvarði ekki lengur. Einnig sé rekstur búanna mun viðkvæmari nú en hann var árið 2007, eiginfjárhlutfallið var þá 40% en er nú 20%. Því sé mikilvægt að leggja fleiri mælikvarða á efnahagslega stöðu kúabúanna og er gerð grein fyrir þeim helstu:

 

Hlutfall hagnaðar af heildar eignum er 2,5%. Þrátt fyrir að þetta hlutfall hafi hækkað úr 1,8% er það enn allt of lágt; mjög fáir fjárfestar leggja í 600 milljón isk fjárfestingu sem gefur aðeins 2,5% vexti.

 

Veltuhraði fjármagns segir til um hlutfall heildar tekna og heildar eigna og var það 0,23 á árinu 2013 og jókst úr 0,21. Þetta segir að veltan var 23% af heildarvirði eigna. Samanborið við aðrar greinar er þetta hlutfall lágt og undirstrikar að mjólkurframleiðsla er mjög fjármagnsfrekur rekstur; bindur mikið fjármagn í langan tíma.

 

Skýrsluhöfundar setja einnig fram reiknaðan framleiðslukostnað mjólkur, þar sem gert er ráð fyrir 4% ávöxtun á heildareignir og að laun eiganda séu sömuleiðis 4% af heildareignum. Að þeim forsendum gefnum er reiknaður framleiðslukostnaður 66,70 isk/kg en mjólkurverðið til framleiðenda var 62,44 isk/kg árið 2013.

 

Eins og víða annars staðar er mikill breytileiki í afkomu af búrekstrinum og er hann meiri innan stærðaflokka búanna en milli stærðarflokka. Skýrsluhöfundar segja ánægjulegt að sjá að stærstu búin (>320 árskýr) skili betri afkomu en minni búin, undanfarin þrjú ár hafi því verið öfugt farið.  Sjá má muninn á myndinni hér að neðan; besti þriðjungur stærstu búanna er rekinn með 40-50 m. iskr. hagnaði árið 2013, meðan lakasti þriðjungur búa af þessari stærð var rekinn með 10-12 milljón isk tapi. Munurinn á afkomunni mælist því í tugum milljóna króna. Sama gildir um minnstu búin; besti þriðjungurinn skilaði hagnaði á annan tug milljóna en lakasti þriðjungur búanna skilaði tapi upp á fáeinar milljónir. Munurinn milli þeirra bestu og lökustu í rekstri er því vel á annan tug milljóna hjá búum af svipaðri stærð.

 

Græna súlan sýnir heildarafkomu af búrekstri í þús. DKK í hverjum stærðarflokki fyrir sig, 0-80 árskýr, 80-160 árskýr o.s.frv.

 

Áhugamenn um rekstur kúabúa eru hvattir til að kynna sér efni skýrslunnar. Hana mætti einnig taka til fyrirmyndar í framsetningu á niðurstöðum búreikninga hér á landi./BHB