Beint í efni

Afhverju er geldstaðan svona mikilvæg?

04.10.2014

Geldstaðan hjá kúm er þeim afar mikilvæg og oft vanmetin hjá mörgum kúabændum í heiminum. Þegar kýrin fer í geldstöðu nær júgurvefurinn nefninlega að endurnýja sig og undirbúa mjólkurframleiðslu komandi mjaltaskeiðs. En þegar júgurvefurinn er einmitt í þessari hvíld, þá geta einnig komið upp sýkingar sem geta valdið þrálátri júgurbólgu þegar líður á verðandi mjaltaskeið.

 

En afhverju gerist þetta og hvenær er mikilvægast að vera á varðbergi? Það eru tímabilin í geldstöðunni fyrst eftir að kýrin fer í geldstöðu og svo í lok hennar, rétt fyrir burð:

 

Stuttu eftir að kýrin fer í geldstöðu

– keratín tappinn, sem myndast í spenagöngum og gegnir því hlutverki að loka spenanum á meðan geldstaðan stendur yfir, hefur ekki myndast og því er spenaendinn og spenagangurinn oft opinn á þessu tímabili.

– magn laktóferrin í júgurvefnum er lítið í upphafi geldstöðunnar, en laktóferrin gegnir mikilvægu hlutverki í mótstöðukerfi júgursins gegn árásum frá bakteríum.

– talið er að bakteríur geti auðveldar komið sér fyrir í tómum júgurvefnum, þar sem útskolunaráhrifum mjólkur gætir ekki lengur.

– bakteríum er oft hreinlega komið fyrir í júgurvefnum á þessum tímabili í geldstöðunni af mannavöldum, vegna ónákvæmni í vinnubrögðum við að meðhöndla kýrnar með geldstöðulyfjum. Hreinlæti við að sprauta lyfi í spena er lykilatriði.

 

Stuttu fyrir burð

– mótstöðuafl kýrinnar er í ójafnvægi vegna breytinga á vakastarfsemi (hormónastarfsemi) hennar.

– í sumum tilfellum hafa keratín tapparnir leystst upp af sjálfum sér og því er spenaendinn og spenagangurinn óvarinn inngöngu baktería.

– mangið af laktóferrin í júgurvefnum minnkar nú jafnt og þétt af náttúrulegum ástæðum og því verður júgurvefurinn viðkvæmari á ný fyrir árásum baktería.

– áhrif langvirka geldstöðulyfja, hafi þau verið notuð, eru orðin hverfandi og því hamla þau ekki lengur fjölgun á bakteríum.

 

Vegna þessa mælum við alltaf með í dag að nota spenadýfur fyrstu dagana eftir að kýr byrja að standa í geldstöðu og síðustu dagana fyrir burð. Með því hjálpum við kúnni að verjast því að bakteríur komist upp í júgurvefinn en talið er að lang stærsta hluta júgursýkinga megi rekja til þess að bakteríur fari upp í gegnum spenaenda kúnna/SS.