Afgreiðsla Búnaðarþings véfengd
04.02.2006
Til stjórnar B.Í.
Við afgreiðslu aukabúnaðarþings 30. jan. s.l. á kauptilboði í hóteleignir samtakanna var viðhöfð leynileg atkvæðagreiðsla þrátt fyrir að ekki væru allir fulltrúar sáttir við þá aðferð.
Ég tel augljóst að þarna hafi ekki verið gætt réttra fundarskapa því á fulltrúafundi sem þessum verði tillaga um leynilega kosningu að víkja fyrir ósk um atkvæðagreiðslu með handauppréttingu eða nafnakalli. Þeir sem kjósa fulltrúa til að fara með umboð sitt við svona ákvarðanir eiga sem sagt að geta fylgst með gerðum þeirra.
Innan skamms á að velja fulltrúa á Búnaðarþing. Ýmsum hlýtur að þykja það skipta máli í því sambandi hvaða afstöðu væntanlegir frambjóðendur hafa haft til sölu þessara eigna. Því er nauðsynlegt að létta nú þegar af þeirri leynd sem ríkir um afgreiðslu málsins og upplýsa um leið efni tilboðsins og niðurstöðu álitsgjafa um hagkvæmni þess, svo hinn almenni félagsmaður geti metið frammistöðu hvers fulltrúa. Eðlilegt má þykja að nafni tilboðsgjafa sé haldið leyndu, hafi honum verið heitið því.
Til að komast hjá þeim kostnaði og fyrirhöfn sem fylgir því að kalla þingið saman á ný til að viðhafa rétta málsmeðferð, legg ég til að þingfulltrúar hver og einn geri lýðum ljóst, hvernig atkvæði hans féll og, ef hann svo kýs, hvað réði afstöðu hans.
Því legg ég til að B.Í. gangi nú þegar eftir því við þá sem sátu þetta aukaþing sem fulltrúar að þeir gefi upp afstöðu sína í atkvæðagreiðslunni og birti svo í Bændablaðinu 13. febrúar.
Verði það ekki gert, eða skorist einhverjir undan, eða þannig fenginni niðurstöðu ber ekki saman við tölur úr atkvæðsgreiðslunni, verður að taka málið til meðferðar að nýju með lögformlegum hætti.
Guðmundur Þorsteinsson, Skálpastöðum.