
Afbragðsgóð byrjun á námskeiðahaldi í nautgriparækt
23.10.2008
Í Eyjafirði var námskeiðið haldið á Akureyri þar sem rúmlega 40 kúabændur sóttu námskeiðið og fór það svo að flytja þurfti námskeiðahaldið úr fundaraðstöðu BSE í stærra húsnæði vegna mikillar þátttöku. Í Suður Þingeyjarsýslu var námskeiðið haldið á Narfastöðum í Reykjadal og sóttu það tæplega 20 manns þrátt fyrir vetrarveður og ófærð. Það er gaman að geta þess að sá sem um lengstan veg þurfti að fara, kom alla leið frá Vopnafirði.
Það voru þau Guðmundur Steindórsson og Sigríður Bjarnadóttir, á Búgarði, sem áttu veg og vanda af skipulagningu námskeiðanna heima í héraði en leiðbeinendur voru þær Berglind Ósk Óðinsdóttir og Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir, fóður- og nautgriparáðunautar hjá Bændasamtökum Íslands.
Farið var yfir nýja fóðurmatskerfið NorFor og nýja skýrsluhaldskerfið HUPPU og voru aðstandendur námskeiðanna að vonum ánægðir með frábærar móttökur bænda á norðausturlandi.
Í allt er áætlað að halda 12 tveggja daga námskeið um allt land og verða næstu námskeið haldin á Löngumýri í Skagafirði 27. október, í Dalabúð 3. nóvember og í Sjálfstæðissalnum Blönduósi 4. október.
Seinni dagur námskeiðanna fjallar um kynbætur, ræktunarstarfið, frjósemi og sæðingastarfsemi og er sá hluti í höndum þeirra Magnúsar B. Jónssonar nautgriparæktarráðunauts og Sveinbjörns Eyjólfssonar forstöðumanns Nautastöðvar BÍ. Hefst þeirra hringferð 11. og 12. nóvember í Eyjafirði og Suður Þingeyjarsýslu.
Nánar er hægt að fræðast um námskeiðin og skráningu á þau hér.
Þáttakendur í Suður Þingeyjarsýslu ásamt leibeinendum og Sigríði Bjarnadóttur ráðunaut.
Myndin að ofan er tekin á Akureyri þar sem eyfirskir bændur hlusta á fyrirlestur um NorFor
Guðmundur Steindórsson tók myndirnar