
Af vettvangi Nautgriparæktarinnar
15.11.2022
Ýmislegt er að frétta af vettvangi nautgriparæktarinnar þessi misserin.
Haustfundir Nautgripabænda BÍ
Fyrsti haustfundur Nautgripabænda BÍ var haldinn 10. nóvember síðastliðinn. Um var að ræða streymisfund þar sem farið var yfir helstu málefni mjólkurframleiðslunnar. Fjallað var um framleiðslu og sölu mjólkur, erfðamengisúrvalsverkefnið, merkingarmálefni nautgripa, greiðslumarkaðs-markaðina, verðlagsnefnd og verðlagsgrundvöllinn. Að auki mætti Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri SAFL, sem gestur inn á fundinn og fjallaði um helstu áherslur samtaka fyrirtækja í landbúnaði. Þökkum við Margréti kærlega fyrir sitt innlegg á fundinum.
Fyrirlestraglærurnar hafa nú ratað inn á Bændatorgið fyrir félagsmenn. Í þeim má finna hlekk á upptöku af fundinum.
Fundurinn var sá fyrsti af þremur, en annar haustfundur Nautgripabænda BÍ er á dagskrá þann 1. desember nk. þar sem fjallað verður um málefni nautakjötsframleiðslunnar. Þriðji og síðasti haustfundurinn er á dagskrá þann 8. desember en á honum verður farið yfir niðurstöður skoðanakönnunar sem var nýverið gerð meðal nautgripabænda, búvörusamningana og endurskoðun þeirra.
Erfðamengisúrval innleitt í nautgriparækt
Þann 7. nóvember stóð Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) fyrir fræðslufundi um erfðamengisúrvalið. Um var að ræða streymisfund þar sem farið var yfir það hvað erfðamengisúrval er og hvernig það hefur verið innleitt hérlendis. Sömuleiðis var farið yfir framkvæmd erfðamengisúrvals með tilliti til vals nautsmærða, nautkálfa og hvernig þetta gjörbreytir framkvæmd kynbótastarfsins. Fundurinn var tekinn upp og má finna upptöku af honum hér.
Í síðasta tölublaði Bændablaðsins var einnig fjallað um erfðamengisúrvalið í grein sem ber titilinn „Gjörbylting kynbótakerfisins“. Að auki var rætt við Herdísi Mögnu, formann Nautgripabænda BÍ í hádegisfréttum RÚV þann 6. nóvember í viðtali sem ber titilinn „Bylting í kynbótum nautgripa“. Finna má greinina og fréttina með því að ýta á titil greinarinnar/viðtalsins.
Málefni nautgripabænda í Bændablaðinu
Í síðasta tölublaði birtust fjölmargar aðrar greinar sem snéru að málefnum nautgriparæktarinnar. Þar ber fyrst að nefna grein Herdísar Mögnu sem ber titilinn „Tryggjum valið“. Þar fer hún yfir framþróun í íslenskri nautgriparækt og það hvernig afköstin hafa aukist um leið og ríkisstuðningurinn hefur minnkað.
Fjallað var um að greiðslumark ársins 2023 hafi aukist um 2%, að MS hafi sigrað í flokki neyslumjólkurvara í keppninni International Dairy Contest í Herning, Danmörku, auk þess sem rætt er við Garðar Eiríksson sem hefur látið af störfum hjá Auðhumlu, eftir að hafa í tæp 30 ár sinnt ánægjulegu þjónustuhlutverki við mjólkurframleiðendur. Garðar, ásamt öðrum, vann að því að móta núverandi fyrirkomulag, fyrst með sameiningu gömlu Mjólkursamsölunnar og Mjólkurbús Flóamanna árið 2005 og síðan stofnun Auðhumlu árið 2007. Nánari umfjöllun má lesa í fréttinni „Mikill ávinningur með núverandi kerfi“
Fræðsluhornið var að sjálfsögðu á sínum stað í Bændablaðinu og fjallaði í þetta sinn um að gefa geldkúnum GAUM. Þar fer Snorri Sigurðsson yfir mikilvægi geldstöðunnar en vel heppnuð geldstaða er forsenda þess að ná hárri nyt, mikilli heildarmjólkurframleiðslu á lífsskeiðinu, langri endingu kúnna sjálfra og góðri heilsu kálfanna. Hvetjum við alla bændur til að renna yfir umfjöllun Snorra til áminningar og fróðleiks.
Í blaðinu birtist einnig frétt um að frá árinu 2019 hafi innflutningur á bæði jurtaosti- og rjóma dregist saman, sé horft til innflutningstalna frá Hagstofunni. Samdrátturinn á hverju ári hefur verið í kringum 45-50%.
Að auki má finna ýmislegt sem tengist nautgripabændum á einn eða annan hátt í blaðinu. Guðrún Hulda, ritstjóri blaðsins, fjallar um að trygg ríkisfjármögnun sé forsenda kornræktar, Björn Halldórsson fjallar um mikilvægi gagnaöflunar og feðgarnir Hafliði Halldórsson og Halldór Hafliðason leiðbeina bændum sem og öðrum hvernig eigi að Heilsteikja nautalund í Matarkróknum.
Endilega kynnið ykkur málefni líðandi stundar á meðan þið styttið biðina eftir næsta Bændablaði sem kemur út næstkomandi fimmtudag, 17. nóvember.