Beint í efni

Af vettvangi Nautgripabænda

09.05.2023

Fundargerð Búgreinaþings, aðalfundar LK og aukaaðalfundar LK hafa nú ratað inn á Félagasíðu Bændatorgsins. Þar má jafnframt finna Ársskýrslu Nautgripabænda BÍ 2022 en hún inniheldur yfirlit yfir helstu störf deildarinnar á árinu 2022, afdrif ályktana sem samþykktar voru á Búgreinaþingi 2022 auk helstu upplýsinga um markaðsmál. Þar er til að mynda farið yfir framleiðslu og sölu mjólkur og nautakjöts á árinu 2022, viðskipti með greiðslumark, störf verðlagsnefndar, verðlagsgrundvöllinn o.fl. Í ársskýrslunni má jafnframt finna ársskýrslu fagráðs í nautgriparækt 2022-2023 og ársskýrslu NautÍs 2022-2023.

Reynist bændum erfitt að finna skýrslurnar inn á félagssíðunni má finna leiðbeiningar hér að neðan.
Fundargerð Búgreinaþings, aðalfunda LK og ársskýrsluna má finna undir flokknum „Deild Nautgripabænda BÍ“.
Fundargerðir af stjórnarfundum deildarinnar má finna undir flokknum „Fundargerðir stjórnar NautBÍ 2023-2024“.

Leiðbeiningar:
Félagsmaður skráir sig inn á Bændatorgið (https://torg.bondi.is) með hefðbundnum hætti.
Velur því næst "Félagssíða" lengst til vinstri.
Neðst á þeirri síðu má finna "Skjöl" þar sem allar fundargerðir o.fl. er hýst.

Af öðrum málum, þá mátti finna ýmsa umfjöllun um nautgriparæktina í síðasta tölublaði Bændablaðsins (8. tölublað 2023), líkt og oft áður. Hvetjum við alla áhugasama til að renna í gegnum blaðið, en fyrir þá sem eingöngu hafa áhuga á fréttum af nautgriparæktinni höfum við tekið saman helstu umfjallir, til einföldunar.  

Fyrst ber að nefna grein Rafns Bergssonar, formanns Nautgripabænda BÍ sem ber titilinn „Eflum fæðuöryggi: Er stjórnvöldum alvara?“ þar ritar Rafn um stöðuna í íslenskri nautgriparækt, hvernig ásetningur nauta er nú minni og hvernig rekstrarstaða nautakjötsframleiðenda hefur verið neikvæð ár eftir ár. Jafnframt fór hann yfir rekstur kúabúa og hvernig framleiðsla mjólkur hefur sífellt aukist þrátt fyrir minni stuðning stjórnvalda. Að lokum veltir hann því upp hvort að íslenskum stjórnvöldum sé alvara með því að tryggja fæðuöryggi. Grein hans má lesa í heild sinni hér.

Í framhaldinu má nefna að í blaðinu var jafnframt greint frá því að ríkisstuðningur í mjólkurframleiðslu hafi lækkað um 51% samkvæmt ársskýrslu SAM og farið er yfir það hvernig afurðaverð nautgripa hefur hækkað á árinu.

Herdís Magna Gunnarsdóttir, varaformaður BÍ og fyrrum formaður Nautgripabænda BÍ ritaði einnig í blaðið og fjallaði um mikilvægi þess að efla samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu. Í greininni fer hún yfir íslensku undanþáguheimildina frá samkeppnisreglum sem gildir fyrir afurðastöðvar í mjólkuriðnaði og hvernig sú heimild sé ekki séríslenskt fyrirbæri. Fjallar hún um hvernig þessum málum er háttað í löndunum í kringum okkur og er um afar áhugaverða lesningu að ræða.

Snorri Sigurðsson heldur áfram umfjöllun sinni um Fagþing dönsku nautgriparæktarinnar 2023, en um er að ræða þriðja hluta.
Fyrir þau ykkar sem hafa ekki haft tök á því að kynna sér málið, þá má finna umfjallanirnar hér: 
Fyrsti hluti Fagþings dönsku nautgriparæktarinnar 2023.
Annar hluti Fagþings dönsku nautgriparæktarinnar 2023.
Þriðji hluti Fagþings dönsku nautgriparæktarinnar 2023.

Í blaðinu má jafnframt finna viðtal við bændurna á Helgavatni, þau Pétur Diðriksson og Karítas Hreinsdóttur, þar sem þau fara yfir ævistarf sitt en hafa þau tekið ákvörðun um að hætta búrekstri og bróðursynirnir taka við búinu. Umfjöllunin ber titilinn “Ekki byggt á einni nóttu“ og má finna með því að smella á titilinn.

Kúabændur í Eyjafirði segja frá heimagerðum undirburði úr bygghálmi sem þeir hafa notað í vetur, en undirburðurinn er unninn úr hálmi kornsins sem þeir ræktuðu síðasta sumar. Lesa má um reynslu þeirra í fréttinni „Þvílíkur snilldarundirburður“.

Starfsmenn RML hafa heldur betur ekki setið tómum höndum en ráðunautarnir Ditte Clausen og Linda Margrét Gunnarsdóttir heimsóttu frændur okkur í Noregi og lærðu um búfjárdóma og ómælingar holdagripa. Í grein sinni „Ráðunautar læra búfjárdóma og ómmælingar holdagripa í Noregi“ segja þær frá heimsókn sinni og fara yfir það hvernig Norðmennirnir dæma holdagripi sína.

Guðmundur Jóhannesson, ráðunautur RML er einnig með umfjöllun í blaðinu um nautin 17 sem bændum býðst nú upp á að nota til sæðinga og fer yfir þær breytingar sem hafa átt sér stað á erfðamati undanfarna mánuði. Grein Guðmundar hefur ekki verið birt á netinu, en munum við bæta við hlekk á hana um leið og greinin birtist á netinu.

Að lokum má ekki gleyma að nefna að í matarkróknum fer Hafliði Halldórsson yfir það hvernig skal matreiða Grillað nauta rib-eye með Bérnaise-sósu!

Endilega kynnið ykkur málefni líðandi stundar á meðan þið styttið biðina eftir næsta Bændablaði sem kemur út næstkomandi fimmtudag, 11. maí.