
Af vettvangi LK
04.11.2017
Þegar þessi orð eru rituð er fjögurra daga ráðstefnu IDF (International Dairy Federation) í Belfast að ljúka. IDF er eins og nafnið gefur til kynna alþjóðleg samtök mjólkuriðnaðarins. Hér koma saman allir helstu sérfræðingar heimsins í málefnum mjólkurframleiðslu, mjólkurvinnslu, tæknibúnaði, umhverfismálum og svo mætti lengi telja. Það hefur verið afar fróðlegt að sitja hér og fylgjast með því sem er í gangi mjólkurframleiðslumálum í heiminum og ætla ég að impra aðeins á helstu punktum sem fram hafa komið.
Sýklalyfjanotkun
Við heima á Íslandi höfum orðið vör við umræðuna um aukið sýklalyfjaónæmi en hér á ráðstefnunni fór mikill tími í að ræða þetta mál. Þjóðir heims eru að taka mismunandi á þessum málum en skilaboðin eru skýr „þetta er orðið vandamál og við verðum að taka á því„.
Stefnt er að því að minka notkun sýklalyfa í landbúnaði og það sem helst er lagt til í þeim efnum er að hætta að meðhöndla hjarðir og fara heldur að meðhöndla einstaklinginn (eins og við gerum reyndar alltaf á Íslandi, enda bannað að blanda sýklalyfjum í fóður), meðhöndla ekki kýr fyrir geldstöðu sem ekki þurfa á því að halda osfrv. Reyndar er það svo að notkun sýklalyfa í mjólkurframleiðslu í heiminum telst ekki verulegt vandamál, enda aðeins brot að heildarmagni lyfja sem fer þar í gegn. Langmest af lyfjum er notað í kjúklinga- og kalkúnaeldi. Við þekkjum þessa umræðu heima á Íslandi en alvarleiki málsins hefur kannski ekki náð nægjanlega í gegn hjá ráðamönnum. Þjóðir sem láta sig varða eru löngu búnar að gera áætlanir sem unnið er eftir, áætlanir þar sem menn greina stöðuna, koma með lausnir og fylgja þeim eftir!
Þessi sýklalyfjamál koma til með að vera með stærri heilsufarsógnum á mannkynið á næstu árum og allar þjóðir verða að leggjast á eitt um að ná árangri í málflokknum
Brexit
Athygli mína vakti all snörp og skemmtileg umræða um útgöngu Bretlands úr Evrópsambandinu. Sérstaklega skemmtilegt var það á einni málstofunni þar sem fulltrúi Evrópusambandsins og fulltrúi Bretlands sátu saman í pallborði og hreinlega tókust á um málefnið, nokkuð sem ekki á heima á ráðstefnu eins og þessari. Það sem merkilegast er er að á þessum tímapunkti þegar Bretland er búið að ákveða að yfirgefa Evrópusambandið, þá er eins og engin virðist vita hvernig á að framkvæma það. Það er allt í lausu lofti með fríverslunar- og tollasamninga og enginn veit hvernig á að snúa sér í málunum. Það eina sem vitað er er að þetta þarf að vera klárt fyrir byrjun mars 2019 þegar Bretarnir skella á eftir sér hurðinni.
Mjólkurduftsbirgðir hjá Evrópusambandinu
Mikil umræða fór fram um þróun mjólkurverðs í heiminum. Mikið magn sérfræðinga (hagfræðingar, tölfræðingar ofl.) hafa greint stöðuna og komist að því að heimsmjólkurverð gengur í nokkurskonar óreglulega hringi og allt sem bendir til þess að við séum nú stödd á toppi eins þeirra og að mjólkurverð á heimsvísu muni gefa eftir á árinu 2018. Þess má geta að gott verð hefur verið að fást fyrir mjólk upp á síðkastið t.d. í Evrópu.
Það sem skekkir þessa mynd svolítið og flestir sérfræðingarnir minntust á eru þær gríðarlegu mjólkurduftsbirgðir sem Evrópusambandið á. Sambandið festi kaup á og geymir um 380.000 tonn af mjólkurdufti og var það gert til að gripa inn í markaðinn á sínum tíma þegar framleiðslustýring var lögð af í sambandinu ásamt því að nokkuð stórir markaðir lokuðust. Menn hafa af þessu áhyggjur og vita ekki á þessum tímapunkti hvernig í ósköpunum koma eigi þessu gríðarlega magni á markað án þess að allt hrynji í höndunum á þeim. Þetta er óleyst vandamál!
Gaman er að geta þess að hér kom fram að meðalstærð kúabús í heiminum öllum er 3 kýr og meðalnytin um 2.200 ltr. Yfir 60% heimsframleiðslu mjólkur kemur frá búum með innan við 10 kýr. Þetta er svolítið annar veruleiki en sá sem við búum við en skýrist í raun af gríðarlegum fjölda „heimiliskúa“ í Indlandi og Kína. Eins og fulltrúi Indlands sagði hér í fyrirlestri „við lítum ekki á kýrnar okkar sem framleiðslutæki heldur sem hluta af fjölskyldunni„.
Lengi mætti halda áfram að telja upp það sem markvert var hér þessa daga í Belfast en ég læt þetta duga í bili.
Ekki er hægt að rita leiðara á þessum tímapunkti án þess að minnast á að nú eru kosningar nýafstaðnar. Aldrei hafa fleiri flokkar tekið sæti á Alþingi sem gerir meiri kröfur til allra um að ná að koma auga á sameiginlega fleti á málunum. Það hefur verið augljóst síðustu daga í stjórnarmyndunarumleitunum að nú ætla menn að vanda sig betur og útiloka ekki neina möguleika fyrirfram, það er gott. Við vitum ekki hvað kemur upp úr hattinum varðandi landbúnaðarráðherra, en hættan á að núverandi ráðherra sitji áfram er ekki endanlega liðin hjá, það er ljóst!
Stefnumótun
Þessa dagana erum við í stjórn LK að koma af stað vinnu við stefnumótun í mjólkur-og kjötframleiðslunni, eins og samþykkt var á síðasta aðalfundi. Búið er að skipa í vinnuhópa sem stefna á fyrsta hugarflugsfund vonandi í næstu viku. Þetta verður skemmtilegt og krefjandi verkefni því nú stöndum við frammi fyrir nýjum áskorunum sem nauðsynlegt verður að huga að í vinnunni.
Nú er ég að verða of seinn í flugið, gangi öllum sem allra best í búskapnum!
Gert að morgni dags í Belfast 2017
Arnar Árnason, formaður LK
/SS