Af vettvangi IDF – þriðji hluti
31.10.2005
Ársfundur IDF var haldinn í Vancouver í Canada 17. – 22. september og sóttu nokkrir Íslendingar fundinn, Guðmundur Þorsteinsson, stjórnarmaður í MS/MBF, var einn þeirra og hér á eftir er þriðji hluti umfjöllunar hans um fundinn.
Eitt af viðfangsefnum ársfundarins var hvernig mjólkurframleiðendur gætu tryggt sameiginlega hagsmuni sína með bestum
árangri. Kanadamenn telja sig hafa bestu uppskriftina, en viðamikið kerfi þeirra er sagt tryggja stöðugt verðlag til bænda og neytenda með því að stjórna framboði af mjólk þannig að það sé alltf nægilegt án þess að um offramleiðslu sé að ræða. Kerfið byggist á víðtæku samstarfi bænda, iðnaðar og yfirvalda í einstökum fylkjum og yfir landið allt. Verðlagsgrundvöllur er endurskoðaður árlega og kvótakerfi við lýði, en ekki bein fjárframlög frá stjórnvöldum þó þau komi að málum gegnum ýmsar stofnanir ríkisins.
Í Bandaríkjunum er hins vegar ekki um neina opinbera framleiðslustjórn að ræða og pólitískt óhugsandi að taka upp kvótakerfi. Þar hafa bændur aftur á móti stofnað sjóð, sem menn eru frjálsir að þátttöku í og notaður er til að draga úr framboði mjólkur með því að kaupa gripi til förgunar. Einnig er reynt að draga úr verðsveiflum með stuðningi við útflutning.
Jerry Kozak, framkvæmtastjóri samtaka mjólkurframleiðenda í Bandaríkjunum og fyrrverandi formaður IDF, lýsti þessu kerfi, sem hann taldi að hefði skilað verulegum árangri, en greitt er í sjóðinn af um 75% framleiðslunnar í landinu.
Þessi starfsemi hófst á miðju ári 2003 og er sögð hafa haldið uppi mjólkurverði til bænda og dregið úr sveiflum. Ákveðið hefur verið að halda þessu áfram til ársloka 2006 a.m.k. Fjárhagsáætlun fyrir 16 mánuði hljóðar upp á meira en 125 milljónir bandaríkjadala.
Athyglisvert að slík þátttaka náist með frjálsum fjárframlögum.