Beint í efni

Af vettvangi IDF – fjórði hluti

07.11.2005

Ársfundur IDF var haldinn í Vancouver í Canada 17. – 22. september og sóttu nokkrir Íslendingar fundinn. Guðmundur Þorsteinsson, stjórnarmaður í MS/MBF, var einn þeirra og hér á eftir er fjórði hluti umfjöllunar hans um fundinn.

 

Fraser Valley er mikið dalverpi suðaustur af Vancouver. Það er að hluta þurrkað flæðiland, um eða jafnvel undir sjávarmáli, og afar frjósamt. Eftir ársfundinn var efnt til hópferðar um þetta svæði með þátttöku flestra íslendinganna. Komið var við á tveim

kúabúum undir ágætri leiðsögn starfandi frjótæknis á svæðinu.

 

Á öðru þeirra var rekin mjólkurvinnsla (a.m.k. 10 tegundir osta, sýrður rjómi o.fl.) og afurðirnar seldar á staðnum og í sérverslun í Vancouver, en afgangsmjólk seld í afurðastöð. Notuð voru þrjú kúakyn; Brown Sviss, Guernsey og Holstein-Friesean, til að fá æskilegt efnainnihald. Auk þess átti búið geitur, sem voru haldnar annars staðar en mjólkin sótt til vinnslu á búinu. Á næsta ári er áætluð bygging veitingahúss á staðnum, en talið er að um milljón ferðamanna fari um rétt við hlaðið á ári hverju á leið til vinsælla útivistarsvæða upp af héraðinu.


Hitt búið reka hjónin Cornelis og Geraldine Hertgers á 65 hektara jörð (160 ekrur, þ.a. 115 undir maís til votverkunar, afgangurinn gras, slegið allt að 5 sinnum). Hann er formaður samtaka mjólkurframleiðenda í British Columbia og er fulltrúi þeirra í stjórn “Framleiðnisjóðs Landbúnaðarins” í fylkinu, sem er fjármagnaður af alríkisstjórninni ásamt heimamönnum.

 

Áhöfnin er 340 gripir, þar af 175 Holstein Friesean mjólkurkýr, en það kyn er ríkjandi í Canada (95%).  Meðalnyt er um 11.250 kg með 3,58% fitu og 3,18% prótín, magn verðefna 740 kg, frumutala 119.000 og líftala 1.100. Innlögð mjólk ætti þá að vera kringum 1,7 milljónir lítra á ári. Landsmeðalnyt kúa á afurðaskýrslum er 9.458 kg.

 

Gefið er heilfóður, aðkeypt kjarnfóður og gróffóður eftir þörfum (alfalfa). Gripirnir fara aldrei á beit, til þess er landið of dýrt (skv. leiðsögumanni). Mjólkað er í 2×6 dálkabás með sjálfvirkri skráningu, aftökurum og tölvustýrðum kjarnfóðurbásum, vel þekkt uppsetning hér heima á snöggtum minni búum. Mjaltir sagðar taka 4 stundir. Vinnuafl auk þeirra hjóna (hún sér um kálfana) er einn fastráðinn starfsmaður, sonur þeirra í fullu starfi og annar grípur í verk eftir ástæðum en vinnur utan bús.


 

Búið er þátttakandi í CQM (Canadian Quality Milk) sem er gæðakerfi byggt á GÁMES-gæðastýringu. Við fengum að grípa með okkur geisladisk með handbókinni, sem er hátt á annað hundrað síður og inniheldur nákvæmar leiðbeinigar um framkvæmd, eftirlit og skráningu um hvað eina sem gert er eða kemur fyrir.

 

Ekki ætla ég að fara út í nánari lýsingu á því, en nefni aðeins eitt dæmi sem gefur kannski innsýn í kerfið: Hendi það að sprautnál brotni þannig að hluti hennar verði eftir í gripnum, skal það skráð og upplýsingarnar fylgja honum hvað sem um hann verður. Þá verða að liggja fyrir skrifleg fyrirmæli um hvernig við skuli brugðist ef það uppgötvast eftir á að gripurinn hefur farið af búinu til slátrunar eða á annað bú án þess að upplýst hafi verið um nálarbrotið. Eftirlitsaðili metur það síðan hvort hin skráðu fyrirmæli um viðbrögð séu fullnægjandi. Hliðstæð kerfi munu vera til í fleiri löndum t.d. Frakklandi, Bretlandi og Ástralíu. Eitthvað fyrir okkur?