Af vettvangi IDF – fimmti hluti
21.11.2005
Ársfundur IDF var haldinn í Vancouver í Canada 17. – 22. september og sóttu nokkrir Íslendingar fundinn. Guðmundur Þorsteinsson, stjórnarmaður í MS/MBF, var einn þeirra og hér á eftir er fimmti og síðasti hluti umfjöllunar hans um fundinn.
Umræða um alþjóðaviðskipti með mjólkurafurðir var að vonum fyrirferðarmikil, eða a.m.k. hávær, á þessari
samkomu, og sýndist sitt hverjum. Óvissan um framgang mála setti svip sinn á hana og töldu sumir að í þessari lotu yrði fyrst og fremst höggvið í útflutningsstyrki, en hægar yrði farið í tollalækkanir og breytingar á innanlandsstuðningi en lagt var upp með. Engu vil ég spá um það, en Argentínumaðurinn Osvaldo Cappelini taldi allar hindranir og truflanir á viðskiptum ósanngjarnar og raunar skaðlegar fyrir alla þegar upp væri staðið. Minntist hann á erfiðleika í efnahagslífi landsins, sem er af fremur veikum burðum að fikra sig upp úr djúpri kreppu fyrri ára. Hvorki mjólkurframleiðendur né mjólkuriðnaður fá nokkurn opinberan stuðning, kaupgeta almennings lítil og útflutningur mætir hvarvetna hindrunum.
Ann Randles, Evrópusambandinu, benti á að þetta væri nú aðeins önnur lotan í umræðum um landbúnaðarvörur þar sem um iðnaðarvörur aftur á móti hefði verið fjallað í einum 5 áföngum. Þess væri því ekki að vænta að menn sæju hilla undir neitt lokatakmark enn.
Ég læt nú lokið þessum pistlum frá ársfundi IDF 2005 og er þó litlu einu gerð skil af því sem þar bar fyrir eyru og augu. En mig langar til að minnast á stutta kynnisferð sem farin var að skoða gamlar og nýlegar minjar um menningu fólksins, sem byggði vesturströnd Canada þegar Evrópumenn komu þangað fyrst. Ökumaður og leiðsögumaður í senn var indíáni á miðjum aldri, vel máli farinn og áfram um að koma sem mestum fróðleik á framfæri. Hann sagði okkur í yfirveguðu en áhrifaríku máli frá yfirgangi aðkomumannanna og aðferðum þeirra við að undiroka frumbyggjana og ræna þá landi og lífsviðurværi. Þar sameinuðust ríkisvald og kirkja í býsna einbeittri tilraun til þess, sem nú myndi kallað þjóðarmorð.
Nú er verið að undirbúa víðtæk málaferli gegn ríkinu til að fá viðurkennd réttindi indíánaþjóðanna til lands og auðlinda forfeðranna. Um það var einmitt fjallað í blöðum sem við sáum á hótelinu (Þjóðlendumál?).
Það sýnilega sem helst einkennir menningu þessa fólks er hinn stórfenglegi útskurður risvaxinna rauðviðartrjáa, hinna svonefndu “totem poles”, sem upphaflega munu hafa þjónað sem dyrasúlur en stóðu svo sem sjálfstæð listaverk trúarlegs eðlis þar sem hver mynd var hlaðin tákngildi, sem reynt var að kynna okkur stuttlega.
Þessar frumbyggjaþjóðir (first nations) höfðu fasta búsetu og byggðu sér ágæt hús úr þessum sama rauðaviði, sem enn fyllir víðáttumikla skóga landsins. Undravert var að sjá hina nákvæmu vinnslu viðarins af fólki, sem ekki þekkti verkfæri úr málmi, en varð að notast við tól úr steini eða beini. Ekki nóg með að gríðsarsverir bolir féllu saman svo að hvergi var glufu að finna heldur voru veggir og þök grópuð og læst saman af slíkri hind að mér þótti furðu gegna.
Þeim sem kynnu að hafa löngun til að kynnast þessu nánar bendi ég á heimasíðu mannfræðisafnsins í Vancouver: www.moa.ubc.ca og skoða t.d. “online exhibition”.
Þá er ekki annað eftir en að þakka þeim, sem kunna að hafa ómakað sig til að lesa þetta.
Bestu kveðjur.