Beint í efni

Af vettvangi IDF – annar hluti

10.10.2005

Ársfundur IDF var haldinn í Vancouver í Canada 17. – 22. september og sóttu nokkrir Íslendingar fundinn, Guðmundur Þorsteinsson, stjórnarmaður í MS/MBF, var einn þeirra og hér á eftir er síðari hluti umfjöllunar hans um fundinn, en fyrri hlutinn birtist hér á vefnum þann 3. október sl.

Smitsjúkdómar í nautgripum og áhrif þeirra á afkomu bænda og iðnaðar voru til umræðu á ársfundinum. Kúariðan er á undanhaldi og nánast að fjara út miðað við stöðuna fyir 10 árum. Enn koma þó upp nokkur tilfelli árlega, aðallega í Evrópu.

 

Terrig Morgan, kúabóndi frá Wales, lýsti á áhrifamikinn hátt hremmingum bænda á Bretlandi, sem þurftu að kljást við gin-og klaufaveiki faraldur í kjölfarið á kúariðunni.


 

Mér kom á óvart hve garnaveikin er talin mikið vandamál bæði austan hafs og vestan. Smitefnið virðist geta borist í mjólk úr sýktum gripum og valdið heilsutjóni í mönnum (Crohne´s-disease), en veikin er náskyld berklum. Talið er að það þoli að einhverju marki venjulega gerilsneyðingu (72 c-gr. í 15 sek.) og til að drepa það alveg dugi ekki minna en 90 c-gr. í 60 sek. en þá er nánast um hitameðhöndlun að ræða og ekki ásættanlegt.

 

Því verði að berjast við sjúkdóminn í fjósunum með sýnatökum, förgun og smitvörnum. Bandarísk stjórnvöld verja 65 millj.US$ á ári til sérstaks verkefnis á því sviði, en vegna fjárútláta vegna fellibylja og srtíðsins í Írak voru uppi efasemdir um að sú upphæð yrði óbreytt áfram.

 

Crohne´s-disease er alvarlegur sjúkdómur og erfiður viðfangs, bæði greiningu og meðhöndlun, og mjög vaxandi vandamál, einkum í Englandi og USA og liggja yfirvöld þar undir ámæli fyrir að hafa sofið á verðinum gagnvart honum. Sterkar vísbendingar eru um að smit eigi sér einkum stað við neyslu afurða sýktra gripa, sérstaklega mjólkurafurða. Þetta er þó ekki með öllu óumdeilt.

 

Sigurður dýralæknir, Sigurðarson, segir mér að hér á landi hafi ekki tekist að finna tengsl milli garnaveiki og Crohne´s-disease, sem kann að stafa af því að smitefnið hér mun vera af öðrum stofni en algengastur er erlendis (kominn hingað með Karakúlfé 1933). Við erum auk þess í betri færum en flestir aðrir til að ráða niðurlögum garnaveikinnar vegna skiptingar landsins í varnarhólf og talsverður hluti landsins er laus við hana. Full ásæða er því til að kanna hvort ekki er raunhæft að útrýma garnaveikinni hérlendis. Það væri mikill búhnykkur fyrir nautgripa- og sauðfjárrækt í landinu og gæti auk þess komið sér vel í markaðsstarfi erlendis í náinni framtíð.

Bless í bili.