Beint í efni

Af vettvangi IDF

03.10.2005

International Dairy Federation (IDF) eru samtök aðila í mjólkuriðnaði í 49 löndum. Ársfundur þeirra 2005 (World Dairy Summit) var haldinn í Vancouver í Canada 17. – 22. sept. Um 500 manns sóttu fundinn, langflestir frá Canada og Bandaríkjunum. Að afloknum aðalfundi samtakanna

(afgreiðslu reikninga, kosningum og slíku) voru fyrirlestrar og umræður um margvísleg málefni, sem snerta greinina, og stóðu í 4 daga. Sem dæmi um málaflokka má nefna:
• Stöðu og horfur í framleiðslu og neyslu mjólkur í heiminum
• Markaðsmál og viðskipti
• Heilsufarsþættir tengdir mjólkurneyslu
• Dýravelferð, dýrasjúkdómar og bústjórn
• Auglýsingar og markaðssetning mjólkurvara
• Ný tækni og áhrif hennar í framleiðslu og úrvinnslu


Umfangsmiklar upplýsingar voru lagðar fram og niðurstöður ræddar. Stöðugur vöxtur hefur verið í mjólkurframleiðslu síðasta áratug eða um 1,5% á ári og er framleiðsla mjólkur í heiminum áætluð að verða 626 millj. tonna 2005, þar af 527 af kúamjólk. Skekkjumörk eru talsverð, en talið er að 70-80% framleiðslunnar skili sér í vinslustöðvar, en afgangurinn fer til fóðurs kálfa og neyslu á framleiðslustað eða í nágrenni án skráningar. Svipuð óvissa er um heildarneyslu, en talið er að hún fylgi aukningu framleiðslunnar nokkurn veginn.

Helstu vaxtarsvæðin eru í suðaustur Asíu og syðri hluta Suður-Ameríku en hóflegar eða litlar breytingar eru á vesturlöndum. Sérstaka athygli vekur mikill vöxtur í Kína, 29% milli áranna 2003-2004, en þarlend stjórnvöld hvetja mjög til aukinnar framleiðslu og neyslu mjólkur með fjárframlögum til tæknivæðingar kúabúa, kynbóta og innflutnings á kúm og kvígum.

Milliríkjaviðskipti eru talin hafa numið sem svarar rúmlega 40 milljónum tonna mjólkur 2004 og hafa aukist um 30% frá 1995 og væri enn meira ef stækkun Evrópusambandsins hefði ekki komið til, en litið er á Everópusambandið sem eitt ríki í þessu samhengi. Þó er hátt heimsmarkaðsverð í dollurum talið hamla viðskiptum, en lágt gengi hans vegur þar á móti.

Framhald síðar