Beint í efni

Af Noregsferð

13.05.2017

Í upphafi maímánaðar var undirritaðri boðið að fara ásamt fulltrúum frá MS og KS, Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) og formanni Bændasamtakanna í kynningarferð til Noregs. Tilgangur ferðarinnar var að fræðast um starfsumhverfi mjólkuriðnaðarins þar í landi, en eins og margir þekkja þá var þess getið í frumvarpsdrögum landbúnaðarráðherra um endurskoðun samkeppnisstöðu mjólkuriðnaðarins að meðal annars væri horft til norska kerfisins. Ferðin heppnaðist vel í alla staði og það má með sanni segja að þótt menn liggi daglangt yfir gögnum um hvernig hlutirnir eru gerðir annars staðar, er ekkert sem jafnast á við að hitta fólk sem starfar innan viðkomandi kerfis og fá upplýsingarnar beint í æð.

Í upphafi ferðar fórum við í heimsókn í landbúnaðarháskólann að Ási, þar sem rekið er afar gott tilrauna- og rannsóknarstarf í landbúnaði. Hópurinn fékk kynningarferð um svæðið en ný aðstaða var tekin í notkun þar árið 2015. Þar er allt til fyrirmyndar og nam kostnaður við bygginguna um 3,5 milljörðum íslenskra króna. Þar eru um 120 mjólkurkýr ásamt uppeldi og framleiðslan um 800 þúsund lítrar. Að kynningu lokinni settumst við niður með fulltrúa frá Tine Rådgiving, sem er ráðgjafafyrirtæki fyrir mjólkurframleiðendur, en í Noregi fer ráðgjöf til bænda að stórum hluta fram í gegnum afurðafyrirtækið. Um þessar mundir hafa þeir verið að leggja hvað mesta áherslu á uppeldið þar sem hagstæðara og mun einfaldara er að byggja upp góðar mjólkurkýr frá grunni, fremur en að reyna að taka á vandamálunum þegar þau koma upp þegar kýrin er farin að mjólka.

Seinna funduðum við með fulltrúum frá afurðasviði Tine og fulltrúum frá norsku Búnaðarstofunni, sem sér um eftirfylgni þeirra laga og reglugerða sem um markaðinn gilda. Tine er lang stærsta afurðafélag Norðmanna og að baki fyrirtækisins standa um 11 þúsund bændur. Það er því hægt að segja að Tine sé MS þeirra Norðmanna, svo við setjum fyrirtækið í samhengi við starfsumhverfið á Íslandi. Á fundinum var farið yfir norska kerfið og hvernig það virkar og mátti sjá að margt er líkt með fyrirkomulaginu í mjólkurframleiðslunni í Noregi og því sem við þekkjum hér á Íslandi.

Skiplag mjólkurframleiðslu í Noregi
Í Noregi er framleidd um 10 sinnum meiri mjólk en á Íslandi. Meðalbúið er þó heldur minna en hér heima eða um 25 árskýr og framleiðslan um 170 þúsund lítrar. Tine Råvarer sér um söfnun og gæðaeftirlit með mjólkinni og þar er sami háttur á og við þekkjum; félagið sækir mjólk til nær allra bænda, hver sem vegalengdin er. Þar er einnig í gildi svipað kerfi og verðlagsnefndarkerfið hér á landi, þ.e. að samið er um verð til bænda og afurðastöðva. Allar afurðastöðvar, þar með talin Tine, greiða svo sama verð fyrir hrámjólkina, rétt eins og gerist hér á landi. Auk þess hafa Norðmenn ákveðinn verðmiðlunarpott sem öll fyrirtæki sem kaupa hráefni af Tine Råvarer eru skyldug til að taka þátt í, með því að greiða ákveðna upphæð af hverjum mjólkurlítra. Fyrirtækin fá svo ýmist greitt eða þurfa að greiða í pottinn, eftir því hvaða vörur þeir eru að framleiða og hvert verðþol þeirra er á markaði.

Norðmenn stýra mjólkurframleiðslunni með kvótakerfi líkt og hér á landi en þó á fjölbreyttari hátt. Þeir eru með svæðisbundinn kvóta þar sem landinu er skipt í 18 svæði, ásamt því að vera með heildarkvóta fyrir landið og svo hvert bú fyrir sig. Viðskipti með kvóta eru nokkuð bundin svæðaskiptingunni. Bændum er frjálst að selja 80% af kvóta sínum innan síns svæðis og er það í gegnum frjáls viðskipti, en það verður að vera innan svæðis. 20% skulu fara til Búnaðarstofu og gilda þar nokkurn veginn sömu reglur og um innlausn ríkisins hér heima. Einnig geta menn sett allan kvótann í innlausn ríkisins á föstu verði. Spurðir út í viðhorf norskra bænda til kvótakerfisins voru norsku fulltrúarnir sammála um að menn væru sáttir við kvótakerfið og framleiðslustýringuna.

Viðhorf til landbúnaðarins nokkuð ólík
Það sem mér þótti hvað áhugaverðast að heyra og upplifa var hve mikill munur virðist vera á viðhorfi samkeppniseftirlitsins, stjórnsýslunnar og verslunarinnar gagnvart landbúnaðinum í Noregi og hér heima. Þar virðist vera almenn sátt um sérákvæði fyrir landbúnaðinn og almennt gera menn sér grein fyrir nauðsyn sérákvæða atvinnugreinarinnar. Umræðan um landbúnaðinn er yfirveguð og almennt er almenningur sammála um að standa vörð um atvinnugreinina, að skapa þannig starfsumhverfi að landbúnaður þrífist í landinu. Verslunin stendur með kerfinu eins og það er -sem er ekki ósvipað okkar- þar sem hagræðing hefur bætt hag bæði bænda, í formi hærra verðs fyrir framleiðsluna, og neytenda, í formi lægra vöruverðs.

Norðmenn virðast ekki leggja mikla áherslu á breytingar á kerfi sem virkar, ólíkt því sem við höfum upplifað hér á landi það sem af er þessu ári. Þar er sérstaklega litið til samhengisins milli landbúnaðarins annars vegar og norskrar matvælaframleiðslu í heild hins vegar. Ef mjólkuriðnaðurinn gefur eftir er ekki langt í að matvælaiðnaðurinn fylgi á eftir. Því miður hefur farið minna fyrir þessari umræðu hér á landi og stundum má ætla að þrýst sé á breytingar, einungis breytinganna vegna.

Íslenska kerfið líkt og það er í dag er ekkert endilega fullkomið. Það er ekki yfir gagnrýni hafið og eflaust mætti gera einhverjar breytingar til hins betra. Það hefur hins vegar skilað sér í hagræðingu sem nemur um 3 milljörðum króna á ári, sem skiptist milli neytenda og bænda – 1 milljarður til bænda og 2 milljarðar til neytenda í formi lægra vöruverðs en ella væri. Um þetta er ekki efast. Það má heldur ekki gleyma því að kerfið sem við búum við hér á landi var ekki sett saman í einhverjum hálfkæringi. Tilgangur þess, líkt og allra annarra kerfa sem gilda um landbúnað í hinum ólíkustu löndum, er að tryggja sem bestan hag viðkomandi þjóða. Ef gera á breytingar á slíku kerfi þarf það að vera gert af yfirvegun, byggt á víðtækri gagnaöflun og með skýra sýn á framtíðina sem sátt ríkir um.

Reykjavík, 12. maí 2017
Margrét Gísladóttir
Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda