Beint í efni

Af mjólkurframleiðslu og leigubifreiðaakstri

16.09.2010

Eftirfarandi grein eftir framkvæmdastjóra Landssambands kúabænda birtist í Morgunblaðinu í dag, 16. september.

 

 Eins og flestum er kunnugt liggur fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á búvörulögum. Tilgangur breytinganna er að gera mögulegt að fylgja eftir ákvæði í gildandi lögum um útflutning mjólkur sem framleidd er umfram greiðslumark. Á grunni þessara laga hefur verið gerður samningur milli kúabænda og ríkisins um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar. Sá samningur gildir til 31. desember 2014. Kvótakerfi mjólkurframleiðslunnar verður því a.m.k. svo lengi í gildi. Þar sem framleiðsluferill nautgriparæktarinnar er mjög langur og allar breytingar taka tíma, hefur Landssamband kúabænda sett af stað stefnumótunarvinnu sem er ætlað að móta hugmyndir um starfsumhverfi greinarinnar á komandi árum. Markmiðið er að auka samkeppnishæfni hennar og lækka framleiðslukostnað. Þar er allt undir, líka kvótakerfið.

 

Ekkert einsdæmi

Af umræðu undanfarinna vikna mætti halda að framangreint ákvæði væri einstakt á heimsvísu.

Svo er alls ekki. Algjörlega sambærilegt fyrirkomulag og lagt er til í frumvarpinu er við lýði í öllum þeim löndum þar sem mjólkurframleiðslan býr við kvótakerfi. Nærtækustu dæmin eru aðildarríki Evrópusambandsins og Noregur.

 

Kvótakerfi leigubifreiða

Hliðstæður við kvótakerfi mjólkurframleiðslunnar er einnig að finna í öðrum atvinnugreinum. Dæmi um slíkt er akstur leigubifreiða. Alþingi Íslendinga hefur skilgreint markað fyrir leigubílaakstur sem takmörkuð gæði, sbr. lög nr. 134/2001 um leigubifreiðar. Á grundvelli þessara laga hefur samgönguráðherra gefið út reglugerð sem segir til um hámarksfjölda leyfa til leigubifreiðaaksturs í nokkrum sveitarfélögum landsins; Reykjavík og nágrannasveitarfélög (560 leyfi), Akureyri (21), Árborg (8) og Reykjanesbær og nágrannasveitarfélög (41). Fjöldi leyfa sem ráðherra ákveður fer eftir tillögum Vegagerðarinnar, að fenginni umsögn viðkomandi sveitarstjórna, héraðsnefnda og félaga leigubifreiðastjóra. Ef brotið er gegn framangreindum lögum og reglum varðar það leyfissviptingu og/eða sekt.

 

Tryggir stöðugt framboð

Rök samgöngunefndar Alþingis varðandi takmörkun á fjölda leigubifreiða á sínum tíma, voru m.a. að með því mætti tryggja góða og örugga þjónustu. Slíkt bæri að tryggja þar sem leigubifreiðar væru mikilvægur hluti af almenningssamgöngum hér á landi. Um leið var lögunum ætlað að tryggja eðlileg starfskjör leigubifreiðastjóra. Framantalið er því það almannaheill sem er krafist, þegar takmörkuðum gæðum er útdeilt af hinu opinbera. Sama gildir um mjólkurframleiðsluna. Kvótakerfi í mjólkurframleiðslunni tryggir jafnt og stöðugt framboð mjólkurafurða og rekstrarumhverfi greinarinnar. Rétt er þó að taka fram að sá munur er á verðlagningu mjólkur og leigubifreiðaaksturs, að neytendur hafa bein afskipti af verðlagningu mjólkurafurða í gegnum verðlagsnefnd búvöru. Því er ekki til að dreifa með leigubifreiðaksturinn, gjaldskrá fyrir þá þjónustu er ákveðin af gjaldskrárnefnd sem til staðar er á hverri leigubifreiðastöð. Í þeirri nefnd eru starfandi bílstjórar, sem þó mega ekki vera í stjórn stöðvarinnar eða stjórn starfsmannafélags hennar.

 

Innan og utan kerfis?

Til að stunda akstur leigubifreiðar þarf leyfi, auk ýmissa starfsréttinda. Til að markaðssetja mjólk á innanlandsmarkaði þarf greiðslumark. Hvort tveggja er skilmerkilega tekið fram í lögum. Hvorugt hefur verið hrakið með úrskurði dómstóla. Akstur leigubifreiðar án leyfis og markaðssetning mjólkur utan greiðslumarks á innanlandsmarkað eru sambærilegir hlutir. Ekki kemur til greina að leigubifreiðastjórar standi annað hvort »innan eða utan kerfis«. »Kerfið« er ekkert annað en þau lög og reglur sem gilda um starfsemina. Breytingar á búvörulögum snúa að því að setja í þau hliðstætt ákvæði og verið hefur í lögum um leigubifreiðar frá upphafi. Er ekki eðlilegt að ríkisvaldið, sem sett hefur lagaumgjörðina um þessar atvinnugreinar, geri mögulegt að fylgja gildandi lögum eftir í báðum tilfellum?