Beint í efni

Af endurskoðun og atkvæðagreiðslu

04.03.2018

Nýir búvörusamningar hafa verið í gildi í rúmt ár og líður nú að fyrri endurskoðun samninganna en eins og flestir þekkja fólu samningarnir í sér tvö endurskoðunartímabil; árin 2019 og 2023. Fyrri endurskoðun skal lokið á árinu 2019 og verður í höndum Bændasamtaka Íslands og stjórnvalda líkt og samningarnir sjálfir. Til undirbúnings endurskoðunarinnar er starfshópur að störfum sem hefur það hlutverk að meta hvernig markmið samninganna hafa gengið eftir. Skal samráðshópurinn skila lokaskýrslu til landbúnaðarráðherra með ítarlegri greinargerð og tæmandi talningu á tillögum hópsins fyrir lok árs 2018.

Samráðshópurinn hefur tekið nokkrum breytingum frá því hann var skipaður fyrst en það hefur fjölgað og fækkað í hópnum og formönnum hefur verið skipt út í tvígang. Kristján Þór Júlíusson, landbúnaðarráðherra, tilkynnti í byrjun febrúarmánaðar að nú skildu 8 fulltrúar skipa samráðshópinn og þar af væru tveir sem skiptu með sér formannssætinu; Haraldur Benediktsson, þingmaður, og Brynhildur Pétursdóttir frá Neytendasamtökunum. Bændasamtökin eiga nú 2 fulltrúa í hópnum, þau Sindra Sigurgeirsson, formann Bændasamtakanna, og Elín Heiðu Valsdóttur, stjórnarmann LK.

 

Tollamálin vega þungt
Þrátt fyrir að nýju samningarnir hafa ekki verið lengi í gildi hefur margt breyst frá gildistöku þeirra. Þar má nefna útlit og horfur í innflutningi á landbúnaðarvörum, sem snertir allar búgreinar á einn eða annan hátt. Nýr tollasamningur við Evrópusambandið tekur gildi 1. maí næstkomandi og þar eykur Ísland m.a. tollkvóta á ostum um 510 tonn og nautakjöti um 596 tonn á næstu fjórum árum. Áhrifin eru þónokkur á innlenda framleiðslu. Ef horft er einungis til ostanna verður innflutningur frá ESB innan tollkvóta (þegar samningurinn er farinn að telja að fullu) 10% af innlendri ostaframleiðslu eins og hún stendur í dag. Það er á pari við framleiðslu um 23 kúabúa. Auk ESB samningsins er ljóst af tölum Hagstofu Íslands um innflutning búvara að innflutningur á mjólkurvörum hefur þrefaldast milli áranna 2016 og 2017 og innflutningur á osti jókst um rúman helming. Mjólk, mjólkur- og undanrennuduft og rjómi fór úr 50 tonnum í 151 tonn og ostar fóru úr 326 tonnum í tæp 510 tonn á einu ári.

Auk þess komst EFTA-dómstóllinn að þeirri niðurstöðu í nóvember 2017 að íslenska leyfisveitingakerfið fyrir innflutning á hrárri og unninni kjötvöru, eggjum og mjólk samrýmdist ekki ákvæðum EES-samningsins. Má áætla að sú breyting að heimilt yrði að flytja inn ferskt kjöt myndi líklega hafa nokkuð mikil áhrif á íslenskan markað með landbúnaðarafurðir. Verð sem innlendir aðilar fengju fyrir sína afurð yrði líklega háð verði á innfluttu kjöti og gengi íslensku krónunnar og framleiðendur hefðu lítil sem engin áhrif á verð sinna afurða. Þótt framleiðslan myndi minnka myndi það ekki leiða af sér hærra verð og þótt framleiðslan myndi aukast myndi það ekki leiða af sé lægra verð. Verð til íslenskra framleiðenda gæti orðið háð verði á vörum sem eru jafnvel framleiddar undir allt öðrum og afar ólíkum aðstæðum en þekkjast hér á landi. Mikilvægt er því að taka meira mið af tollamálum við endurskoðun samninganna.

Framtíð kvótakerfis í mjólkurframleiðslu
Við endurskoðunina á næsta ári skal tekin afstaða til hvort kvótakerfi í mjólkurframleiðslu verði afnumið frá og með 1. janúar 2021. Munu Bændasamtök Íslands láta fara fram atkvæðagreiðslu meðal mjólkurframleiðenda og má gera ráð fyrir að sú atkvæðagreiðsla muni eiga sér stað á fyrrihluta ársins 2019 þar sem niðurstaða hennar verður að liggja fyrir áður en Bændasamtökin og stjórnvöld setjast aftur að samningaborðinu. Verði niðurstaðan sú að afnema kvótakerfið munu samningarnir halda áfram eins og þeir eru skrifaðir og greiðslur út á greiðslumark munu færast í skrefum yfir á greiðslur út á innvegna mjólk út tímabil samninganna. En verði niðurstaðan sú að afnema ekki kvótakerfið mun framhald þess byggjast á grunni fyrra kerfis. Það eru þó ýmsar ólíkar leiðir sem hægt er að fara í þeim málum. Þar má meðal annars nefna hvernig viðskiptum með kvóta verði háttað. Það er mikilvægt að Bændasamtökin í nánu samstarfi við LK og afurðastöðvar verði búin að útlista þær leiðir sem í boði eru og kosti þeirra og galla í góðum tíma fyrir atkvæðagreiðsluna sjálfa, svo bændur geti kynnt sér málin vel og ítarlega áður en þeir greiða atkvæði.

Þar sem við gerum ráð fyrir að atkvæðagreiðslan muni eiga sér stað á fyrri hluta ársins 2019 er mikilvægt að stjórn LK hafi skýrt umboð um framhald undirbúningsvinnu frá aðalfundi samtakanna sem haldinn verður 6.-7. apríl næstkomandi á Hótel Selfossi. Það er því ljóst að endurskoðun búvörusamninga og atkvæðagreiðsla um framtíð kvótakerfis í mjólkurframleiðslu verði fyrirferðamikil á aðalfundinum ásamt stefnumörkun samtakanna í mjólkurframleiðslu og kjötframleiðslu til næstu 10 ára.

 

Að lokum minni ég ykkur á að taka laugardagskvöldið 7. apríl frá fyrir árshátíð Landssambands kúabænda sem haldin verður á Hótel Selfossi að þessu sinni. Árshátíðin og aðalfundur verða auglýst nánar síðar.

 

Margrét Gísladóttir
Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda