Beint í efni

Af efnahagserfiðleikum danskra bænda

23.03.2009

Í fréttaþættinum 21søndag sem var á dagskrá danska ríkissjónvarpsins í gærkvöldi, var fjallað um ört vaxandi erfiðleika í dönskum landbúnaði. Helstu ástæður eru mikil skuldsetning, síðan árið 2000 hafa skuldir bænda farið úr 175 milljörðum dkk í 315 milljarða danskra króna, aðgengi að lánsfé er mun tregara en áður og mikil lækkun hefur orðið á afurðaverði. Í þættinum er rætt við Anders Christian Petersen, svínabónda sem nýlega orðinn gjaldþrota eftir 10 ára rekstur. Viðtalið við hann er hér. Einnig er rætt við Peter Gemælke, formann dönsku bændasamtakanna, það viðtal er hér.  

Anders segir að það erfiðasta við að hætta búskap sé, að hann missi ekki aðeins fyrirtækið, heldur einnig heimilið, það hverfi líka. Hann tók við búinu í maí 1999 og hófst þá þegar handa við að byggja upp nútímalega framleiðsluaðstöðu, í stað þeirrar gömlu sem var alveg úr sér gengin. Ný aðstaða fyrir 650 gyltur var tilbúin ári síðar, sem gaf af sér 400 smágrísi á viku. Mjög skikkanleg framleiðslueining. Árið 2002 kom upp sjúkdómur á búinu sem olli miklum vanhöldum og ollu milljónatjóni. Það tjón hefur reynst rekstrinum mjög þungt í skauti, svo þungt að þegar fóðurverð hækkaði mjög fyrir fáeinum misserum, samhliða því að afurðaverðið lækkaði, kom að því að ekkert svigrúm var í rekstrinum. Náðarhöggið kom svo þegar landverðið hrundi, eftir að hafa hækkað mörg ár í röð. Búreksturinn hefði getað gengið í einhvern tíma ef landrými búsins hefði verið meira, en svo var bara ekki. Anders segir að bændur eigi að geta lifað af rekstrinum og því sem hann gefur af sér. Það sé fráleitt að bændur lifi í raun á hækkandi eignaverði.

 

Í viðtalinu við Peter Gemælke kemur fram að um 10% af þeim 14.000 búum sem eru í fullum rekstri í Danmörku (heltidslandbrug), séu í miklum erfiðleikum. Ástæðan sé fjármálakreppa á heimsvísu sem matvælaútflutningur Dana hafi orðið harkalega fyrir barðinu á. Þá hafi verð á afurðum fallið um allt að 30% síðan í september sl. til dagsins í dag. Formaðurinn hefur miklar áhyggjur af yngstu bændunum sem hafi haslað sér völl í búskapnum á undanförnum 2-3 árum, einnig þá sem lagt hafi í miklar fjárfestingar á sama tíma. Þeir hafi á engan hátt getað séð fyrir þá kreppu sem nú ríkir. Það sé þó ljóst að einhverjir hafi teflt allt of djarft, þeir verði sjálfir að súpa seyðið af því. Þannig gangi kaupin í frjálsu hagkerfi. Peter Gemælke lýsir engum sérstökum áhuga á sértækum aðgerðum til handa landbúnaðinum, eins og t.d. þeim sem bankarnir hafi fengið. Það sem skipti máli sé að almenn rekstrarskilyrði atvinnulífsins séu hagfelld.