Af áburðarmarkaði
12.11.2009
Á umliðnum árum, að síðasta ári undanskildu, hafa áburðarinnflytjendur jafnan birt verðskrár sínar í nóvembermánuði. Það er því rétt að huga að því hvað er að gerast á áburðarmarkaði. Eftirfarandi yfirlit um þá stöðu var gefið út af dönsku Gefion ráðgjafamiðstöðinni þann 4. nóvember sl. til þarlendra bænda:
Köfnunarefnisáburður: Mjög mikið framboð, en frekari verðlækkanir ólíklegar þar sem verðið er komið niður í svipað og það var fyrir hækkanirnar árið 2007. Orkuverð er á uppleið en gasið sem notað er í framleiðslu á N er ennþá ódýrt.
Fosfóráburður: Verð á DAP (di-ammonium-fosfat) er lágt og ekki er gert ráð fyrir meiri verðlækkun. Sú lækkun er enn ekki komin inn í NPK blöndur, sem í sumum tilfellum hafa verið verðlagðar áður en verðið lækkaði á fosfórnum.
Kalíáburður: Verðið er ennþá á niðurleið en samt u.þ.b. tvöfalt hærra en fyrir tveimur árum síðan. Bændum eindregið ráðlagt að bíða með kaup á kalíi.
Niðurstaða þeirra er að ekki sé von á verðhækkunum og bændur eigi því ekki að fara að neinu óðslega varðandi áburðarkaup, nema ef þeir fái langan og hagstæðan greiðslufrest, t.d. til 1. apríl 2010. Kalíáburð eigi alls ekki að kaupa strax.
Í töflunni hér að neðan er verð til bænda á nokkrum áburðartegundum í DKK pr. hkg en í ISK pr. tonn innan sviga, m.v. gengi dagsins hjá SÍ, 25,08 kr. Verð á hreinum efnum, köfnunarefni, fosfór, kalíi og brennisteini er í dkk pr. kg og isk pr. kg innan sviga.
Áburðartegund | Verð | N kr/kg | P kr/kg | K kr/kg | S kr/kg |
NS 27-5 | 125 (31.350) | 4,30 (107,84) | |||
DAP (NP 18-20) | 220 (55.176) | 7,00 (175,56) | |||
Kali 49 | 270 (67.716 kr) | 5,50 (137,94) | |||
NS 21-24 | 125 (31.350) | 1,50 (37,62) |
Til samanburðar má benda á að t.d. verð á N 27 var á bilinu 50-55 þús. kr pr. tonn sl. vor.
Þá er verð á NPK 27-3-5 180 dkk pr. hkg, sem er rúmlega 45.000 ikr/tonnið. Verð á hliðstæðum áburði, t.d. 24-4-7 var 61.206 kr og 27-6-6 fékkst á 64.000 isk á síðustu vertíð. Það má því binda ákveðnar vonir við að áburðurinn sem borinn verður á næsta vor verði heldur ódýrari en á sl. vori. Þar mun gengisþróun ráða mjög miklu.
Hér að neðan má síðan sjá hver þróunin hefur verið á verði nokkurra áburðartegunda til Danskra bænda undanfarin ár. Verðið er í dönskum krónum pr. 100 kg áburðar.