Beint í efni

Ætlar að byggja stærsta kúabú í heimi

01.07.2014

Ekki er víst að margir þekki eða hafi heyrt um bóndasoninn Kees Koolen, en hann er hollenskur milljarðamæringur. Auð sinn eignaðist hann eftir að hafa stofnað og stjórnað hinni heimsfrægu heimasíðu booking.com, en þar er m.a. hægt að kaupa hótelgistingu svo eitthvað sé nefnt. Nú hefur hann selt hlut sinn og ætlar að söðla um og gerast kúabóndi eins og foreldrar hans voru, „eini“ munurinn verður þó sá að kúabúið hans verður það stærsta í heimi!

 

Kees hefur fest kaup á gríðarlega miklu landi í Brasilíu og þar standa til miklar framkvæmdir við að byggja upp 32 kúabú en á hverju þeirra stendur til að vera með 22 þúsund mjólkurkýr! Alls munu því heyra undir kúabóndann Kees um 700 þúsund mjólkurkýr sem er heldur fleiri kýr en eru samanlagt í dag í Svíþjóð, Finnlandi og á Íslandi. Eins og það sé ekki nægur fjöldi, þá áætlar Kees að fyrir árið 2024 þá verði fyrirtæki hans komið með 1 milljón mjólkurkýr. Skýringin á þessum áhuga á risastórum kúabúum felst að hans sögn í mati hans á því að jörðin sé einfaldlega allt of lítil fyrir allan þennan mannfjölda. Því verði að huga að því að stórauka framleiðslu matvæla af eins litlu landi og hægt er/SS.