Beint í efni

Ætla að slá heimsmetið í hveitiframleiðslu!

15.08.2011

Það er hægt að keppa í ýmsum greinum og fá skráð heimsmet í hina víðfrægu Heimsmetabók Guinness, m.a. í kornrækt. Frá árinu 2007 hefur Nýsjálenski bóndinn Mike Solari haldið á heimsmetinu í hveitirækt (vetrarhveiti) en fyrst setti hann met árið 2007 með 15,3 tonnum á hvern hektara. Mike bætti það svo í fyrra og er skráð opinbert heimsmet nú 15,637 tonn (Einstein afbrigðið) af hverjum hektara, en Mike þreskti það af sínum tæplega 15 hekturum.

 

Nú ætla danskir bændur og ráðunautar þeirra að reyna að slá þetta met á næsta ári og því er hafin hörku landskeppni sem spennandi verður að fylgjast með. Það eru bændurnir Asmus Fromm-Christiansen frá Haderslev og Kåre Skårhøj frá Holbæk sem ætla að reyna við metið en við það fá þeir sérstaka aðstoð jarðræktarráðunauta. Þó svo að metið upp á rúm 15 og hálft tonn sé vel yfir meðaluppskeru í Danmörku eru bændurnir bjartsýnir og telja að það sé vel mögulegt að ná þessum árangri.

 

Þess má geta að vorsáð bygg, sem er algengasta kornið sem ræktað er hér á landi, er ekki með skráð heimsmet í Heimsmetabók Guinness/SS.