Beint í efni

Æðarsetur Íslands í Stykkishólmi

15.06.2011

Æðarsetur Íslands var opnað með hátíðlegri viðhöfn á annan í hvítasunnu í Norska húsinu í Stykkishólmi. Það var frú Dorrit Moussaieff sem klippti á borða og opnaði setrið formlega en hún er jafnframt verndari þess. Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, sem sjálfur er æðarbóndi, var viðstaddur og hélt stutt ávarp þar sem hann óskaði aðstandendum til hamingju með framtakið. Á setrinu er sýning sem helguð er æðarfuglinum þar sem fjallað er um sess hans í náttúru Íslands, nýtingu og þýðingu fyrir sögu lands og þjóðar.

Undirbúningur Æðarseturs Íslands hófst í fyrra en það eru feðginin Friðrik Jónsson og Erla Friðriksdóttir sem reka Íslenskan æðardún ehf. og Queen Eider ehf. sem komu verkefninu af stað. Fjölmargir komu að undirbúningi og framkvæmd setursins og meðal þeirra eru Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi, Náttúrustofa Vesturlands, Daníel Bergmann ljósmyndari, Jón Baldur Hlíðberg myndlistarmaður, Æðarræktarfélag Snæfellinga sem er deild innan Æðarræktarfélags Íslands, Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla, Anok margmiðlun ehf. o.fl.

Sýningin er sem fyrr segir í Norska húsinu í Stykkishólmi en þar er einnig Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla ásamt lítilli verslun þar sem m.a. er hægt að kaupa minjagripi sem tengjast æðarfuglinum. Áhugasamir geta líka keypt sér dúnsængur sem unnar eru í Stykkishólmi en á vef setursins kemur fram að barnasæng kosti 75 þúsund krónur, fullorðinssæng á bilinu 270-380 þúsund krónur og tvíbreið sæng fæst á 550 þúsund krónur.

Sýningin er opin daglega í sumar frá kl. 11:00 til 17:00. Nánari upplýsingar um setrið má finna á vef Æðarseturs Íslands: www.eider.is

Myndir frá opnun Æðarsetursins er að finna hér.Frú Dorrit Moussaieff klippti á borða og opnaði setrið formlega en hún er jafnframt verndari þess. Ljósm. Tjörvi Bjarnason