Beint í efni

Aðlögunaráætlun á undan samningsafstöðu er fjarstæðukennd nálgun

23.05.2012

Drög að áætlun um aðlögun íslenska landbúnaðarkerfisins að kröfum ESB voru kynnt fyrir stjórn Bændasamtaka Ísland í síðustu viku. Drögin höfðu áður verið kynnt fyrir samningahópi um landbúnaðarmál þann 7. maí sl. Í kjölfar áðurnefndrar kynningar samþykkti stjórn BÍ svofellda bókun um málið:

 

„Stjórn leggur nú sem fyrr áherslu á vandaða vinnu við aðildarferlið, af hálfu stjórnvalda.  Framsetning á áætlun um innleiðingu án þess að samningsafstaða liggi fyrir er fjarstæðukennd nálgun. Við framsetningu á áætluninni verður því  enn að minna á að ekki hefur verið mótuð samningsafstaða Íslands í kaflanum.  Aðildarríkin hljóta að meta það sem svo samkvæmt textanum að verið sé að lofa skilyrðislausri aðlögun að landbúnaðarstefnu ESB.  Stjórn BÍ mótmælir þeim vinnubrögðum og telur að með því sé  verið að veikja alvarlega og varanlega  málstað Íslands.  Minnt er á sérstöðu í legu landsins og það  hve íslenskur  landbúnaður býr við mun erfiðaðri aðstæður en lönd innan ESB varðandi framleiðsluskilyrði.  Fram kom einnig  að íslensk stjórnvöld hafa fullt samráð og samvinnu við framkvæmdastjórn  Evrópusambandsins um efni áætluninnar og því ljóst að stjórnvöld álíta að þetta sé vettvangur til  að „slétta yfir“ ágreining um hagsmuni Íslands fremur en að afla þess skilnings strax hjá aðildarríkjum ESB að Ísland hefur sérstöðu í  þeim grundvallaratriðum sem hafa verður í huga við aðildarsamning, líkt og rakið er í varnarlínum BÍ og greinargerð með þeim.“