Beint í efni

Aðlögun að regluverki ESB er hafin segir formaður BÍ

10.09.2010

Í byrjun þessarar viku komu sérfræðingar á vegum Evrópusambandsins til fundar við ýmsa aðila í landbúnaðinum og þar á meðal forsvarsmenn Bændasamtakanna. Þarna voru á ferðinni sk. TAIEX-sérfræðingar sem veita ríkjum tæknilega og faglega ráðgjöf eða aðstoð við að aðlaga þjóðir að regluverki ESB. Þeir munu skila af sér skýrslu innan nokkurra vikna með greiningu á þörf Íslands fyrir aðstoð, gera nákvæmar tillögur að kerfisuppbyggingu vegna undirbúnings aðildar og meta þarfir á stuðningi og aðgerðum næstu ára. Tilgangurinn með heimsókninni í Bændahöllina var að kynna sér uppbyggingu og starfsemi samtakanna og stjórnsýsluhlutverk þeirra ásamt því að fá kynningu á þeim tölvukerfum sem samtökin ráða yfir. Með í för voru fulltrúar utanríkisráðuneytisins, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og frá sendiskrifstofu ESB á Íslandi. Formaður BÍ sagði eftir fundinn að það væri augljóst að aðlögun að regluverki ESB væri hafin.

Engar málamiðlanir koma til greina varðandi greiðslustofu
Í lok fundarins voru umræður þar sem m.a. var spurt af hálfu bænda hvort þessi vinna þýddi ekki í raun að aðlögun væri hafin að ESB. Fram kom í máli sendinefndarinnar að það væri útilokað að segja til um, á þessu stigi máls, hvernig farið yrði með framhald málsins. Hins vegar væri ljóst að það væri ábyrgðarhluti Íslands að sýna fram á hvernig stjórnvöld hygðust standa undir kröfum sambandsins um innleiðingu á tilteknum reglum og þ.a.l. breytingum á stjórnkerfinu. Fram kom að engar málamiðlanir kæmu til greina varðandi greiðslustofu og sagt að ef hún tæki ekki til starfa strax við inngöngu í sambandið mættu bændur eiga von á því að styrkir til þeirra tefðust að sama skapi.

Við erum í aðlögunarferli segir formaður BÍ
Haraldur Benediktsson formaður BÍ sagði eftir fundinn að fyrir sér væri það augljóst að margar brotalamir væru á aðildarferlinu en skýr mynd væri komin á það hvaða verkefni lægju fyrir. „Það er aðeins ein leið til aðildar að ESB og það er aðlögunarferli og við erum í því núna. Það liggur þó í hlutarins eðli að leiðin er ófær þegar þjóðarviljinn er ekki fyrir hendi. Menn verða að horfast í augu við og viðurkenna að aðlögun er aðlögun hvort sem hún er gerð á meðan aðildarferli stendur eða eftir að aðild hefur verið samþykkt.“

Málið er í hnút á stjórnarheimilinu
Haraldur segir það jafnframt hreina blekkingu að reyna að fela augljósa hluti. „Málið er í hnút á stjórnarheimilinu og það litar alla vinnu gagnvart ESB-umsókninni. Það er komið misgengi þegar sum ráðuneyti virðast ætla að hefja aðlögun en önnur ekki. Hvað þýðir það á endanum? Sagt var eftir fundinn að utanríkisráðherra hefði lýst því yfir að engin vinna við breytingar yrði fyrr en eftir samþykkt aðildar. Hvað þýðir það og er það ábyrg afstaða? Sérfræðingar ESB sem við ræddum við á fundinum og hafa mikla reynslu segja að slíkar breytingar taki langan tíma, jafnvel svo árum skipti.“

Í áliti framkvæmdastjórnar ESB um stöðu Íslands í aðildarviðræðunum hefur m.a. komið fram að hér sé engin greiðslustofa eða samræmt stjórn- og eftirlitskerfi sem hafi með höndum útgreiðslu og eftirlit með landbúnaðar- og dreifbýlisstyrkjum. Þá sé stjórnsýslugeta fagráðuneytisins takmörkuð, söfnun og úrvinnsla hagtalna í landbúnaði er ábótavant og landupplýsingakerfi ófullnægjandi. Þessum atriðum þurfi að kippa í liðinn áður en Ísland getur orðið meðlimur að ESB en til að slíkt sé mögulegt býður sambandið nú fjárhagslega aðstoð sem nemur tugmilljónum evra.

/Bændablaðið greindi frá 9. sept.