Beint í efni

Aðildarumsókn að ESB – Yfirlýsing Búnaðarþings 2010

04.03.2010

Á Búnaðarþingi 2010 var samþykkt yfirlýsing vegna umsóknar stjórnvalda að Evrópusambandinu. Yfirlýsingin er svohljóðandi:

Búnaðarþing 2010 ítrekar andstöðu sína við aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þingið lýsir fullum stuðningi við áherslur Bændasamtakanna og felur stjórn BÍ að gæta áfram hagsmuna bænda í hvívetna, vera áfram leiðandi í umræðu um áhrif ESB-aðildar á landbúnað og byggja áfram á faglegri þekkingaröflun. Þingið brýnir jafnframt alla bændur og aðra velunnara íslensks landbúnaðar að taka þátt í umræðunni af fullum þunga.

Efnisleg rök Bændasamtakanna gegn aðild hafa ekki verið hrakin. Verði aðild að ESB að veruleika mun störfum í landbúnaði og tengdum greinum fækka stórlega en það leiðir til mikillar röskunar í byggðum þar sem landbúnaður er undirstaða atvinnu. Aðild mun einnig hafa verulega neikvæð áhrif á fæðu- og matvælaöryggi landsins. Þorri landsmanna er sammála bændum. Það endurspeglast í nýrri skoðanakönnun Capacent sem leiðir í ljós að rúm 84% þjóðarinnar telja að það skipti öllu eða miklu máli að vera ekki öðrum þjóðum háð um landbúnaðarafurðir. Aðildarumsókn Íslands að ESB skapar mikla óvissu í starfsumhverfi landbúnaðarins og dregur þróttinn úr nauðsynlegri endurnýjun og framþróun þann langa tíma sem umsóknarferlið mun standa. Í ljósi alls þessa er farsælast að stjórnvöld dragi aðildarumsóknina nú þegar til baka.

Ástæða er til þess að hafa miklar áhyggjur af hvernig stjórnvöld halda á hagsmunum þjóðarinnar í umsóknarferlinu. Íslensk stjórnsýsla er undirmönnuð og vanbúin til að takast á við þetta verkefni eins og m.a. er vikið að í nýrri skýrslu framkvæmdastjórnar ESB um aðildarumsókn Íslands. Athyglisvert er að í áðurnefndri skoðanakönnun Capacent treystir aðeins ríflega fjórðungur þjóðarinnar stjórnvöldum vel til þess að halda á hagsmunum Íslands í þessu máli. Eins telur Búnaðarþing ekki fullreynt að ná megi samkomulagi við ESB um samstarf í efnahags og peningamálum á grundvelli EES samningsins.

Búnaðarþing telur að fulltrúar samtakanna í samningahópum stjórnvalda þurfi að starfa þar áfram undir formerkjum þeirra varnarlína sem stjórn BÍ kynnti á formannafundi sl. haust. Áframhaldandi þátttaka í samningahópum felur ekki í sér ábyrgð á samningaferlinu.

Egill Sigurðsson, Georg Ottósson,
Guðbjörg Jónsdóttir, Jóhannes Sigfússon,
Jón Magnús Jónsson, Karvel Karvelsson,
Sig. Sindri Sigurgeirsson, Sigurbjartur Pálsson,
Sigurður Loftsson, Vigdís M. Sveinbjörnsdóttir,
Edda Björnsdóttir.

Yfirlýsing - Word

Ensk útgáfa - English version - Word