Aðgerðaráætlun sænskra kúabænda
18.07.2015
Við höfum áður greint frá verulegum vanda sænskra kúabænda en þar er nú í gangi sérstök aðgerðaráætlun sem vonir standa til að geti snúið við þróuninni í Svíþjóð og bætt hag þarlendra kúabænda. Áætlun þessi er margþætt og tekur til 87 ólíkra atriða, en öll taka þau til einstakra atriða sem kúabændurnir sjálfir geta gert á búum sínum til þess að mæta lágu mjólkurverði og samkeppni erlendis frá.
Um fjölbreytt og ólík ráð er að ræða en markmiðið með þeim er að styrkja launagreiðslugetu búanna m.a. með því að benda á leiðir til sparnaðar, aukinnar framleiðslu og framleiðni auk þess sem bent er á leiðir sem bændurnir geta farið til þess að auka verðmæti mjólkurinnar og fá þar með hærra verð.
Nokkrir þættir sem nefndir eru, og geta leitt sænska kúabændur upp úr þessum öldudal eru:
Að búin geti fengið ríkistryggð lán
Að bú í alvarlegum fjárhagsvanda geti fengið sérstaka fjárhagsráðgjöf
Að nýliðun verði gerð auðveldari með bættu aðgengi að áhættufjármagni
Að efla samkeppnishæfni sænskra bænda með því að bjóða upp á endurmenntun á sviði bústjórnar, búreksturs og áhættumati fjárfestinga
Að auka meðalafurðir kúnna (eru í dag 10 þúsund lítrar að jafnaði) svo auka megi veltu búanna
Að draga úr flækjustigi laga- og reglulgerðaumhverfis framleiðslunnar
Að lækka kostnað við fóðuröflun og byggingar
Að gera til sænskrar mjólkurframleiðslu sömu framleiðslukröfur og gert er í þeim löndu sem hún keppir helst við í innflutningi
Að efla rannsóknir og nýsköpun í landbúnaði til þess að styrkja samkeppnisstöðu mjólkurframleiðslunnar
Að merkja og vekja athygli á sænskum mjólkurvörum svo neytendur átti sig á uppruna þeirra vara sem þeir kaupa
Að efla útflutning mjólkurvara
Um þessa sérstöku aðgerðaráætlun hefur náðst einstök samstaða en að baki áætluninni standa hagsmunafélög kúabænda, afurðastöðvar, ráðgjafamiðstöðvar, nokkrar stórar verslunarkeðjur, landbúnaðarráðuneytið, landbúnaðarháskólinn, nokkrir bankar og fleiri aðilar/SS.