Beint í efni

Aðalfundurinn settur með ræðu formanns

20.08.2002

Fyrir stundu var aðalfundur LK settur með ræðu formanns LK. Hér á eftir fylgir ræða Þórólfs Sveinssonar.

 

Ágætu fulltrúar;  Góðir gestir.

  Ég vísa til framlagðra gagna um störf Landssambands kúabænda frá síðasta aðalfundi. Skýrsla um störf stjórnar og framkvæmdastjóra hefur verið send til fulltrúa, sem og skýrsla um störf fagráðs í nautgriparækt. Þessar skýrslur eru nokkuð ýtarlegar og því verður umfjöllun um félgsstarfið stillt í hóf hér.

 Nú er að baki enn eitt líflegt starfsár hjá Landssambandi kúabænda. Sem betur fer var starfið ekki bara líflegt hjá Landssambandi kúabænda, heldur var mikið að gerast á mörgum sviðum nautgriparæktarinnar.  Þróun í nautgriparæktinni heldur áfram af fullum þunga, þar sem framfarahugur bænda er drifkrafturinn og fjárfestingar voru verulegar á síðasta ári. Þá hefur það gerst að eignar- og stjórnunarleg tengsl eru orðin hjá stærstum hluta mjólkuriðnaðarins og tök framleiðenda á iðnaðinum hafa styrkst. Þetta er vel og gefur ýmsa möguleika til hagræðingar en á því er mikil nauðsyn á komandi árum.

 Það er margt sem breytist. Starfsumhverfið breytist, og eignar- og rekstrarform í framleiðslunni gerir það einnig. Því miður hefur landbúnaðarlöggjöfin ekki náð að fylgja þeim breytingum eftir. Það hefur til dæmis dregist of lengi að endurskoða jarða- og ábúðalög. Eignarhald lögaðila svo sem einkahlutafélaga á bújörðum og búrekstri er staðreynd og með hliðsjón af þróun í öðrum atvinnurekstri er full ástæða til að gera ráð fyrir að svo verði í vaxandi mæli í landbúnaðinum. Til þess liggja margar ástæður, m.a. skattalegar. Þegar svo háttar er vandséð hvernig löggjafinn getur gert persónubundnar kröfur eins gert er í jarðalögunum. Í framtíðinni er líklegt að jarðasölur verða í vaxandi mæli sala á hlutabréfum í félögum sem eiga jörð, en ekki sala á jörðum. Þá vakna ýmsar spurningar, svo sem  um forkaupsrétt sveitarfélaga.  Fleira mætti nefna svo sem ættaróðölin, en réttarstaða þeirra hefur verið í algjöru uppnámi sl. fjögur ár. Vissulega viljum við að löggjöfin stuðli að vexti og viðgangi landbúnaðar, en lagaákvæði sem var gott og gilt við ríkjandi þjóðfélagsaðstæður fyrir aldarfjórðungi, getur verið orðið dragbítur á eðlilega þróun í dag. Endurskoðun landbúnaðarlöggjafarinnar að þessu leyti má ekki dragast.

 

 

 Af reglugerðum sem komu til umsagnar á starfsárinu má nefna Reglugerð um skyldumerkingar búfjár og Reglugerð um mjólk og mjólkurvörur. Nú hefur verið sett reglugerð um skyldumerkingar annars búfjár en sauðfjár og er vel að ráðherra skuli hafa tekið af skarið í þessu efni. Í reglugerðinni er kveðið á um að allir kálfar sem fæðast eftir 1. janúar 2004 skuli merktir samkvæmt þeim kröfum sem settar eru í reglugerðinni. Jafnframt að allir nautgripir á Íslandi verði merktir árið 2005.   Í drögum að breyttri reglugerð um mjólk og mjólkurvörur er m.a. gert ráð fyrir verulega hertum kröfum varðandi frumutölu. Þeim drögum hefur verið andmælt en það málið kemur til umfjöllunar hér á fundinum.

 Þá fór fram kosning um NRF-tilraunina. Málið var kynnt í Bændablaðinu og á 14 bændafundum. Kjörseðlar voru sendir öllum starfandi kúabændum og þeim sem skráðir voru félagar í aðildarfélög LK eða búnaðarfélög. Þátttaka í kosninunni var mjög góð og niðurstaðan afgerandi.  Já sögðu 334 eða 25,0%, en nei sögðu 995 eða 75 %.  Í samræmi við niðurstöðu kosninganna var hætt við fyrirhugaða samanburðartilraun og  LK hætti öllum rekstri í Hrísey. Má segja að gengið hafi vel að ljúka þeim málum sem þurfti í tengslum við þessa niðurstöðu. Staða íslenska kúakynsins í samanburði við önnur kúakyn á Norðurlöndum hefur ekki breyst. Skýrslufærð meðalnyt íslenskra kúa var rétt um 4900 kg á síðasta ári. Á sama tíma var nokkurn vegin sambærileg meðalnyt í Noregi tæplega 6100 kg, nálægt 8000 kg í Danmörku og Finnlandi og tæplega 9000 í Svíþjóð. Hvaða skoðun sem við höfum á þætti erfða annars vegar og umhverfis hins vegar í þessum mismun í afköstum, þá er óhjákvæmilegt að mismunurinn hefur í för með sér kostnaðarauka, íslensku framleiðslunni í óhag.  En úr því að verið er að bera saman kýrnar, hvað þá um bændurna ?  Í umræðum um NRF-tilraunina var stundum á það bent að rétt væri að senda þá bændur til Noregs sem áhuga hefðu á afkastameira kúakyni. Þótt þetta væri í gamni sagt, þá er það nú eins og nunnan sagði þegar hún átti barnið; Öllu gamni fylgir nokkur alvara. Fagleg hæfni bænda ræður úrslitum um þróun og viðgang atvinnugreinarinnar til lengri tíma litið, rétt eins og í öðrum atvinnurekstri. Það er enginn einfaldur mælikvarði til á faglega hæfni íslenskra kúabænda í samanburði við norræna stéttarbræður okkar en tilfinningin segir mér að fagmennska í nautgriparækt á Íslandi hafi aukist umtalsvert síðusta áratug. Þar vegur mjög þungt að festa með frjálsræði hefur ríkt hefur í framleiðslustýringunni, en slíkar aðstæður eru að mörgu leyti forsenda faglegra framfara. Fyrir kúabændur skiptir það mestu nú að geta tileinkað sér nýja þekkingu því annars er stöðnunin vís.

 

 

 Sala mjólkurvara hefur gengið mjög vel og því voru forsendur til að hækka greiðslumark í 106 milljónir lítra fyrir næsta verðlagsár. Ef þær spár sem þessi greiðslumarksákvörðun byggir á, ganga eftir, þarf innanlandsmarkaðurinn prótein úr 109 milljónum lítra mjólkur á næsta verðlagsári. Hafa verður í huga að ekki liggur fyrir hver birgðastaðan verður um næstu verðlagsáramót. Ástæða er til að minna á að eins og þetta viðbótargreiðslumark kom ,,hægt og hljótt“, þá getur það horfið með sama hætti. Greiðslumarkið fer eftir því hvernig okkur gengur að markaðssetja afurðirnar. Það hefur gengið vel og yfir því getum við glaðst, en jafnframt þarf að sækja fram til að halda fengnum hlut.

 Sala nautakjöts hefur vissulega gengið nokkuð vel en þar er verðið of lágt. Í kjölfar ráðstefnu sem haldin var um málefni nautakjötsins voru teknar upp viðræður við landbúnaðarráðuneytið um hvernig hægt væri að greiða götu þessarar atvinnugreinar og tryggja neytendum aðgang að íslensku nautakjöti. Niðurstaða þessara viðræðna liggur ekki fyrir. Sú nýbreytni var tekin upp á á starfsárinu að opnaður var vefurinn kjöt.is, en það er tilraun til að ná með beinum hætti til neytenda. Kristín Linda Jónsdóttir sér um vefinn. Reynslan mun skera úr um það hverju þessi tilraun skilar, en viðbrögðin eru jákvæð.

 

 

 Verðlagning mjólkur var ekki mikið rædd á síðasta aðalfundi okkar. Ekki var það vegna þess að málið væri ekki brýnt, heldur vegna þess að fulltrúar voru sammála þá nýlegri ályktun stjórnar LK um nauðsyn þess að leiðrétta mjólkurverð vegna verðhækkana á aðföngum. Verðlagningin varð óvenjulega erfið síðasta haust. Kom þar einkum tvennt til; Annars vegar kom upp réttaróvissa um stöðu búvörulaga gagnvart samkeppnislögum að því gefnu að opinberri verðlagningu á heildsölustigi væri hætt svo sem búvörusamningur mælti fyrir um að gerast ætti 30. júní 2001. Hins vegar var verðbólga meiri en verið hafði mörg undangengin ár og hækkunartilefni því meiri en svo að gerlegt væri að bíða til áramóta með leiðréttingu á mjólkurverði. Þar var hins vegar þungt fyrir fæti.

 Að því er réttaróvissuna varðar, þá var þar brugðist við með því að gera viðauka við búvörusamninginn. Með þessum viðauka var því frestað til 30.6.2004 að hætta verðlagningu mjólkur á heildsölustigi. Er ástæða til að þakka stjórnvöldum og öðrum sem að málinu komu fyrir þeirra þátt í lausn málsins. Það verður þó að segjast að þetta er biðleikur og eftir er að finna það form samspils búvörulaga og samkeppnislaga sem tryggir  þá verkaskiptingu sem er svo nauðsynleg í mjólkuriðnaðinum. Þessi óvissa tengist mjög hugsanlegum viðræðum um nýjan mjólkursamning nú á haustdögum.

 Hvað varðar leiðréttingu mjólkurverðs vegna kostnaðarhækkana, þá varð það niðurstaðan að hækka mjólkurverð um 7 % frá 1. nóvember sl. Mjólkursamlögin tóku á sig hækkunina til áramóta. Umrædd hækkun dugði ekki til að mæta öllum kostnaðarauka við framleiðsluna sem orðið hafði vegna verðbólgu, og var mismunur í grundvellinum sem nemur ca. 50 aurum á líter.

 Við það er miðað að næsta leiðrétting á mjólkurverði verði um næstu áramót. Hafa ber í huga að við verðlagningu undangengin missiri hefur mjólkuriðnaðurinn ekki fengið uppi bornar allar hækkanir sem framreikningur á verðlagsmódeli iðnaðarins hefur mælt. Afkoma iðnaðarins hefur hins vegar verið með það góð að hægt hefur verið að láta hann taka á sig hluta af hækkunarþörfinni. Ekki liggur fyrir samræmt uppgjör iðnaðarins fyrir árið 2001, en telja verður líklegt að það sýni versnandi afkomu frá árunum 1999 og 2000 sem nemur hundruðum milljóna. Því er ólíklegt að við næstu verðlagningu verði hægt að ganga mikið lengra í að láta mjólkuriðnaðinn taka á sig verðhækkanir. Viðhorf gagnvart verðbreytingum hefur breyst talsvert síðustu mánuði og því ekkert gefið um það hvernig gengur með leiðréttingar á mjólkurverði um næstu áramót. Það er hins vegar ljóst að kúabændur lenda í miklum erfiðleikum ef mjólkurverð verður ekki leiðrétt í samræmi við kostnaðarhækkanir. Fjárhagslegt þanþol flestra kúabænda er mjög takmarkað.

 

 

 

 Í framhaldi af ályktun síðasta aðalfundur og raunar fyrri funda, um fyrirkomulag beinna greiðslna og útreikning greiðslumarks, hélt stjórnin áfram umfjöllun um málið. Gerð var tillaga um málið til Framkvæmdanefndar búvörusamninnga og síðan var sú skipan fest í reglugerð. Svokölluð C-greiðsla er áfram 15 %, en skiptingu á mánuði breytt til að stuðla að jafnari innvigtun. Þá var einnig gerð tillaga um breytingu á reglugerð þess efnis að sveigjanleiki við verðlagsáramót verði aukinn. Landbúnaðarráðuneytið taldi ekki fært að verða við þeirri beiðni.

 

 

 

 

 Eftir útkomu RANNÍS-skýrslunnar sl. haust ákvað stjórn LK að gangast fyrir vinnu að stefnumörkun fyrir nautgriparæktina. Stjórn félagsins og fulltrúar LK í fagráði nautgriparæktar hafa unnið að verkinu og einnig var það rætt á formannafundi sl. vetur. Segja má að til hliðar og í framhaldi af þeirri vinnu hafi komið fram sú skoðun að rétt væri að óska eftir nokkurri flýtingu á gerð nýs samnings um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar. Málið var rætt á vettvangi Landssambands kúabænda, Bændasamtaka Íslands og Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Einnig fóru fram nokkrar viðræður við stjórnvöld. Í sumar var síðan sent formlegt erindi þar sem óskað er eftir því að viðræður um næsta mjólkursamning hefjist sem fyrst og stefnt að því að ljúka samningagerð fyrir áramót. En hvers vegna nýjan samning nú ?

 Meginrökin eru þau að það skiptir nautgriparæktina mjög miklu máli að hafa á hverjum tíma sem skýrasta framtíðarsýn.  Í samningi bænda við ríkisvaldið er samið um stuðning ríkisins við mjólkurframleiðsluna, tollvernd, og helst leikreglur framleiðslustýringar í greininni, en þetta eru grundvallaratriði fyrir bændur í allri ákvarðanatöku sinni. Í allri ákvarðanatöku sinni þurfa kúabændur að horfa til mjög langs tíma og öll vitum við að gerðar eru kröfur til þess að ákvarðanatakan sé vönduð. Til þess að svo geti orðið þurfa helstu forsendur að vera til staðar og þar eru þau atriði sem ákveðin eru í samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar tvímælalaust mikilvægust. Ekki liggur fyrir hver afstaða stjórnvalda er til málsins og því ekki ljóst hvert framhaldið verður. Það er þó ljóst að tíminn til að gera þetta með þessum hætti er naumur og í reynd er spurningin um það hvort samkomulag næst um nánast óbreyttan samning. Það er líka rétt að gera sér grein fyrir því að ef þau sjónarmið sem að framan voru rakin um nauðsyn þess að semja í haust verða ekki þau sem ráða ferðinni, þá eru litlar líkur á að samið verði á næsta ári heldur. Líklegast er þá að ferlið fari í svipað horf og var í síðustu samningum þegar gengið var frá samningi í desember 1997 með gildistöku 1. september 1998. Þessi mál skýrast kannski strax með ræðu landbúnaðarráðherra hér síðar á fundinum, í öllu falli á allra næstu vikum.

 Þau atriði sem um er samið í samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar eru svo þýðingarmikil fyrir marga grundvallarþætti mjólkurframleiðslunnar að stjórn LK taldi einsýnt að ekki væru efni til að afgreiða á þessum fundi stefnumörkun nautgriparæktarinnar að öðru leyti en því sem felst í þeirri samþykkt sem gerð verður um áherslur í nýjum samningi. Stefnumörkunarvinnu verði að öðru leyti frestað.

 Í tillögu þeirri sem stjórn LK leggur fyrir þennan aðalfund segir m.a.;

,,Lögð er áhersla á að samningurinn verði framlengdur óbreyttur hvað varðar stuðning við mjólkurframleiðsluna og tollvernd. Sama gildir um leikreglur framleiðslustýringar, en fundurinn telur ástæðu til að skoðaðar verði eftirfarandi breytingar:

 

Viðskiptahættir með greiðslumark verði teknir til endurskoðunar.

Sveigjanleiki við verðlagsáramót verði aukinn.

Heimilaður verði samrekstur greiðslumarkshafa þannig að hægt sé að nýta greiðslumark eins lögbýlis að hluta eða öllu leyti með framleiðslu á öðru lögbýli.

 

Sett verði ákvæði í samninginn um að nefnd samningsaðila geti gert breytingar innan rammans, ef um það næst full samstaða. (Samningsaðilar eru: Landbúnaðarrráðneyti, Fjármálaráðneyti, Landssamband kúabænda og Bændasamtök Íslands). Með þessu fyrirkomulagi væri óvissu kúabænda að mestu eytt og jafnframt haldið opnum þeim möguleika að gera breytingar innan rammans ef samningsaðilar verða sammála um það“.

 Í þessari síðust málsgrein er viðrað það nýmæli að semja um heildarrammann en að síðan verði hægt að gera breytingar innan hans á samningstímanum. Í ljósi þess að enn er nokkuð eftir af gildistíma núverandi samnings og margt óljóst um framhaldið hvað varðar alþjóðasamninga ofl., er eðlilegt að hafa möguleika á slíkum breytingum ef samningur verður gerður nú fljótlega.

 

 Í aðdraganda þess að óskað var eftir viðræðum um nýjan samning hefur eðlilega verið skipst á skoðunum um það hvar nautgriparæktin stendur og hvert hún stefnir.

 

 Eðlilega kemur upp spurningin hvort þörf sé á að viðhalda kvótakerfinu í mjólkurframleiðslunni. Hvort mjólkurframleiðslan geti ekki farið ,,fjárgötuna“,  það er lagt af framleiðslustýringu eins og gert hefur verið í sauðfjárræktinni ?  Gróflega reiknað er áætlaður framleiðslukostnaður hvers kílós af algengasta flokki kindakjöts hátt á fimmta hundrað krónur. Fyrir þann hluta framleiðslunnar sem fer á erlendan markað hefur bóndinn fengið að meðaltali ca. 170 – 180 kr/kg. Þegar gæðastýring í sauðfjárræktinni verður komin í umsamið hámark gæti greiðsla ríkisins á hvert útflutt kíló dilkakjöts sem þannig er framleitt numið nálægt 60 kr/kg. Gróft reiknað gæti sauðfjárbóndinn því fengið samanlagt fyrir útflutt dilkakjöt, um helming af reiknuðum framleiðslukostnaði. Þar sem ekki er í gangi reglubundinn útflutningur mjólkurafurða, eru ekki tiltæk sambærileg verð. Þó er ljóst að því fer fjarri að útflutningur mjólkurafurða skili þetta háu hlutfalli af framleiðslukostnaði enn sem komið er. Þar til betri markaðir finnast verðum við að horfast í augu við að framleiðsla mjólkur til útflutnings er ekki skynsamleg. Af því leiðir að óhjákvæmilegt virðist að viðhalda kvótakerfinu, enda hefur það vissulega tryggt einstaklega vel jafnvægi framleiðslu og sölu þann áratug sem það hefur verið notað.  Jafnframt er að sjálfsögðu nauðsynlegt að leyta áfram arðgæfra markaða erlendis fyrir sérvöru úr íslenskri mjólk.

 Þá er líka eðlilegt að velta fyrir sér hvort betra sé að beina stuðningi ríkisins í annan farveg en nú er. Er þá horft til þess að greiða stuðning á hvern grip, ræktarland eða býli.

 Að því er varðar stuðning á hvern grip eða hverja flatareiningu lands, þá virðist hvort tveggja óskynsamlegt. Þeirri grunnspurningu er ósvarað hvort verðlauna eigi fyrir fáa eða marga gripi, og fyrir fáa eða marga hektara lands. Þar fyrir utan þyrfti að setja upp sérstakt eftirlitskerfi ef nota ætti landið sem greiðslugrunn. Slíkt stuðningsform yrði augljóslega flóknara og ómarkvissara en það stuðningsform sem notað er í dag.

 Hvað varðar hugsanlegan stuðning á hvert býli, sem yrði þá væntanlega sama upphæðin á þau öll, þá verður ekki séð að slíkt form leysi neinn vanda. Slíkur stuðningur yrði að sjálfsögðu að vera framseljanlegur milli jarða. Að því gefnu yrði það einvörðungu til skapa flækjur um hvaða jörð ætti rétt og hver ekki.  Þessu til viðbótar er veruleg hætta á að stuðningsformi af þessu tagi fylgi minnkuð tilfinning fyrir nauðsyn hagræðingar í greininni. Það gildir það sama um mjólkurframleiðsluna og Guðmundur Harðarson sagði nýlega um sundmennina; Þeir sem ekki batna, dragast afturúr“.

 Líklega eru þó þýðingarmestu rökin fyrir núverandi formi stuðnings við mjólkurframleiðsluna, að tryggt er að hver króna sem til þessa verkefnis er varið, kemur til lækkunar á vöruverði til neytenda. Það er sú grunnforsenda sem samkomulag varð um í þjóðarsáttinni um 1990 og hefur haldist svo síðan. Væri farið að greiða stuðning með einhverjum þeim hætti sem hér var nefndur, er vandséð hvernig ætti tryggja ætti að slíkur stuðningur komi neytendum að fullu til góða.

 

 Niðurstaðan er þessi: Við búum við skipulag sem tryggir gott jafnvægi framleiðslu og sölu, skipulag sem tryggir þróunarmöguleika greinarinnar án handstýringar, skipulag sem tryggir að stuðningurinn kemur allur neytendum til góða. Á þessu er mikill skilningur á þessu meðal bænda og góður stuðningur meðal þeirra við að fara fram á óbreytt skipulag í komandi samningum við ríkisvaldið.

 

 Í tengslum við stefnumörkunina hefur að sjálfsögðu einnig verið litið til þess hvað aðrar þjóðir eru að gera. Samandregið má orða niðurstöðuna af því með þessum hætti;  Það er mikil óvissa um framtíðina. Það er óvissa um með hvaða hætti heimsviðskipti með búvörur munu fara fram og hvaða sameiginlegar skorður verða settar um stuðning einstakra þjóðríkja við sinn landbúnað. Það er mikil óvissa um hvaða leið Evrópusambandið fer með málefni landbúnaðar innan sinna vébanda. Stækkun sambandsins til austurs virðist óhjákvæmilega kalla á breytingar en hverjar þær verða er ekki ljóst. Áherslur einstakra ríkja eru breytilegar. Þannig fylgir Noregur talsvert annarri stefnu en Danmörk svo dæmi sé tekið. Raunar hafa verið verulegar umræður í Noregi um  norsku landbúnaðarstefnuna og virðist þeim fara fjölgandi sem telja að hún sé að sumu leyti komin í sjálfheldu stöðnunar. Þróun í mjólkurframleiðslu í Danmörku hefur verið mjög hröð og atvinnugrein öflug. Það er hins vegar umhugsunarefni fyrir okkur að svo virðist sem danskir starfsbræður okkar sjái framtíðina þannig að afurðaverðið geti bara lækkað. Spurningin sé um hversu mikilli framleiðniaukningu sé mögulegt að ná í búrekstrinum, og hversu mikilli hagræðingu sé hægt að ná í mjólkuriðnaðinum. Aðeins þeir bændur sem séu nokkuð góðir fyrir og haldi áfram að bæta sig, geti haft von um viðunandi afkomu. Þetta sjónarmið er þess alvarlegra að danskir bændur virðast vera miklir raunsæismenn.

 

 Í framhaldi af þessu er óhjákvæmilegt að minna á þá miklu umræðu sem orðið hefur síðustu mánuði um hugsanalega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Enginn vafi er á því að slík aðild myndi kollvarpa núverandi forsendum nautgriparæktar á Íslandi og liggur þá í augum uppi hver hlýtur að vera afstaðan til málsins. Hitt hefur raunar farið miklu hljóðar að í samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði sem Ísland er aðili að, kemur fram sá vilji að ræða frekari tollalækkanir í viðskiptum með landbúnaðarvörur milli aðila samningsins. Því má segja að þótt okkur gangi heldur vel nú, þá er óvissa um framtíðina.

 

Um leið og ég lýk þessari skýrslu til aðalfundar Landssambands kúabænda árið 2002, vil ég þakka öllum þeim fjölmörgu sem hafa átt samskipti við Landssamband kúabænda á liðnu starfsári. Einnig þeim félögum mínum í stjórninni, þeim Birgi Ingþórssyni, Agli Sigurðssyni, Gunnari Sverrissyni, Kristínu Lindu Jónsdóttur, og varamönnunum, þeim Sigurgeir Pálssyni og Gunnari Jónssyni, sem og  Snorra Sigurðssyni, framkvæmdastjóra,  fyrir gott samstarf á liðnu starfsári.

 

 Megi aðalfundur Landssambands kúabænda skila góðu verki.