Beint í efni

Aðalfundur RM haldinn í morgun

05.03.2004

Í morgun var haldinn aðalfundur Rannsóknarstofu mjólkuriðnaðarins. Á fundinum var gerð grein fyrir helstu þáttum í rekstri stofunnar á liðnu ári, en árið 2003 komu rúmlega 42 þúsund innleggssýni til rannsókna. Margfeldismeðaltal frumutölunnar hérlendis var 237 þúsund/ml. Fram kom að ef hérlendar niðurstöður eru bornar saman við hin Norðurlöndin er Ísland nú orðið lægra en Danmörk (238 þúsund/ml), en Finnland, Noregur og Svíþjóð liggja undir 200 þúsundum/ml. 

Hérlendis reyndist margfeldismeðaltal frumutölu vera lægst hjá samlaginu í Búðardal (209 þúsund/ml) en hæst í Vopnafirði (274 þúsund/ml).

 

Niðurstöður gerlaflokkunar árið 2003 eru óbreyttar frá fyrra ári, en 99,5% sýna lentu í 1 fl. og telst það mjög góður árangur.  

 

Venju samkvæmt voru kýrsýni bænda í skýrsluhaldi fjölmörg, eða tæplega 99 þúsund. Af þeim voru 84,3% með lægri frumutölu/ml en 500 þúsund. Undanfarin ár hefur þessum sýnum fækkað nokkuð og hefur nú verið ákveðið af stjórn SAM (Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði) að beina því til aðildarsamlaga félagsins að fjölga sýnatökum úr 8 í 10 á ári. Þetta bætir verulega þann grunn sem notaður er í kynbótaskýrsluhaldinu, sem og gerir bændum auðveldara að fylgjast með sínum gripum.

 

Af tæplega 9.200 sýnum sem komu til sýklagreininga hjá RM, greindust 63,4% þeirra vera með sýkla. Algengustu sýklar (84%) reyndust að vanda Staf. aureus og CNS. Penicillínónæmi Staf. aureus reyndist vera í 36,5% tilfella, en árið 2002 var það hlutfall 30,8%. Rétt er að geta þess að hlutföllin gefa ekki heildarmynd af öllu landinu, þar sem sýklagreiningar fara fram á fleiri stöðum en hjá RM.

 

Líkt og fyrri ár er ávalt reglulega kannað með útbreiðslu á Str. agalactiae (fl. B) og reyndust 4,3% sýna vera jákvæð á öllu landinu.