Beint í efni

Aðalfundur LS haldinn í Bændahöll

29.03.2012

Landssamtök sauðfjárbænda (LS) halda aðalfund sinn í Bændahöllinni í Reykjavík dagana 29. og 30 mars. Fjöldi mála er á dagskrá fundarins, m.a. sem lúta að búvörusamningum, landnýtingu, rannsóknum í sauðfjárrækt og kjaramálum.

Sindri Sigurgeirsson, formaður LS, mun ekki gefa kost á sér til áframhaldandi formennsku í samtökunum. Kosning um nýjan formann verður fyrir hádegi á föstudag. Tveir frambjóðendur hafa boðið sig fram en þeim gæti þó fjölgað fyrir kosninguna. Þeir eru Þórarinn Ingi Pétursson bóndi á Grýtubakka í Grýtubakkahreppi og Einar Ófeigur Björnsson bóndi í Lóni í Kelduhverfi . Þórarinn hefur setið í stjórn LS frá 2007 og er nú varaformaður samtakanna. Hann er jafnframt formaður fagráðs í sauðfjárrækt. Einar hefur starfað lengi að málefnum sauðfjárbænda og á nú sæti í varastjórn samtakanna. Einar er jafnframt formaður deildar sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi N-Þingeyjarsýslu sem er eitt aðildarfélaga LS.

Aðalfundurinn verður settur kl. 10:00 í dag, fimmtudag, og stendur fram eftir degi. Nefndarstörf hefjast síðdegis og kl. 19:30-21:00 er ætlunin að taka til afgreiðslu þau mál sem tilbúin eru frá nefndum. Fundur hefst að nýju kl. 9.00 föstudaginn 30. mars og stendur fram að hádegi. Í lokin verður kjörinn formaður og stjórnarmaður fyrir Suðurland. Eftir hádegi hefst opið málþing um ræktunarmarkmið í sauðfjárrækt en það verður jafnframt sent út í beinni útsendingu á vefsíðu samtakanna, saudfe.is. Árshátíð samtakanna verður síðan haldin á föstudagskvöldið í Súlnasal en fyrir löngu er uppselt á þá vinsælu samkomu.