Beint í efni

Aðalfundur LK varar sterklega við hugmyndum um ábúðaskyldu

29.03.2011

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Hótel KEA  25. – 26. mars 2011, varar sterklega við hugmyndum um ábúðaskyldu á bújörðum og lögþvingaða notkun ræktarlands. Engin haldbær rök eru fyrir því að grípa þurfi til svo íþyngjandi og harkalegra aðgerða. Eðlilegt er að sú verndun lands sem nauðsynleg og óhjákvæmileg er til að tryggja möguleika til matvælaframleiðslu sé byggð á grunni skipulags- og byggingalaga.
 

Greinargerð:
Þegar sauðfjársamningur var undirritaður 1. október 1995, fylgdi honum sérstök bókun um nauðsyn þess að Jarðsjóður keypti þær jarðir sem bændur gætu ekki selt á frjálsum markaði. Það er því ekki svo langt síðan það var viðurkennt vandamál að jarðarverð væri of lágt og jarðir stundum óseljanlegar. Þá kom iðulega fyrir að inngrip í viðskipti með jarðir á grundvelli jarðalaganna frá 1976 voru dæmd ólögmæt og megn óánægja með ákvæði laganna varð til þess að þau voru tekin til endurskoðunar á Alþingi 2004. Þegar mælt var fyrir nýjum jarðalögum á Alþingi árið 2004, sagði m.a. í framsöguræðu landbúnaðarráðherra. ,,Með ákvæðum þessa frumvarps er stefnt að því að færa löggjöf um jarðir í átt til nútímans og að samræma eins og unnt er eignarrétt og umsýslu jarða þeim meginreglum sem gilda um aðrar fasteignir í íslenskri löggjöf. Eins og áður hefur verið gerð grein fyrir eru í gildandi löggjöf verulegar takmarkanir á ráðstöfunarrétti jarðeigenda og ýmsar kvaðir lagðar á þá sem geta verið mjög íþyngjandi og hafa oft í framkvæmd reynst ósanngjarnar. Með frumvarpi þessu er ætlunin að bæta að nokkru leyti úr þessum annmörkum án þess að gengið sé lengra en þörf krefur“. Í frumvarpi þessu eru einnig nokkrar breytingar sem eiga rætur að rekja til þess að Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert ýmsar athugasemdir við nokkur ákvæði jarðalaga nr. 65/1976 og telur þau brjóta gegn samningnum um Evrópska efnahagssvæðið’’.
 
Niðurstaðan varð sú að lagafyrirmæli um viðskipti með jarðir tryggja að mörgu/flestu leyti sambærilegt umhverfi og gildir um viðskipti með aðrar fasteignir. Þannig gilda hliðstæð ákvæði um rétt bænda til að kaupa íbúð í þéttbýli og nýta hana að vild fyrir sig og sína fjölskyldu, eins og um rétt þéttbýlisbúa til að kaupa bújörð og nýta hana í samræmi við sínar þarfir. Leggja verður mikla áherslu á að á báðum stöðum gilda ákvæði skipulags- og byggingalaga sem eiga að leggja almennar línur um landnotkun. Sú verndun lands sem nauðsynleg og óhjákvæmileg er, m. a. til að tryggja möguleika til matvælaframleiðslu, hlýtur því að verða byggð á grunni skipulags- og byggingalaga.
 
Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að land jarðar getur verið nýtt með margvíslegum hætti, hvort heldur er til matvælaframleiðslu, annars landbúnaðar eða tómstunda, hvort sem ábúð er á viðkomandi jörð eða ekki. Sá sem nýtir jörðina á þá sitt heimili þar sem hann telur heppilegast. Það er því rangt að ábúð á jörð sé forsenda nýtingar á landi viðkomandi jarðar til matvælaframleiðslu. Þá verður að geta þess að nútíma búrekstur krefst mun meira landrýmis en sá búrekstur sem stundaður var í landinu þegar það skiptist í jarðir og lögbýli. Af þessu leiðir að fjölmargir bændur eru háðir því að nýta fleiri eina bújörð í sínum rekstri, röskun á þessum sjálfsagða rétti vinnur því gegn búsetu og matvælaframleiðslu. Þá er jarðarstærð í sveitum mjög misjöfn og valdbeiting af þessu tagi myndi því koma því afar misjafnt niður eftir sveitum og héruðum. Meðal annars vegna þessa verður ekki betur séð en aðgerð af þessu tagi væri algjörlega í andstöðu við markmið samkeppnislaga. Þá er vandséð að slíkar þarflausar hindranir á nýtingu eignar fái samrýmst eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar.
 
Gróðurmoldin er mikilvægasti grunnur matvælaframleiðslu landbúnaðarins. Hana þarf að nýta af skynsemi og horfa bæði til framtíðar, og þess hvernig öðrum þjóðum hefur tekist til. Þess eru dæmi að þjóðir sem eiga frá náttúrunnar hendi frjósamt land, búi við fæðuskort. Óstjórn, en þó öllu fremur ofstjórn og virðingarleysi fyrir eignarréttinum og jafnvel öðrum mannréttindum, eru gjarnan helsta ástæða þess að slíkt gerist. Við lagasetningu er því mikilvægt að byggja á faglegum forsendum og læra af reynslu annarra þjóða.
 
Í umræðu um íslenskan landbúnað er hugtakið Matvælaöryggi æ oftar nefnt og er það eðlilegt. Matvælaöryggi/fæðuöryggi er hugtak sem hefur mikið innihald og vísar til grunnþarfa mannsins. Landssamband kúabænda vara alvarlega við að þetta mikilvæga hugtak sé gengisfellt með því tengja það um of við pólitíska vinda á hverjum tíma. Þetta er þvert á móti hugtak sem þarf að standa á faglegum grunni, ofar pólitísku dægurþrasi.
 
Landssamband kúabænda leggur mikla áherslu á að ef setja þarf einstaklingum og/eða fyrirtækjum skorður hvað varðar fjölda bújarða sem viðkomandi aðili getur átt, verði að gera það með sértækum ákvæðum um hámarksfjölda jarða sem sami aðili eða tengdir aðilar mega eiga, en ekki með ákvæðum sem valda fjölda venjulegs fólks stórfelldum vandræðum og eignaskerðingu.