Beint í efni

Aðalfundur LK var settur kl. 11, með ræðu Þórólfs Sveinssonar formanns LK

21.08.2001

Nú fyrir skömmu var aðalfundur LK settur í félagsheimilinu Skjólbrekku við Mývatn, með ræðu Þórólfs Sveinssonar formanns LK:

 

 

Ræða Þórólfs Sveinssonar; 

 

 Ágætu fulltrúar;  Góðir gestir.

 

  Ég vísa til framlagðra gagna um störf Landssambands kúabænda frá síðasta aðalfundi. Skýrsla um störf stjórnar og framkvæmdastjóra hefur verið send til fulltrúa, sem og skýrsla um störf fagráðs í nautgriparækt. Þessar skýrslur eru nokkuð ýtarlegar og því verður umfjöllun um félgsstarfið stillt í hóf í þessari ræðu.

 

Litið til baka

  Segja má að nú sé lokið líflegu starfsári hjá Landssambandi kúabænda og umræða um nautgriparækt og nautgripaafurðir hefur einnig verið óvenjumikil. Á þessu starfsári gerðist það í  fyrsta skipti að neytendum stóðu til boða nautgripaafurðir sem þeir töldu sig hafa ástæðu til að tortryggja. Hér er að sjálfsögðu átt við innflutning á hráu kjöti frá landi þar sem kúariða hefur verið vandamál. Jafnframt höfum við fylgst með gegnum sjónvarpið hvernig nautgripir stéttarbræðra okkar í Bretlandi hafa verið brenndir í haugum vegna baráttunnar við Gin og klaufaveiki sem þar hefur geisað. Það verður seint ofmetið hversu mikilvægt það er að lágmarka hættu á því að skæðir búfjársjúkdómar berist til landsins.

  Þróun í nautgriparæktinni heldur áfram, þar sem framfarahugur bænda er drifkrafturinn og fjárfestingar voru með mesta móti á síðasta ári.

 

 

Nautakjötið

  Tekjur kúabænda koma annars vegar frá nautakjöti og hins vegar frá mjólkinni. Hvað nautakjötið varðar, þá hefur gengið erfiðlega á liðnu starfsári og staðan er þannig að framlegð nautakjötsins er óviðunandi. Þar ber margt til og örugglega er ágreiningur um hvaða þáttur vegi þyngst.

·        Í fyrsta lagi er harðnandi verðsamkeppni á kjötmarkaðnum, einkum við svínakjöt og kjúklingakjöt sem hvort tveggja hefur lækkað í verði undangengin ár.

·        Í öðru lagi eru sagðir vera langir biðlistar eftir slátrun nautgripa og það skapar þrýsting á verðið.

·        Í þriðja lagi hefur vöruþróun í nautgripakjöti ekki verið nægilega mikið sinnt undangengin ár. Skortur á vöruþróun dregur úr neyslu til lengri tíma litið.

·        Í fjórða lagi hefur orðið mikil samþjöppun á smásölumarkaðnum og vald verslunarinnar hefur þar með aukist mikið.

·        Í fimmta lagi eru síðan vandamál sem vonandi eru tímabundin vegna rekstrarerfiðleika Goða, nú Kjötumboðsins.

 

Nú ber að hafa í huga að framleiðsla nautgripakjöts og markaður með það er frjáls og án nokkurrar stýringar. Möguleikar Landssambands kúabænda til áhrifa á markaðinn einskorðst að mestu við ráðstöfun þeirra fjármuna sem innheimtir eru sem verðskerðingargjald, og í ljósi afskipta Samkeppnisstofnunar af búvörum árinu er ljóst að þeim áhrifum eru skorður settar.

·        Sé nú litið á þá þætti sem fyrr eru taldir, þá er ljóst að lækkandi verð svína- og kjúklingakjöts er breyting á markaði sem ekki verður við ráðið.

·        Hvað varðar biðlistana, þá er enginn vafi á að þegar þyngist að koma gripum í slátrun, lengjast biðlistar vegna þess að pantað er fyrr fyrir gripi og hjá fleiri aðilum. Þetta eru eðlileg viðbrögð bænda, en afleiðingin verður að vandamál í slátrun eru alltaf ýkt upp þegar þau eru til staðar.  Hér væru skyldumerkingar nautgripa ómetanlegt hjálpartæki og enginn vafi að það veldur kúabændum milljóna tapi ár hvert að skyldumerkingarnar skuli ekki komast á.  Þá er það mjög slæmt hversu lítill hluti af nautakjötsframleiðslunni er framleiddur á grundvelli samnings við ákveðinn sláturleyfishafa. Ástandið hjá sláturleyfishöfum gerir slíkt vissulega erfitt, en núverandi form þar sem gripir eru fluttir landið þvert og næstum endilangt til slátrunar, getur aldrei tryggt þá festu í þessa framleiðslu sem nauðsynleg er.

·        Ekki liggur fyrir hvers vegna vöruþróun í nautgripakjöti hefur ekki verið sinnt sem skyldi. Þeir fjármunir sem innheimtir hafa verið í verðskerðingagjöld hafa að talsverðu leyti staðið til boða í þetta verkefni. Ýmislegt hefur verið gert sem skilað hefur árangri, en ekki nægilegum til að framlegð nautgripakjötsins sé viðunandi.

·        Samþjöppun í smásöluverslun verður aðeins mætt með samþjöppun í slátrun og vinnslu.

·        Rekstrarerfiðleikar Goða eru öllum kunnir. Það mun hafa verið um miðjan júni sl. sem  vanefndir Goða á greiðslum fyrir innlegg urðu ljósar. Síðan var sprengjunni kastað á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda 28. júní. Goði hefur aldrei reynt að taka kúabændur í gíslingu með sama hætti og sauðfjárbændur, og því hafa samskipti og samningaviðræður við fyrirtækið verið með öðrum hætti af hálfu Landssambands kúabænda en Landssamtaka sauðfjárbænda og Bændasamtaka Íslands. Af hálfu forsvarsmanna Goða var það fullyrt að engin tapáhætta væri á kröfum kúabænda hjá fyrirtækinu. Þetta kom fram í persónulegum viðtölum og reyndar líklega einnig í fjölmiðlum. Greiðslurnar kæmu, þó ekki fyrr en eftir ágústmánuð. Á fundi sem haldinn var 16. ágúst sl. var lögð fram óundirrituð greinargerð um eignir og skuldir Goða, nú Kjötumboðsins. Að mínu áliti verður ekki ráðið af umræddri greinargerð að mat forsvarsmanna Goða á efnahgslegri stöðu fyrirtækisins hafi verið rétt. Því miður er mjög óljóst hvaða greiðslur muni koma upp í kröfur kúabænda á hendur fyrirtækinu. Til viðbótar eru svo þeir erfiðleikar sem kúabændur í einstökum landshlutum hafa lent í vegna erfiðleika við að koma gripum í slátrun. 

ÖEn hvað lærdóm getum við dregið af þessu máli ?  Það er staðreynd að

     afurðasalan er grundvallaratriði í tekjuöflun bænda. Þeir sem koma að

     afurðasölunni, hvort heldur er hinn einstaki bóndi sem hefur sínar

     skoðanir og kýs fulltrúa á aðalfundi, aðalfundarfulltrúar eða

     stjórnarmenn í afurðastöðvum, allir bera þessir aðilar mikla ábyrgð.

     Mikilvægi ákvarðanatöku í afurðasölu bænda hefur verið og er

     því miður enn, stórlega vanmetið.

 

 Það er mikið um misvísandi skilaboð í tengslum við nautakjötið og gildir það um flesta þætti í framleiðslu og meðferð. Sú framlegð sem nú er í nautakjöti sýnist ekki duga til að framleiðslan gefi laun og vandséð hvernig framleitt verður áfram á þessum forsendum. Um þetta erum við líklega flest sammála. Þessi fullyrðing er hins vegar í algerri mótsögn við það að langir biðlistar skuli vera eftir slátrun. Langir biðlistar eru merki um það að nægilega margir bændur telji þá tekjuvon í framleiðslunni að þeir setja á eða kaupa kálfa.

 Það sem þessi fundur þarf að ræða, til viðbótar því að álykta um skyldumerkingarnar, er hvernig skuli verja því fé sem innheimt er sem verðskerðingargjald af nautgripakjöti. Ráðstöfun þess fjár er nánast eina stjórntæki kúabænda á þessum markaði og þeim ráðstöfunun eru eins og fyrr var sagt, skorður settar vegna samkeppnislaga.

 

Mjólkin

 Sala mjólkurvara hefur gengið vel og því voru forsendur til að hækka greiðslumark í 104 milljónir lítra fyrir næsta verðlagsár. Ekki má gefa sér að það greiðslumark haldist þannig áfram.

 

A.   Verðlagning

Gengið var frá nýjum verðlagsgrundvelli um síðustu áramót. Verðið hækkaði þá um 5 % og samkomulag varð í Verðlagsnefnd um að það verð skyldi gilda út ágúst. Verðlagsgrundvöllurinn hefur verið kynntur hjá flestum kúabændafélögunum og verður ekki ræddur frekar hér. Verðbólga á árinu 2001 hefur verið verulega umfram það sem búist var við og því er það mat stjórnar LK að ekki sé viðunandi að bíða til áramóta með leiðréttingar á mjólkurverði. Vegna áfrágenginna mála er lúta að verðtilfærslum og fleiri þáttum er snerta afnám heildsöluverðs á mjólk og mjólkurvörum, er ekki fært að breyta verðum 1. september n.k. Í gildandi búvörusamningi er skýrt ákvæði þess efnis að hætta skuli verðlagningu mjólkur og mjólkurvara á heildsölustigi. Jafnframt eru skýr ákvæði um að verðtilfærsla milli afurða sé heimil, sem og verkaskipting milli afurðastöðva. Nú er uppi óvissa um hvaða réttarreglur gilda um verðtilfærslu og verkaskiptingu við afnám heildsöluverðlagningar.  Þess er vænst að síðast í þessum mánuði geri landbúnaðarráðuneytið grein fyrir afstöðu sinni til málsins. Jafnframt er beðið tillagna Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði um  nýja skipan verðtilfærslu. Áhersluatriði kúabænda við þessar aðstæður er að áfram verði mögulegt að framleiða úr íslensku hráefni allar vörutegundir sem íslenski mjólkurvörumarkaðurinn þarfnast og þannig staðið við ákvæði Samnings um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar frá 1998.  Stjórn LK hefur formlega óskað eftir endurskoðun verðs þann 1. október n.k., og að mjólkurverð verði þá fært til þess horfs er framreikningur sýnir. Líklegt er að framreikningur sýni þá þörf á 7 – 9 % hækkun á framleiðendaverði mjólkur.

 

B.   Ráðstöfun beinna greiðslna

Síðasti aðalfundur LK ályktaði um fyrirkomulag beinna greiðslna og útreikning greiðslumarks. Talsverð vinna hefur verið lögð í þetta mál og lauk með því að gerð var tillaga um breytta ráðstöfun. Sú tilhögun hefur nú verið fest í reglugerð. Ágústmánuður í fyrra var lægsti mánuður í innvigtun frá því núverandi skipulag var tekið upp 1992, og fór niður fyrir það sem er viðunandi. Þess er vænst að með þeim breytingum sem nú hafa verið gerðar, muni innvigtun jafnast. Það er engum til góðs að innvigtun einstakra mánaða sé of mikill og enn verra ef innvigtun fer niður fyrir þarfir markaðarins.

 

C.   Hvað er framundan ?

Nú þegar langþráð RANNÍS-úttekt liggur fyrir er rétt að horfa fram á veginn og velta fyrir sér hvað hægt er að gera til að styrkja nautgriparæktina til framtíðar litið. Í mínum huga er enginn vafi á að helsti veikleiki nautgriparæktarinnar er hár framleiðslukostnaður, flest annað er í viðunandi eða góðu lagi. Þá er spurningin hvað helst er hægt að gera til að lækka kostnaðinn.

 

1.     Fjárfestingar í fjósum og vélum

  Kostnaður kúabænda vegna fjárfestinga er mjög verulegur, bæði í byggingum, ræktun og vélum. Nú er það fagnaðarefni að einhver skuli vilja fjárfesta í greininni, án fjárfestinga er stöðnunin vís. En það er ekki sama í hverju er fjárfest og á hvaða forsendum. Fáar vísbendingar eru um óþarfar fjárfestingar í fjósum hin síðustu ár, þótt lengi megi deila um hvaða fjósgerð skuli velja og básafjós haldi sínum hlut miklu betur en búast hefði mátt við og raunar full þörf að ræða hversu lengi skuli halda áfram að veita langtímalán til básafjósa. Stundum virðist þó ástæða til að huga betur að þeirri vinnuaðstöðu sem bóndinn er að búa sér,  og augljóst að notkun staðlaðra byggingahluta og eininga er líkleg til að draga úr kostnaði.

  Ræktunarmenning okkar hefur tekið stórstígum framförum og þar horfir flest til betri vegar. Hvað sem um hagkvæmni kornræktarinnar má segja, hefur hún átt mikinn þátt í að auka fjölbreyttni og gæði heimaaflaðs fóðurs.

  Kostnaður kúabænda vegna vélakaupa hefur verið verulegur undanfarin ár. Gildir einu hvort horft er á niðurstöður búreikninga, útlán Lánasjóðs landbúnaðarins eða sölutölur vélainnflytjenda. Það er mjög áleitin spurning hvort hægt sé að koma við öðru og ódýrara vinnulagi við fóðuröflun og önnur störf sem krefjast aflmikilla véla. Samnýting véla hefur lengi verið möguleiki sem bændur hafa ekki haft mikinn áhuga á. Þá stendur eftir sá valkostur að kaupa þessa þjónustu af verktökum. Það sýnist í mörgum tilvikum geta lækkað kostnað verulega, en vandinn er sá að það er of ríkt í okkur kúabændum að þurfa að vera sjálfstæðir að þessu leyti. Líklega er það hluti af Íslendingseðlinu í kúabóndanum að eiga sjálfur öll tæki sem þarf. Hann vill geta unnið öll þau störf sem þarf þegar hentar. Þetta er ágætt að öðru leyti en því að í nautgriparæktinni er vélakostnaðurinn of mikill til að vera réttlætanlegur.

 Þá er afar mikilvægt að allar fjárfestingar á búinu myndi eina heild sem skilar hámarksarði. Það má ekki fjárfesta á einu sviði eða í einni vél án tengsla við heildarmyndina.

 

 

2.     Endurskipulagning fagþjónustu í landbúnaði -Gæðastýringin

  Nauðsyn á endurskipulagningu fagþjónustu landbúnaðarins hefur oft verið til umfjöllunar á vettvangi Landssambands kúabænda.  Of hægt hefur miðað í átt til úrbóta því skipulagið stendur af sér flestar hugmyndir um breytingar, raunar svo að eiginlega verður að dást að því hversu smákóngaveldið dugar vel. Hvort von er á breytingum í framhaldi af RANNÍS-skýrslunni og í tengslum við nauðsynlega fjósbyggingu á Hvanneyri, skal ósagt látið en þörfin er fyrir hendi.  Hlutverk fagþjónustunnar er að miðla þekkingu og viðhalda þekkingu. Hver sú atvinnu- eða starfsgrein sem annað hvort vanrækir, hlýtur að dragast aftur úr. Staða fagþjónustunnar er alvarleg vegna þess að öflug fagþekking er ein mikilvægasta  forsendan fyrir framförum í nautgriparæktinni.

  Í tengslum við fagþjónustu er rétt að minna á að endurskoðun Búnaðarsamnings átti að vera lokið á árinu 2000. Það hefur ekki gengið eftir og því hafa áform um aukið fjármagn til kúasæðinga engu skilað.

  Nokkur undirbúningsvinna hefur farið fram vegna gæðastýringar í nautgriparækt. Vissulega gengur það verk fremur rólega, enda mjög nauðsynlegt að velta fyrir sér hvað eigi að falla undir það hugtak. Ég vil þakka Þingeyskum bændum og öðrum sem hafa lagt vinnu í að undirbúa þetta verkefni. Segja má að samkomulag sé um hverjir grunnþættir gæðastýringarinnar verða, eftir er að tengja þá saman og búa til einfalt, ódýrt og skilvirkt form fyrir þær upplýsingar sem safnað verður. Ískýrin verður grunnforrit gæðastýringarinnar, en ekki hefur gengið sem skyldi með það forrit enn sem komið er. Hvort þar er við forritið, Símann, starfsfólk eða eitthvað annað að sakast skal ósagt látið. Almennt þykir mér mikið vanta á að bændur geti nýtt sér þá gríðarlegu möguleika sem tölvutæknin býður upp á. Yfirlýsingar þar um eru of oft byggðar á óskhyggju og augljóslega ekki settar fram af mönnum sem glíma daglega við vandamál sem tengast ónógri flutningsgetu símalína og annarri óáran sem frumstæðar aðstæður á þessu sviði skapa flestum bændum.

  Til að vera nú jákvæður, þá er rétt að nefna að Upplýsingavefur nautgriparæktarinnar er í vinnslu og mun vonandi verða virkur næsta vetur.

 

3.     Kvótakerfi/kvótaverðið

  Kvótakerfi og kvótaverð eru stöðugt til umræðu. Kvótakerfið hefur nú staðið óbreytt frá því 1992. Í mínum huga er enginn vafi að þetta skipulag hefur mikla kosti og fáa annmarka. Rétt eins og mikill umferðarhraði getur verið vandamál á góðum vegi, er hátt verð á greiðslumarki til mjólkurframleiðslu nokkurt vandamál. Eðlilegast er að mæla verð greiðslumarks sem hlutfall af mjólkurverði. Þannig mælt var verðið komið upp í 3,5 sl. vor, en mun nú ca. 3. Þetta er með því hæsta sem þekkist í Evrópu og allt að tvöfalt hærra en í Danmörku svo dæmi sé nefnt. Þeir sem kaupa á þessu verði, verða að sjálfsögðu að standa og falla með sínum ákvörðunum. Svo hátt kvótaverð er hins vegar til óþurftar fyrir ímynd þessa skipulags og ímynd kúabænda. Því er ástæða til að reyna að ná verði greiðslumarks nokkuð niður þannig að það liggi á bilinu 2 – 3, en fari ekki yfir 3 eins og gerðist sl. vetur og í vor. Þó svo flest bendi til að kvótamarkaður væri til bóta fyrir viðskipti með greiðslumark, eru litlar líkur á að pólitískar forsendur séu til að koma honum á og því verður að fara aðrar leiðir. Það er vitað að nánast öll viðskipti með greiðslumark fara í gegnum mjólkursamlögin. Skagfirðingar byrjuðu, síðan komu Eyfirðingar og síðan Samsalan og Flóabúið. Ef bændur vilja, þá hafa þeir möguleika á að ná verðinu niður í gegnum aðkomu að samlögunum. Mjólkursamlögin koma einnig að fjármögnun kvótakaupa og í þessu sambandi er rétt að minna á hvernig kvótaverð hefur verið að þróast í sjávarútveginum síðustu mánuði, að því sagt er vegna takmarkana á aðgengi að fjármagni.

  En það er fleira í sambandi við kvótaverðið. Heimilt er að afskrifa keyptan kvóta eftir ákveðnum reglum. Afskriftir eiga að vera mælikvarði á rýrnun þess sem afskrifað er. Þessi afskrift er það hins vegar ekki á meðan þessu skipulagi er viðhaldið.  Hér kemur hins vegar til spurningin um það hvert verður framtíðarvirði greiðslumarksins. Óvissa um það hafði lítil eða engin áhrif í viðskiptum með greiðslumark á síðustu árum þess búvörusamnings er endaði í ágúst 1998. Því verður þó ekki neitað að æskilegast væri að hafa mun lengri framtíðarsýn í þessu efni en nokkur ár. Ungir bændur sem byrja að búa í dag taka lán til allt að 40 ára, en hafa ekki vitneskju um grundvallarforsendur rekstrarins nema örfá ár fram í tímann. Þessu þarf að breyta og áleitin spurning hvort ekki sé þörf að hefja viðræður við ríkisvaldið um næsta mjólkursamning fyrr en seinna. Þá þarf að skoða hvort ekki er hægt að ákveða skipulagið til lengri tíma til að draga úr óvissunni, því eins og þetta er núna þá er hægt að snúa öllu við á fárra ára fresti í búvörusamningum.

  Ég vitnaði áðan í vegina og umferðarhraðann. Þótt hraðinn á þjóðvegunum sé vandamál, dettur engum í hug að banna vegina. Þótt kvótaverð sé hátt, eigum við ekki að láta okkur detta í hug að svipta bændur réttinum til að eiga viðskipti með greiðslumark og þannig að ákveða hvort þeir búa lengur eða skemur, stærra eða minna.

 

4.     Afkastameira kúakyn

 

  Sl. vetur var ákveðið á Fulltrúafundi Landssambands kúabænda og á Búnaðarþingi að fram fari atkvæðagreiðsla um það hvort LK og BÍ skuli halda áfram með fyrirhugaða tilraun með samanburð á NRF-kúm, íslenskum kúm og blendingum þessarra kynja. Tilraunaáætlun liggur fyrir og aflað hefur verið ýmissa gagna er snerta málið. Sl. vetur var stofnað Nautgriparæktarfélag Íslands, NRFÍ. Yfirlýstur tilgangur þess félags er að gangast fyrir kynbótum þar sem NRF-kúakynið verði notað. Félagið hefur þó ekki sent umsókn um innflutning og ekki ljóst á hvaða forsendum slík umsókn verður. Þetta mál er því ekki einfalt en valkostirnir virðast vera þessir:

A.   Bændur segja já í atkvæðagreiðslunni og tilraunin fer fram. Óljóst hvað NRFÍ gerir á meðan tilraunin stendur, en ljóst að aðstaðan í Hrísey bíður ekki upp á nema eitt innflutningsverkefni í einu og væntanlega verður NRFÍ þá að bíða eftir aðstöðunni, ef þeir sækja um. Sú bið mun vara nokkur (3-4) ár.

B.    Bændur segja nei í atkvæðagreiðslunni. Þá mun LK selja fósturvísana sem bíða í Noregi og draga sig út úr öllum rekstri í Hrísey. Þá mun NRFÍ væntanlega sækja um leyfi til innflutnings, ef það hefur ekki verið gert áður. Væntanlega er tvennt sem gæti hindrað að um innflutning yrði að ræða. Annars vegar að ekki næðist næg þátttaka í NRFÍ, en fram hefur komið að félagið þurfi helst um 100 félaga til að ráða við verkefnið. Líklegt verður að telja að sá fjöldi náist auðveldlega. Þá er eftir að fá leyfi ráðherra til innflutningsins. Vandséð er á hvaða forsendum slíkri umsókn yrði hafnað.

b                                               c

Niðurstaðan er því sú að mér finnst líklegt að erfðaefni úr NRF-kúakyni verði flutt til landsins, hver sem niðurstaðan verður í atkvæðagreiðslunni í haust/vetur, en algerlega óljóst á hvaða forsendum og framvindan verður býsna ólík eftir því hvor leiðin verður farin. Þetta er ekki sagt til að ögra þeim sem andvígir eru innflutningnum, heldur af því að svona finnst mér þetta vera og við þurfum að ræða málið af hreinskilni.

 Umrædd tilraun mun engu breyta fyrir það innflutta kúakyn sem prófað verður í samanburði við íslenska kynið og blendinga. Niðurstaðan gæti hins vegar skipt talsverðu máli fyrir íslenska kynið og ekki í sjónmáli aðrar leiðir til að átta sig á hugsanlegri sérstöðu kynsins.

 Þá getum við spurt okkur hvort það sé slæmur kostur að NRFÍ sé gerandinn í málinu og annist innflutninginn ?  

Það er sjálfsagðasti réttur manna að stofna félög um það sem þeir eiga sameiginlegt og stofnun Búkollu og NRFÍ er þar engin undantekning. Fyrirfram er engin ástæða til að draga í efa að bændur geti unnið saman að sameiginlegum hagsmunamálum sínum þótt þeir skiptist í tvö ræktunarfélög. Þó verður að viðurkenna að ef mál þróast á þann hátt, er heldur meiri hætta á árekstrum innan stéttarinnar en ef tilraunaleiðin er farin. Í því samhengi er nauðsynlegt að horfa til hagsmunanna í málinu en þeir eru lækkun á framleiðslukostnaði mjólkur. Sé litið til reynslunnar í alifugla- og svínarækt, þá er ljóst að stærri hluti ávinnings af afkastameiri búfjárstofnum hefur komið neytendum til góða í lækkuðu vöruverði, væntanlega verður það eins í mjólkinni. Komi hér afkastameira kúakyn, sem leiðir af sér lækkaðan framleiðslukostnað á mjólk, þá munu neytendur í fyllingu tímans njóta meirihlutans af þeim ávinningi í lækkuðu mjólkurverði. Það tekur hins vegar tíma að þessi ávinningur komi fram, og meðan mjólkurverðið er reiknað á út frá því að íslenska kýrin sé notuð, þá mun sá hópur bænda sem býr með afkastameira kúakyn hafa umtalsvert efnahagslegt forskot vegna lægri kostnaðar og möguleika á að selja öðrum bændum erfðaefni hins nýja kyns. Verði hins vegar ákveðið að gera tilraunina, er samt ekki allt unnið. Það verður að viðurkenna að tilraunaleiðin er afar hægfara leið í kynbótum miðað við vinnulag stéttarbræðra okkar, t.d. á Norðurlöndunum, og án efa þykir ýmsum allt of hægt farið. Að öllu athuguðu held ég þó að auðveldara verði að tryggja félagslega samstöðu innan stéttarinnar ef tilraunaleiðin verður farin heldur en ef NRFÍ verður gerandi í innflutningnum.

Ö En hvaða hagsmunir eru í þessu máli ? 

 Það sem vinnst er lækkun framleiðslukostnaðar á mjólk, væntanlega um  9 – 14 %. Í því efni vísast til greinargerðar sem dreift verður á fundinum.

 Það sem tapast er sá hluti af sérstöðu íslenskrar mjólkurframleiðslu sem rekja má til kúakynsins. Við erum nú að nota einvörðungu einangrað kúakyn við framleiðsluna, eftir innflutning verður hlutdeild þess kyns óráðin stærð. Sérstaða búvara byggir yfirleitt á fóðri og framleiðsluaðstæðum og þær þættir verða að sjálfsögðu óbreyttir. Sú spurning hlýtur þó að vakna hvort neytendur muni óska eftir að hafa aðgang að mjólk úr íslenska kúakyninu óblönduðu, þótt hver lítri af þeirri mjólk verði 5-10 krónum dýrari ?   Sjálfsagt mætti leita svara við þessari spurningu í skoðanakönnun, en gildi slíkrar könnunar er ekkert þegar á þetta reynir eftir 9-11 ár eða 14-16 ár, eftir því hvaða leið verður farin.

 

Lokaorð

Um leið og ég lýk þessari skýrslu til aðalfundar Landssambands kúabænda árið 2001, vil ég þakka öllum þeim fjölmörgu sem hafa átt samskipti við Landssamband kúabænda á liðnu starfsári. Sérstaklega vil ég þó þakka þeim um það bil fjögur hundruð kúabændum sem mættu á fundi um Verðlagsgrundvöll mjólkur og fleira sl. vetur. Einnig þeim félögum mínum í stjórninni, þeim Birgi Ingþórssyni, Agli Sigurðssyni, Gunnari Sverrissyni, Kristínu Lindu Jónsdóttur, og varamönnunum, þeim Sigurgeir Pálssyni og Gunnari Jónssyni, sem og  Snorra Sigurðssyni, framkvæmdastjóra,  fyrir gott samstarf á liðnu starfsári.

 Megi aðalfundur Landssambands kúabænda skila góðu verki.

 

                                                        Þórólfur Sveinsson