Beint í efni

Aðalfundur LK tókst vel

11.04.2003

Aðalfundi LK lauk föstudaginn 11. apríl sl. og tókst fundurinn vel í alla staði. Ályktað var um ýmsa þætti landbúnaðarins og var jafnframt gengið frá stefnumörkun fyrir íslenska nautgriparækt.

 

Hér að neðan er setningarræða formanns LK, Þórólfs Sveinssonar.

 

 Ágætu fulltrúar;  Góðir gestir.
Ég vísa til framlagðra gagna um störf Landssambands kúabænda frá síðasta aðalfundi. Skýrsla um störf stjórnar og framkvæmdastjóra hefur verið send til fulltrúa, sem og samantekt um störf fagráðs í nautgriparækt. Þessar skýrslur eru nokkuð ýtarlegar og því verður umfjöllun um félgsstarfið stillt í hóf hér. Hinn hefðbundni tími fyrir aðalfund Landssambands kúabænda hefur verið í ágúst og það er ekki meira en svo að formaður og framkvæmdastjóri hafi aðlagast nýjum fundartíma hvað varðar samantekt á skýrslum og öðru efni. Allt stendur þetta til bóta og verður enn betra næst.

Það er gott að getað með góðri samvisku byrjað aðalfundarræðu á orðunum ,,Nú er að baki enn eitt líflegt starfsár hjá Landssambandi kúabænda“. Þótt stundum gæti óþolinmæði hjá þeim sem hratt vilja fara og lítið virðist breytast, þá er það þó svo að þróunin í nautgriparæktinni heldur áfram af fullum þunga, þar sem framfarahugur bænda er drifkrafturinn. Eigi að greina þróun, þá er það er hins vegar oft erfitt að merkja nákvæmlega við og segja að þetta ár hafi með einhverjum hætti ráðið úrslitum. Miklu fremur einkennist nautgriparæktin af því að framleiðsluferillinn er langur og allar ákvarðanir sem síðan marka þróunina eiga sinn aðdraganda. Árið markaði þannig ekki sérstök tímamót, heldur hélt sú þróun áfram að búum fækkaði og þau stækka að sama skapi og tæknivæðing vex. Það ríkir festa með frjálsræði í framleiðslustýringunni, en slíkar aðstæður eru að mörgu leyti forsenda nauðsynlegra framfara. Kúabændur eru duglegir að tileinka sér nýja þekkingu sem er lykillinn að framþróun, afurðir eftir hvern grip halda áfram að vaxa og viðhorf innan greinarinnar er almennt jákvætt.

Það breytist margt í umhverfi nautgriparæktarinnar hvað varðar laga- og stjórnvaldsfyrirmæli. Nú styttist í að nautgripir verði merktir í samræmi við ákvæði reglugerðar um skyldumerkingar búfjár, það styttist líka í að breytt ákvæði reglugerðar um mjólk og mjólkurvörur taki gildi. Endurskoðun jarða- og ábúðalaga sem lengi hefur verið áformuð stendur nú yfir og mörg fleiri svið mætti nefna þar sem löggjafinn er að breyta þeim forsendum sem gilt hafa á fjölmörgum sviðum. Oftast felast í hinum nýju fyrirmælum ríkari skyldur en áður var og þar með meiri kostnaður. Það skiptir afar miklu máli að íslenskum landbúnaði sé skapað það starfsumhverfi að hann geti séð íslenskum neytendum fyrir hollum og öruggum búvörum á hagstæðum kjörum. Í því sambandi þarf ekki bara að líta til viðskiptamöguleikanna, heldur þarf einnig að gæta þess að þær fjölmörgu kvaðir sem á atvinnureksturinn eru lagðar séu ekki óheyrilega íþyngjandi.
Þá er rétt að geta þess hér að nú blasir við að Lífeyrissjóður bænda þarf að skerða réttindi sjóðfélaga þar sem of mikið vantar upp á að sjóðurinn eigi fyrir heildarskuldbindingum. Er það dapurleg staða, sérstaklega í ljósi þess hversu lífeyrisréttindi bænda eru léleg.

Ytri aðstæður voru nautgriparæktinni almennt hagfelldar á síðasta ári. Fóðuröflum gekk vel síðasta sumar og sá vetur sem við kveðjum eftir nokkra daga hefur verið með eindæmum mildur og snjóléttur.
Verð á mjólk hækkaði til framleiðenda 1. nóvember 2002 og síðan til neytenda um áramótin. Þrátt fyrir að verð hafi ekki hækkað eins og framreikningur sýndi þó vera þörf á, ber að fagna því samkomulagi sem tókst í Verðlagsnefnd um þessi mál. Það var sátt um það sem gert var og framhjá því verður ekki litið að líklega er vísitala neysluverðs að verða sá mælikvarði sem hvað mestu skiptir að líta til við mat á þörf fyrir leiðréttingar á mjólkurverði. Ef höfuðstóll skulda hækkar meira en tekjurnar, þá er skammt í alvarlegan vanda. Sú staðreynd að mjólkuriðnaðurinn hefur nú í annað sinn tekið á sig hækkun til framleiðenda tveim mánuðum áður en verð breytist á heildsölustiginu, hefur mjög greitt fyrir samkomulagi um verðlagninguna. Það spillir svo ekki fyrir að hagræðing í mjólkuriðnaðinum hefur gert það að verkum að þrátt fyrir þetta hefur afkoma hans verið viðunandi, og betri en gera mátti ráð fyrir.
Verð á nautgripakjöti er því miður of lágt og ástandið á kjötmarkaðnum algerlega óviðunandi. Í kjölfar ályktunar síðasta Aðalfundar Landssambands kúabænda um málefni nautakjötsins, var óskað eftir því við landbúnaðarráðherra að skipaður yrði vinnuhópur til að fara yfir stöðu nautgripakjötsframleiðslu á Íslandi og gera tillögur til úrbóta. Starfshópurinn skilaði áliti í janúar.
Í áliti hans koma þar fram hugmyndir um stuðning eftir tveim leiðum; Annars vegar til eigenda holdakúa og hins vegar gæðagreiðslu á hvern grip sem flokkast í úrvalsflokk. Að því er varðar greiðslu á innlagðan grip af tilteknum gæðum, þá eru engin sérstök vandamál tengd því fyrirkomulagi. Að því er varðar greiðslur á gripi er ekki sömu sögu að segja. Hugtakið holdakýr á sér enga skýrt skilgreinda merkingu í íslensku máli. Hugtakið er notað í forðagæsluskýrslum og þá þannig að eigendur kúa skilgreina sjálfir hvað telst holdakýr og hvað telst mjólkurkýr. Holdakýr geta því verið af hvaða því kúakyni sem til er í landinu og hvaða blanda þessara kynja sem vera skal. Jafnframt geta þær verið svo margar sem viðkomandi bóndi telur vera. Af þessu er augljóst að hugtakið holdakýr á forðagæsluskýrslu er ekki nothæfur greiðslugrunnur fyrir stuðning við þessa framleiðslugrein. Vissulega eru nokkuð skipt sjónarmið um það með hvaða hætti umræddum stuðningi, ef af verður, verði best komið til framleiðenda. Annars vegar eru þau sjónarmið að greiðslurnar verði einkum til að varðveita holdastofnana sem nú eru til í landinu. Þannig verði eigendum þeirra gripa gert kleift að stunda áfram framleiðslu gæðakjöts og þetta stuðningsform hafi lágmarksáhrif á markaðnum. Hins vegar er það sjónarmið greiða út að þá gæðaflokka sem verið er að tryggja neytendum aðgang að. Það er þó ágreiningslaust að ef fyrri leiðin væri farin, þá þyrfti samt að gera kröfur um innlegg af skilgreindu magni og gæðum. Þess vegna munu fjármunirnir í öllum aðalatriðum fara til sömu aðilanna hvor leiðin sem farin yrði.
Í umfjöllum um þetta mál hefur það mjög komið fram að ástæða væri til að efla gæðaímynd nautakjötsins. Eftir er að úrfæra það nánar en ljóst má vera að gæði eru grunnur að markaðsssetningu á því nautakjöti sem þessum stuðningi er ætlað að ná til. Þá hefur kjötmatið einnig komið til umræðu en fram hjá því verður ekki horft að breytileiki innan matsflokka er allt of mikill. Má vel vera að óhjákvæmilegt sé að taka upp EUROP matskerfið í nautakjötinu. Hvernig sem niðurstaðan verður í þeim samningum og þreifingum sem nú standa yfir, þá þarf Landssambands kúabænda að reyna eftir föngum að tryggja afkomu þeirra sem stunda þessa kjötframleiðslu. Þeir einstaklingar sem þarna eiga hlut að máli eru okkar félagsmenn og á okkur hvílir sú skylda að standa vörð um þeirra hagsmuni. Hvert framhaldið verður svo eftir þann samning sem nú er reynt að gera er óljóst, væntanlega verður reynt að ná framhaldssamningi eða þá að samið verður um stuðning við mjólk og nautakjöt í einum samningi, formið á því er ekki aðalatriði.
Samkvæmt þeim upplýsingum sem nýjastar liggja fyrir um framleiðslu og sölu nautakjöts, þá hefur dregið úr innleggi á ungneytakjöti um nálægt 14 % á síðustu þrem mánuðum. Við vitum ekki um stöðu lifandi birgða en þetta gæti verið vísbending um að ungneytakjötið sé að gefa eftir. Sé það svo, þá mun innflutt nautakjöt í vaxandi mæli koma í stað þess innlenda eftir nokkurn tíma.
 Eftir umfjöllun um þetta mál á vettvangi stjórnar LK, viðhorfskönnum hjá þeim bændum sem eiga 6 holdakýr eða fleiri á forðagæsluskýrslu, viðræður við nokkra eigendur holdakúa, viðhorfskönnun hjá aðalfundafulltrúum Landssambands kúabænda og formönnum aðildarfélaga þess, viðræður við landbúnaðarráðherra og eftir að Landssamband kúabænda og Bændasamtök Íslands höfðu sent sameiginlegt erindi með beiðni til landbúnaðarráðherra um formlegar viðræður, þá er staðan sú að málið er til umfjöllunar hjá landbúnaðarráðherra og ríkisstjórn. Afstaða stjórnvalda ræður úrslitum um framhaldið.

Sala mjólkurvara gekk einstaklega vel sumarið 2001 og fram á vormánuði 2002. Því voru forsendur til að ákveða greiðslumark 106 milljónir lítra fyrir yfirstandandi verðlagsár. Á síðasta aðalfundi var frá því greint að ef þær spár sem þessi greiðslumarksákvörðun byggði á, reyndust réttar, þá þyrfti innanlandsmarkaðurinn prótein úr 109 milljónum lítra mjólkur á næsta verðlagsári. Þetta hefur því miður ekki gengið eftir því slaki kom í söluna sl. sumar og á fram á veturinn. Það fór því svo að þetta viðbótargreiðslumark fer ,,hægt og hljótt“, rétt eins og það kom.  Því eru nú líkur til að greiðslumark næsta verðlagsárs verði 104 milljónir lítra. Of snemmt er að spá um próteinþörf og þar með um kaup á umframmjólk þess verðlagsárs. Greiðslumarkið fer eftir því hvernig okkur gengur að markaðssetja afurðirnar. Reynsla síðustu mánaða og missira er áminning um að þar má aldrei slaka á.

Síðasti aðalfundur okkar ályktaði um nýjan samning um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar.  Þrátt fyrir góðan vilja stjórnvalda þá kom í ljós á haustdögum að ekki voru tök á að ná nýjum mjólkursamningi í gegn í vetur eins og vonir stóðu til og fram kemur í umræddri ályktun. Ferill málsins hefur í grófum dráttum verið sá að snemma vetrar óskaði Alþýðusamband Íslands eftir aðkomu að samningi ríkisins um málefni mjólkurframleiðslunnar. Eftir viðræður landbúnaðarráðherra við aðila vinnumarkaðarins þar sem fram kom vilji þeirra til að taka þátt í þessu verkefni, ákvað ráðherra að skipa ,,nefnd sem fjalla á um framkvæmd á 9. grein samnings ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtaka Íslands um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar. Hlutverk nefndarinnar verður að kanna framkvæmd ofangreinds samnings og gera tillögur um stefnumótun fyrir greinina“. Nefndina skipa tveir fulltrúar frá landbúnaðarráðuneytinu og er Guðmundur B. Helgason, formaður nefndarinnar. Aðrir nefndarmenn koma frá fjármálaráðuneytinu, Bændasamtökum Íslands, Landssambandi kúabænda, Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði, Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. 
Nefnin hefur nú haldið tvo fundi. Þess er vænst að starfi hennar ljúki á árinu 2003 og þá taki við hinar eiginlegu samningaviðræður milli bænda og ríkisvaldsins. Þetta ferli er nánast endurtekning á aðdraganda þess mjólkursamnings sem undirritaður var í desember 1997, en þá störfuðu þessir aðilar saman í ,,Sjömannanefndinni“.
Nokkrar ályktanir hafa borist um samningamálin frá aðildarfélögum, og er þar undantekningarlaust um að ræða stuðningsyfirlýsingu við þá stefnu sem Landssamband kúabænda mótaði í þessu máli á aðalfundi 2002. Þá kom skýrt fram á bændafundum sem LK stóð að sl. haust að mikill stuðningur er við það skipulag sem við búum við í dag varðandi framleiðslustýringu og fyrirkomulag stuðnings. Í því sambandi vegur þungt að með núverandi formi stuðnings við mjólkurframleiðsluna er tryggt að hver króna sem til þessa verkefnis er varið, kemur til lækkunar á vöruverði til neytenda. Það er sú grunnforsenda sem samkomulag varð um í þjóðarsáttinni um 1990 og hefur haldist svo síðan. Væri farið að greiða stuðning með einhverjum öðrum hætti, er erfiðara að tryggja að hann komi neytendum að fullu til góða með sama hætti og í núverandi kerfi.
Almennt virðist ríkja skilningur á nauðsyn þess að mjólkurframleiðslan geti þróast áfram með hliðstæðum hætti og verið hefur undangengin ár. Hvort sú nýja lota í viðræðum sem nú standa yfir á vegum WTO breytir möguleikum stjórnvalda til að styðja nautgriparæktina liggur ekki fyrir. Í þeim viðræðunum er að þessu sinni m.a. fjallað um takmarkanir á leyfilegum aðgerðum stjórnvalda í hverju aðildarlandi samningins til að styðja sinn landbúnað, og stefnt að frjálsara flæði búvara milli landa. Þetta eru sömu markmið og voru uppi í  GATT-lotunni fyrir áratug eða svo. Það má kannski segja að málið snúist um það núna hvort framhald verður á viðráðanlegri þróun í aukingu alþjóðaviðskipta með búvörur, eða hvort niðurstaða viðræðnanna felur í sér einhverja þá kollsteypu sem raskar möguleikum íslenskra stjórnvalda til að tryggja áfram eðlilega þróun og viðgang íslenskrar nautgriparæktar.
Aðlögun að niðurstöðu umrædds WTO-samnings er þá fyrst tímabær þegar skrifað hefur verið undir næsta samning á þeim vettvangi. Þannig gæti hugsanleg undanþága fyrir einangruð smáríki til að styðja framleiðslu fyrir heimamarkað, gerbreytt forsendum okkar varðandi nautgriparæktina. Slík undanþága er möguleg alveg fram til loka viðræðnanna. Í þessu sambandi er nærtækt að minna á ,,íslenska ákvæðinu“  sem gerði Íslandi fært að gerast aðili að Kýótó-samkomulaginu. Hinu skulum við ekki gleyma niðurstaðan í WTO-viðræðunum getur knúið á um breytingar og það raunar mjög miklar breytingar. Meðan ekki er ljóst hverjar þær verða megum við ekki draga kjarkinn úr bændum og öðrum sem málinu tengjast því það tærir landbúnaðinn innan frá.

En það er annað sem nær stendur í tíma og brýnna er að fá lausn á. Þar er um að ræða þá réttaróvissu sem uppi er varðandi starfsumhverfi mjólkuriðnaðarins eftir að hætt verður að verðleggja mjólkurvörur á heildsölustigi, en að óbreyttum ,,Samningi um starfsskilyrði mjólkuframleiðslunnar“ gerist það 1. júlí 2004. Við getum ekki litið framhjá þeirri staðreynd að það eru ekki áhrif alþjóðasamninga sem eru að rústa kjötframleiðsluna núna, heldur fullkomið skipulagsleysi í framleiðslu og afurðasölu kjötframleiðenda. Þó standa kjötframleiðendur miklu betur að vígi en mjólkurframleiðendur til að eiga möguleika á að lifa af í óskipulegri afurðasölu. Ástæðan er sú mjólkurframleiðendur eru algerlega háðir verkaskiptingu í mjólkuriðnaðinum, þar sem á einum stað er framleidd þessi vara og á öðrum stað önnur vara, sem við þurfum síðan að geta selt í fyrirtæki á borð við Osta- og smjörsöluna. Jafnframt þarf að vera hægt að mæta þörfum neytenda fyrir vörur þar sem markaðurinn greiðir misjafnlega mikið fyrir hráefnið. Þá þarf líka að skipuleggja vinnsluna út frá því að við höfum sem markmið að framleiða sem næst þá mjólk sem íslenski markaðurinn þarfnast. Samandregið má segja að sá góði árangur sem íslenskur mjólkuriðnaður hefur náð undanfarin ár byggist á skynsamlegu heildarskipulagi og verkaskiptingu milli samlaga. En að hverju eigum þá að stefna í þessu efni ?   Opinber verðlagning á heildsölustigi hefur vissulega reynst okkur vel og gæti gert það áfram, það er þó háð afstöðu starfandi stjórnvalda á hverjum tíma. Auk þess verður að líta til þess að opinberar verðákvarðanir af þessu tagi eru almennt á undanhaldi. Því verður einnig að skoða aðrar leiðir og vissulega er unnið að því. Þar er einkum ,,frjálsa leiðin“  sem byggir á því að hráefnið er afreiknað á landsgrunni og síðan selt til vinnslunnar á breytilegu verði eftir því í hvaða afurðir eða afurðaflokka það á að fara. Þessi leið hefur ýmsa kosti en hún leysir þó ekki nema hluta vandans. Áfram stendur spurningin um heimildir til sameiginlegrar markaðssetningar og heildarskipulags. Þá er eðlilegt að upp komi spurningin um það hvort ekki sé komið að því að sameina þurfi íslenskan mjólkuriðnað í eitt fyrirtæki, og leysa þar með öll vandamál tengd verkaskiptingu og verðtilfærslu í eitt skipti fyrir öll ? Spurningin er ekki síst eðlileg vegna þess að nú er orðin eignar- og stjórnunarleg tengsl hjá stærstum hluta mjólkuriðnaðarins og tök framleiðenda á iðnaðinum hafa styrkst. Í gegnum þessi áhrif ætti að vera hægt að ná talsverðu af markmiðunum. Ef ,,frjálsa leiðin“ yrði farin, þá virðist kominn grunnur að slíkum samruna. Því má þó ekki gleyma sú leið felur í sér að öll fyrirtæki hafa sömu aðstöðu til að bjóða í hráefni til vinnslu yfir í sömu vörutegund. Það gildir einnig um ný fyrirtæki sem kynnu að verða stofnuð. Sameining á þeim afurðastöðvum sem nú eru starfandi myndi því ekki skapa þeim einokunarforskot, heldur auka hagkvæmni rekstrar. Því kann það að fara svo að framundan sé nánari sameining þeirra afurðastöðva sem nú eru starfandi, ásamt því að lagaramma um mjólkurvinnsluna verði breytt.
Í tengslum við þessi samningamál hafa að sjálfsögðu verið ýmsar óformlegar viðræður við stjórnvöld og fleiri aðila. Samskipti við stjórnvöld í tengslum við þessi mál hefur verið með ágætum og afstaða þeirra til kúabænda og nautgriparæktarinnar eins og hún hefur birst í þessum viðtölum, er mjög jákvæð.

Nú liggur fyrir að mjólkuriðnaðurinn þarf ekki að kaupa prótein úr mjólk umfram greiðslumark á þessu verðlagsári til að mæta þörfum innlenda markaðarins. Það sýnir sig nú hversu nauðsynlegar þær breytingar voru sem gerðar hafa verið á svokölluðum C-greiðslum. Í heild eru þær áfram 15 % beinna greiðslna, en sú tilhögun að greiða þær á innvegna mjólk í júlí og ágúst skapar allt aðra og betri stöðu gagnvart umframmjólkinni. Nú er það svo sjálfsagt að öll umframmjólk komi í samlag að öll umræða þar um ætti að vera óþörf.
 
Stjórn Landssambands kúabænda og fulltrúar þess í Fagráði nautgriparæktar hafa undafarið ár unnið að stefnumótun fyrir nautgriparæktina eins og síðasti aðalfundur mælti fyrir um. Sigurður Loftsson mun gera grein fyrir niðurstöðunni hér á eftir. Það er vandaverk að eiga við stefnumótun af þessu tagi. Það er nógu erfitt að vinna stefnumótun fyrir eitt fyrirtæki og mörg dæmi um að slík vinna hafi orðið gagnslítil, hvað þá starfsgrein þar sem eru nálægt 900 kúabú. Það er þó enginn vafi á því að við höfum öll gott af því að meta hvar við stöndum og hvert við viljum stefna. Jafnframt verðum við að horfast í augu við það að innan skamms geta verið komnar upp einhverjar forsendur sem við sjáum ekki fyrir í dag. Þar með er ekki gefið að í stefnumótuninni sé að finna vegvísi um hvað við viljum í því efni. Við eigum að taka stefnumótunina alvarlega en forðast að líta á hana sem endanlega að einhverju leyti.
 
Í tengslum við stefnumörkunina hefur að sjálfsögðu einnig verið litið til þess hvað aðrar þjóðir eru að gera. Á síðasta aðalfundi Landssambands kúabænda var niðurstaðan dregin saman í setninguna;  Það er mikil óvissa um framtíðina. Þessi niðurstaða hefur ekkert breyst og líklega er það nú þannig að það hafi alltaf verið óvissa um framtíðina. Við þessa óvissu verðum við að búa sem best við getum. Öllu framar þurfum við að treysta þann faglega grunn sem við byggjum starf okkar á og leita allra færra leiða til að hagræða í rekstri. Við erum að framleiða gæðavöru og eru allir vegir færir hvað þann þátt varðar. Hins vegar er hár framleiðslukostnaður nautgripaafurða á Íslandi það viðfangsefni sem við verðum að takast á við af mikilli alvöru á komandi árum. Einmitt þess vegna vil ég taka undir það sem segir í RANNÍS-skýrslunni þar sem fjallað er um opinberar aðgerðir ,,Áríðandi er að þær breytingar sem stjórnvöld kunna að gera dragi ekki úr hvata til hagræðingar“.

Um leið og ég lýk þessari skýrslu til aðalfundar Landssambands kúabænda árið 2003, vil ég þakka öllum þeim fjölmörgu sem hafa átt samskipti við Landssamband kúabænda á liðnu starfsári. Einnig þeim félögum mínum í stjórninni, þeim Sigurði Loftssyni, Agli Sigurðssyni, Kristínu Lindu Jónsdóttur, Jóhannesi Jónssyni og varamönnunum, þeim Gunnari Jónssyni og Skúla Einarssyni, sem og  Snorra Sigurðssyni, framkvæmdastjóra,  fyrir gott samstarf á liðnu starfsári.

Megi aðalfundur Landssambands kúabænda skila góðu verki.