
Aðalfundur LK ályktar um bann við innflutningi á hráu og ófrosnu kjöti
25.03.2017
Aðalfundur Landssambands kúabænda samþykkti rétt í þessu tillögu þar sem þess er krafist að Alþingi standi vörð um bann við innflutningi á hráu og ófrosnu kjöti, sem kveðið er á um í 10. gr. laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993, enda fylgir innflutningi á hráu kjöti bæði aukin hætta á matarsýkingum og verulega aukin hætta á sýkingum af völdum lyfjaónæmum bakteríum, auk hættu á að nýir búfjársjúkdómar nái fótfestu hérlendis.
Um árabil hefur innflutningur verið bannaður á hráu, ófrosnu kjöti, en nú sýnist tvísýnt um það bann, bæði vegna alþjóðlegra skuldbindinga og vegna þrýstings frá þeim sem telja sig hafa hag af auknum innflutningi búvara. Því er vert að rifja upp eftirfarandi:
- Hérlendis hefur náðst mjög góður árangur í baráttu gegn sjúkdómum sem borist geta með hráu, ófrosnu kjöti, s.s. salmonellu- og kamfýlóbaktersýkingum, sem breytast með innflutningi á fersku kjöti, en frysting veikir mjög smitefni í kjöti.
- Meiru varðar þó að mjög strangar reglur gilda um notkun fúkkalyfja í landbúnaði hér og notkun þeirra ein sú minnsta sem þekkist í heiminum. Þetta endurspeglast í lágri tíðni sýkinga með fúkkalyfjaónæmum sýklum, en slíkar sýkingar eru taldar mikil ógn við lýðheilsu á komandi árum.
- Loks skal á það minnt að búfjársjúkdómar geta sem hægast borist með innfluttu fersku kjöti, en vegna langvarandi einangrunar íslenskra búfjárstofna eru þeir afar berskjaldaðir gagnvart framandi smitefnum.
Því er svo við að bæta að oft er mjög erfitt að greina upprunaland innfluttra matvæla og þar með átta sig á við hvaða aðstæður framleiðslan fer fram. Með innflutningi á fersku kjöti er því bæði verið að tefla í nokkra tvísýnu lýðheilsu þjóðarinnar og taka áhættu varðandi heilbrigði búfjárstofna.