Aðalfundur LK ályktaði um fjölmörg mál
21.08.2002
Á aðalfundi LK, sem lauk fyrir stundu, var ályktað um fjölmörg málefni, s.s. Evrópumál, málefni nautgripakjötsins, starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar, lyfja- og dýralæknakostnað ofl.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, leggur mikla áherslu á að sem fyrst verði gerður nýr samningur um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar, með gildistöku 1.9.2005.
Greinargerð:
Núgildandi samningur um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar var gerður í desember 1997 og gildir fyrir tímabilið frá 1.9.1998 til 31.8.2005.
Í samningnum segir:
“Að fjórum árum liðnum frá upphafi gildistíma samningsins skulu samningsaðilar kanna framkvæmd hans og í framhaldi af þeirri könnun hefja viðræður um áframhaldandi stefnumótun og gerð nýs samnings. Við þá vinnu skal m.a. lagt sérstakt mat á stöðu kvótakerfisins og hvort, hvernig og þá hvenær leggja á það niður og hvað taki þá við”.
Samkvæmt þessu ákvæði samningsins á vinna við könnun á framkvæmd samningsins að hefjast í haust og í framhaldi af þeirri könnun skal hefja vinnu við gerð nýs samnings. Nú hafa Landssamband kúabænda og Bændasamtök Íslands óskað formlega eftir því að þessu ferli verði nokkuð flýtt og að því stefnt að nýr samningur liggi fyrir á þessu ári.
Í samningi bænda við ríkisvaldið er samið um stuðning ríkisins við mjólkurframleiðsluna, tollvernd, og helst leikreglur framleiðslustýringar í greininni, en þetta eru grundvallaratriði fyrir bændur í allri ákvarðanatöku sinni og að sjálfsögðu skiptir það nautgriparæktina mjög miklu máli að hafa á hverjum tíma sem skýrasta framtíðarsýn.
Margt virðist óljóst varðandi starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar á komandi árum. Þannig ríkir veruleg óvissa um hvernig staðið verður að heildsöluverðlagning mjólkurvara eftir 30. júní 2004 og hvaða áhrif áformuð niðurfelling opinberrar verðákvörðunar hefur á stöðu mjólkuriðnaðarins gagnvart samkeppnislögum. Í því sambandi er mikilvægt að ljóst sé hvaða möguleika mjólkuriðnaðurinn hefur á verkaskiptingu sín í milli með þeirri hagræðingu sem því getur fylgt.
Þá er óvissa er um þróun WTO samninga og því óljóst um áhrif þeirra varðandi stuðning við landbúnað. Einnig fer nú fram víðtæk umræða um landbúnaðarstefnu Evrópusambandsinsins. Allt þetta eykur þá óvissu sem íslenskir mjólkurframleiðendur standa frammi fyrir þegar núgildandi samningur um starfsskilyrði rennur út.
Lögð er áhersla á að samningurinn verði framlengdur óbreyttur hvað varðar stuðning við mjólkurframleiðsluna og tollvernd. Sama gildir um leikreglur framleiðslu-stýringar, en fundurinn telur ástæðu til að skoðaðar verði eftirfarandi breytingar:
q Viðskiptahættir með greiðslumark verði teknir til skoðunar, en viðskipti með greiðslumark verði áfram heimil.
q Sveigjanleiki við verðlagsáramót verði aukinn.
q Heimilaður verði samrekstur greiðslumarkshafa þannig að hægt sé að nýta greiðslumark eins lögbýlis að öllu leyti með framleiðslu á öðru lögbýli.
Sett verði ákvæði í samninginn um að nefnd samningsaðila geti gert breytingar innan rammans, ef um það næst full samstaða. (Samningsaðilar eru: Landbúnaðarrráðneyti, Fjármálaráðneyti, Landssamband kúabænda og Bændasamtök Íslands). Með þessu fyrirkomulagi væri óvissu kúabænda að mestu eytt og jafnframt haldið opnum þeim möguleika að gera breytingar innan rammans ef samningsaðilar verða sammála um það.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, felur stjórn að vinna áfram að stefnumörkun fyrir nautgriparæktina. Byggt verði á RANNÍS-skýrslunni, innsendum athugasemdum og þeirri vinnu sem unnin hefur verið nú þegar. Málið verði síðan tekið fyrir á næsta aðalfundi.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, leggur áherslu á að Bændasamtök Íslands efli þjónustuna við nautgriparæktina með hliðsjón af hlutdeild hennar í vermætum búvöruframleiðslunnar, t.d. með því að nýta fagstofnanir landbúnaðarins og einkaaðila.
Jafnframt ítrekar fundurinn fyrri ályktanir um mikilvægi þess að sameina leiðbeiningaþjónustuna þannig að allir kúabændur sitji við sama borð.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, telur nauðsynlegt að endurskoða allt lagaumhverfi landbúnaðarins vegna þeirra breytinga sem eru að verða á eignarhaldi og rekstrarformi í búgreininni, þar sem það er í auknum mæli að færast í hendur lögaðila. Þá telur fundurinn óeðlilegt að Lánasjóður landbúnaðarins sé skyldaður til að krefjast 1. veðréttar í eignum sem veðsettar eru vegna óniðurgreiddra lánveitinga.
Aðalfundur Landsambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, beinir því til stjórnar LK að hún hlutist til um að mótaðar verði skýrar reglur um meðhöndlun greiðslumarks ríkisjarða, falli framleiðsla þar niður við lok ábúðar eða með öðrum hætti.
Aðalfundur Landsambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, beinir því til stjórnar Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði að beita sér fyrir því að öll mjólk frá framleiðendum sé innvigtuð með rafrænum hætti við dælingu í mjólkurbíl.
Aðalfundur Landsambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, beinir því til stjórnar LK að kanna hagkvæmni þess að bjóða út tryggingar vegna stóráfalla hjá kúabændum á frjálsum markaði en á móti komi að búnaðargjald til Bjargráðasjóðs verði fellt niður.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, lýsir óánægju sinni með að ekki skuli hækkað verð á bestu flokkum kýrkjöts og nautakjöts. Líkt og spáð var í vor er framboð nú mjög lítið og lýsir aðalfundurinn furðu sinni á því að lögmál framboðs og eftirspurnar skuli ekki gilda í viðskiptum með nautgripakjöt.
Fundurinn krefst þess að sláturleyfishafar endurskoði verð til bænda, þar sem um allnokkurt skeið má ætla að skilaverð til bænda standi ekki undir framleiðslukostnaði.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, beinir því til stjórnar LK að leita leiða, í samstarfi við landbúnaðarráðuneytið, til að tryggja áframhaldandi nautgripakjötsframleiðslu í landinu.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, ákveður að aðalfundur næsta árs verði haldinn fyrir miðjan apríl 2003. Stefna skal jafnframt að því að halda árshátíð kúabænda í beinu framhaldi af fundinum.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, ákveður að fundalaun vegna aðalfundar 2002 hækki um 5% og verði kr. 18.375,-.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, ákveður að laun almennra stjórnarmanna skuli vera virði 100 ltr. mjólkur á mánuði auk 50.000,- króna eingreiðslu á ári. Laun stjórnarformanns skulu vera virði 950 ltr. mjólkur á mánuði.
Aðalfundur Landsambands kúabænda haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, beinir því til Yfirkjötmats ríkisins að mat á nautgripakjöti verði betur samræmt á landsvísu heldur en nú er. Ljóst virðist að óeðlilegt misræmi er á milli sláturhúsa hvað þetta varðar.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, leggur mikla áherslu á að jafnan sé tiltæk viðbragðsáætlun um hvað gera skuli ef grunur kemur upp um smitsjúkdóma í búfé, eða ef alvarlegur smitandi sjúkdómur er staðfestur. Slík viðbragðsáætlun þarf að taka til allra þátta málsins s.s. viðkomandi bónda, nágrennis, opinberra aðila, afurðastöðva og þjónustuaðila.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, telur aðild Íslands að Evrópusambandinu ekki koma til greina við núverandi aðstæður.
Greinargerð:
Mikil óvissa er framundan um marga þætti í starfi og framtíðarstefnu Evrópusambandsins og jafnframt er ljóst að aðild Íslands að Evrópusambandinu myndi hafa veruleg neikvæð áhrif á starfsumhverfi íslenski landbúnaðar og þar með aðgengi íslenskra neytenda að innlendum matvælum. Í því sambandi má benda á:
q Fyrirhuguða stækkun Evrópusambandsins til austurs með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
q Mörg alvarleg vandamál hafa komið upp innan Evrópusambandsins varðandi búfjársjúkdóma og matvælaöryggi neytenda.
q Að uppi eru misvísandi hugmyndir innan Evrópusambandsins um breytingar á landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins.
Aðalfundur Landsambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, beinir því til stjórnar Bændasamtaka Íslands og Landbúnaðarráðuneytis að skoða það sérstaklega hvort eðlilegt sé að Bændasamtökin hafi með höndum framkvæmd búvörusamninga.
Greinargerð:
Á síðastliðnu hausti komu upp lögfræðileg álitamál um framkvæmd mjólkuruppgjörs verðlagsársins 2000-2001 sem enn sér ekki fyrir endann á. Þessi mál hafa vakið upp spurningar um stöðu Bændasamtakana þegar upp kemur ágreiningur af þessu tagi.
Aðalfundur Landsambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, beinir því til stjórnar LK að skoða kosti og galla þess að færa til verðlagsáramótin.
Aðalfundur Landsambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, beinir því til stjórnar að kannaðar verði ástæður þess að fjármunir sem settir voru af ríkinu til jöfnunar ferðakostnaðar dýralækna kláruðust í júlí í ár, en dugðu mun lengur á síðasta ári.
Aðalfundur Landsambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, samþykkir að beina því til stjórnar LK að sent verði formlegt erindi til Heilbrigðis og tryggingamálaráðuneytis varðandi nauðsyn á virku eftirliti með birgðahaldi dýralyfja hjá umboðs og innflytjendum.
Greinargerð
Þar sem lyfjafyrirtækið Delta HF. hefur hætt framleiðslu á bórkalki og magnesíumsúlfati varð skortur á þessum lyfjum á liðnu vori. Samkvæmt gildandi verkreglum um innflutning lyfja þarf að koma beiðni til lyfjastofnunar frá notendum viðkomandi lyfs í þessu tilfelli frá dýralæknum til að stofnunin veiti leyfi til innflytjanda um innflutning. Þar sem enginn aðili virðist hafa á hendi eftirlit með lagerstöðu lyfja kláraðist lager íslensku framleiðslunnar áður en beiðni barst Lyfjastofnun. Þar er því ljóst að með óbreyttu fyrirkomulagi muni Lyfjastofnun ganga illa að uppfylla ákvæði lyfjalaga en í 1. kafla um markmið og yfirstjórn segir: “Markmið laga þessara er að tryggja landsmönnum nægilegt framboð af nauðsynlegum lyfjum…”.
Aðalfundur Landsambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, lýsir áhyggjum sínum af háum lyfja- og dýralæknakostnaði. Af því tilefni beinir fundurinn því til stjórnar að kanna verðmyndun á dýralyfjum, svo og að gera verðkannanir á þjónustu dýralækna.
Aðalfundur Landsambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, beinir því til stjórnar LK að hún leiti samstarfs við Embætti yfirdýralæknis um setningu umgengnisreglna fyrir þá aðila sem sinna þjónustu á kúabúum.
Aðalfundur Landsambands kúabænda, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst 2002, beinir því til stjórnar að hún hlutist til um að kjötmat verði endurskoðað m.t.t. mismunandi kjötprósentu gripa af ólíkum kynjum.