Beint í efni

Aðalfundur LK 2017

11.04.2017

Aðalfundur LK 24. – 25. mars 2017 haldinn á Akureyri

1.Fundarsetning 

Arnar Árnason formaður LK setti fund kl 10 og bauð fundarmenn velkomna.

Formaður lagði fram tillögu að starfsmönnum aðalfundar, fundarstjórar verði Ingi Björn Árnason og Borghildur Kristinsdóttir, fundarritari Runólfur Sigursveinsson. Ekki komu fram aðrar tillögur og tóku fundarstjórar við stjórn fundarins. Þeir kynntu tillögu að uppstillingar- og kjörbréfanefnd aðalfundar: Samúel Unnsteinn Eyjólfsson formaður,  Guðmundur Óskarsson og Linda B. Ævarsdóttir. Tillagan samþykkt.

 

2.Skýrsla stjórnar – Arnar Árnason og Margrét Gísladóttir

Arnar Árnason formaður LK vakti athygli að 31 starfsár væru að baki hjá LK. Fækkun framleiðenda á þeim tíma er um 2/3  en framleiðslan aldrei verið meiri en á liðnu ári og salan sömuleiðis. Síðasta starfsár hefur einkennst af  útfærslu á nýjum búvörusamningum og eftirfylgni með samningunum, á sama tíma hafa verið hertar kröfur um aðbúnað gripa. Síðustu vikur hafa einkennst af breytingum á skipan samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga auk þess sem nýr ráðherra landbúnaðarmála hefur kynnt drög að breytingum á búvörulögum og tekið þann þátt út úr starfi samráðshópsins. Eitt stærsta mál stjórnar á liðnu ári er nýtt form á félagsaðild að LK en ákveðið var á síðasta aðalfundi LK að félagsgjald skyldi vera 0,30 kr/ltr og félagsgjaldið vegna nautakjötsframleiðenda skyldi vera 500 kr á grip í UN, K og KIU flokkum. Nú þegar hafa 54% kúabúanna skráð sig með félagsaðild. Haldnir voru haustfundir líkt og fyrri ár og auk þess formannafundur aðildarfélaganna í byrjun þessa árs.

Mjög góð sala var á liðnu ári, um 5% söluaukning milli ára og framleiðslan var rúmar 150 milljónir lítrar en fitusalan  rúmlega 139 milljónir lítra en próteinsala 129 milljónir lítrar.

Heildarfjöldi kúabúa er tæplega 600 bú. Núna er meðalframleiðsla á bú um 250.000 lítrar. Flest búanna liggja á milli 100.000 og 250.000  lítra í framleiðslu.

Gat um verðbreytingar á liðnu ári í gegnum verðlagsnefnd búvara. Stjórn LK ákvað nú í marsmánuði að láta fara fram skoðanakönnum meðal kúabænda um viðhorf bænda til núverandi fyrirkomulags greiðslumarkskerfisins, niðurstöður benda til þess að afgerandi meirihluti kúabænda vilji halda í núverandi fyrirkomulag (greiðslumarkið). Hvatti aðalfundarfulltrúa til að ná meiri þátttöku kúabænda  í starf LK.

Margrét Gísladóttir framkvæmdastjóri LK ræddi búvörusamningana og afgreiðslu þeirra á Alþingi í september sl. Ekki voru gerðar breytingar á samningunum sjálfum í meðförum Alþingis. Verðlagsnefnd verður starfandi áfram, í það minnsta fram til 2019. Stofnaður samráðshópur í kjölfar breytinga á búvörulögunum um endurskoðun búvörusamninganna sem á að ljúka störfum árið 2019. Formaður er Svanfríður Jónasdóttir en alls eru 13 manns í hópnum, meðal annars fulltrúi úr stjórn LK, Elín Heiða Valsdóttir og varamaður hennar er Margrét Gísladóttir framkvæmdastjóri LK. Ræddi síðan hertar kröfur um aðbúnað og þær reglur sem nú gilda.

Þá liggja fyrir frumvarpsdrög landbúnaðarráðherra um breytingar á núgildandi búvörulögum. Þau drög voru birt á vef ráðuneytis 6. mars sl. Meðal efnisþátta eru að verðtilfærsla tiltekinna afurða verði óheimil, samkomulag og verkskipting mjólkursamlaga verði óheimil og málið í heild sinni tekið úr þeim farvegi sem það var komið í með skipan samráðsnefndar um endurskoðun búvörusamningana. Umsögn LK um drög að nýrri löggjöf hefur verið skilað til ráðuneytis og birt á heimasíðu LK.

Þá gat framkvæmdastjóri um nokkur atriði varðandi kynningarmál. Núverandi stjórn LK hefur lagt aukna áherslu á þau mál. Í því skyni hefur verið unnin upp ný heimasíða, áhersla á nýtt kynningarefni; m.a. er í startholunum herferð á samfélagsmiðlum.

 

  1. Ávörp gesta og umræður um skýrslu stjórnar

Guðný Helga Björnsdóttir varaformaður Bændasamtaknna gat þess að hún kæmi hér í forföllum Sindra formanns BÍ  en hann komst ekki til fundar vegna ófærðar. Guðný Helga flutti síðan ávarp Sindra. Þar var m.a. getið um úrvinnslu núgildandi búvörusamninga og reglugerðasmíð. Sömuleiðis ræddi Guðný um vinnu BÍ gagnvart endurskoðunarferli búvörusamninga og eins var lögð vinna í að skila inn umsögn um drög um breytingu á búvörulögunum sem ráðherra landbúnaðarmála kynnti á vef ráðuneytisins þann 6. mars sl.

Gat um mikilvægi þess að landbúnaðurinn kæmi  með virkum hætti að minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda, það mál verður unnið m.a. í samstarfi við umhverfis- og landbúnaðarráðuneyti. Eins gat Guðný um vinnu BÍ  varðandi tollamál og innflutningsmál landbúnaðarvara. Gat um samning ESB og Íslands um tollamál sem felur í sér rýmkun á innflutningi ákveðinna landbúnaðarvara, einkum á svína- og alifuglakjöti.

Loks ræddi hún um breytingar á félagsaðild BÍ, á næstu misserum kemur í ljós hvernig til tekst með breytta aðild bænda að BÍ.  Miklu skiptir að sem flestir bændur sjái sér hag í aðild að heildarsamtökum bænda.

Jóhannes Torfason varaformaður Auðhumlu flutti kveðjur formanns Egils Sigurðssonar til fundarins en hann forfallaðist vegna óveðurs. Á hverjum tíma er ákveðin þróun í gangi í samfélaginu. Dæmi um þróun er m.a. sú fækkun framleiðenda í mjólk sem hefur átt sér stað á síðustu áratugum. Gat um söluaukningu liðins árs í mjólk um tæp 5% meðan framleiðslan óx einungis milli 2-3%. Framleiðslan á þessu ári verður væntanlega minni en 150 milljónir lítra, (144-147 milljónir lítra). Nýr búvörusamningur segir ákveðið til um lok kvótakerfis í mjólk, m.t.t. forms greiðslna.  Í raun hafa þeir kúabændur sem hafa framleitt umfram sitt greiðslumark undanfarin ár bjargað því að á hverjum tíma hefur verið hægt að uppfylla markaðsþörfina. Auðhumla er að kaupa hrámjólk á tvöföldu innkaupsverði miðað við það sem erlendir kúabændur sem skipta við Arla eru að fá.

Gat um þróunarverkefnið „fyrirmyndarbú“ og sömuleiðis um hertar aðbúnaðarkröfur. Velti fyrir sér aðkomu ráðherra landbúnaðrmála í byrjun starfs hennar m.t.t. draga að frumvarpi um breytingar á búvörulögum sem eru mjög á skjön á afgreiðslu Alþingis á búvörusamningunum. Mjólkuriðnaðurinn hefur orðið fyrir kerfisbundu einelti af hálfu samkeppnisyfirvalda síðustu áratuga. Slíkt getur ekki talist eðlilegt i upplýstu samfélagi. Mikilvægi félags eins og Auðhumlu fyrir kúabændur hefur aldrei verið meira.

Valgerður Kristjánsdóttir þakkaði góðar framsögur formanns og framkvæmdastjóra. Þurfum að sækja fram, m.a. í kynningarmálum.  Þurfum einnig að fá fleiri þátttakendur inn í félagið og þakkaði að lokum góð störf stjórnar.

Hallur Pálsson Þakkaði framsöguerindi og lýsti ánægju með stjórn samtakanna á liðnu ári og störf þeirra.

Arnar Árnason ræddi m.a. orð Jóhannesar varformanns Auðhumlu og sagðist vera sammála honum um margt, m.a. í umræðu út á við, þurfum við að tala einni röddu. Gagnrýndi orð og orðfæri ráðherra landbúnaðarmála og síðan efndir m.a. drög að breytingu á búvörulögunum.

Aðalsteinn Hallgrímsson þakkaði framkomnar skýrslur. Ræddi félagsaðildina, í Eyjafirði var farið til allra þeirra nautgripabænda sem ekki voru komnir inn í samtökin. Það skilaði miklum árangri. Ræddi aðkomu landbúnaðarráðherra að málum kúabænda og frumvarpsdrög ráðuneytis hennar um breytingar á búvörulögum. Hvatti fundarmenn að láta vita af andstöðu sinni við þessar fyrirhuguðu breytingar m.a. með póstum til ráðherra.

Margrét Gísladóttir þakkaði sérstaklega stjórn félags kúabænda i Eyjafirði fyrir góðan árangur varðandi þátttöku kúabænda á svæðinu að LK, sömuleiðis er mjög góð þátttaka á Ísafjarðasvæðinu.

Brynjólfur Friðriksson  þakkaði framsögur formanns og framkvæmdastjóra, og þá sérstaklega góða framgöngu þeirra í fjölmiðlum. Ræddi breytt form félagsaðildar, ljóst að sumir bændur eru efins um nýtt fyrirkomulag félagsaðildar.

Arnar Árnason ræddi form félagsaðildar, þetta mál verður sérstaklega rætt  í einni starfsnefnd fundarins. Ræddi stöðuna í pólitíkinni núna, eins manns meirihluti ríkisstjórnar og núna virðist fylgi Viðreisnar og Bjartrar framtíðar vera mjög takmarkað samkvæmt skoðanakönnunum.

Að þessum lið loknum var fundi frestað vegna hádegishlés og eftir hádegi var Fagþing nautgriparæktarinnar haldið og aðalfundur hófst aftur kl. 16.30 og tekinn fyrir 5. dagsrkárliður aðalfundar.

 

4. Ávarp Umhverfisráðherra – Björt Ólafsdóttir

Þakkaði fyrir tækifæri til að ávarpa fundinn. Loftslagsmálin eru henni ofarlega í huga. Íslendingar verða að leggja sig fram við að halda sig innan við skuldbindingar sínar í loftlagsmálum. Velti fyrir sér hvert gæti verið markmið hvers kúabús í þeim efnum og jafnframt fyrir heildina. Er mögulegt að setja ákveðin töluleg markmið  út frá sameiginlegum  markmiðum. Vinna stendur yfir um þessi mál í samvinnu við ráðuneyti landbúnaðarmála og BÍ. Fyrir liggur greining frá LbHÍ um ákveðna þætti kolefnislosunar. Nefna mál eins og notkun og meðferð tilbúins áburðar og búfjáráburðar. Eins kolefnisbinding í jarðvegi og á landi. Tækifærin eru til staðar hjá kúabændum sem og öðrum bændum til að takast á við þessi mál. Mikilvægt að vinna saman og virkja sem flesta. Jafnframt að vinna að varðveislu víðerna Íslands og hálendisins í heild, það verður best gert í góðri samvinnu stjórnvalda, almennings og bænda.

 

5. Niðurstöður kjörbréfanefndar

Samúel U. Eyjólfsson kynnti niðurstöður kjörbréfanefndar, sem eru eftirfarandi:

Mjólkursamlag Kjalarnesþings

Finnur Pétursson                                 Káranesi

Daníel A Ottesen                                Ytra-Hólmi

Kúabændafélagið Baula á Vesturlandi

Pétur Diðriksson                                  Helgavatni

Anna Lísa Hilmarsdóttir                      Refsstöðum, varamaður

Gunnar Guðbjartsson                         Hjarðarfelli, varamaður

Félag nautgripabænda við Breiðafjörð

Hallur Pálsson                                     Nausti

Gústaf Jökull Ólafsson                       Miðjunesi, ekki mættur

Félag kúabænda í Ísafjarðarsýslum

Björn Birkisson                                    Botni, varamaður

Nautgriparæktarfélag V-Hún

Guðrún Eik Skúladóttir                        Tannstaðabakka

Valgerður Kristjánsdóttir                    Mýrum III

Félag kúabænda í A-Hún

Brynjólfur Friðriksson                         Brandsstöðum

Linda B. Ævarsdóttir                           Steinnýjarstöðum

Sigurður Magnússon                           Hnjúki

Félag kúabænda í Skagafirði

Ingi Björn Árnason                              Marbæli

Davíð Jónsson,                                    Egg

Sævar Einarsson,                                Hamri

Hrefna Hafsteinsdóttir                        Hóli Sæmundarhlíð, varamaður

Félag eyfirskra kúabænda

Aðalsteinn Hallgrímsson                    Garði

Guðmundur Stefán Bjarnason            Svalbarði

Guðmundur Óskarsson                       Hríshóli

Helga Hallgrímsdóttir                         Hvammi

Félag þingeyskra kúabænda

Kjartan Smári Stefánsson                   Múla 1

Valþór Freyr Þráinsson                       Litlu-Reykjum

Nautgriparæktarfélag Vopnafjarðar

Halldóra Andrésdóttir                         Grænalæk

Félag nautgripabænda á Héraði og fjörðum

Björgvin Gunnarsson                          Núpi

Herdís Magna Gunnarsdóttir              Egilsstöðum

Nautgriparæktarfélag Austur-Skaftafellssýslu

Erla Rún Guðmundsdóttir                   Viðborðsseli

Félag kúabænda á Suðurlandi

Rafn Bergsson                                    Hólmahjáleigu

Borghildur Kristinsdóttir                     Skarði

Samúel U. Eyjólfsson                          Bryðjuholti

Karel G. Sverrisson                             Seli

Ásmundur Lárusson                            Norðurgarði

Arnfríður S. Jóhannesdóttir                Herjólfsstöðum

Ragnar F. Sigurðsson                          Litla-Ármóti, varamaður

Sigríður Jónsdóttir                              Fossi,  varamaður

 

6. Framhald umræðna

Rafn Bergsson  bauð fram starfskrafta sína til stjórnarsetu LK næsta starfsár.

Arnar Árnason formaður LK sagðist bjóða sig fram til áframhaldandi formennsku innan stjórnar LK.

Samúel U. Eyjólfsson sagði að hann hefði ákveðið að gefa ekki  kost á sér til áframhaldandi starfa í stjórn LK. Þakkaði samstarfmönnum sínum samstarfið á liðnu starfsári. Vakti athygli á að fjármunir í nýjum samningi væru til staðar sem kallaðir væru jafnvægisaðgerðir, spurning hvort ekki eigi að nýta einhvern hluta þess fjár til að styrkju stöðu nýrrar einangrunarstöðvar  holdanauta á St-Ármóti.

Pétur Diðriksson ræddi félagskerfi bænda og þær breytingar sem orðnar eru með hliðsjón af aflagningu búnaðargjalds. Það, að vera aðili að hagsmunasamtökum kúabænda er mikið alvörumál, að þessari grein er sótt, m.a. af fulltrúum verslunar og þjónustu. Hvetur kúabændur til þátttöku í félagslegu starfi kúabænda og standa saman. Pétur sagði jafnframt að hann gæfi áfram kost á sér til starfa í stjórn LK.

Bessi Vésteinsson sagðist taka undir með Pétri um að samstaða kúabænda væri mikilvæg, hann gæfi kost á sér til áframhaldandi starfa fyrir kúabændur í stjórn LK. Vakti athygli á mikilvægi nautakjötsframleiðenda innan LK og að miklar áskoranir blasi við í þeirri grein. Nauðsynlega þarf að vinna að framleiðsluspám um það magn nautakjöts sem er í pípunum á hverjum tíma. Samhliða þarf að fá beittari ráðgjöf inn í þessa grein.

Herdís Magna Gunnarsdóttir  þakkaði stjórn samtakanna fyrir vel unnin störf á liðnu ári. Tilkynnti jafnframt um framboð sitt til stjórnar LK.

Magnús Örn Eyjólfsson  sagðist bjóða sig fram til varastjórnar LK. Hann væri nýlega tekinn við búskap í E-Pétursey í Mýrdal.

Jóhann Nikulásson ræddi mikilvægi þess að kúabændur stæðu saman. Hins vegar sagðist hann ósáttur  hvernig staðið hefði verið að breytingum á kjöri fulltrúa inn á þennan fund.

Davíð Logi Jónsson sagðist gefa áfram kost á sér til starfa í varastjórn LK.

Margrét Gísladóttir ræddi hvernig staðið hefði að málum varðandi fjölda fulltrúa inn á þennan aðalfund. Miðað hefði verið við félagatal í lok árs 2016.

Jóhann Nikulásson taldi að boða hefði þurft til nýs aukaaðalfundar í lok síðasta árs m.t.t. breytinga á fjölda fulltrúa inn á þennan aðalfund.

Sigurður Magnússon þakkaði fyrir gögn til fundarmanna sem send voru til fulltrúum fyrir fundinn. Spurði jafnframt um niðurstöður skoðanakönnunar um viðhorf kúabænda sem sagt var frá í máli formanns og framkvæmdastjóra fyrr á fundinum.

Ragnar F. Sigurðsson þakkaði stjórn fyrir unnin störf á liðnu ári og mikilvægi þess að sem flestir kúabændur taki þátt í störfum LK.

Margrét Gísladóttir ræddi skoðanakönnunina og niðurstöðurnar. Hún verður birt fyrir fulltrúa á lokuðu vefsvæði núna á fundinum. Hins vegar eru þetta hrátölur og þarf að vinna betur úr niðurstöðum áður en þær verði birtar á heimasíðu LK.

 

  1. Nefndarstörf

Að loknum umræðum hófust nefndarstörf en alls bárust rúmlega  40  tillögur til aðalfundarins frá aðildarfélögunum og stjórn LK.

Starfsnefndir fundarins voru fjórar:

Starfsnefnd 1. Formaður Guðmundur S. Bjarnason.

Starfsnefnd 2. Formaður Ragnar F. Sigurðsson.

Starfsnefnd 3. Formaður Herdís Magna Gunnarsdóttir.

Starfsnefnd 4. Formaður Ingi Björn Árnason.

Nefndir störfuðu frá kl 17 á föstudag og fram til kl 11.30 á laugardag.

 

  1. Kosning formanns LK

Samúel U. Eyjólfsson formaður kjörnefndar kynnti kosninguna. Einn hefur lýst yfir framboði til formennsku, núverandi formaður, Arnar Árnason.

Ekki bárust önnur framboð. Kosningin var skrifleg og úrslit voru eftirfarandi:

Arnar Árnason                         32 atkvæði

Auðir seðlar                              2 atkvæði

Arnar Árnason Þakkaði mikið traust til sín í ljósi úrslita formannskonsingar og vænti góðs samstarfs við alla fulltrúa og alla kúabændur.

Samúel U. Eyjólfsson formaður kjörstjórnar tilkynnti að nefndin myndi ekki leggja fram tillögu að meðstjórnendum LK þar sem nú þegar væri kominn nægur fjöldi framboða til stjórnarsetu næsta starfsár.

 

  1. Afgreiðsla mála

Frá starfsnefnd 1. Guðmundur S. Bjarnason

1.1. Fjárhagsáætlun

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017 beinir til stjórnar að hlut LK úr framleiðsluráðssjóði, sem og vaxtatekjur sem hann skilar, sé haldið aðskildum frá öðrum rekstri félagsins.

Samþykkt samhljóða.

1.2. Launamál stjórnar

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017 leggur til að laun verði óbreytt og uppfærist með launavísitölu.

Samþykkt samhljóða.

1.3. Verklagsreglur vegna greiðslna dagpeninga

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017 beinir til stjórnar að koma á verklagsreglum fyrir dagpeningagreiðslur og ferðakostnað fyrir stjórnarmenn og fulltrúa aðalfunda.

Samþykkt samhljóða.

1.4. Ríkisjarðir

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017, skorar á fjármálaráðherra að liðka til um sölu, ábúð og leigu á ríkisjörðum. Erfitt hefur reynst fyrir ábúendur ríkisjarða að fara í framkvæmdir, auka við sig greiðslumark eða aðhafast nokkuð annað er snýr að búskapnum sökum þess að ekki fæst veðleyfi í jörðunum, né fást jarðirnar keyptar.

Greinargerð: Ríkiseignir hafa umsjón með fasteignum, jörðum og auðlindum í eigu ríkisins í umboði fjármálaráðuneytis. Hlutverk Ríkiseigna er að tryggja örugga og hagkvæma umsýslu þessara eigna. Með nýrri aðbúnaðarreglugerð sem tók gildi í nóvember 2014 er mikil þörf á framkvæmdum svo byggingar standist allar reglur. Það er mikilvægt að liðka til fyrir ábúendum þessara jarða svo hægt sé að ráðast í umbætur, hvort sem er með leiðum til fjármögnunar framkvæmda (veitt veðleyfi) eða til kaupa á ríkisjörðum. Að öðrum kosti er erfitt að sjá hvernig búskapur getur haldið áfram á viðkomandi jörðum og þar með viðunandi viðhald þeirra. Hér er um að ræða hagsmunamál, bæði fyrir atvinnugreinina sem og byggðalög víða um land.

Samþykkt samhljóða.

1.5. Kaup á Nautastöðinni að Hesti

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017, beinir því til stjórnar að vinna áfram að kaupum Nautastöðvarinnar að Hesti í Borgarfirði af Bændasamtökum Íslands. Jafnframt verði unnið að sameiningu sæðingarstarfseminnar og henni stýrt frá Hesti.

Samþykkt með þorra atkvæða.

1.6. Sala og kaup bújarða til útleigu

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017 lýsir yfir þungum áhyggjum af þeirri þróun að fjársterkir aðilar kaupi góðar bújarðir og leggi niður búskap. Fundurinn beinir til stjórnvalda  að móta stefnu í eignarhaldi og nýtingu bújarða.

Finnur Pétursson sagði þetta mál miklu stærra en fram kemur í tillögu. Ætti að vera ákvæði í skipulagslögum að það væri óheimilt að taka land úr landbúnaðarnotum sem væri þegar í nýtingu sem landbúnaðarland.

Trausti Þórisson sagðist taka undir með Finni og betra væri að beina tillögunni að öllum sveitarfélögum landsins, þar væri skipulagsvaldið.

Aðalsteinn Hallgrímsson ræddi tillöguna almennt og sagði þetta mun stærra mál en fram kæmi í tillögunni, t.d. þegar fólk er að bregða búi.

Eftir umræðu var tillagan endurflutt með orðalagsbreytingu.  Tillagan þannig borin upp til atkvæðagreiðslu:

1.6. Sala og kaup bújarða til útleigu

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017 lýsir yfir þungum áhyggjum af þeirri þróun að fjársterkir aðilar kaupi góðar bújarðir og leggi niður búskap. Fundurinn beinir til stjórnvalda og sveitarfélaga að móta stefnu í eignarhaldi og nýtingu bújarða.

Samþykkt samhljóða.

1.7.  Rekstrarkostnaður búa

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017 beinir því til stjórnar að gerð verði úttekt á rekstrarkostnaði kúabúa á hinum ýmsu svæðum landsins. Ef hann er mismunandi verði rýnt í hvaða ástæður liggja að baki og hvort möguleiki sé á að jafna þann mun.

Greinargerð:

Verðjöfnun er á hluta þeirrar þjónustu sem kúabændur fá, t.d. borga allir sama verð fyrir flutning á mjólk og sæðingakostnaður hefur verið jafnaður nokkuð á síðustu árum. Hins vegar er í einhverjum tilvikum munur á öðrum þáttum. Á þeim svæðum þar sem byggð er þéttari og stutt í þjónustu ætti að nást meiri hagkvæmni í rekstri en á strjálbýlli svæðum. Fróðlegt er að gera samanburð á þessum kostnaði og sjá hvort mismunur er svo mikill að hann skekki samkeppnisstöðu framleiðenda.

Samúel U. Eyjólfsson lagði til að tillögunni yrði vísað frá, endalaust væri hægt telja upp atriði í þessu sambandi.

Sigurður Magnússon sagði að næg önnur verk fyrirliggjandi fyrir stjórn, lagði til að tillagan yrði felld.

Guðmundur S. Bjarnason formaður nefndarinnar taldi að þessa vinnu væri hægt að ná úr ársreikningum búanna meðal annars og því hafi tillagan fengið brautargengi í nefndinni.

Jóhann Nikulásson lagði að tillögunni yrði vísað frá.

Björgvin Gunnarsson sagði að tillagan hafi átt uppruna hjá fulltrúum að austan. Þessar tölur væru til m.a. hjá RML.

Tillagan var felld með meirihluta atkvæða.

1.8.  Tryggingamál bænda

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017 beinir því til stjórnar LK að.fara yfir tryggingamál bænda.

Greinargerð:

Minnisblað frá Runólfi Sigursveinssyni, fagstjóra rekstrar hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, febrúar 2017. Við lauslega skoðun á allnokkrum ársreikningum vegna ársins 2016 og að hluta vegna ársins 2015 virðist tryggingarpakki búanna eins og hann er skráður í bókhaldi viðkomandi búa liggja á milli 1,2 kr/ltr – 2 kr/ltr á framleiðslumagn búanna í mjólk. Þannig mætti álíta að kostnaður vegna þessa þáttar væri á ári, miðað við 150 milljón lítra framleiðslu í heild, væri á bilinu 180 milljónir króna og upp í um 300 milljónir, meðaltalið á þeim búum sem skoðuð voru sérstaklega var 1,5 kr/ltr sem samsvarar um 225 milljónum króna á ári. Inni í þessum tölum eru væntanlega fasteignatryggingar, brunatryggingar, trygging bústofns og slysatryggingar, oftar en ekki eru tryggingar véla og tækja færðar með rekstrarkostnaði vélanna, (kostnaður vegna búvéla).

Ragnar F. Sigurðsson sagði frá tilurð tillögunnar sem kæmi frá Félagi kúabænda á Suðurlandi, spurning hvort ætti að skerpa aðeins meira á tillögunni.

Pétur Diðriksson lagði til að þessari tillögu yrði vísað aftur til nefndar og unnin áfram.

Finnur Pétursson sagði að það vantaði inn í umræðu, um kr/ltr hvað vernd þeir væru með. Þetta snýr meira að rekstri hvers og eins bús. Á sínum tíma keypti MS rekstrarstöðvunartryggingu fyrir kúabændur.

Margrét Gísladóttir sagði frá nýlegum fundi framkvæmdastjóra BÍ og fulltrúa VÍS um tryggingamál innan landbúnaðairns.

Valgerður Kristjánsdóttir lagði til að tillagan yrði felld, það eru nægur fjöldi tryggingafélaga til staðar í dag.

Samúel  U. Eyjólfsson sagði að það gæti verið kostur fyrir t.d. viðræður við tryggingafélög að hafa svona tillögu á bak við sig.

Samþykkt að vísa tillögunni aftur til nefndar. Eftir yfirferð nefndarinnar kom hún þannig breytt til aðalfundar:

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017 beinir því til stjórnar LK að kanna möguleika á betri kjörum til bænda meðal tryggingafélaga, í samstarfi við BÍ og önnur búgreinafélög.

Greinargerð:

Minnisblað frá Runólfi Sigursveinssyni, fagstjóra rekstrar hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, febrúar 2017. Við lauslega skoðun á allnokkrum ársreikningum vegna ársins 2016 og að hluta vegna ársins 2015 virðist tryggingarpakki búanna eins og hann er skráður í bókhaldi viðkomandi búa liggja á milli 1,2 kr/ltr – 2 kr/ltr á framleiðslumagn búanna í mjólk. Þannig mætti álíta að kostnaður vegna þessa þáttar væri á ári, miðað við 150 milljón lítra framleiðslu í heild, væri á bilinu 180 milljónir króna og upp í um 300 milljónir, meðaltalið á þeim búum sem skoðuð voru sérstaklega var 1,5 kr/ltr sem samsvarar um 225 milljónum króna á ári. Inni í þessum tölum eru væntanlega fasteignatryggingar, brunatryggingar, trygging bústofns og slysatryggingar, oftar en ekki eru tryggingar véla og tækja færðar með rekstrarkostnaði vélanna, (kostnaður vegna búvéla).

Tillagan samþykkt þannig breytt, samhljóða. 

1.9. Haustfundir

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017 beinir til stjórnar að meta kosti og galla þess að draga saman kostnað vegna haustfunda þetta árið, til dæmis með að kanna möguleikana á að sameina haustfundi aðalfundum aðildarfélaga.

ArnarÁrnason ræddi tillöguna og hversu mikið myndi sparast í upphæðum.

Tillagan samþykkt samhljóða.

1.10. Tekjuöflun

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017 beinir til stjórnar að meta möguleika til tekjuöflunar með styrkjum og auglýsingum á heimasíðu LK.

Tillagan samþykkt samhljóða.

1.11. Til Búnaðarstofu

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.-25. mars 2017, leggur til að breytt verði kröfum um skráningu á burðum úr 20 dögum eftir burð í 30 daga til samræmis við almenn skýrsluskil í Huppu.

Greinargerð

Í 6. grein reglugerðar nr. 916/2012 um merkingar nautgripa er gerð krafa um að kálfa skuli merkja innan 20 daga frá fæðingu og í sömu reglulgerð er Matvælastofnun falið að setja reglur um skráningar á merkingum. Í dag er gefinn sami frestur til merkingar á kálfum og skráningum í miðlægan gagnagrunn og eru vandséð rökin fyrir því að gera sömu kröfur. Mun heppilegra væri að samræma kröfur um skráningar við kröfur um skil á afurðaskýrslum.

Margrét Gísladóttir ræddi tillöguna.

Tillagan samþykkt samhljóða.

Frá Starfsnefnd 2,  Ragnar F. Sigurðsson

2.1. Stefnumörkun nautakjötsframleiðslu

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. til 25. mars 2017, beinir því til stjórnar LK að koma á fót vinnuhópi um stefnumörkun nautakjötsframleiðslu í samstarfi við aðra hagsmunaaðila. Stefnumörkunin byggi meðal annars á stefnumörkun LK frá árinu 2011-2021 og gildi til ársins 2027, en verði endurskoðuð reglulega á tímabilinu. Í þessari vinnu verði framtíðarþróun markaðshlutdeildar innlendrar framleiðslu og innflutnings greind sem og þróun gæða í innlendri framleiðslu og aðrar greiningar sem að gagni koma.

Tillagan samþykkt samhljóða

  • Áskorun til stjórnvalda um greiningu á áhrifum aukins innflutnings á landbúnaðarvörum frá Evrópusambandinu.

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. til 25. mars 2017, krefst þess að stjórnvöld og Alþingi meti þau alvarlegu og neikvæðu áhrif sem nýstaðfestur samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur mun hafa á íslenskan landbúnað.

Greinargerð: Í september 2016 var samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur staðfestur, samhliða afgreiðslu búvörusamninga. Í samningnum eru tollkvótar á innfluttan ost auknir úr 100 tonnum upp í 610 tonn á ári eða sem samsvarar tæplega 10% af ostasölu á Íslandi árið 2016 (6.250 tonn). Rúmlega 40% af allri íslenskri mjólkurframleiðslu árið 2016 fór í ostaframleiðslu og er vart hægt að líta framhjá mögulegum áhrifum sem tilfærsla á 10% af þeirri framleiðslu getur haft á byggðir landsins.

Tollkvótar á innfluttu nautakjöti frá ESB fara einnig úr 100 tonnum í 696 tonn á næstu 4 árum. Slík aukning kemur á versta tíma ef litið er til styrkingar krónunnar en samspil þess og hve krónutala tollkvóta kjötinnflutnings er lág er staðan orðin sú að nær ógerlegt er fyrir íslenska framleiðendur að keppa við innflutt kjöt í verði.

Tillagan samþykkt samhljóða.

2.3 Útflutningur landbúnaðarafurða til Bretlands

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. til 25. mars 2017, beinir því til stjórnvalda að hefja undirbúning að samningi um viðskipti með landbúnaðarvörur við Bretland, vegna útgöngu þeirra úr Evrópusambandinu.

Jóhann Nikulásson ræddi tillöguna og taldi að hún er mjög opin, þyrfti að skerpa á orðalagi.

Finnur Pétursson velti fyrir sér samtengingu landbúnaðar og sjávarútvegsmála í þessu sambandi.

Valgerður Kristjánsdóttir  lagði til orðalagsbreytingu á tillögunni.

Fundastjórar báru tillöguna aftur upp með orðalagsbreytingu Valgerðar:

2.3 Útflutningur landbúnaðarafurða til Bretlands

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. til 25. mars 2017, beinir því til stjórnvalda að hefja undirbúning að samningi um útflutning landbúnaðarvara til Bretlands, vegna útgöngu þess úr Evrópusambandinu.

Tillagan þannig samþykkt samhljóða með orðalagsbreytingu.

2.4. Framleiðsluspá í nautakjötsframleiðslu

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.-25. mars 2017, beinir því til stjórnar LK að  koma á reglulegri vöktun á framleiðslu nautakjöts í samstarfi við RML og hagsmunaaðila. Teknar skulu saman nauðsynlegar upplýsingar og þær gerðar aðgengilegar fyrir bændur og hagsmunaaðila. Slíkar upplýsingar eru mikilvægar fyrir skipulag framleiðslunnar og koma í veg fyrir langa bið eftir slátrun.

Samúel ræddi tillöguna og tilurð hennar.

Tillagan samþykkt samhljóða

2.5. Bann við innflutningi á hráu og ófrosnu kjöti

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. til 25. mars 2017, krefst þess að Alþingi standi vörð um bann við innflutningi á hráu og ófrosnu kjöti, sem kveðið er á um í 10. gr. laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr 25/1993, enda fylgir innflutningi á hráu kjöti bæði aukin hætta á matarsýkingum og verulega aukin hætta á sýkingum af völdum lyfjaónæmra baktería, auk  hættu á að nýir búfjársjúkdómar nái fótfestu hérlendis.

Greinargerð:

Um árabil hefur innflutningur verið bannaður á hráu, ófrosnu kjöti, en nú sýnist tvísýnt um það bann, bæði vegna alþjóðlegra skuldbindinga og vegna þrýstings frá þeim sem telja sig hafa hag af auknum innflutningi búvara. Því er vert að rifja upp eftirfarandi:

Hérlendis hefur náðst mjög góður árangur í baráttu gegn sjúkdómum sem borist geta með hráu, ófrosnu kjöti, s.s. salmonellu- og kamfýlóbaktersýkingum, sem endurspeglast í mun lægri tíðni slíkra sýkinga en víða annars staðar. Sú staða mun breytast með innflutningi á fersku kjöti, en frysting veikir mjög smitefni í kjöti.

Meiru varðar þó að mjög strangar reglur gilda um notkun fúkkalyfja í landbúnaði hér og notkun þeirra ein sú minnsta sem þekkist í heiminum. Þetta endurspeglast í lágri tíðni sýkinga með fúkkalyfjaónæmum sýklum, en slíkar sýkingar eru taldar mikil ógn við lýðheilsu á komandi árum.

Loks skal á það minnt að búfjársjúkdómar geta sem hægast borist með innfluttu fersku kjöti, en vegna langvarandi einangrunar íslenskra búfjárstofna eru þeir afar berskjaldaðir gagnvart framandi smitefnum.

Því er svo við að bæta að oft er mjög erfitt að greina upprunaland innfluttra matvæla og þar með átta sig á við hvaða aðstæður framleiðslan fer fram. Með innflutningi á fersku kjöti er því bæði verið að tefla í nokkra tvísýnu lýðheilsu þjóðarinnar og taka áhættu varðandi heilbrigði búfjárstofna.

Aðalsteinn Hallgrímsson lagði áherslu að þessari tillögu yrði vel fylgt á eftir af hálfu stjórnar.

Finnur Pétursson tók undir með Aðalsteini. MAST hefur verið að safna heilasýnum til að hægt að sé að staðfesta að ekki sé hér til staðar sjúkdómur eins og  kúariða. Grundvallaratriði að geta sýnt fram á með vísindalegum rökum sem ESB viðurkennir. Hvet okkur öll að tilkynna ef drepst hjá okkur dýr að tekið sé sýni úr heila í þessu skyni.

Tillagan samþykkt samhljóða.

2.6 Tollvernd íslensks landbúnaðar

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017, krefst þess að stjórnvöld standi vörð um samkeppnistöðu íslensks landbúnaðar gagnvart innfluttum afurðum m.a. með því að tryggja nauðsynlega  tollvernd, jafnframt því að bannaður verði innflutningur á landbúnaðarafurðum sem ekki eru framleiddar við jafn ströng skilyrði varðandi dýravelferð og lyfjanotkun og hér gilda.

Greinagerð:

Í óheftri samkeppni býr íslenskur landbúnaður að ýmsu leyti við mjög erfiða samkeppnisstöðu. Þar ráða miklu náttúrulegar aðstæður, svo sem  veðurfar og strjálbýli, sem ekki verður við ráðið. En ekki síður má nefna strangar kröfur til aðbúnaðar, viðamikið eftirlitskerfi, strangar reglur um lyfjanotkun og bann við notkun vaxtarhvetjandi hormóna, mun hærri vexti en í samkeppnislöndum, skert aðgengi að hagkvæmustu búfjárkynjum og hömlur á bústærð, auk þess sem hlutverk landbúnaðar í að viðhalda hinum dreifðari byggðum  kemur niður á ýtrustu hagræðingarkröfum.

Sé stjórnvöldum alvara í því að viðhalda öflugum landbúnaði á Íslandi verða þau að gera sér grein fyrir þessum framleiðsluaðstæðum og gera bændum kleift að mæta þeim. Þar gegnir tollvernd mikilvægu hlutverki.

Ekki þarf að fara lengra en til Noregs og Svíþjóðar til að sjá hver reynslan er af því að leyfa innflutning mjólkurvara á lágum tollum. Í Noregi hefur allri aukningu í neyslu mjólkurvara vegna íbúafjölgunar frá því um árið 2000 verið sinnt með innflutningi og í Svíþjóð er markaðshlutdeild innlendrar mjólkurframleiðslu einungis 85% af mjólkurvörumarkaðnum og fer minnkandi. Slíkum breytingum ætti íslenskur landbúnaður mjög óhægt með að mæta með útflutningi og því mikilvægt að íslensk stjórnvöld geri sér grein fyrir afleiðingum gerða sinna.

Tillagan samþykkt samhljóða.

2.7  Viðræður við MAST um verklagsreglur

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 24. -25. mars 2017, beinir því til stjórnar LK að óska eftir viðræðum við MAST um samskipti og sameiginleg málefni MAST og nautgripabænda, þar sem farið verði yfir lög og reglur sem gilda um starfsgreinina og eru undir eftirliti MAST.

Jafnframt verði farið yfir verklagsreglur við skipulag eftirlitsskoðana á lögbýlum, þannig að tryggt verði að jafnræðis sé gætt,  bæði hvað varðar útfærslu og tíðni eftirlitsheimsókna.

Tillagan samþykkt samhljóða.

2.8 Mat á aðbúnaðarreglugerð nautgripa

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 24. -25. mars 2017, beinir því til stjórnar LK að lagt verði mat á hvernig aðbúnaðarreglugerð nautgripa hafi reynst með tilliti til þess hvort þörf sé á breytingum.

Tillagan samþykkt samhljóða.

Frá Starfsnefnd 3, Herdís Magna Gunnarsdóttir

3.1 Fóðurnotkun í nautgriparækt

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017, beinir því til stjórnar LK að greina ávinning og afleiðingar þess að nýta alfarið óerfðabreytt fóður í nautgriparækt. Í þeirri vinnu verði gerð greining á kostnaði, áhrifum á fóðurúrval og aðrar greiningar sem að gagni koma.

Greinargerð:

Sífellt fleiri vísindamenn og stofnanir eru farin að vara við óhóflegri notkun jurta- og skordýraeiturs í landbúnaði. Er það í takt við upplýsingar um neikvæð áhrif sem þessi efni eru farin að hafa á heilsu fólks víða um heim. Hluti af þessari umræðu er ræktun á erfðabreyttum nytjajurtum eins og korni og sojabaunum en þeirri ræktun hefur fylgt óhófleg notkun gróðureyðingarefna og skordýraeiturs. Íslenskir sauðfjárbændur lögðu til bann á notkun erfðabreytts fóðurs í sauðfjárrækt og tók reglugerð þess eðlis gildi í október 2016.

Tillagan samþykkt  með einu mótatkvæði.

Jóhann Nikulásson gerði athugasemd við samþykkt tillögunnar. Fundarstjórar báru það undir fundinn hvort leyft yrði að taka tillöguna aftur á dagskrá. Samþykkt af hálfu fundarins.

Margrét Gísladóttir sagði orðalagið tekið upp úr gögnum BÍ.

Guðrún Eik Skúladóttir taldi þröngsýni að loka alveg á þennan möguleika að nota erfðbreytt fóður, finnst ekki rétt að loka á notkun þeirra plantna sem eru erfðabreyttar.

Brynjólfur Friðriksson taldi eðlilegt að halda sig við samþykkt upphaflegu tillögunnar.

Þórólfur Ómar Óskarsson tók undir orð Guðrúnar.

Jóhann Nikulásson lagði til að sleppa greinargerðinni með tillögunni.

Herdís Magna Gunnarsdóttir finnst eðlilegt að stjórnin meti kosti og galla í þessu sambandi.

Samúel U. Eyjólfsson lagði til að hluti greinargerðar falli burt.

Pétur Diðriksson lagði til að fella alla greinargerðina út.

Breytingatillaga um að greinargerðin falli út í heild sinni borin upp.

Samþykkt samhljóða. Tillaga fundarins því endanlega eftirfarandi:

3.1 Fóðurnotkun í nautgriparækt

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017, beinir því til stjórnar LK að greina ávinning og afleiðingar þess að nýta alfarið óerfðabreytt fóður í nautgriparækt. Í þeirri vinnu verði gerð greining á kostnaði, áhrifum á fóðurúrval og aðrar greiningar sem að gagni koma.

Tillagan samþykkt samhljóða.

3.2 Upprunamerkingar og upplýsingagjöf til neytenda

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn Akureyri 24. – 25. mars 2017, leggur þunga áherslu á að upplýsingagjöf til neytenda verði bætt með því að styrkja verulega regluverk um upprunamerkingar matvæla og gerðar verði kröfur um nánari innihaldslýsingar á matvælum. Skýrar og auðsæjar upprunamerkingar og innihaldslýsingar matvæla eru sjálfsögð krafa fyrir íslenska neytendur og framleiðendur. Með auknum innflutningi er mikilvægt að upplýsingar á umbúðum matvæla séu skýrar en í dag er einungis hægt að sjá upprunaland matvælanna. Án merkinga sem snúa m.a. að dýravelferð, umhverfisspori og lyfjanotkun, er ógerlegt fyrir neytendur að taka sannarlega upplýst val og skekkir það einnig samkeppnisstöðu innlendra framleiðenda.

Einnig leggur fundurinn áherslu á að reglur séu skýrar um viðurlög við brotum á lögum og reglugerðum er snúa að upprunamerkingum og hvernig upplýsingagjöf til neytenda og eftirliti sé háttað.

Finnur Pétursson ræddi reglur um þessi mál í Svíþjóð.

Tillagan samþykkt samhljóða.

3.3 Rannsóknir vegna losunar metangas í landbúnaði

Aðalfundur LK haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017, skorar á Landbúnaðarháskóla Íslands að setja aukinn kraft í rannsóknir á aðferðum sem geta dregið úr losun metangass í landbúnaði.

Greinargerð:

Nýjar rannsóknir í Ástralíu sýna fram á gríðarlegan samdrátt í metangaslosun nautgripa með breytingu á fóðrun, eða á bilinu 50-99%. Rannsóknirnar sýna að hægt er að draga verulega úr metangasmengun frá dýraeldi, ekki síst frá nautgripum og öðrum jórturdýrum, með því einu að gefa þeim ákveðna tegund af þangi. Hér á landi er þang unnið í stórum stíl og í einhverjum mæli verið notað í fóður fyrir búfé, en ekki er vitað til þess að virknin gagnvart gasmyndun hafi þar verið rannsökuð.

Tillagan samþykkt samhljóða.

3.4 Kennsla í nautgriparækt

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017, leggur fast að stjórn LK að þjarma að Landbúnaðarháskóla Íslands að setja aukinn kraft í kennslu í nautgriparækt, m.a. með því að semja meira af kennsluefni og gera það aðgengilegt.

Greinargerð:

Fundurinn átelur harðlega seinagang í útgáfu kennslubókar í nautgriparækt sem nú þegar er til beinagrind að og einhverjir kaflar hafa þegar verið skrifaðir.

Pétur Diðriksson ræddi tillöguna og orðalag, lagði til að fella út orðið þjarma.

Guðmundur Óskarsson taldi fulla þörf á að  halda upphflegu orðalagi

Trausti Þórisson tók undir með Guðmundi.

Guðrún Eik Skúladóttir sagði að nú eru  mun fleiri BSc verkefni í nautgriparækt en áður var.

Samúel  U. Eyjólfsson sagði að búið væri að vinna eitthvað af efni en það þyrfti að koma málinu áfram og til loka.

Jóhann Nikulásson sagðist sömu skoðunar og Pétur.

Margrét Gísladóttir rifjaði upp upphaflegu tillögu um málið

Fundarstjóri bar upp eftirfarandi breytingatillögu:

“3.4. Kennsla í nautgriparækt

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017, ítrekar áskorun sína til Landbúnaðarháskóla Íslands að setja aukinn kraft í kennslu í nautgriparækt, m.a. með því að semja meira af kennsluefni og gera það aðgengilegt.”

Tillagan þannig borin upp og hún þannig samþyktt með einu mótatkvæði

3.5 Kolefnisspor

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017, beinir því til stjórnar LK að skoða ávinning þess og kostnað við að láta meta kolefnisspor íslensks kúabúskapar til samanburðar við kolefnisspor innfluttra afurða.

Greinargerð:

Mikil umræða hefur verið um losun kolefnis við hvers kyns atvinnustarfsemi og heldur neikvæð í garð landbúnaðar, þá sérstaklega þegar kemur að nautgriparækt. Hér er þó margt sem spilar inn í, m.a. að bændur stunda skógrækt og uppgræðslu lands í töluverðum mæli samhliða öðrum búgreinum. Framkvæmd mats á kolefnisspori greinarinnar er einnig vel í takt við markmið Parísarsamkomulagsins sem íslensk stjórnvöld rituðu undir í apríl 2016. Einnig rímar slík framkvæmd vel við greiningarskýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, um möguleika Íslands til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti, sem kom út í febrúar 2017.

Bændur eru almennt framsæknir í umhverfismálum og vilja vera í fremstu víglínu á þeim vettvangi. Því er mikilvægt að kortleggja kolefnisfótspor greinarinnar og kanna hvort og þá til hvaða aðgerða er hægt að grípa. 

Jóhann Nikulásson lagði til að vísa tillögunni aftur til nefndar til frekari vinnslu.

Sú tillaga borin upp en hún felld með 13 atkvæðum gegn 10.

Upphaflega tillagan samþykkt með þorra atkvæða.

3.6 Jörð.is fært í notendavænna horf

Aðalfundur LK haldinn á Akureyri 24.- 25.mars 2017 beinir því til Bændasamtaka Íslands að jarðræktarforritið Jörð.is verði gert hraðvirkara, notendavænna og meira í takt við nútímann. Einnig er brýn þörf á smáforriti sem hægt er að skrá í úti á örkinni.

Greinargerð:

Með því að búa til smáforrit mun það auðvelda mönnum störfin  við að skrá sínar skýrslur rétt sem og að öryggi gagna verður meira.

Davíð Jónsson lagði til breytingatillögu;  að felld yrði út síðasta málsgrein tillögunnar og greinargerð.

Breytingatillagan samþykkt með 4 mótatkvæðum

Samúel U. Eyjólfsson lagði til viðaukatillögu  um að bæta við:  “Að jörð. is geti líka reiknað út fræpöntun”.

Sú tillaga samþykkt samhljóða.

Endanleg tillaga fundarins var því afgreidd á eftirfarandi hátt og samþykkt samhljóða:

“3.6 Jörð.is fært í notendavænna horf

Aðalfundur LK haldinn á Akureyri 24.- 25.mars 2017 beinir því til Bændasamtaka Íslands að jarðræktarforritið Jörð.is verði gert hraðvirkara, notendavænna og meira í takt við nútímann og geti reiknað út fræpöntun”.

3.7 Einföldun á forritinu Huppu og snjalltækjavæðing

Aðalfundur Landsambands kúabænda haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017, beinir því til Bændasamtaka Íslands að einfalda forritið og gera það auðveldara í notkun fyrir bændur. Í dag er forritið of þungt í vöfum og lengi að vinna, forritið er ekki farsímavænt.  Kanna þarf möguleika á að búa til smáforrit, þar sem hægt er að skrá/sækja helstu upplýsingar.

Einnig þarf að opna á fleiri möguleika og gera það líkara því sem þekkist í Worldfeng.  Til dæmis til að skoða afkvæmahópa og tengja forritið betur við nautaval og framkvæmd sæðingaráætlunar.

Greinargerð:

Í nýjum búvörusamningum eru gerðar miklar kröfur um að bændur standi í skilum á afurðaskýrslum  á tilsettum tíma. t.d er gert að skyldu að skrá burði innan 20 daga. Með því að búa til smáforrit fyrir forritin mun það auðvelda mönnum lífið að skrá sínar skýrslur rétt sem og að öryggi gagna verður meira.

Tillagan samþykkt samhljóða.

3.8 Heimboð þingmanna

Aðalfundur LK haldinn á Akureyri 24.- 25. mars  2017, beinir því til Bændasamtakanna að semja við nokkra bændur, um að þeir bjóði heim til sín þingmönnum, forsvarsmönnum félaga, fyrirtækja og stofnana sýni þeim búið sitt og verði með fræðslu fyrir þá um það hvernig íslenskur landbúnaður gengur fyrir sig.

Tillagan samþykkt samhljóða.

3.9 Upplýsingafulltrúi bænda

Aðalfundur LK haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017, beinir því til stjórnar LK að kanna hvort  grundvöllur sé til að ráða upplýsingafulltrúa bænda í samstarfi við BÍ, önnur búgreinafélög og afurðasölufélög bænda. Væntanlegum starfsmanni er ætlað að svara fyrirspurnum frá fjölmiðlum, gera tillögur og skipuleggja kynningar á íslenskum landbúnaði.

Jóhann Nikulásson sagði þetta mál margrætt  á þessum vettvangi. Taldi núverandi starfsmenn LK og LS vera einmitt í þessum geira.

Herdís Magna Gunnarsdóttir sagði þessi mál þyrfti sífellt að vera í skoðun.

Arnar Árnason sagði að tillagan sem slík væri opnun á að þetta mál yrði rætt á næstunni.

Aðalsteinn Hallgrímsson sagði frá sinni reynslu varðandi að fá upplýsingar, m.a. frá BÍ, er sjálfur í ferðaþjónustu, mikilvægt að hægt sé að leita til eins aðila.

Margrét Gísladóttir ræddi málið og vakti athygli á því BÍ kaupir nú þegar þessa þjónustu frá almannatengslafyrirtæki.

Björgvin Gunnarsson velti fyrir sér hvort ætti að hafa afurðasölufélögin inn í tillögunni. Leggur til að að tillögunni verði þannig breytt.

Aðalsteinn Hallgrímsson sagðist vera mótfallinn því að sleppa afurðasölufélögunum í tillögunni, betra að hafa þau með í þessu.

Breytingatillagan borin upp og hún felld með þorra atkvæða.

Upphaflega tillagan samþykkt samhljóða.

3.10 Rannsóknir í landbúnaði

Aðalfundur LK haldinn á Akureyri 24.- 25. mars  2017, skorar á hæstvirta umhverfisráðherra og landbúnaðarráðherra að tryggja nægt fjármagn til rannsókna á umhverfisþáttum í landbúnaði. Mikil þörf er á því að rannsaka ýmis loftslagstengd mál í landbúnaði s.s. kolefnislosun á framræstum mýrum og áhrif endurheimts votlendis.

Trausti Þórisson lagði til að síðasta málgrein verði felld út, niðurstöður liggja fyrir um þetta atriði.

Finnur Pétursson ræddi tillöguna.

Arnar Árnason lagði til að halda sig við upphaflegu tillöguna.

Ragnar F. Sigurðsson lagði til breytingatillögu við upphaflegu tillöguna.

Herdís Magna Gunnarsdóttir  ræddi tilurð upphaflegu tillögunnar.

Fundarstjórar báru upp breytingatillögu þess efnis að fella út seinni málsgrein upphaflegu tillögunnar – Sú tillaga var felld.

Fundarstjórar báru síðan upp breytingatillögu Ragnars sem var svohljóðandi:

„3.10 Rannsóknir í landbúnaði

Aðalfundur LK haldinn á Akureyri 24.- 25. mars  2017, skorar á hæstvirta umhverfisráðherra og landbúnaðarráðherra að tryggja nægt fjármagn til LBHí til rannsókna í landbúnaði.

Greinargerð:

Mikil þörf er á því að rannsaka ýmis loftslagstengd mál í landbúnaði s.s. kolefnislosun á framræstum mýrum og áhrif endurheimts votlendis.“

Breytingatillagan samþykkt með 14 atkv. gegn 8 og þar með tillagan í heild þannig.

3.11 Framtíð LBHÍ

Aðalfundur LK haldinn á Akureyri 24.- 25. mars  2017, beinir því til stjórnar LK að krefja  stjórnvöld um svör varðandi framtíð LBHÍ, þróun hans og eflingu. Fundurinn lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu skólans og ótryggri framtíð.  Menntun og þekking er afar mikilvæg til þess að landbúnaður og byggð um allt land vaxi og dafni. Því er brýnt að ríkisstjórnin hafi skýra stefnu í menntamálum í landbúnaði.

Jóhann og Þórólfur ræddu tillöguna og lögðu fram breytingatillögu.

Guðmundur Óskarsson ræddi upphaflegu tillöguna

Fundarstjórar báru upp eftirfarandi breytingatillögu:

„3.11 Framtíð LBHÍ

Aðalfundur LK haldinn á Akureyri 24.- 25. mars  2017, beinir því til stjórnar LK að krefja  stjórnvöld um svör varðandi framtíð LBHÍ, þróun hans og eflingu. Fundurinn lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu skólans og ótryggri framtíð.  Menntun og rannsóknarstarf er afar mikilvægt til þess að landbúnaður og byggð um allt land vaxi og dafni. Því er brýnt að ríkisstjórnin hafi skýra stefnu í þessum málaflokki.“

Breytingatillagan frá Jóhanni og Þórólfi þannig samþykkt samhljóða.

3.12 Rannsóknir á efnasamsetningu íslensku kúamjólkurinnar

Aðalfundur LK haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017 , beinir því til stjórnar LK að samtökin beiti sér fyrir því að gerðar verði rannsóknir á efnasamsetningu íslensku kúamjólkurinnar og samhengi  við arfgerðir kúa. Skoða þarf sérstaklega arfgengi beta-kaseins í íslenska kúastofninum í samhengi við nýgengi af sykursýki 1.

Greinargerð:

Samanburðarrannsóknir hafa verið gerðar á erfðaþáttum íslendinga sem greinst hafa með sykursýki 1 og bornar saman við sambærilegar rannsóknir í Noregi.  Niðurstaðan sýnir að mismunandi erfðaþættir skýra ekki muninn á nýgengi sykursýki 1 milli þjóðanna.  Því er tilvalið að tengja þetta við erfðamengisrannsóknir á íslenska kúakyninu sem fyrirhugaðar eru. Sykursýki fylgir mikil lífsgæðaskerðing fyrir einstaklinga auk þess að vera þjóðfélaginu afar kostnaðarsöm.

Tillagan samþykkt samhljóða. 

Frá Starfsnefnd 4. Ingi Björn Árnason

4.1 Breytingar á samþykktum LK

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017 samþykkir eftirfarandi breytingar á samþykktum félagsins:

  • Grein 3.2. a) verði svohljóðandi; „Fulla aðild að LK geta átt þeir einstaklingar og lögaðilar sem þess óska og halda nautgripi í atvinnuskyni, enda séu þeir félagar í einu aðildarfélagi samtakanna og greiði félagsgjald til LK samkvæmt grein 5.4” svo getið sé um fulla aðild í stað aðildar.

Samþykkt samhljóða.

  • Við 3. gr. bætast eftirfarandi liðir;

„3.5 Hollvinir LK geta verið þeir einstaklingar, 18 ára og eldri, sem stunda ekki nautgriparækt í atvinnuskyni en styðja markmið samtakanna. Aðild þessara félaga fylgir enginn atkvæðisréttur eða önnur félagsleg réttindi.”

Valgerður Kristjándóttir ræddi tillöguna.

Samþykkt samhljóða.

„3.6 Einungis félagsmenn með fulla aðild, sbr. liði 3.2 a) og 3.2 b), geta gegnt trúnaðarstörfum fyrir LK.”

Margrét ræddi tillöguna.

Samþykkt samhljóða.

„3.7 Full félagsaðild sbr. liði 3.2. a) og b) fellur niður hætti félagsmenn að halda nautgripi í atvinnuskyni. Segi félagsmenn sig úr félaginu tekur úrsögnin gildi 6 mánuðum frá frá mánaðarmótum eftir að tilkynning um úrsögn berst.”

Samþykkt samhljóða.

  • Grein 5.3. verði svohljóðandi; „Komi upp ágreiningur um fjölda félagsmanna sem telja til fulltrúakjörs hjá hverju aðildarfélagi skal stjórn LK úrskurða um málið” og tekið verði út „eftir að hafa aflað upplýsinga frá afurðastöðvum.” líkt og er nú.

Samþykkt samhljóða.

  • Grein 5.4. verði svohljóðandi; „Félagsmenn sem eiga aðild að LK samkvæmt ákvæðum a) liðar 3. gr. skulu greiða félagsgjald sem reiknast sem ákveðin upphæð pr. ltr. mjólkur sem lögð er inn til úrvinnslu í afurðastöð og sem ákveðin upphæð pr. grip í UN, K og K1U flokki sem slátrað er í afurðastöð, utan úrkasts” í stað„ Félagsmenn sem eiga aðild að LK samkvæmt ákvæðum a) liðar 3. gr. skulu greiða félagsgjald sem reiknast sem ákveðin upphæð pr. ltr. mjólkur sem lögð er inn til úrvinnslu í afurðastöð og sem ákveðin upphæð pr. grip í UN, K og K1U flokki sem lagður er inn í afurðastöð.” líkt og nú er.
  • Einnig bætist við greinina; „Hollvinir LK samkvæmt grein 3.5 skulu greiða árgjald sem ákvarðað er á aðalfundi hvers árs.”

Sigríður Jónsdóttir ræddi tillöguna.

Tillagan samþykkt með einu mótatkvæði

  • e) liður í grein 5.6. verði svohljóðandi; „Ákvörðun um upphæð félagsgjalds og skiptingu þess milli LK og einstakra aðildarfélaga, ásamt gildistíma nýskráninga og úrsagna í LK. Ákvörðun um upphæð árgjalds hollvina.” í stað „Ákvörðun um upphæð félagsgjalds og skiptingu þess milli LK og einstakra aðildarfélaga” líkt og nú er.

Tillagan samþykkt samhljóða.

  • Grein 5.7. verði svohljóðandi; „Aðalfund skal boða eigi síðar en 10. janúar ár hvert til stjórna aðildarfélaganna” í stað „fyrir 10. janúar” líkt og nú er.

Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillögurnar þannig samþykktar í heild samhljóða.

4.2 Stefnumörkun mjólkurframleiðslu

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017, beinir því til stjórnar LK að koma á fót vinnuhópi um stefnumörkun mjólkurframleiðslu í samstarfi við aðra hagsmunaaðila.  Stefnumörkunin byggi á stefnumörkun LK frá árinu 2011-2021 og gildi til ársins 2027, en verði endurskoðuð reglulega á tímabilinu.

Greinargerð: Á árinu 2019 verður kosið um hvort bændur vilji halda í greiðslumark mjólkur frá og með 1. janúar 2021. Óháð niðurstöðu kosningar telur aðalfundur mikilvægt að greinin undirbúi sig í tíma, stillt verði upp þeim sviðsmyndum sem upp geta komið og unnin stefnumörkun útfrá þeim. Meðal annars verður litið til þeirrar umræðu sem samráðshópur um endurskoðun búvörusamninga er gert að taka.

Tillagan samþykkt samhljóða.

4.3 Skilgreining á nýliða í búvörusamningum

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017, beinir því til landbúnaðarráðherra að breyta skilgreiningu á nýliða í reglugerð um stuðning í nautgriparækt þegar kemur að innlausnarmarkaði, þannig að nýliði sé sá sem hafið hefur búskap á síðastliðnum 5 árum. Að öðrum kosti er hópur bænda, sem réttilega eru nýir í búgreininni, ekki hluti af þeim nýliðum sem hafa forgang að kaupum 25% þess greiðslumarks sem hefur verið innleyst, skv. 3. mgr. 9.gr. Að óbreyttu hafa einungis þeir sem hefja búskap eftir 1. janúar 2017 rétt á forgangi að þeim 25% sem ætluð eru nýliðum en ekki til að mynda þeir sem hófu búskap í desember 2016. Breyting á skilgreiningu nýliða þegar kemur að innlausnarmarkaði er því nauðsynleg til að ná fram markmiðum búvörusamninga um aukinn stuðning við nýliða í búrekstri og til þess fallin að draga úr ósanngjarnri mismunun vegna þröngra tímamarka í skilgreiningu á nýliða í gildandi ákvæði umræddrar reglugerðar.

Tillagan samþykkt samhljóða.

4.4 Kynning á EUROP-kjötmatskerfinu

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017 fagnar því að nú sjáist fyrir endann á innleiðingu EUROP-matsins. Fundurinn bendir á mikilvægi þess að breytingin verði vel kynnt fyrir bændum. Einnig hvetur fundurinn LK til að fylgjast vel með þróun á verði milli flokka við upptökuna. 

Erla Rún Guðmundsdóttir ræddi tillöguna og umræðu sem varð á fundi kúabænda í A-Skaft um þessi mál og tillögu þess efnis sem samþykkt var á aðalfundi  nautgriparæktarfélagsins að fresta breytingum á kjötmatinu og þar sem varað er við líklegum neikvæðum áhrifum á verð til bænda. Erla lagði til ofangreindri  tillögu yrði vísað frá.

Samúel Ú. Eyjólfsson lagði til að tilllagan yrði samþykkt og lagði áherslu á stjórn ynni fast í eftirfylgni með tillögunni.

Frávísunartillagan felld með öllum greiddum atkvæðum gegn einu.

Erla Rún Guðmundssdóttir ræddi tillöguna og kvaðst vera mótfallin henni og vísaði í umræðu á aðalfundi  nautgriparæktarfélags A-Skaft og tillögu sem samþykkt var þar.

Aðalsteinn Hallgrímsson ræddi tillöguna og kvaðst vera sammála því að samþykkja tillögu sem lægi fyrir fundinum, m.a. vegna kynningarþáttarins og eins þyrfti að fylgjast vel með verðlagningu einstakra gæðaflokka.

Bessi Vésteinsson ræddi tillöguna.

Upphaflega tillagan samþykkt með einu mótatkvæði. 

4.5 Fríar fitusýrur í tankmjólk

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.-25. mars 2017, beinir því til stjórnar SAM að gangast fyrir því að gerð verði úttekt á orsökum þess að í tankmjólk mælast fríar fitusýrur yfir mörkum. Markmiðið er að hægt sé að leiðbeina bændum um hvernig eigi að bregðast við. 

Greinargerð:

Margir mjólkurframleiðendur hafa orðið fyrir því að í tankmjólkinni mælast of háar fríar fitusýrur. Í mörgum tilfellum hefur reynst erfitt að finna orsökina en vandamálið virðist vera samspil fóðrunar og vélbúnaðarins. Þetta er mikið hagsmunamál fyrir bóndann, hann verður fyrir skerðingu á afurðaverði, einnig fyrir afurðastöðvar í lakara hráefni og síðast en ekki síst laskast ímynd mjólkurinnar sem hágæða afurðar. 

Finnur Pétursson ræddi tillöguna og hvatti Snorra Sigurðsson að lýsa skoðun sinni á efni tillögunnar.

Snorri Sigurðsson ræddi tillöguna. Óþarft þarf að rannsaka þessa hluti frekar, þessi vitneskja liggur fyrir. Málið er að koma þeirri þekkingu á framfæri við bændur.

Björn Birkisson ræddi orðalag tillöguna að fella út MS þar sem um er að ræða fleiri afurðastöðvar en MS.

Aðalsteinn Hallgrímsson taldi þörf á meiri samvinnu vélasala og mjólkureftirlitsmanna í þessum málu og tillagan gengur út á það.

Tillagan samþykkt samhljóða með orðalagsbreytingu í þá veru að geta um afurðastöðvar en ekki eingöngu MS, sjá skáletrun í tillögunni.

4.6 Afkoma bænda

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.-25. mars 2017, hvetur hæstvirtan Landbúnaðarráðherra að stuðla að því að þær breytingar sem kunna að verða gerðar á starfsumhverfi landbúnaðar á Íslandi bæti afkomu bænda.

Tillagan samþykkt samhljóða.

4.7 Doktorsnám á sviði erfðamengisúrvals í nautgriparækt

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.-25. mars 2017, leggur til að Landssamband kúabænda og Bændasamtök Íslands kosti sameiginlega laun doktorsnema á sviði erfðamengisúrvals í nautgriparækt.  Verkefnið verði fjármagnað af þeim hluta Framleiðsluráðssjóðs sem féll í hlut LK og BÍ við slit sjóðsins á liðnu ári.

Greinargerð:

Á vettvangi samtaka bænda er nú unnið að innleiðingu á erfðamengisúrvali í nautgriparækt, sem að líkindum mun stuðla að einhverri mestu byltingu á kynbótastarfi nautgriparæktarinnar í áratugi.  Hingað til hefur verkefnið verið fjármagnað með stuðningi úr þróunarsjóði nautgriparæktar og hlut LK í Framleiðsluráðssjóði. Einnig hefur verið sótt um stuðning við það úr Framleiðnisjóði.

Fyrir liggur að verkefnið er mjög umfangsmikið, þróun erfðamengisúrvals er ör og með innleiðingu þess þarf að endurskipuleggja marga þætti kynbótastarfsins frá grunni. Skilvirkasta leiðin til að byggja upp þekkingu hér innanlands, bæði fyrir núverandi bændur og (nýjar) komandi kynslóðir, er að styðja öfluga nemendur til framhaldsnáms á þessu fræðasviði.

Tillagan samþykkt samhljóða.

4.8 Sjálfstæði aðildarfélaga LK

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.-25. mars 2017 minnir á mikilvægi sjálfstæðis aðildarfélaganna og hvetur félögin til aukins samstarfs og sameiningar félaga þar sem því verður við komið.

Erla Rún Guðmundsdóttir ræddi tillöguna.

Pétur Diðriksson sagðist telja mikilvægt að  hvert einstakt aðildarfélag væri sjálfstætt en sjálfsagt að leita mismunandi leiða til samvinnu milli félaga í héraði.

Erla Rún Guðmundsdóttir sagði það sitt álit að það væri alveg til umhugsunar að tengjast í heimahéraði við önnur félög þó í annarri búgrein væru.

Tillagan samþykkt samhljóða.

4.9 Áskorun til Auðhumlu vegna lágmarks á sóttu mjólkurmagni

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.-25. mars 2017 mótmælir ákvörðun stjórnar Auðhumlu  um að hætta að sækja mjólk til minni framleiðenda, þ.e. að ekki sé tekið magn undir 200 ltr. í ferð. Það er ekki gott til afspurnar fyrir þetta sameiginlega félag okkar mjólkurframleiðenda að ýta út úr stéttinni þeim sem minnsta framleiðslu hafa án tillits til gæða mjólkurinnar eða stöðu þessa fólks. Viðbárur um sjálfvirkan sýnatökubúnað mjólkurbílanna eru ekki haldbær rök.

Finnur Lárusson lagði til breytingatillögu sem fælist í að fella síðustu málgreinina út úr tillögunni.

Breytingatillagan felld með 11 atkvæðum gegn 9  og upphaflega tillagan samþykkt samhljóða.

 

  1. Reikningar og fjárhagsáætlun Landssambands kúabænda

Ársreikningar Landssambands kúabænda rekstrarárið 2016

Margrét Gísladóttir kynnti rekstrarniðurstöðu félagsins  en  tekjur voru 132.490.728 krónur og gjöld alls 58.326.408 krónur. Fjármagnstekjur 2.380.440, hagnaður því 76.544.760 krónur. Eignir samtals 154.223.717 krónur en skuldir 3.114.872 krónur og skuldir og eigið fé alls 154.233.717 krónur.

Jóhann Nikulásson óskaði eftir útskýringu á launaþætti samtakanna og eins útskýringu á liðnum; styrkir og auglýsingar.

Margrét Gísladóttir sagði frá því að launaþáttur væri hærri en ella vegna framkvæmdastjóraskipta á liðnu ári. Varðandi styrki og auglýsingar þá er þar um að ræða m.a. herferðina „Bændur segja allt gott“,  annað verkefni er „Sumarilmur“ sem var í gangi sl. sumar auk styrks til verkefnisins „Meistrarkeppni kjötiðna“ sem haldin er á tveggja ára fresti.

Ársreikningur LK  2016 samþykktur samhljóða.

Fjárhagsáætlun Landssambands kúabænda fyrir árið 2017.

Margrét Gísladóttir kynnti áætlunina,  36,7 milljónir króna í tekjur og  53 milljónir í gjöld og afkoma verði því neikvæð um 16,3 milljónir króna.

Fjárhagsáætlun samþykkt samhljóða.

 

  1. Kosningar

Formaður kjörstjórnar, Samúel U. Eyjólfsson kynnti kosningafyrirkomulagið, kosnir verða fjórir menn í stjórn.

Fimm einstaklingar hafa nú þegar gefið kost á sér sem aðalmenn í stjórn, þau Bessi Vésteinsson Elín Heiða Valsdóttir og Pétur Diðriksson sem allir eru núverandi stjórnarmenn. Auk þess Herdís Magna Gunnarsdóttir og Rafn Bergsson.

Úrslit kosninga í aðalstjórn urðu eftirfarandi:

Bessi Vésteinsson                   31 atkvæði

Elín Heiða Valsdóttir               30 atkvæði

Herdís Magna Gunnarsdóttir 26 atkvæði

Pétur Diðriksson                      24 atkvæði

Þau fjögur ofantöldu eru því aðalmenn í stjórn LK næsta starfsár. Rafn Bergsson hlaut 22 atkvæði.

 

Þá voru kosnir tveir menn í varastjórn.

Fjórir gáfu kost á sér til varastjórnar, þeir  Davíð Jónsson Egg, Valþór Freyr Þráinsson L-Reykjum, Magnús Eyjólfsson E- Pétursey og Rafn Bergsson Hólmahjáleigu.

 

Úrslit kosninga í varastjórn urðu eftirfarandi:

Davíð Jónsson                         25 atkvæði

Rafn Bergsson                        20 atkvæði

Valþór F. Þráinsson                 11 atkvæði

Magnús Eyjólfsson                  10 atkvæði.

Davíð og Rafn því réttkjörnir í varastjórn LK starfsárið 2017 til 2018.

 

Formaður kjörnefndar kynnti tillögu að kosningu fulltrúa LK inn á Búnaðarþing en formaður LK er sjálfkjörinn inn á Búnaðarþing. Tillaga kjörnefndar er eftirfarandi:

Aðalmenn:

Bessi Vésteinsson

Elín Heiða Valsdóttir

Herdís Magna Gunnarsdóttir

Pétur Diðriksson

Varamenn  í þessari röð:

  1. Rafn Bergsson
  2. Valþór F. Þráinsson
  3. Linda
  4. Magnús Sigurjónsson
  5. Davíð Jónsson

Tillaga kjörnefndar samþykkt samhljóða

 

Formaður kjörnefndar kynnti tillögu um skoðunarmenn:

Aðalmenn:

Aðalsteinn Hallgrímsson og

Borghildur Kristinsdóttir

Varamaður:

Valdimar Sigmarsson.

Tillaga kjörnefndar samþykkt samhljóða.

 

Formaður kjörnefndar kynnti tillögu um fulltrúa félagsins í Nautís

Sigurður Loftsson

Tillaga kjörnefndar samþykkt samhljóða

 

  1. Önnur mál

Arnar Árnason ræddi nýsamþykktar breytingar á samþykktum LK.  Í kjölfarið leggur stjórn LK eftirfarandi tillögu fram:

Árgjald hollvina Landssambands kúabænda

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017, leggur til að árgjald fyrir hollvini Landssambands kúabænda verði kr. 4.000,-

Tillagan samþykkt samhljóða.

Arnar Árnason lagði jafnframt til tillögu stjórnar LK að árgjald félagsmanna til LK verði óbreytt næsta starfsár

Tillagan samþykkt samhljóða.

Samúel U. Eyjólfsson þakkaði fyrir samstarfið á liðnum árum á þessum vettvangi, bauð jafnframt nýja stjórnarmenn velkomna til starfa í þetta krefjandi verkefni sem stjórnarseta í LK er.

 

  1. Fundarslit.

Arnar Árnarson þakkaði starfsmönnum fyrir vel unnin störf og fundarmönnum öllum og sleit síðan fundi um kl 17.

 

Runólfur Sigursveinsson ritaði fundargerð