Aðalfundur LK 2016
01.04.2016
Aðalfundur LK 31.mars og 1.apríl 2016 haldinn í Reykjavík
1. Fundarsetning. Sigurður Loftsson formaður LK setti fund kl 10 og bauð fundarmenn velkomna, sérstaklega landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, formann BÍ auk aðalfundarfulltrúa.
Formaður LK rakti í stuttu máli upphaf starfs LK fyrir 30 árum og þær breytingar sem hafa orðið frá þeim tíma. Gat um hina nýju samninga sem undirritaðir voru þann 19. feb. sl. Gat þess í því sambandi að eitt verkefni aðalfundarins væri að ræða útfærslu einstakra liða samninganna.
Formaður lagði fram tillögu að starfsmönnum aðalfundar, fundarstjórar verði Jón Gíslason og Borghildur Kristinsdóttir, fundarritari Runólfur Sigursveinsson. Ekki komu fram aðrar tillögur og tóku fundarstjórar við stjórn fundarins.Þeir kynntu tillögu að uppstillingar- og kjörbréfanefnd aðalfundar: Pétur Diðriksson formaður, Bóel Anna Þórisdóttir og Guðmundur Óskarsson. Tillagan samþykkt.
2. Skýrsla stjórnar – Sigurður Loftsson og Baldur Helgi Benjamínsson
Sigurður fór fyrst yfir þær miklu breytingar sem hafa orðið á umfangi greinarinnar frá þvi fyrir 30 árum, bæði í fjölda bænda, bústærð og svo frv.
Ræddi veðráttu liðins árs sem var það kaldasta á öldinni. Sala afurða gekk vel, 132,8 milljónir lítra á fitugrunni, 122,6 milljónir í próteinsölu. Misvægið mjög mikið milli fitu og próteins. Fitusalan hefur aukist um 30% á 10 ára tímabili. Framleiðslan í heild árið 2015 um 146 milljónir lítra. Á yfirstandandi ári er greiðslumark 136 milljónir lítra.
Verðlagsnefnd var skipuð 1. júlí 2015, ASÍ og BSRB nýttu sér ekki heimild til að skipa fulltrúa í nefndina en velferðarráðherra skipaði í staðinn þá fulltrúa eins og kveðið er á um í gildandi löggjöf um verðlagsnefndina. Nefndin ákvað síðan breytingar á verði frá 1. ágúst 2015, lágmarksverð hækkaði til bænda um 1,77% , vinnslu- og dreifingarkostnaður um 5,53%, smjör hækkaði síðan um 11,6% en er þó enn undirverðlagt.
Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri LK ræddi afkomuvöktun, greindi frá samantekt á rekstri 38 kúabúa, 2013 og 2014 sem unnin var á liðnu ári. Geysimikill munur er á milli búa í breytilegum kostnaði samkvæmt þessari samantekt, breytilegur kostnaður þar sem hann er hæstur, var um 80 kr/ltr. en lægstu tölur um 45 kr/ltr.
Fyrstu tölur um niðurstöður rekstrar kúabúa 2015 benda til verulegrar lækkunar á breytilegum kostnaði milli ára.
Fór yfir niðurstöðu kvótamarkaða á árinu 2015. Nokkur spenna virðist vera vegna markaðar núna 1. apríl. Ræddi framleiðslu og sölu nautgripakjöts á liðnu ári. Um 1.000 tonn af nautakjöti flutt inn á síðasta ári. Veruleg aukning er núna, síðasta ársfjórðung, í slátrun, bæði kúa og ungneyta sem bendir til þess að hlutdeild innlends nautakjöts á markaði aukist aftur á þessu ári.
Sigurður ræddi gerð búvörusaminga en samningavinnan hófst í byrjun sept. Haldnir 42 samningafundir, samningar undirritaðir þann 19. feb sl. Þakkaði sérstaklega verkstjórn formanns BÍ, Sindra Sigurgeirssonar. Ræddi feril samningamálanna og kynningu málsins, bæði í nóvember sl. og síðan núna í mars. Samningurinn um nautgriparæktina var síðan samþykktur með tæpum 75% atkvæða en um 24% voru mótfallin og 1,6% auð og ógild atkvæði. Atkvæði greiddu 70,8% félagsmanna. Útfærsla búvörusamninganna verður m.a verkefni þessa aðalfundar.
Baldur Helgi ræddi stöðu holdanautamálsins, 40 fósturvísar pantaðir í desember sl. Stefnt að töku fósturvísanna í vor, skola 10 kvígur frá 3 búum, uppsetning í sumar. Aðdragandi verkefnis hefur verið langur frá 1. fundi með ráðherra í okt. 2009 til 1. júlí 2015 þegar breyting á löggjöfinni varð að veruleika.
Fóstuvísar verða settir upp í júní í ár og fyrstu gripirnir koma væntanlega til slátrunar sumarið 2020. Einangrunarstöð er í uppbyggingu á St-Ármóti, þegar er afmarkað um 40 hektara land.
Verið að vinna að hönnun nýrrar einangrunarstöðvar og vonandi hefjast byggingaframkvæmdir í vor eða fyrri hluta sumars.
Baldur Helgi ræddi síðan um þá möguleika sem felast í úrvali á grunni erfðamengis. Þessi aðferðafræði er í raun bylting í ræktunarstarfi. Fyrir aðalfundinum liggur tillaga frá stjórn um framgang þessa verkefnis í íslenskri nautgriparækt.
Sigurður fjallaði síðan um framtíðarfjármögnun á starfi LK. Búnaðargjaldið er á förum, tillaga er uppi um gjald á afurðasölu sem kosti rekstur LK og aðildarfélaga. Þessi tillaga verður til umræðu hér á aðalfundinum. Samtök bænda þurfa að skoða alla kostnaðaruppbyggingu og mannahald. Nauðsynlegt að þétta hópinn til að nýta mannauð og fjármuni sem best.
Þá ræddi Sigurður um ráðstöfun Framleiðsluráðssjóðs en um það var rætt á síðasta Búnaðarþingi. Í sjóðnum eru um 480 milljónir króna, hlutur LK er um 120 milljónir króna af þessari upphæð. Fyrir aðalfundinum liggur tillaga um að ráðstafa þessum fjármunum í þekkingarsjóð með áherslu á ræktunarstarf.
Loks minntist Sigurður á dýravelferð sem er sífellt meira áberandi í almennri umræðu. Við sem umráðamenn dýra berum mikla ábyrgð og þurfum að taka vel á þeim málum á næstunni.
Í lok erindis þökkuðu Sigurður og Baldur Helgi fyrir samstarfið á liðnum árum en þeir hafa báðir ákveðið að hverfa af vettvangi starfa fyrir LK.
3. Umræður og ávörp gesta
Sigurður Ingi Jóhannsson atvinnuvegaráðherra ræddi niðurstöðu atkvæðagreiðslu um starfsskilyrði nautgriparæktar og fagnaði henni. Vert er að hafa í huga að innlendur markaður er að aukast, ár frá ári. Í nýjum samningi eru áherslur á eflingu nautakjötsframleiðslu. Á næstu árum þurfa bændur að vera tilbúnir að framleiða meira, krefjist markaðurinn þess. Velferðarmál dýra eru mikilvæg og verða sífellt meira áberandi í umræðunni. Ráðherra gat um nefndarskipan varðandi skoðun á núverandi aðbúnaðarreglugerðum landbúnaðarins.
Sindri Sigurgeirsson formaður BÍ óskaði LK til hamingju með 30 ára afmælið og þakkaði samstarfið á liðnum árum. Fagnaði niðurstöðum atkvæðagreiðslna um nýgerða búvörusamninga. Jafnframt nefndi hann að eftir er umræða á Alþingi um samningana. Mikilvægt að ná þar einnig góðri samstöðu.
Sindri gat þess að Bændasamtökin munu væntanlega innheimta veltutengt félagsgjald frá og með næsta ári. Ljóst er að ekki munu allir bændur kjósa að vera aðilar að heildarsamtökum eða búgreinasamtökum.
Egill Sigurðsson formaður MS og Auðhumlu ræddi stöðuna í framleiðslumálum mjólkur, þurfum núna að finna leiðir til að draga úr framleiðslu. Í ljósi þess hver framleiðslan er núna þá má búast við að aðgerðir munu birtast eftir helgi til að draga úr framleiðslu. Þær aðgerðir geta orðið erfiðar fyrir einstaka framleiðendur. Frá árinu 2017 munum við greiða tvö verð, annað fyrir innanlandsmarkaðinn, hitt vegna framleiðslu umfram innanlandsneyslu.
Ræddi tollamálin og verðlagningarmál og sagði Auðhumla og MS vera tilbúin til samstarfs um þau mál. Þakkaði jafnframt samstarfið við Sigurð og Baldur Helga á liðnum árum.
Arnar Árnason sagðist bjóða sig fram til formanns LK. Hefur starfsreynslu sem bóndi og sveitarstjórnarmaður til margra ára. Þurfum að undirbúa okkur fyrir atkvæðagreiðslu árið 2019. Sagðist vera talsmaður þess að einhverskonar framleiðslustýringarkerfi þyrfti að vera fyrir hendi í mjólkurframleiðslunni.
Jón Gíslason spurði ráðherra landbúnaðarmála um vinnubrögð við undirbúning búvörusamninga; er ástæða að breyta um vinnubrögð í undirbúningi slíkra mála ?
Sigurður Ingi taldi að vinna þyrfti enn betur í bæta samskiptin við neytendur og þéttbýlisbúana. Gat m.a. um jákvæðar niðurstöður könnunar um viðhorf almennings innan ESB til landbúnaðarstuðnings þar. Þurfum að vinna sameiginlega að bættum samskiptum.
Jóhann Nikulásson kynnti sig fyrir fundarmönnum en hann er í framboði til formanns LK, hefur unnið í félagsmálum undanfarna áratugi og hvetur fundarmenn til góðrar þátttöku á fundinum.
4. Fyrirmyndarbú LK 2016
Sigurður Loftsson gat þess að á síðasta aðalfundi LK hafi verið ákveðið að veita einu búi ár hvert viðurkenningu sem fyrirmyndarbú. Þetta bú er að þessu sinni Bryðjuholt í Hrunamannahreppi, bú hjónanna Samúels Unnsteins Eyjólfssonar og Þórunnar Andrésdóttur. Þar fer saman frábær rekstur, ásýnd og gott ræktunarstarf bæði í jarðrækt og í nautgriparækt.
Að þessum lið loknum var fundi frestað vegna hádegishlés og eftir hádegi var Fagþing nautgriparæktarinnar haldið og aðalfundur hófst aftur kl. 16.30 og þá var aðalfundi haldið áfram og tekinn fyrir 5. dagskrárliður aðalfundar.
5. Niðurstöður kjörbréfanefndar
Pétur Diðriksson kynnti niðurstöður kjörbréfanefndar, sem eru eftirfarandi:
Mjólkursamlag Kjalarnesþings
Finnur Pétursson Káranesi
Kúabændafélagið Baula á Vesturlandi
Jón Gíslason Lundi
Pétur Diðriksson Helgavatni
Sigurjón Helgason Mel
Félag nautgripabænda við Breiðafjörð
Hallur Pálsson Nausti
Gústaf Jökull Ólafsson Miðjanes
Félag kúabænda í Ísafjarðarsýslum
Svavar Birkisson Botni
Nautgriparæktarfélag V-Hún
Valgerður Kristjánsdóttir Mýrum III
Félag kúabænda í A-Hún
Linda B. Ævarsdóttir Steinnýjarstöðum
Brynjólfur Friðriksson Brandsstöðum
Félag kúabænda í Skagafirði
Ingi Björn Árnason Marbæli
Davíð Logi Jónsson Egg
Bessi Freyr Véststeinsson Hofstaðarseli
Félag eyfirskra kúabænda
Aðalsteinn Hallgrímsson Garði
Arnar Árnason Hranastöðum
Guðmundur Óskarsson Hríshóli
Þórir Níelsson Torfum
Félag þingeyskra kúabænda
Steinþór Heiðarsson Ytri-Tungu 2
Valþór Freyr Þráinsson Litlu-Reykjum
Nautgriparæktarfélag Vopnafjarðar
Halldóra Andrésdóttir Grænalæk
Félag nautgripabænda á Héraði og fjörðum
Halldór Sigurðsson Hjartarstöðum
Herdís Magna Gunnarsdóttir Egilsstöðum
Nautgriparæktarfélag Austur-Skaftafellssýslu
Eiríkur Egilsson Seljavöllum
Félag kúabænda á Suðurlandi
Valdimar Guðjónsson Gaulverjabæ.
Samúel U. Eyjólfsson Bryðjuholti.
Borghildur Kristinsdóttir Skarði
Bóel Anna Þórisdóttir Móeiðarhvoli.
Elín Heiða Valsdóttir Úthlíð
Ásmundur Lárusson Norðurgarði
Jórunn Svavarsdóttir Drumboddstöðum
Ragnar F. Sigurðsson Litla-Ármóti.
Sævar Einarsson Stíflu
Pétur Guðmundsson Hvammi
3. Umræður frh.
Bóel Anna Þórisdóttir ræddi komandi breytingar varðandi fjármögnun LK. Þetta gæti orðið ansi háar upphæðir fyrir einstök bú eins og fyrirliggjandi tillaga liggur fyrir. Ræddi einnig kjör til nýrrar stjórnar, vanda þarf þar valið.
Steinþór Heiðarsson ræddi dýravelferðarmál og mikilvægi þess að vel sé staðið að þeim málum hjá hverjum bónda. Leggur til við nefnd fundarins sem fjallar um þessi mál að allt dýrahald verði leyfisskylt. Þetta er áhrifaríkasta leiðin til að taka á þessu máli.
Jón Gíslason nefndi að einn fundarmaður hefur óskaði eftir að taka til máls sem er ekki fulltrúi á fundinum, Birkir A. Tómasson bóndi á Móeiðarhvoli. Fundarstjóri leitaði eftir samþykki fundarins til þessa erindis og var það veitt samhljóða.
Birkir A. Tómasson ræddi nýjan búvörusamning um starfskilyrði kúabænda. Sagði að síðustu mánuðir hafa verið viðburðaríkir en kynnt voru drög að nýjum búvörusamningi í nóvember á liðnu ári. Þau komu ekki á óvart eins og virðist hafa verið með marga, en þó voru drögin byggð á vinnu undanfarinna ára. En nú virtust margir ekkert kannast við stefnuna, misskildu mál sem kosið hafði verið um á aðalfundum sem þessum og þá hafi einnig komið fram að stjórnarmaður stóð fast á því að honum væri bara alls ekkert skylt að fara eftir niðurstöðu aðalfundar nema þegar honum hentaði.
Þá ræddi hann rekstrarumhverfið. Við erum með rekstur með afar lágan veltuhraða miðað við fjárbindingu ásamt því að ákvarðanir þurfa að vera teknar með nokkrum fyrirvara er lúta að fjárfestingum og skuldsetningu. Það getur varla talist boðlegt að breyta 5 ára stefnu í einu vetfangi án þess að velta því upp hverjar afleiðingarnar verða.
Í þessu sambandi má nefna að þar sem bændur hafa nú kosið um að halda kvótakerfinu er þá ekki rökrétt framhald að MS afturkalli ákvörðun um fullar greiðslur fyrir umframmjólk á þessu ári, sé ekki annað en það liggi beint við, meirihluti bænda vill framleiðslustýringu, – hverjar svo sem afleiðingarnar af því verða.
Það eru nokkuð margir bændur, ég þar á meðal, sem hafa reynt að fylgjast með og tekið ákvarðanir út frá því að menn standi við orð sín, og ekki hefur vantað hvatninguna til að fjárfesta og auka framleiðslu, gleymum því ekki. Nú eru þessir bændur settir í þá stöðu að verða að bjóða í greiðslumark trúlega eins hátt og bankinn vill lána. En erum við ekki sjálf að segja að við þurfum ekki niðurgreiðslur þegar við samþykkjum að halda áfram að láta fyrrverandi bændur hafa niðurgreiðslurnar til að við getum fengið afurðastöðvarverðið.
En hvernig á að koma til móts við þennan hóp bænda þ.e. þann hóp sem hefur framleiðsluvilja og getu. Jú þeir fá forgang ásamt nýjum bændum að greiðslumarki sem aðrir selja ríkinu. Hvað verður það mikið? Hvað skiptist það á marga aðila? Ef við segjum að 50 bú hætta með ca. 140.000 lítra meðalframleiðslu, þá koma til skiptanna um það bil 7 milljónir lítra. Umframframleiðslan er ca. 20 milljónir lítra í dag og ef þetta rætist eru þetta mestu greiðslumarksflutningar sem sögur fara af á svo stuttum tíma. Er það líklegt? Mér finnst nær, og legg það til, að taka líka það greiðslumark sem væntanlega bætist við árlega (kannski að meðaltali 2-3% á ári næstu 10 ár) og láta þá hafa sem óska eftir því. Það er að deila ekki út aukningu til þeirra sem ekki vilja framleiða meira. Heldur verði að sækja um og svo deilist aukningin á þá sem vilja framleiða. Það myndi flýta fyrir þvi að bændur sem hafa framleiðslugetu geti fullnýtt sína aðstöðu og haft þá af því hagræðingu. Þá gengur ekki til lengdar að hafa framleiðsluskylduna undir 95% ef við ætlum að ríghalda í tvö verð. Það er ekki rétt að einn framleiðandi fái niðurgreiðslu fyrir það sem aðrir framleiða og það verður ekki sátt um það. Það er heldur ekki sanngjarnt að krefja þá sem framleiða umfram, að kaupa kvóta, þegar sá sem framleiðir undir sínum kvóta er ekki krafinn um að skila honum inn til handa hinum.
Það þarf nýja sátt meðal bænda – allra bænda – Það þarf að finna leiðir til að atorkusamir bændur nái vopnum sínum. Það er ekki vænlegt fyrir greinina í heild að missa marga slíka út og ég tel að þeim verður ekki haldið niðri með valdi sérstaklega eftir þær framleiðsluaðstæður sem við höfum búið við undanfarið.
Við göngum nú í gegnum miklar breytingar víða í framleiðsluumhverfi okkar og hljótum því að krefjast þess að stjórn okkar standi af trúfestu og öryggi í brúnni með sterkt bakland. Því miður er það ekki öfundsvert hlutverk að takast á við, þegar við horfum á umræðu á samfélagsmiðlum á síðustu misserum. Þar er stundum látið eins og þeir sem starfa fyrir okkur viti ekki neitt og þeir sem skrifa, viti allt. Það er óhjákvæmilegt að slíkar umræður hafi áhrif á forystusveit okkar sem og aðra, bæði málefnalega og því miður einnig persónulega. Þessu verður að breyta, við verðum að komast upp úr því að fara í manninn en ekki málefnið, annars munum við aldrei geta valið úr þeim starfskröftum sem við viljum.
Við hjónin byrjuðum að búa 1998 og höfum lagt metnað okkar í að byggja okkur upp í húsakosti og tæknibúnaði, stækkað búið jafnt og þétt og gætt þess að eiga okkur sjálf, rekum fjölskyldubú. Það er því dapurlegt að upplifa, sem sjálfstæður bóndi, þær dylgjur sem fyrrverandi ráðherra landbúnaðarmála hefur látið frá sér í skrifum sínum í Bændablaðinu. Skrifandi þar um dugmikla bændur sem undirtyllur bankastofnana eða bankabændur og þaðan af verra. Þakkar þannig fyrir sig eftir að hafa fengið sérhannað þægilegt starf á lokavinnumetrum sínum í boði okkar.
Nei, svona skrif hvort sem er í Bbl eða netmiðlum, geta ekki verið til góðs og aldrei til að auka sátt og samstöðu.
Birkir þakkaði að lokum fráfarandi stjórnarmönnum og framkvæmdarstjóra þeirra framlag á liðnum árum og óskaði nýrri stjórn, hver svo sem hún verður, velfarnaðar í sínum störfum.
Eiríkur Egilsson ræddi umræðuna í fjölmiðlum varðandi upphæðir í búvörusamingum. Þurfum almennt að reyna að snúa umræðunni, þurfum hvert og eitt að skoða hvað við getum gert í því sambandi. Það hafa verið felldir niður tollar og vörugjöld versluninni til góða og neytendum, hins vegar þurfti ríkið að halda þeim greiðslum annars staðar og þá í gegnum virðisauka á matarverði. Endurgreiðsla á kostnaði vegna kvikmyndargerðar er annar þáttur. Skýringin var að við þyrftum að gera þetta á sama hátt og önnur lönd. Sífellt verið að þrengja að innlendri matvælaframleiðslu m.a. vegna lækkunar tolla á matvælum þó svo einhverjar lækkanir komi á móti varðandi markaðsaðgengi á ákveðnar vörur til útflutnings. Virðist vera ákveðinn flumbrugangur hjá stjórnvöldum varðandi þessi mál. Við þurfum að verja hagsmuni okkar enn frekar en gert hefur verið.
Valdimar Guðjónsson. Ánægjuleg niðurstaða varðandi atkvæðagreiðslur um búvörusamninga og þörf á að fylgja þessu eftir í gegnum Alþingi sem fyrst. Erindið um erfðamengið mjög áhugavert og í raun byltingarkennt. Þörf á að fylgja þessu máli vel eftir m.a. af nýrri stjórn LK.
Pétur Diðriksson vill þakka stjórn LK fyrir alla vinnuna varðandi gerð nýsamþykkts samnings. Þakkaði sérstaklega fráfarandi formanni fyrir óeigingjarnt starf undagenginna ára. Ræddi orð Birkis hér á undan og sagði að margt hefði verið rétt þar sagt. Þær ákvarðanir sem gerðar voru á tilvonandi samningi á þeim tíma voru ekki góðar. Samningurinn í dag er þess eðlis að við stöndum næstu ár í sömu sporum og nú. Í Evrópu hafa menn lagt kvótakerfi til hliðar og verð hefur lækkað og þá verður enn meiri munur á okkar verði og því verði sem gengur og gerist erlendis. Hvatinn til að draga úr kostnaði við mjólkurframleiðslunni verður ekki mikill í núverandi samningi. Ef við ætlum okkur eitthvað með íslenska mjólkurframleiðslu verðum við að lækka kostnað. Ef við viljum að halda í kvótakerfi áfram þá gætum við lent í að uppfylla ekki innanlandsmarkaðinn. Eina leiðin til að halda fullri markaðshlutdeild er að hafa eitt verð og það þýddi þá að iðnaðurinn myndi lækka núgildandi verð um nokkrar krónur.
Jón Gíslason ræddi umræðuna um landbúnaðarmál. Það er ekki sjálfgefið að viðhalda(þessum) óbreyttum stuðningi til landbúnaðarins. Mjög nauðsynlegt að ná góðu samtali við sem flesta um þróun búgreinarinnar og stuðning við hana.
Jóhann Nikulásson ræddi stöðu þeirra sem hafa verið að framleiða verulega umfram framleiðslurétt síðustu ár. Hún verður mjög erfið miðað við stöðuna í sölu og framleiðslumálunum núna. Varar við umræðu um útflutningsbætur. Greiðslur á alla mjólk má líta á sem þróunarkostnað við að ná markaði erlendis. Þurfum að stækka heildarkökuna í framleiðslunni og það gerist ekki nema að viðhalda þeim mörkuðum sem þegar eru. Búgreinin sjálf þarf að marka sér stefnu um framtíðina. Eigum við að halda í kvótakerfið og þá innanlandsmarkaðinn en sleppa tilraunum til útflutnings eða ætlum við að stefna að stækka kökuna og ná frekari fótfestu á erlendum markað? Þurfum að halda vel utan um þá bændur sem hjálpuðu hvað mest við að auka framleiðsluna þegar vantaði mjólk hér innanlands. Mikilvægt ákvæði í samningnum að aðskilja bókhald vinnslustöðvar, innanlands og erlendis.
Guðný Helga Björnsdóttir þakkaði fyrir samstarfið í stjórn LK en 11 ár eru liðin frá því hún tók fyrst sæti í stjórn LK. Það liggja fyrir aðalfundinum núna tvær tillögur um hámarksárafjölda stjórnarmanna í stjórn. Kvaðst þessu mótfallin út frá þeirri reynslu sem hún hefur af starfinu. Hins vegar erum við tilbúin að taka á móti nýju fólki á hverjum tíma, það sjáum við t.d. með tilkomu nýs stjórnarmanns á liðnu ári. Hefur áhyggjur af stöðunni næstu ár m.t.t markaðssóknar á erlendan markað. Þurfum að gefa MS tækifæri til að sækja þar áfram til að þróa vænlega markaði. Hættan er sú að bændur dragi mjög snögglega úr framleiðslu núna m.t.t stöðu mála næstu ár.
Sigurður Loftsson þakkaði fyrir umræðurnar hér á undan, svo og fróðleg erindi á fagþinginu. Það er áhyggjuefni ef framleiðslan dregst mjög skart saman næstu ár. Hversu mörg bú horfa á innlausnarþátt samningsins og ákveða að flýta starfslokum sínum? Ákvæðin um fjárfestingarstuðning allan tíma samningsins er m.a. hugsuð í því ljósi. Skoða þarf með opnum huga að hafna ekki fyrirfram tillögum um málefni greinarinnar til framtíðar. Stefnan til undirbúnings afnáms kvótakerfis var mörkuð í aðalfundarsamþykkt 2015.
Varðandi stöðu erfðamengismálsins; þá er það einfaldlega svo að það var talið til skamms tíma að íslenski kúastofninn væri of lítill fyrir þessa aðferðafræði og hins vegar hefur kostnaðurinn við aðferðina lækkað síðustu ár. Höfum fjármuni, ef við viljum fara í þetta verkefni í gegnum Framleiðsluráðssjóðinn.
Sammála Steinþóri um mikilvægi dýravelferðarmála og ábyrgð okkar er stór í þessum málum.
Birkir velti fyrir sér ýmsum þáttum, m.a. hvernig ákvarðanir birtast einstökum framleiðendum. Hvernig á t.d. LK að beita sér ef kvótalitlir framleiðendur munu vilja selja vöru sínar sér, fyrir utan núverandi skipulag á innanlandsmarkaði?
Tollasamningurinn mun búa til erfiðleika við afsetningu dufts til sælgætisiðnaðarins. Ef við ætlum að eiga almennilegt samtal við neytendur – þurfum við sjálf að bera virðingu fyrir hvert öðru – og síðan að eiga samtalið út á við.
Varðandi verðlagsmálin þá er það umhugsunarvert að það er undirbalans á innanlandsmarkaðnum vegna misvægis á sölu próteins og fitu. Spurning hvort verðhækkunin á liðnu ári hafi verið rétt. Hún kostaði iðnaðinn ákveðna fjármuni.
Varðandi tillögur sem liggja fyrir fundinum um hámarkstíma stjórnarmanna, þá skiptir reynsla mjög miklu máli og velti fyrir sér hvort ekki ætti að gilda hið sama um árafjölda fulltrúa inn á aðalfund.
6. Nefndarstörf
Að loknum umræðum hófust nefndarstörf en alls bárust rúmlega 25 tillögur til aðalfundarins frá aðildarfélögunum og stjórn LK.
Starfsnefndir fundarins voru þrjár:
Starfsnefnd 1. Formaður Aðalsteinn Hallgrímsson.
Starfsnefnd 2. Formaður Jórunn Svavarsdóttir.
Starfsnefnd 3. Formaður Steinþór Heiðarsson.
Nefndir störfuðu frá kl 18 á fimmtudag og fram til kl 11.30 á föstudag.
7. Kosning formanns LK
Arnar Árnason sagðist leggja áherslu fjögur meginviðfangsefni sem áhersluatriði til að byrja með, nái hann kjöri. Vinnu við útfærslu nýju saminganna, ímyndarmálin í samvinnu við BÍ. Auka jafnframt samstarf við BÍ m.a. með því að framkvæmdastjóri LK verði með starfsaðstöðu hjá Bændasamtökunum. Eins þarf að ganga frá sem fyrst ráðningu framkvæmdarstjóra. Er að bjóða fram starfskrafta sína í þágu allra kúabænda
Jóhann Nikulásson. Þurfum sérstaklega að hugsa um þá aðila sem hafa farið af stað með framkvæmdir síðustu ár. Vill leggja áherslu á að koma sjónarmiðum greinarinnar á framfæri á sem fjölbreyttastan hátt. Þurfum að efla samstarf við BÍ, m.a. með flutning starfsmanns LK inn í höfuðstöðvar Bændasamtakanna. Þurfum að efla samráð varðandi útfærslu aðbúnaðarreglugerða í landbúnaði. Erfðamengisverkefnið þarf að hafa forgang og verði af því þá er ekki þörf á innflutningi nýs erfðaefnis í mjólkurframleiðsluna. Hefur setið í stjórn LK í níu ár og nái hann ekki kjöri sem formaður, mun hann ekki gefa kost á sér í stjórn.
Kosning fór þannig að Arnar fékk 18 atkvæði en Jóhann 15 atkvæði og því er Arnar réttkjörinn formaður LK.
Arnar Árnason tók til máls og þakkaði fyrir kjörið og stuðninginn og sagðist hlakka til að takast á við verkefnin framundan.
8. Afgreiðsla mála
Frá starfsnefnd 1. Aðalsteinn Hallgrímsson
Aðalsteinn kynnti tillögu nr. 1 sem kom upphaflega frá stjórn LK og tók nokkrum breytingum í meðferð nefndarinnar.
1.1. Erfðamengisúrval.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 31. mars og 1. apríl 2016, felur fagráði í nautgriparækt að kanna möguleika á innleiðingu úrvals á grunni erfðamengis í kynbótastarf nautgriparæktarinnar, svo og hagkvæmni þess ef til kemur. Í því skyni verði:
Gerðar greiningar á arfgerð helstu ættfeðra íslenska kúastofnsins undanfarin ár, sem og aðrar greiningar sem að gagni koma að mati fagráðsins.
Undirbúin skipuleg vefjasýnataka úr íslenska kúastofninum til greiningar á arfgerð.
Líklegur ávinningur aðferðarinnar metinn, svo og sá kostnaður sem henni fylgir.
Verði niðurstöður úr framantöldu jákvæðar verði erfðamarkaúrval tekið í notkun í íslenskri nautgriparækt.
Greinargerð:
Erfðamengisúrval, sem á ensku kallast „genomic selection“, er um þessar mundir að ýta hefðbundnum afkvæmaprófunum í nautgriparækt til hliðar um nær allan heim og valda þannig einni mestu byltingu í kynbótastarfi nautgripa sem orðið hefur í áratugi. Með aðferðinni er ættliðabilið stytt um meira en helming og þannig hefur víða tekist að tvöfalda erfðaframfarir. Mikilvægt er því að fá úr því skorið hvort úrval á grunni erfðamengis gagnist íslenskri nautgriparækt enda ljóst að án þess skerðist samkeppnishæfni íslenskrar mjólkurframleiðslu verulega á ári hverju. Því leggur aðalfundurinn þunga áherslu á að verkefnið fari af stað svo fljótt sem verða má. Fundurinn leggur einnig til að kannaðir verði möguleikar á aðkomu fjölþjóðlegra sjóða sem stuðla eiga að verndun sérstæðra búfjárstofna, að fjármögnun þessa verkefnis.
Þórólfur Ómar Óskarsson fagnaði þessari tillögu sem mikilvægum þætti til að efla íslenska kúastofninn til framtíðar.
Jón Gíslason velti fyrir sér nafngift á tillögunni en í upphaflegu tillögunni var það “Erfðamarkaúrval”.
Jón Viðar Jónmundsson taldi úrval út frá erfðamengi vera skárra.
Jóhann Nikulásson velti fyrir sér um orðinu erfðamengisúrval. Fundarmenn samþykktu orðalagsbreytinguna um heiti tillögunnar.
Tillagan þannig samþykkt samhljóða.
1.2. Framtíð Nautastöðvarinnar á Hesti.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 31. mars og 1. apríl 2016, felur stjórn að leita samninga við Bændasamtök Íslands um framtíðarskipulag og rekstur Nautastöðvar BÍ.
Tillagan samþykkt samhljóða.
1.3. Uppbygging ræktunarkjarna holdagripa á Stóra-Ármóti.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 31. mars og 1. apríl 2016, felur stjórn Nautgriparæktarmiðstöðvar Íslands að vinna að uppbyggingu ræktunarkjarna holdagripa í fyrirhugaðri einangrunarstöð á Stóra-Ármóti. Fundurinn leggur til að fyrirtækið sæki um framlög til verkefnisins úr framleiðsluráðssjóði, þróunarsjóði nautgriparæktarinnar og Framleiðnisjóði landbúnaðarins. Fundurinn leggur ríka áherslu á að slíkur ræktunarkjarni verði undir forsjá kúabænda til frambúðar.
Greinargerð:
Í undirbúningi er uppsetning einangrunarstöðvar fyrir holdanautgripi í tengslum við tilraunabúið á Stóra-Ármóti, sem rekin verði af Nautgriparæktarmiðstöð Íslands, sem er í eigu Landssambands kúabænda, Bændasamtaka Íslands og Búnaðarsambands Suðurlands. Fyrst um sinn verða fluttir inn fósturvísar af Angus kyninu frá Noregi og þeim komið fyrir í kúm af íslenskum stofni. Til að tryggja aðgengi allra bænda að nýju erfðaefni, verður tekið sæði úr efnilegustu nautkálfunum sem þannig koma í heiminn en þeir síðan seldir til notkunar sem kynbótagripir í hjörðum bænda.
Lagt er til að efnilegustu kvígunum sem koma til af fósturvísainnflutningunum verði haldið eftir í einangrunarstöðinni og þær nýttar til að koma upp ræktunarkjarna úrvalsgripa við hana. Uppbygging á slíkum ræktunarkjarna tekur nokkur ár og er feikilega kostnaðarsöm, þar sem hún er eingöngu raunhæf með fósturvísainnflutningi. Í framhaldinu verði ræktunarkjarnanum viðhaldið með sæðisinnflutningi úr afkvæmaprófuðum nautum, erfðaframförum vegna kynbóta holdagripanna komið hingað til lands með þeim hætti og þannig skilað áfram til íslenskra bænda.
Þórólfur Ómar Óskarsson ræddi tillöguna og gerði athugasemdir um orðalag varðandi umsókn úr Framleiðsluráðssjóðnum, er ekki átt við hlut LK í þessum fjármunum?
Jóhann Nikulásson vakti athygli á því að felld hefur verið út síðasta málsgrein upphaflegu tillögunnar.
Fram kom að þarna hafi orðið mistök í flutning skjala á milli. Búið að leiðrétta það í ofangrendum texta.
Sigurður Loftsson rakti hvernig þetta hefði verið hugsað út frá upphaflegri tillögu. Telur að tillagan sé nægilega skýr sem slík.
Tillagan samþykkt samhljóða.
1.4. Fjöldi nautgripa í landinu.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 31. mars til 1. apríl 2016, beinir því til kúabænda, MAST og RML að tryggja áreiðanlegri skráningu nautgripa en verið hefur. Áreiðanlegar upplýsingar um fjölda gripa og væntanlega burði eru mjög mikilvægar við alla áætlanagerð vegna framleiðslu mjólkur og nautgripakjöts, svo og vegna gripagreiðslna, sem brátt fá aukið vægi í stuðningi við nautgriparæktina.
Tillagan samþykkt samhljóða.
1.5. Bætt rekstrarráðgjöf.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 31. mars til 1. apríl 2016, beinir því til RML að leggja aukna áherslu á rekstrarráðgjöf til bænda, meðal annars með því að endurvekja rekstrargreiningar-verkefni sem voru á vegum Búnaðarsambandanna.
Runólfur Sigursveinsson ræddi tillöguna og þakkaði fyrir þann áhuga sem þar birtist í efni tillögunnar. Við þurfum sameiginlega að vinna þessu máli framgang í þá veru að fá fyrr rekstrargögn í sameiginlega úrvinnslu.
Tillagan samþykkt samhljóða.
1.6. Kennsla í nautgriparækt.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 31. mars til 1. apríl 2016, skorar á Landbúnaðarháskóla Íslands að setja aukinn kraft í kennslu í nautgriparækt, m.a. með því að semja meira af kennsluefni og gera það aðgengilegt.
Tillagan samþykkt samhljóða.
1.7. Jarðrækt.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 31. mars til 1. apríl 2016, felur stjórn LK að gera úttekt á tilraunastarfi og leiðbeiningum í jarðrækt.
Greinargerð:
Jarðrækt er hverjum kúabónda afar mikilvæg. Þættir eins og uppskerumagn og vetrarþol skipta í því sambandi afar miklu máli en einnig má benda á t.d. lostætni fóðurs sem er afar mikilvæg en ekki endilega á áhugasviði þeirra sem að jarðræktartilraunum standa. Þá eru aðstæður afar misjafnar milli landsvæða og því ekki einfalt að uppfylla þarfir allra. Því felur fundurinn stjórn LK að taka þessi mál til umfjöllunar.
Jóhann Nikulássongerði athugasemd við orðanotkun, nota ætti orðið “lystugleiki” í stað orðsins “lostætni”.
Jón Gíslason taldi orðið lostætni væri gamalt og gott orð og ætti vel við í þessu sambandi.
Upphaflega tillagan samþykkt samhljóða.
1.8. Birting áburðareftirlitsskýrslna.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 31. mars til 1. apríl 2016, beinir því til MAST að birta niðurstöður úr eftirlitsefnagreiningum á áburði fyrr en verið hefur. Ótækt er að bændur sjái ekki niðurstöðurnar fyrr en þeir eru búnir að panta áburð næsta árs.
Tillagan samþykkt samhljóða.
1.9. Kynning á EUROP mati.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 31. mars til 1. apríl 2016, beinir því til stjórnar LK að kynna EUROP-kjötmatskerfið ýtarlega áður en það tekur gildi. Jafnframt þarf að efla ráðgjöf til nautakjötsframleiðenda.
Samúel Unnsteinn Eyjólfsson velti fyrir sér hvort nefndin hefði rætt það í sínu starfi hvernig greiðslur á nautakjötið kæmi inn í gæðaflokkunina.
Aðalsteinn Hallgrímsson sagði að þetta atriði kæmi fram í annarri tillögu síðar á fundinum.
Eiríkur Egilsson ræddi rekjanleika kjötsins, enn væri það svo að engin upprunamerking væri til staðar í versluninni eða vinnslunni. Þetta er til umhugsunar að ekki sé á boðstólum vara sem stendur undir því sem sagt er verið að selja.
Gústaf Jökull Ólafsson var sammála Eiríki. Það er ekki ásættanlegt að ekki sé hægt að rekja vöruna til baka.
Jóhann Nikulásson sagðist ekki sjá samhengi í þessu með rekjanleikann og efni tillögunnar.
Aðalsteinn Hallgrímsson sagði frá vinnu nefndarinnar um fyrirliggjandi tillögu. Lagði til að hún yrði samþykkt eins og hún kom úr nefnd.
Tillagan samþykkt samhljóða.
1.10. Hönnun vörumerkis á afurðir nautgripabænda.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 31. mars til 1. apríl 2016, skorar á stjórn Landssambands kúabænda að fylgja eftir samþykkt frá aðalfundi LK 2012 um hönnun vörumerkis á allar afurðir íslenskra nautgripabænda. Í ljósi mikils innflutnings á nautakjöti er nauðsynlegt að íslenskar nautgripaafurðir séu upprunamerktar og rekjanlegar á áberandi hátt svo augljóst sé fyrir neytendur að um íslenskt hráefni er að ræða.
Jóhann Nikulásson ræddi tillöguna með hliðsjón af umræðu um fyrri tillögu.
Eiríkur Egilsson lagði til orðalagsbreytingu að bæta við í lokin … og rekjanleiki tryggður
Aðalsteinn Hallgrímsson ræddi tillöguna og hvernig þessi mál eru að birtast. Hægt að viðhafa rekjanleikann í gegnum afurðastöðvarnar en þá slitnar þráðurinn.
Halldór Sigurðsson og Ragnar F. Sigurðsson lögðu til orðalagsbreytingu á efni tillögunnar.
Afgreiðslu frestað og tillögu vísað aftur til nefndar.
Tillagan samþykkt samhljóða með orðalagsbreytingu eftir yfirferð nefndarinnar.
1.11. Um samning um starfsskilyrði nautgriparæktar, gr. 7.1
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 31. mars til 1. apríl 2016, telur eðlilegt að fjármunir skv. gr. 7.1. úr samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar séu nýttir til jöfnunar á sæðingakostnaði samkvæmt þeim reglum sem í gildi eru þar um, og til kvíguskoðunar að því leyti sem hún getur nýst í sameiginlegu ræktunarstarfi.
Jón Gíslason ræddi tillöguna og sagði frá tilurð hennar.
Samúel Unnsteinn Eyjólfsson ræddi tillöguna og velti fyrir sér hvernig ætti að skilja tillöguna.
Jón Gíslason sagði þetta bæri að skilja á þann hátt að miðaðsé við núverandi fyrirkomulag.
Guðný Helga Björnsdóttir ræddi tillöguna með hliðsjón af umræðum í fagráði nautgriparæktar um skoðun á kvígum undan heimanautum og gjaldtöku vegna hennar.
Sigurður Loftsson sagðist vera þeirra skoðunar að sú ákvörðun að dæma eingöngu kvígur undan sæðingarnautum hafi verið röng. Þurfum að skoða þetta í samhengi við áhuga á ræktunarstarfinu í heild. Höfum ávallt þá hugsun að ræktunarstarf hvers tíma þarf að vera áhugavekjandi.
Valgerður Kristjánsdóttir sagði að þessi umræða hlyti að líða undir lok með erfðamengistillögunni.
Finnur Pétursson sagðist vera mikill áhugamaður um ræktun. Er ekki sáttur við að þegar dómari kemur í fjós og segist ætla að skoða kvígur en ekki kvígur úr okkar eigin ræktun. Þurfum að viðhalda og auka áhuga á ræktun og það gerum við ekki ef svona er unnið.
Jón Gíslason sagði að þessir peningar úr grein 7.1. væru takmarkaðir og því þyrfti að ráðstafa þeim með þeim hætti að þeir nýtist sem flestum.
Jón Viðar Jónmundsson ræddi tillöguna og reynslu sína af starfi við kvíguskoðun síðustu ár og áratugi. Það kostar afskaplega lítið að skoða eina eða tvær kvígur til viðbótar við hópinn. Það hefur meira gildi að spara skoðun á kvígum undan reyndum nautum. Þar gæti verið um að ræða raunverulegan sparnað á fjármunum. Ef tillagan um erfðamengisúrvalið nær fram þá eru kvígurnar undan heimanautum jafnvel enn verðmætari.
Tillagan samþykkt samhljóða.
1.12. Um samning um starfsskilyrði nautgriparæktar, gr. 9.2
Aðalfundur Landsambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 31. mars til 1. apríl 2016, telur eðlilegt að hluta fjármuna til stuðnings nautakjötsframleiðslu samkvæmt grein 9.2 í samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar sé varið til uppbyggingar og reksturs einangrunarstöðvar fyrir holdagripi. Að öðru leyti sé þessum fjármunum fyrst og fremst varið til að stuðla að aukinni framleiðslu betri flokka nautgripakjöts, samanber minnisblað frá stjórn L.K.
Tillagan samþykkt samhljóða.
Frá Starfsnefnd 2 Jórunn Svavarsdóttir
2.1 Frestun ákvæða aðbúnaðarreglugerðar til 2018
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 31. mars til 1. apríl 2016, beinir því til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að fresta til 31. desember 2018 gildistöku ákvæða aðbúnaðarreglugerðar sem lúta að breytingum á eldri fjósum. Einnig þarf túlkun reglugerðar og framkvæmd eftirlits að vera samræmd um allt land.
Greinargerð:
Í nýjum búvörusamningi er gert ráð fyrir fjármagni til breytinga á aðstöðu og verður hægt að sækja um styrki til þess. Því er mikilvægt að fresta gildistöku þessara ákvæða.
Tillagan samþykkt samhljóða.
2.2 Ítrekun á að jafnræðis verði gætt í eftirliti MAST á kúabúum
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 31. mars til 1. apríl 2016, ítrekar ályktun aðalfundar LK 2014 að beina því til MAST að framkvæmd eftirlits með kúabúum verði samræmd milli umdæma.
Halldór Sigurðsson ræddi tillöguna með samhengi við fyrri tillögu, nýsamþykkta.
Jórunn Svavarsdóttir ræddi muninn á tillögunum tveimur sem felst aðallega í því að annarri tillögunni er beint að ráðuneyti en hinni að MAST.
Finnur Pétursson ræddi mismun á tíðni heimsókna eftirlitsaðila milli búa og svæða. Eins er það óþolandi að skoðunarmenn séu ekki með samræmi í vinnubrögðum sínum. Fólk verður að geta teyst því að menn séu metnir jafnt – óháð því hvar þeir eru búsettir.
Aðalsteinn Hallgrímsson ræddi samskipti sín við eftirlitsaðila.
Guðný Helga Björnsdóttir sagði mjög slæmt að ekki sé samræmi í eftirliti milli svæða. Á fundi með lögfræðingum og eftilrlitsdýralæknum sem haldinn var í ráðuneyti landbúnaðarmála hefðu þeir sagt að horft væri frekar á vellíðan dýranna og hreinleika þeirra en einhverra sentimetra.
Gunnar Ríkharðsson ræddi hugmyndir um svokallað stöðumatsverkefni sem RML hefur hug á fara af stað með úttektum á fjósbyggingum. Á fundi með MAST nýlega kom fram að það þarf að breyta reglugerðinni til skýrleika til að hægt sé að fara eftir henni.
Tillagan samþykkt samhljóða.
2.3 Áskorun til stjórnvalda um tollvernd
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 31. mars til 1. apríl 2016, skorar á stjórnvöld og Alþingi að standa vörð um íslenskan landbúnað með því að tryggja að tollverndin verði leiðrétt eins og gert er ráð fyrir í nýjum búvörusamningi.
Tillagan samþykkt samhljóða.
2.4 Hvatning til LK um að beita sér fyrir málefnalegri umræðu um landbúnað
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 31. mars til 1. apríl 2016, fagnar faglegri og málefnalegri umræðu um landbúnað í fjölmiðlum og hvetur stjórn LK til að beita sér á þeim vettvangi.
Tillagan samþykkt samhljóða.
2.5 Bændum verði heimilað að hefja meðhöndlun veikra dýra í samráði við dýralækni
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 31. mars til 1. apríl 2016, ítrekar ályktun frá aðalfundi LK 2015, um að löggjöf og reglum um afhendingu dýralyfja verði breytt í þá átt að kúabændur hafi möguleika á að gera þjónustusamninga við dýralækna. Sem feli það í sér að forvörnum sé meira sinnt á kúabúunum og kúabændur fái að eiga ákveðin lyf til að hefja meðhöndlun á veikum gripum í samráði við sinn dýralækni.
Bendir fundurinn á að aðgengi að lyfjum getur verið dýravelferðarmál enda sýnir reynslan að dýralæknar eru ekki ávallt til staðar þegar á þarf að halda.
Tillagan samþykkt samhljóða.
2.6 Áskorun til MS um að hefja söluátak á mjólkurvörum á grunni íslenskra hefða
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 31. mars til 1. apríl 2016, hvetur MS til að hefja söluherferð á íslenskum mjólkurvörum og nýta þær auglýsingaleiðir sem eru í boði til að ná til ferðamanna, t.d. auglýsingar hjá flugfélögum, höfnum og flughöfnum, ferðablogg og fleira.
Greinargerð:
Margt bendir til þess að flestir erlendir ferðamenn, sem dvelja hér á landi í nokkra daga, kynnist íslensku skyri. Á hinn bóginn virðist almennt lítið gert til þess að kenna ferðamönnum að borða skyrið að hætti heimamanna, t.d. með rjóma. Dæmi eru um að bændur, sem einnig starfa við ferðaþjónustu, hafi lagt sig fram um þetta og þannig tekist að selja viðskiptavinum sínum sérstaka ,,upplifun“. Þarna er því sóknarfæri í markaðssetningu á mjólkurvörum með erlenda kaupendur í huga. Ein útfærslan gæti verið að nota tveggja hólfa umbúðir á borð við þær sem hrísmjólk og engjaþykkni eru seldar í þannig að kaupendur gætu sjálfir hellt hæfilegu magni af rjóma út á skyrið.
Finnur Pétursson sagði frá því að í Bretlandi hefur verið í gangi söluherferð Arla á skyri sem hefði ekki gengið vel.
Samúel Unnsteinn Eyjólfsson hvatti fundarmenn og kúabændur almennt að taka virkan þátt í sölustarfi með því að benda á mjólkurvörur á hverjum veitingastað sem við heimsækjum hver fyrir sig.
Valdimar Guðjónsson ræddi tillöguna og gagnsemi hennar með hliðsjón afhvort þetta væri hlutverk LK. (í upphaflegu tillögunni var málinu beint bæði til LK og MS)
Aðalsteinn Hallgrímsson ræddi tillöguna og hvort ekki væri rétta að beina þessu að afurðafyrirtækinu sérstaklega.
Sigurður Loftsson ræddi tillöguna og hvernig hefði verið staðið að málum af hálfu stjórnar LK fram að þessu varðandi þessi mál.
Tillagan samþykkt samhljóða með orðalagsbreytingu.
2.7 Smithætta vegna innflutnings á ófrosnu kjöti
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 31. mars til 1. apríl 2016, tekur undir álit virtra vísindamanna og lækna um hættuna af þvi að flytja inn til landsins ófrosið hrátt kjöt. Telur fundurinn að það séu sannanlega miklir neytendahagsmunir að það verði ekki gert. Því skorar fundurinn á stjórnvöld að sýnt verði fram á með vísindalegum rökum, hver sérstaða Íslands er gagnvart sjúkdómum sem herja á erlend búfjárkyn.
Jón Gíslason spurði hvaða afleiðingar það gæti haft að hundsa þetta álit.
Þórólfur Ómar Óskarsson taldi að þetta álit væri fyrst og fremst leiðbeinandi.
Finnur Pétursson lagði fram tillögu að breytingu á orðalagi, að í síðustu málsgrein komi:
Því skorar fundurinn að …….
Eiríkur Egilsson ræddi málið út frá umræðum á Búnaðarþingi, m.a. að senda fulltrúa til Brussel til viðræðna um málið.
Halldór Sigurðsson ræddi efni tillögunnar.
Tillagan samþykkt samhljóða með orðalagsbreytingum.
2.8 Afkomuvöktun nautgriparæktarinnar
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 31. mars og 1. apríl 2016, felur stjórn samtakanna að koma á reglubundinni vöktun á afkomu greinarinnar í samráði við Bændasamtökin, bókhaldsskrifstofur búnaðarsambandanna og RML. Haldið verði utan um þróun á rekstri og efnahag búa í nautgriparækt. Sérstakt átak verði gert til að efla söfnun gagna frá búum sem stunda sérhæfða nautakjötsframleiðslu og hjarðeldi. Jafnframt byggi samtökin upp vísitölu framleiðslukostnaðar nautgripaafurða, sem taki til þróunar á verði lykilaðfanga á borð við kjarnfóðurs, áburðar, gasolíu, launa og fjármagnskostnaðar.
Stefnt skal að birtingu bráðabirgðaniðurstaðna um afkomu liðins árs á aðalfundi samtakanna ár hvert. Jafnframt er skorað á Hagstofu Íslands að nýta upplýsingar úr þeim landbúnaðarframtölum sem stofnuninni berast, til að varpa ljósi á þróun í afkomu einstakra búgreina.
Tillagan samþykkt samhljóða
2.9 Um dýravelferð
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 31. mars til 1. apríl 2016, harmar þau einstöku mál sem komið hafa upp vegna illrar meðferðar á nautgripum. Aðalfundurinn minnir á að stjórnvöld og opinberir eftirlitsaðilar hafa það hlutverk að fylgja eftir ákvæðum laga og reglugerða um velferð nautgripa og brýnir alla hlutaðeigandi til að beita þeim úrræðum sem heimil eru í lögum og reglulgerðum, þannig að velferð allra nautgripa hér á landi sé tryggð. Í þessu sambandi minnir fundurinn á að LK hefur nú þegar unnið stefnumörkun fyrir svokallað fyrirmyndarbú LK og SAM, sem innifela leiðbeiningar um góða búskaparhætti þar sem m.a. velferð dýra er höfð að leiðarljósi.
Fundurinn beinir því til stjórnar LK að yfirfara lög og reglur sem að þessum málum snúa, með það að markmiði að styrkja enn frekar velferð nautgripa hér á landi. Í þeirri vinnu leiti stjórn samstarfs við aðra aðila sem málið varðar
Tillagan samþykkt samhljóða.
2.10 Útfærsla rammasamnings landbúnaðarins
Nýliðunarstyrkir
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 31. mars til 1. apríl 2016, beinir því stjórnar LK að setja af stað vinnu við mótun verklagsregla um stuðning við nýliðun í nautgriparækt úr rammasamningi búvörusamnings. Áhersla verði m.a. lögð á eftirfarandi.
o Nýliðunarstyrkir verði þrepaskiptir. Möguleiki þarf að vera til staðar fyrir þá nýliða sem koma inn í búskap í smærri skrefum að hljóta stuðning, því oftar en ekki er um mjög mikla fjárfestingu að ræða.
o Nýliðunarstyrkir renni til ungra bænda sem koma inn í greinina. Miðað verði við hámark 35 ára aldur og teljist bóndi nýliði fyrstu 5 búskaparárin.
Eiríkur Egilsson ræddi nýliðunarstyrkveitingar og sagði að sér fyndist óeðlilegt að hamla fólki eldra en 35 ára að hafa aðgengi að þessum stuðningi. Leggur til að þetta ákvæði verði fellt út úr tillögunni.
Brynjólfur Friðriksson lagði fram breytingatillögu um að fella algjörlega út aldursmörkin.
Ingi Björn Árnason ræddi málið og þau rök sem eru fyrir þessum aldursmörkum. Þurfum ungt fólk í greinina. Eldra fólkið hefur oft eigið fé í startinu. Þetta á að vera hvatning til að hleypa yngri kynslóðinni að ef um ættliðaskipti er að ræða.
Snorri Sigurðsson ræddi ESB reglur um aldursmörk, mismunandi eftir löndum. Þar eru m.a. framkvæmdastyrkir tengdir einnig aldri bænda og í þá veru að yngri bændur fái meira fjármagn.
Tillaga Brynjólfs felld með 15 á móti 4 atkvæðum.
Tillaga Eiriks um 40 ára aldursmark felld með 12 gegn 11 atkvæðum.
Upphaflega tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum gegn einu mótatkvæði.
Þá kynnti Jórunn Svavarsdóttir umræðu í starfsnefnd 2 um jarðræktarstyrki og landgreiðslur.
Áherslupunktar
o Lögð er áhersla á að skráningarkerfi og framkvæmd vegna útdeilingar á landgreiðslum verði einföld, ódýr og skilvirk.
Ekki var gerð sérstök ályktun um málið á aðalfundinum.
2.11 Um dýravelferð
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 31. mars til 1. apríl 2016, hvetur stjórn LK til þess að upplýsa almenning um gildandi reglur er varða dýravelferð og viðurlög við brotum á þeim.
Greinargerð:
Eitt af viðurlögunum er að bændur geta misst framleiðsluleyfi og þar með eru afurðir þeirra bænda ekki lengur á markaði og þeir njóta jafnframt heldur ekki beingreiðslna vegna þessara afurða.
Halldór Sigurðsson þakkaði fyrir tillöguna og lýsti ánægju sinni með þessi vinnubrögð.
Tillagan samþykkt samhljóða
Frá starfsnefnd 3 – Steinþór Heiðarsson
3.1 Tillaga að félagsgjaldi til LK
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 31. mars til 1. apríl 2016, samþykkir að félagsgjald skv. grein 5.4 verði 30 aurar pr. lítra mjólkur sem lögð er inn í afurðastöð og 500 kr á hvern grip í UN, K og K1U sem lagður er inn í afurðastöð.
Aðalsteinn Hallgrímssonvelti fyrir sér skilgreiningu á félagsaðild.
Finnur Pétursson spurði um forsendur fyrir upphæðum félagsgjalda.
Fram kom hjá framsögumanni að ef heimturnar hjá kúabændurm verða 85% félagsaðild og 65% hjá nautgripabændum, þá ætti þetta að verða nægilegt vegna starfsemi LK.
Tillagan samþykkt með öllum atkvæðum gegn einu
3.2 Póstþjónusta í dreifbýli
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 31. mars til 1. apríl 2016, mótmælir harðlega þeirri miklu skerðingu á póstþjónustu í dreifbýli og því verklagi sem boðað er. Fundurinn telur frumskilyrði að pósturinn berist alltaf sömu vikudaga og verði keyrður út þrisvar í viku.
Halldór Sigurðsson ræddi tillöguna og lagði til breytingatillögu
Finnur Pétursson ræddi tillöguna, og velti fyrir sér hvort ekki sé ástæða að spara í þéttbýlinu á sama hátt og í dreifbýlinu.
Breytingatillagan (skáletruð) samþykkt með þorra atkvæða gegn þremur.
3.3 Ráðstöfun fjármuna nautgriparæktarinnar vegna slita á Framleiðsluráðssjóði.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 31. mars og 1. apríl 2016, ákveður að þeim fjármunum sem renna til samtakanna vegna slita á Framleiðsluráðssjóði, skuli ráðstafað til þekkingaröflunar og þróunarverkefna, sem horfi einkum til eflingar á kynbótastarfi nautgriparæktarinnar. Einnig verði litið til annarra þátta sem eflt geta samkeppnishæfni nautgriparæktarinnar og bætt afkomu bænda til lengri tíma.
Greinargerð.
Búnaðarþing 2016 samþykkti að Framleiðsluráðssjóði verði slitið. Eignum hans skal skipt milli BÍ og aðildarfélaga samtakanna í samræmi við skipulagsskrá sjóðsins. Samkvæmt henni er eignarhlutur Landssambands kúabænda tæplega 25% en í sjóðnum eru um 480 milljónir króna. Eignarhlutur Bændasamtaka Íslands er um 50% og gerir nautgriparæktin tilkall til hluta þeirra fjármuna einnig. Framleiðsluráð landbúnaðarins var stofnað með lögum árið 1947 og var það lagt niður þann 1. janúar 2000. Eignir Framleiðsluráðs urðu því til á rúmlega hálfrar aldar tímabili. Því leggur fundurinn áherslu á að þeim verði ráðstafað til verkefna sem nýtist greininni til langrar framtíðar. Fáar fjárfestingar nýtast kúabændum betur en öflugar kynbætur. Þær eru einnig frábrugðnar öðrum fjárfestingum að því leyti að afrakstur þeirra er varanlegur um alla framtíð.
Tillagan samþykkt samhljóða
3.4. Breytingar á samþykktum LK um framtíðarfjármögnun og skipulag LK
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 31. mars og 1. apríl 2016, leggur
til að gerðar verði svofelldar breytingar á samþykktum Landssambands kúabænda, sem taki
gildi 1. janúar 2017:
Undirstrikaður texti í núverandi samþykktum verði felldur brott
Feitletraður texti komi í staðinn
SAMÞYKKTIR LANDSSAMBANDS KÚABÆNDA
1. gr.
Félög nautgripabænda á Íslandi mynda með sér samtök sem heita Landssamband kúabænda
(skammst. LK). Heimili og varnarþing LK er á skrifstofu samtakanna.
2. gr.
Tilgangur LK er að sameina þá, sem stunda nautgriparækt í atvinnuskyni, um hagsmunamál
sín og vinna að framgangi þeirra. Einnig að annast kynningar- og fræðslustarf um málefni
búgreinarinnar og afla þeim stuðnings.
3. gr.
3.1. Rétt til aðildar að LK hafa öll svæðisbundin félög nautgripabænda á landinu, enda fari
samþykktir þeirra ekki í bága við samþykktir LK. Aðildarfélög LK skulu vera sjálfstæð. Þau
skulu setja sér samþykktir og halda félagatal.
Aðildarfélög LK eru eftirtalin:
Mjólkursamlag Kjalarnesþings
Kúabændafélagið Baula á Vesturlandi
Félag nautgripabænda við Breiðafjörð
Félag kúabænda í Ísafjarðarsýslum
Nautgriparæktarfélag Vestur Húnavatnssýslu
Félag kúabænda í Austur-Húnavatnssýslu
Félag kúabænda í Skagafirði
Félag eyfirskra kúabænda
Félag þingeyskra kúabænda
Félag nautgripabænda á Héraði og Fjörðum
Nautgriparæktarfélag Vopnafjarðar
Nautgriparæktarfélag Austur-Skaftafellssýslu
Félag kúabænda á Suðurlandi
3.2. Nautgripabóndi telst hver sá sem stendur að framleiðslu mjólkur eða nautgripakjöts og
leggur í afurðastöð.
3.2 a) Aðild að LK geta átt þeir einstaklingar og lögaðilar sem þess óska og halda nautgripi í
atvinnuskyni, enda séu þeir félagar í einu aðildarfélagi samtakanna og greiði félagsgjald til
LK samkvæmt grein 5.4
b) Á búum þar sem a.m.k. einn einstaklingur eða lögaðili er félagsmaður í LK samkvæmt
staflið a) skal aðild einnig heimil öðrum þeim einstaklingum sem standa að búrekstrinum.
Með því er átt við maka rekstraraðila, eigendur félagsbúa eða lögaðila sem standa fyrir
búrekstri eða aðra þá einstaklinga sem standa sannanlega að búrekstrinum.
3.3. Sæki tvö félög um aðild, sem hafa að einhverju eða öllu leyti sama félagssvæði, skal
stjórn LK leitast við að ná samkomulagi um málið. Takist það ekki skal stjórnin leggja fram
tillögu fyrir aðalfund LK hversu með skuli fara og er afgreiðsla hans fullnaðarúrskurður í
málinu.
3.4. LK ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með eignum sínum, en hvorki aðildarfélögin né
einstakir félagsmenn.
4. gr.
Aðild LK að öðrum félagasamtökum er háð samþykki aðalfundar.
5. gr.
5.1. Aðalfund skal halda árlega og hefur hann æðsta vald í öllum málefnum LK.
5.2. Aðalfund sitja með fullum réttindum fulltrúar aðildarfélaganna kosnir á aðalfundum
þeirra í leynilegri kosningu. Sé starfrækt innan viðkomandi aðildarfélags trúnaðarmannaráð,
sem kosið er á aðalfundi með framangreindum hætti og innifelur a.m.k. tvöfaldan þann fjölda
fulltrúa sem félaginu ber, er aðalfundi þess heimilt að vísa fulltrúakjörinu þangað.
5.3. Fjöldi fulltrúa frá hverju félagi skal miðast við fjölda félagsmanna nautgripabænda á
félagssvæðinu sem skrifaðir hafa verið fyrir innleggi mjólkur eða nautgripakjöts í afurðastöð
árið fyrir aðalfund sem hafa greitt félagsgjald til LK samkvæmt grein 3.a. Skal einn fulltrúi
kosinn á aðalfund fyrir hverja byrjaða 35 félagsmenn nautgripabændur.
Lögaðilar svo sem einkahlutafélög, félagsbú eða sameignarfélög geta einnig talist félagsmenn
samkvæmt þessari grein.
Komi upp ágreiningur um fjölda nautgripabænda félagsmanna sem telja til fulltrúakjörs hjá
hverju aðildarfélagi skal stjórn LK úrskurða um málið eftir að hafa aflað upplýsinga frá
afurðastöðvum.
5.4 Félagsmenn sem eiga aðild að LK samkvæmt ákvæðum a) liðar 3. gr. skulu greiða félagsgjald
sem reiknast sem ákveðin upphæð pr. ltr. mjólkur sem lögð er inn til úrvinnslu í afurðastöð og
sem ákveðin upphæð pr. grip í UN, K og K1U flokki sem lagður er inn í afurðastöð
Félagsmenn sem eiga aðild að LK samkvæmt ákvæðum b) liðar 3. gr. greiða ekki félagsgjald.
5.5. Stjórnarmenn og skoðunarmenn ásamt varamönnum þeirra hafa málfrelsi og tillögurétt á
aðalfundi ásamt búnaðarþingsfulltrúum LK. Aðalfundurinn er opinn til áheyrnar öllum
félagsmönnum aðildarfélaganna. Óski fleiri aðilar en hér er getið um, eftir að sitja aðalfund
með málfrelsi og tillögurétt skal það borið undir fundinn.
5.6. Á dagskrá skal vera:
a) Skýrslur stjórnar og nefnda um félagsstarfið og umræður um þær.
b) Afgreiðsla reikninga fyrir næst liðið almanaksár, fullnægjandi félagaskrá aðildarfélaga skal ávallt fylgja endurskoðuðum ársreikningi samþykktum á aðalfundi.
c) Tillögur og erindi til umræðu og afgreiðslu.
d) Kosningar
I. Kjör formanns til eins árs.
II. Kjör fjögurra meðstjórnenda og 1. og. 2. varamanns til eins árs.
III. Kjör tveggja skoðunarmanna fyrir reikninga LK og eins til vara til eins árs.
IV. Kjör aðal- og varafulltrúa á Búnaðarþing og ársfund BÍ til þriggja tveggja ára.
e) Ákvörðun um upphæð félagsgjalds og skiptingu þess milli LK og einstakra aðildarfélaga.
f) Fjárhagsáætlun til næsta árs.
d) Önnur mál.
5.7. Aðalfund skal boða fyrir 10. janúar ár hvert til stjórna aðildarfélaganna. Aðalfundur er
löglegur sé löglega til hans boðað.
6. gr.
Aukafund skal halda þyki stjórn LK sérstök nauðsyn bera til og jafnan þegar aðildarfélög, eitt
eða fleiri, með samtals a.m.k ¼ félagatölu LK, óska þess, enda sé þá fundarefni tilgreint.
Aukafund skal boða með minnst 7 daga fyrirvara. Um rétt til fundarsetu á aukafundum gilda
sömu reglur og á aðalfundi.
7. gr.
7.1. Stjórn LK skipa fimm menn kosnir á aðalfundi leynilegri kosningu og skulu allir
félagsmenn vera í kjöri.
7.2. Fyrst skal kosinn formaður í beinni kosningu. Fái enginn meira en helming greiddra
atkvæða skal kosið aftur bundinni kosningu milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu. Ef
jafnt verður að nýju skal hlutkesti varpað.
Síðan skal kjósa fjóra meðstjórnendur. Náist ekki niðurstaða um hverjir séu rétt kjörnir
stjórnarmenn í einni umferð kosninga, skal kosið aftur bundinni kosningu milli þeirra sem
jafnir eru. Sé jafnt að nýju skal hlutkesti varpað.
Stjórnin skiptir með sér verkum varaformanns, ritara og meðstjórnenda svo fljótt sem kostur
er.
Formaður skal sjálfkjörinn sem fulltrúi á búnaðarþing, en að öðru leyti skal kjör
búnaðarþingsfulltrúa fara fram með sama hætti og stjórnarkjör.
7.3. Heimilt er að skipa uppstillinganefnd vegna kosninga á aðalfundi, enda hafi
fundarstjórum borist tillaga um slíkt í upphafi fundar. Uppstillinganefnd skal skipuð þremur
aðalfundarfulltrúum og skal hún skila inn tillögum um jafn marga einstaklinga og kjósa skal,
að öðrum kosti telst tillagan ekki gild.
8. gr.
8.1. Hlutverk stjórnar er að annast málefni félagsins milli félagsfunda og sjá um að þau séu
jafnan í sem bestu horfi. Hún ræður starfsfólk og veitir prókúru fyrir félagið.
8.2. Undirskriftir þriggja stjórnarmanna þarf til að skuldbinda félagið.
9. gr.
9.1. Formaður boðar til stjórnarfunda þegar ástæða þykir til og stjórnar þeim. Þó er honum
skylt að boða fund ef tveir stjórnarmenn óska þess, enda sé þá fundarefnið tilgreint.
Stjórnarfundur er lögmætur sé meirihluti stjórnar á fundi.
9.2. Stjórn LK skal skrá fundargerðir á fundum sínum. Fundargerðir skulu birtar á vefsvæði
LK svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en að loknum næsta stjórnarfundi. Stjórnarmenn skulu
staðfesta afrit af fundargerðinni með undirskrift sinni og skal stjórn sjá til þess að þau afrit séu
varðveitt með tryggilegum hætti.
10. gr.
Aðildarfélög LK skulu senda félagatal og aðrar nauðsynlegar upplýsingar um starfsemi
viðkomandi félags til skrifstofu LK eftir því sem stjórn LK ákveður hverju sinni. Félagatal
skulu aðildarfélög senda til skrifstofu LK eigi síðar en 31. desember ár hvert. LK sendir
hverju félagi staðfesta tölu fulltrúa á aðalfund eigi síðar en 10. janúar ár hvert. Frá þeim tíma
hafa félögin 7 daga til að gera athugasemdir við fulltrúatöluna. Komi upp álitamál skal stjórn
LK úrskurða um málið samkvæmt gr. 5.3. svo fljótt sem kostur er. Eins fljótt og við verður
komið eftir aðalfund hvers aðildarfélags skal stjórn þess senda LK skýrslu um störf félagsins á
liðnu ári, upplýsingar um kosningar í stjórn og fulltrúa á fundi LK og annað sem máli kann að
skipta. Þessar upplýsingar skulu hafa borist skrifstofu LK eigi síðar en 20 dögum fyrir
aðalfund. Mál sem taka á til afgreiðslu á aðalfundi LK, skulu hafa borist skrifstofu LK eigi
síðar en 20 dögum fyrir aðalfund. Öll gögn sem leggja á fram, til umfjöllunar eða afgreiðslu skulu birt aðalfundarfulltrúm eigi síðar en 10 dögum fyrir setningu aðalfundar. Aðalfundur getur þó ákveðið að taka til afgreiðslu mál sem koma síðar fram.
11. gr.
Samþykktum þessum má aðeins breyta á aðalfundi eða aukafundi, sem boðaður er til þess
sérstaklega. Tillögur þar um skulu kynntar stjórnum aðildarfélaganna eigi síðar en 20 15
dögum fyrir aðalfund. Ná þær því aðeins fram að ganga að meirihluti kjörinna fulltrúa greiði
þeim atkvæði.
12. gr.
Leggist starfsemi LK niður og félaginu er slitið skulu eigur þess ganga til aðildarfélaganna í
hlutfalli við félagatölu.
13. gr.
Ákvæði samþykkta þessara gilda frá og með aðalfundi 2014. Búnaðarþingsfulltrúar sem
kosnir voru á aðalfundi 2012 halda þó kjörgengi sínu fram til aðalfundar 2015 í samræmi við
samþykktir Bændasamtaka Íslands.
13.gr.
Ákvæði samþykkta þessara gilda frá og með aðalfundi 2016. Búnaðarþingsfulltrúar sem
kosnir voru á aðalfundi 2015 halda þó kjörgengi sínu fram til aðalfundar 2017 í samræmi við
samþykktir Bændasamtaka Íslands.
Ákvæði gr.3.2 a) og 3.2 b), gr. 5.3 og gr. 5.4 taka gildi þegar innheimta búnaðargjalds fellur niður.
Aðalsteinn Hallgrímsson ræddi 3.2.a varðandi aðild einstaklinga og lögaðila.
Þórir Níelsson spurði um 10. greinina og þá með reikninga félagsins, gildir þetta líka um þá.
Samúel Unnsteinn Eyjólfsson velti fyrir sér fulltrúatöluna á aðalfundi með þessum tillögum og hvernig þetta breytist með breyttu formi félagsgjalds.
Steinþór Heiðarsson ræddi félagatalið og spurningu Aðalsteins, alltaf einstaklingurinn sem félagi. Varðandi ársreikninga þá getur aðalfundur heimilað breytingar á frestum. Það er í sjálfu sér ekkert mál að senda til fulltrúa óundirritaðan ársreikning.
Varðandi fulltrúafjöldann taldi nefndin ekki áhyggjuefni að skoða það sérstaklega á þessu stigi.
Sigurður Loftsson ræddi fulltrúafjölda og félagatalið.
Allar tillögur að breytingum samþykkta LK samþykktar samhljóða.
9. Reikningar og fjárhagsáætlun Landssambands kúabænda
Ársreikningar Landssambands kúabænda rekstrarárið 2015
Baldur Helgi Benjamínsson kynnti rekstrarniðurstöðu félagsins en tekjur voru 57.850.682 krónurog gjöld alls 48.336.183 krónur. Fjármagnstekjur 1.646.030, hagnaður því 11.160.529 krónur. Eignir samtals 76.070.035 krónur en skuldir 1.495.950 krónur og skuldir og eigið fé alls 76.070.035 krónur.
Elín Heiða Valsdóttir spurði um fundahöld liðins árs og kostnað vegna tveggja fulltrúafunda.
Baldur Helg isvaraði því að á móti þessum aukafulltrúafundi síðastliðið haust, hefðu sparast fjármunir á móti, þar sem ekki hefðu verið haldnir haustfundir líkt og undanfarandi ár. Hins vegar varð mikill kostnaður við fundi á öðrum vettvangi eins og vegna smningamálanna.
Reikningar samþykktir samhljóða
Fjárhagsáætlun Landssambands kúabænda fyrir árið 2016.
Baldur Helgi kynnti áætlunina, 61,5 milljónir króna í tekjur og 52,1 milljón í gjöld og afkoma verði jákvæð um 9,4 milljónir. Reiknað er með nokkrum aukakostnaði vegna sérfræðivinnu við útfærslu búvörusaminganna.
Fjárhagsáætlun samþykkt samhljóða
Tillaga um launamál.
Föst laun formanns árið 2016 verði 296.712 krónur á mánuði.
Laun annarra stjórnarmenn verði 58.853 krónur á mánuði.
Samþykkt samhljóða.
10. Kosningar
Þórólfur Ómar Óskarsson tilkynnti að hann gæfi áfram kost á sér stjórn samtakanna.
Bóel Anna Þórisdóttir kynnti tillögu uppstillingarnefndar og síðan var gengið til skriflegrar kosninga í aðalstjórn.
Niðurstöður kosninga í aðalstjórn urðu eftirfarandi og í samræmi við tillögu uppstillingarnefndar:
Elín Heiða Valsdóttir Úthlíð 28 atkv.
Samúel Unnsteinn Eyjólfsson Bryðjuholti 27 atkv
Bessi Freyr Vésteinsson Hofsstaðaseli 23 atkv.
Pétur Diðriksson Helgavatni 19 atkv.
Þórólfur Ómar Óskarssonkom næstur með 13 atkvæði, síðan Trausti Þórisson með 4 atkvæði. Síðan 9 með 1 atkvæði hver.
Kosning tveggja varamanna:
Pétur Diðriksson kynnti tillögu uppstillinganefndar, sem var síðan í samræmi við niðurstöðu kosningar:
1.varamaður Bóel Anna Þórisdóttir Móeiðarhvoli 23 atkvæði.
2.varamaður Davíð Logi Jónsson Egg 16 atkvæði.
Þórólfur Ómar Óskarsson næstur með 9 atkvæði.
Tillaga uppstillingarnefndar um skoðunarmenn:
Aðalmenn:
Borghildur Kristinsdóttir Skarði
Aðalsteinn Hallgrímsson Garði
Varamaður:
Valdimar Sigmarsson Sólheimum
Tillaga um skoðunarmenn samþykkt með lófaklappi.
Þórólfur Ómar Óskarsson fagnaði því að komin sé ný stjórn í félaginu. Gerði athugasemdir við störf uppstillingarnefndar og að það sé einn úr henni síðan í kjöri til stjórnar LK. Óskar nýrri stjórn enn og aftur til hamingju með kjörið.
Trausti Þórisson óskaði nýrri stjórn til hamingju með kjörið, þakkaði jafnframt fyrir samveru í stjórn LK síðustu fjögur ár.
Jóhann Nikulásson óskaði nýjum formanni til hamingju með kjörið og þakkaði stuðningsfólki sínu. Þakkar jafnframt stuðningsfólki Arnars fyrir hönd kúabúsins í St-Hildiseyjar 2. Þakkar jafnframt framkvæmdastjóra, Baldri Helga, fyrir samvinnu og samstarf svo og öðrum samstarfsmönnum.
Pétur Diðrikssonformaður uppstillinganefndar sagði að þetta væri líklega mesta bylting í stjórnarkjöri LK frá upphafi. Sagði að uppstillingarnefnd hafi tekið til starfa eftir hádegi að reyna finna fólk til starfa í stjórn. Það gekk einfaldlega erfiðlega að fá fólk til starfa í stjórn LK.
Óskar nýkjörnum formanni til hamingju með formennsku í félaginu.
Elín Heiða Valsdóttir þakkaði traustið við kosningu í stjórn, fyrsta verkið er að finna framkvæmdastjóra og síðan að vinna að hinum ýmsu málum til framtíðar.
Valdimar Guðjónsson þakkaði Sigurði Loftssyni og Jóhanni Nikulássyni fyrir samstarfið í gegnum árin, bæði í starfi Félags kúabænda á Suðurlandi og eins sem fulltrúar á aðalfundi LK.
Guðný Helga Björnsdóttir óskaði nýrri stjórn til hamingju með kjörið og þakkaði fráfarandi stjórnarmönnum og framkvæmdastjórum fyrir samstarfið.
Bóel Anna Þórisdóttir óskaði nýrri stjórn til hamingju og svaraði Þórólfi varðandi vinnubrögð uppstillingarnefndar.
Bessi Freyr Vésteinsson þakkaði fyrir traustið sem sér hefðiverið sýnt með kjöri í stjórn. Þakkaði jafnframt fyrri stjórn fyrir, m.a. störf á sviði nautakjötsframleiðslunnar síðustu árin.
Ingi Björn Árnason óskaði nýrri stjórn til hamingju með kjörið og þakkaði fráfarandi stjórn LK störfin í þágu kúabænda. Skv. ákvörðun stjórnar Auðhumlu hefur verið samþykkt lækkun á verði umframmjólkur um 20 kr/ltr., velti fyrir sér hvort þetta væri aprílgabb.
Samúel Unnsteinn Eyjólfsson þakkaði fyrir kjörið í stjórn og þakkaði jafnframt fráfarandi stjórn og framkvæmdastjóra störf liðinna ára.
Aðalsteinn Hallgrímsson þakkaði fráfarandi stjórn en saknaði þess að hafa ekki í nýrri stjórn fleiri eyfirðinga.
Baldur Helgi Benjamínsson óskaði nýjum formanni til hamingju með kjörið. Jafnframt þakkaði hann öllum þeim sem hann hefur starfað með á liðnum árum.
Sigurður Loftsson óskaði eftirmanni sínum í starfi til hamingju með formennskuna, þetta er krefjandi starf og mikil vinna framundan hjá nýrri stjórn. Þakkaði samstjórnendum sínum samstarfið á liðnum árum og framkvæmdastjórunum sem hann hefur starfað með, bæði Snorra og Baldri Helga.
11. Fundarslit
Arnar Árnason formaður LK, þakkaði fráfarandi stjórn fyrir góða vinnu og hvatti til samstöðu kúabænda. Þakkaði starfsmönnum aðalfundarins fyrir þeirra störf og sleit fundi um kl. 18.
Runólfur Sigursveinsson ritaði fundargerð