Beint í efni

Aðalfundur LK 2014

29.03.2014

Aðalfundur LK 28. – 29. mars 2014 haldinn á Hótel Sögu Reykjavík

 

1.Fundarsetning

Sigurður Loftsson formaður LK setti fund og bauð fólk velkomið til starfa. Lýsti yfir ánægju sinni með framkvæmd Fagþingsins í gær. Kynnti tillögu  að fundarstjórum, þau  Laufey Bjarnadóttur og Jóhannes Torfason auk fundarritara, Runólf Sigursveinsson,  var það samþykkt og tóku þau við stjórn fundarins. Þau kynntu tillögu að kjörbréfanefnd, þau Valdimar Guðjónsson, Helga Hallgrímsdóttir og Sveinbjörn Sigurðsson.

 

2. Skýrsla stjórnar – Sigurður Loftsson formaður LK

 

„Ekki þarf í það að sjá
-þér ég aftur gegni –
ég er bóndi, allt mitt á
undir sól og regni.

Þetta stutta erindi úr ljóði „Klettafjallaskáldsins“ Stephans G Stephanssonar „Eftirköst“ koma upp í hugann þegar rifjað er upp veðurlag liðins árs. Reyndar heilsaði árið með óvenjulegum hlýindum og í heild varð árið nálægt meðaltali hvað hitafar áhrærði. Hinsvegar var mikill og þrálátur snjór víða um landið norðanvert og óvenju snarpt kuldakast gerði um mánaðamótin apríl/maí, með meira frosti en áður hefur mælst hér á landi í maímánuði. Sumarið var síðan fremur óhagstætt um landið sunnan- og vestanvert, með þungbúnu veðri og þrálátri úrkomu, en hagstæðari tíð var á landinu norðan og austanverðu. Mikið kal var víða í túnum bænda, einkum á norður og austurlandi síðastliðið vor og þurfti mikið átak í endurræktun á þeim svæðum. Þá reyndist heyskapartíð mörgum erfið og heyforði því rýrari að magni og gæðum en oft áður, eins var kornuppskera með allra minnsta móti. Við aðstæður sem þessar skipta miklu mál þær gríðarlegu framfarir sem orðið hafa í afköstum og vinnubrögðum við fóðuröflun á íslenskum kúabúum síðustu áratugi, með aukinni tækni og nýjum fóðurjurtum.  Þó er það svo að mjólkurframleiðsla, eins og flest önnur búfjárrækt, byggir á líffræðilegum ferlum sem að stórum hluta eru háðir veðurfari og er þá sama hvar í heiminum hún er staðsett.

 

Innlögð mjólk á árinu 2013 var 122,9 milljónir lítra, samanborið við 125,1 milljón lítra árið 2012 og er það samdráttur um 1,7% á milli ára. Framleiðsla mjólkur gekk þó samkvæmt áætlunum fyrrihluta ársins og var unnið að birgðastýringu út frá því. Um mitt ár fór hinsvegar framleiðslan að dragast verulega saman og hélst sú þróun langt fram á haust. Í sumarlok var ljóst að í óefni stefndi að óbreyttu, vegna gríðar mikillar sölu og í kjölfar þess var lofað fullri greiðslu fyrir 3 milljónir lítra umfram greiðslumark og síðar fyrir alla umframmjólk ársins. Þetta dugði þó ekki til og því miður reyndist nauðsynlegt að flytja inn smjör svo unnt yrði að tryggja nægt framboð allra mjólkurvara á markaði. Sú staða var auðvitað afleit og vakti upp mikla umræðu, ekki síst meðal bænda sjálfra þar sem ýmislegt var sagt á missterkum forsendum, um um tímasetningu ákvarðana, ábyrgð og forspár getu forystumanna okkar. Auðvitað eru allir frjálsir skoðana sinna og í gagnrýni felst mikilvægt aðhald fyrir þá sem ábyrgðarstörfum gegna. Þó er samt mikilvægt að menn gefi sér tíma til að íhuga orð sín og áhrif þeirra áður en þau eru látin falla á opinberum vettvangi. Nú í upphafi árs varð síðan mikil umræða í samfélaginu um upprunamerkingu matvæla. Hvort sem það var sanngjarnt eða ekki var þessi smjörinnflutningur dreginn upp í fjölmiðlum og lagður að jöfnu við innflutt kjúklinga og svínakjöt sem selt hafði verið sem íslenskt. Í framhaldi af þessu beittu Bændasamtökin sér fyrir því að koma á samstarfi meðal samtaka neytenda, matvælafyrirtækja og bænda um upprunamerkingu matvæla. Ástæða er til að þakka fyrir þetta framtak enda um mikilvægt sanngirnismál neytenda að ræða.    

 

Ársins 2013 verður vafalaust minnst sem eins hins sérstæðasta á síðari tímum, á vettvangi  framleiðslu og sölu mjólkurafurða. Greiðslumark ársins hafði verið ákveðið 116 milljónir lítra og var sú ákvörðun byggð á söluspá, sem trúlega var helst til varfærin. Hinsvegar var með öllu útilokað að sjá fyrir þá þróun sem varð í sölu á fituríkum mjólkurvörum á seinnihluta ársins, enda verður hún að teljast fordæmalaus með öllu. Heildarsala mjólkur og mjólkurafurða árið 2013 umreiknuð á fitugrunn nam um 120,8 milljónum lítra, samanborið við 114,1 milljón lítra árið 2012. Það er vöxtur sem nemur um um 5,8% og er það meiri söluaukning á mjólkurafurðum en áður hefur þekkst milli ára. Í þessu sambandi má geta þess að söluaukning á smjöri var 12,7% og rjóma um 11,1% milli þessara ára. Þá gerðist það á árinu að sala á nýmjólk jókst um 0,9% eftir viðvarandi samdrátt svo árum og áratugum skiptir. Sala á próteingrunni var um 117,6 milljónir lítrar árið 2013, á móti 115,5 milljónum lítra árið 2012, en það er aukningin milli ára sem nemur 1,9%. Eins og sjá má á þessu urðu þau umskipti á liðnu ári að sala á fitugrunni varð meiri en sala á próteingrunni, í fyrsta skipti í áratugi.

 

Til að mæta þessum mikla vexti í sölu mjólkurafurða og vegna lágrar birgðastöðu, var greiðslumark yfirstandandi árs ákveðið 125 milljónir lítra sem er aukning um 9 milljónir lítra frá fyrra ári. Jafnframt var framleiðsluskylda, til að fá fullar A greiðslur, hækkuð úr 90% í 95%. Við þær aðstæður sem nú eru uppi, er full ástæða til að ganga enn lengra í þessu efni til að auka framleiðsluhvata innan greinarinnar. Fyrir fundinum liggja tillögur frá stjórn um að framleiðsluskyldan verði hækkuð í 100% og jafnframt verði hlutdeild C greiðslna aukin umtalsvert, á kostnað A greiðslna. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga, að það starfsumhverfi sem okkur er búið, leggur okkur þær skyldur á herðar að uppfylla þarfir markaðarins fyrir mjólk og mjólkurvörur, í staðinn er greininni tryggð afkoma og starfsöryggi. Því verðum við að vera viðbúin breytingum á þessu fyrirkomulagi til að svara kalli markaðarins.

 

Síðustu tölur um sölu mjólkurafurða nú í lok febrúar sýna að salan fer enn hratt vaxandi og er salan nú í febrúarlok komin í 118,3 milljón lítra á próteingrunni og 123 milljónir lítra á fitugrunni. Innvigtun undanfarna 12 mánuði er 123,7 milljónir lítra og fer hún enn vaxandi. Hins vegar hefur fituhlutfall mjólkur farið lækkandi, þannig að í heild er framleiðsla á fitugrunni svipuð milli ára. Það má því hvergi slaka á við framleiðsluna ef við eigum að hafa í við markaðinn. Ýmislegt hefur verið gert til að styðja við bændur í þessu krefjandi verkefni. Starfsmenn Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins og framleiðendaþjónustu Mjólkursamsölunnar hafa unnið skipulega að ráðgjöf, auk þess sem fengnir hafa verið erlendir sérfræðingar á sviði fóðrunar og mjólkurgæða. 

Fjölgi íbúum og ferðamönnum eins og spáð hefur verið og aukning í sölu á fitu verður áfram eins og undanfarin 10 ár, má gera ráð fyrir að fram til ársins 2020 þurfi framleiðslan að vaxa um 20 milljónir lítra. Það er nálægt 3 milljónum lítra að jafnaði á ári.  Ef söluaukning hægir á sér og verður í takt við fjölgun ársneytenda þarf 15 milljónir lítra sem er nær því að vera 2 milljónir lítra á ári.  Þá hefur ekki verið gert ráð fyrir neinni birgðaaukningu, en hún þyrfti að vera um 2 milljónir lítra til viðbótar árlega næstu 3 ár. Eftir þessum spám má gera ráð fyrir að árið 2020 þurfi a.m.k. 145 milljónir lítra mjólkur til að fullnægja innanlandsþörf fyrir fituríkar mjólkurvörur, það er aukning um 20% frá yfirstandandi ári. -og takið eftir: Í þessum áætlunum hefur ekki verið gert ráð fyrir neinni skipulegri framleiðslu til útflutnings, einungis því sem til fellur af próteini umfram innanlandsþarfir. Þetta er ögrandi og spennandi staða og æði ólík þeim harða samdrætti sem blasti við forsvarsmönnum Landssambands kúabænda í árdaga samtakanna. En í grunninn stöndum við þó frammi fyrir sama viðfangsefni, sem er hvernig auka má hagkvæmni íslenskrar mjólkurframleiðslu, til hagsbóta fyrir bændur og neytendur. Það er okkur lífsnauðsyn.

 

Lágmarksverð mjólkur frá afurðastöð til bænda hækkaði þann 1. október s.l. um 3,1% eða 2,49 kr/ltr og er nú 82,92 kr/ltr. Vinnslu- og dreifingarkostnaður mjólkur hækkaði frá þessum sama tíma um 2,85 kr/ltr, eða 3,1%, en vegin heildar hækkun heildsöluverðs út á markað er samkvæmt þessu 5,34 kr/ltr. Þessi hækkun var sem nam allri mældri hækkunarþörf verðlagsgrundvallar tímabilið 1. júní 2012 til 1. september 2013, en mæld hækkunarþörf vinnslu og dreifingakostnaðar var hinsvegar 4,8%. Nokkurt jafnvægi virðist vera um þessar mundir í aðfangakostnaði og flest bendir til að áburðarverð á komandi vori lækki frá síðasta ári. Óskandi er að áframhald verði á þeirri þróun.

Þá ákvað Veðlagsnefnd um síðustu áramót að breyta hlutföllum milli efnaþátta í verði grundvallarmjólkur. Þannig var vægi próteins lækkað úr 75% í 50% og fitu hækkað úr 25% í 50%. Þetta er gert vegna verulega aukinnar eftirspurnar eftir fituhluta mjólkurinnar eins og áður hefur komið fram.

 

Áfram hefur verið unnið að því að hækka skilaverð fyrir útfluttar mjólkurafurðir. Markaðir í Finnlandi hafa tekið afar vel við íslensku skyri og er með því nú þegar fullnýttur 380 tonna tollkvóti okkar inn til Evrópusambandsins. Nýlega hefur svo verið gengið frá samningum við Sviss um ótakmarkaðan útflutninga á skyri þangað gegn takmörkuðum innflutningi á ostum. Útflutningur á árinu 2013 var hinsvegar verulega minni en síðasta ár. Á próteingrunni voru fluttar út 5,8 milljónir lítra, samanborið við 13,5 milljónir lítra árið 2012. Fluttar voru út vörur á fitugrunni sem námu um 2,1 milljón lítra á fyrri hluta ársins, en afar ólíklegt er að til útflutnings komi í þeim efnum næstu misseri eða ár.

 

Verulega dró úr framboði nautgripa til slátrunar á síðari hluta liðins árs, einkum á kúm. Hefur ástandið hvað þetta varðar verið sérstaklega slæmt á fyrstu mánuðum þessa árs og er birgðastaða hjá sláturleyfishöfum í algöru lágmarki. Samtals nam innvegið nautgripakjöt í sláturhús 4.082 tonnum árið 2013, á móti 4.113 tonnum árið 2012. Ljóst er að framboð á innlendu nautakjöti er ekki nægjanlegt og því var gefinn út opinn tollkvóti á hakkefni í október 2013 og opinn tollkvóti á öllum tegundum nautgripakjöts var síðan gefinn út með reglugerð þann 3. mars s.l. og gildir hún til 30. september n.k., þá liggur fyrir að umtalsverður þrýstingur er á að heimilaður verði innflutningur á heilum og hálfum skrokkum. Samdráttur var í ásetningi nautkálfa allan fyrrihluta síðasta árs, en jókst hins vegar á síðasta fjórðungi ársins um 4-6%, samanborið við sömu mánuði árið áður. Þær tölur sem fyrir liggja nú í upphafi nýs árs benda til að áframhald sé á þeirri þróun.

 

Innflutningur á nautakjöti árið 2013 var 265 tonn, samanborið við 197 tonn árið áður. Hakkefni og lundir eru sem fyrr yfirgnæfandi meirihluti þess nautakjöts sem flutt er hingað til lands, en reikna verður með að innflutningur muni verulega aukast á yfirstandandi ári. Heildarverðmæti íslenskrar nautakjötsframleiðslu var um 2,3 milljarðar króna árið 2013 og er það aukning um rúm 4% frá árinu áður, en verðlistar helstu flokka nautgripakjöts hækkuðu um 5 – 6% á liðnu ári. Áætla má verðmæti nautakjöts sem flutt var inn á liðnu ári nálægt 350 milljónum króna. Því má gera ráð fyrir að aukin framleiðsla á nautakjöti gæti skilað búgreininni veltuaukningu upp á eina milljón króna á dag, að minnsta kosti.

 

Okkur hefur á undanförnum aðalfundum LK orðið tíðrætt um stöðu nautakjötsframleiðslunnar og þá möguleika sem í henni felast. Því miður hefur okkur ekki auðnast enn sem komið er að ná nægjanlegri viðspyrnu til að styrkja stöðu þessa hluta nautgriparæktarinnar sem skyldi. Þó kann nú að vera að greina megi nokkrar glæður við sjóndeildarhringinn. Starfshópur um eflingu nautakjötsframleiðslunnar sem þáverandi Atvinnuvegaráðherra skipaði í febrúarmánuði 2013, skilaði skýrslu til nýbakaðs sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 3. júlí s.l. þar sem helstu niðurstöður voru eftirfarandi:

·         Sköpuð verði aðstaða til þess að flytja inn nýtt erfðaefni í holdanautastofninn. Mælt er með Angus gripum frá Noregi.

·         Gerð verði ítarleg áhættugreining á fyrirkomulagi innflutnings á erfðaefni.

·         Kannaðir verði möguleikar á að koma upp sérstöku ræktunarbúi.

·         Nýtt kjötmat verði komið í gagnið 1. janúar 2015

·         Ráðgjöfí nautakjötsframleiðslu verði efld

·         Skýrsluhaldnautakjötsframleiðslu verði bætt

 

Í greiningu hópsins á mismunandi leiðum við endurnýjun á erfðaefninu kom í ljós að beinn innflutningur á sæði var lang hagkvæmasta aðferðin bæði hvað varðaði kostnað og skilvirkni. Aðrar leiðir sem til greina komu voru verulega kostnaðarsamari og óskilvirkari og ljóst að greinin sjálf hefði enga fjárhagslega burði til að framkvæma innflutninginn með þeim hætti. Í framhaldinu urðu nokkrar umræður milli samtaka bænda og Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis um hvernig best væri staðið að framhaldi málsins. Niðurstaðan var sú að ráðherra landbúnaðarmála ákvað í lok september að láta Matvælastofnun gera áhættumat á fjórum leiðum: innflutningi sæðis eða fósturvísa á einangrunarbú og innflutningi sæðis eða fósturvísa beint á bú bænda, frá Geno global í Noregi. Niðurstaða áhættumats stofnunarinnar barst síðan Landssambandi kúabænda um miðjan þennan mánuð. Þá ákvað stjórn LK að láta Veterinærinstituttet í Noregi gera áhættumat á beinum sæðisinnflutningi til viðbótar áliti Matvælastofnunar og bárust drög að niðurstöðum þeirra nú stuttu fyrir aðalfund. Í áhættumati Matvælastofnunar vekur athygli hversu lítill munur er á áhættu af þeim leiðum sem hér voru til skoðunar. Eins má lesa úr mati Veterinærinstituttet að lítil eða hverfandi áhætta sé af innflutningi sæðis og sýnir það öðru fremur hversu ríkar kröfur eru gerðar til sjúkdómavarna þar á bæ. Landssamband kúabænda hefur lagt á það ríka áherslu að sem fyrst fáist niðurstaða um hvort unnt sé að hraða endurnýjun erfðaefnis holdanautastofnanna með beinum sæðisinnflutningi. Í máli Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á Fagþingi nautgriparæktarinnar nú í gær kom fram að hraðað yrði niðurstöðu þessa máls. Svo sannarlega teystum við því að það verði gert.

 

Eins og reglugerð kveður á um voru haldnir tveir kvótamarkaðir á síðasta ári, þann 1. apríl og 1. nóvember. Á apríl markaði seldist allt framboðið greiðslumark samtals 711.781 lítrar og var kauphlutfall viðskipta 57,49%, en jafnvægisverð 320 krónur fyrir hvern lítra mjólkur. Á nóvember markaði urðu síðan viðskipti með 874.438 lítra og kauphlutfall viðskipta var 96,44%. Jafnvægisverðið á þessum markaði var það sama eða 320 kr. fyrir hvern lítra mjólkur. Frá því að núverandi fyrirkomulag var tekið upp árið 2010 hafa verið haldnir sjö markaðir og hafa viðskipti heldur verið að aukast í seinni tíð. Óneitanlega vekur þó nokkra athygli að verðið skuli ekki hafa lækkað á síðasta markaði, þegar svo mikill vöxtur er í sölu afurðanna og góðar horfur varðandi greiðslur fyrir umframmjólk. Í þessu efni tekur þó hver og einn sína ákvörðun og verður að bera ábyrgð á henni. Landssamband kúabænda hefur frá upphafi barist fyrir fjölgun markaðsdaga, lengi vel fyrir daufum eyrum. Nú í haust varð þó loks að samkomulagi milli Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og LK að fjölga markaðsdögum á yfirstandandi ári í 3, 1. apríl, 1. september og 1. nóvember. Hefur reglugerð verið gefin út þar um og ástæða til að fagna þeirri viðhorfsbreytingu sem orðið hefur innan ráðuneytisins til málsins.

 

Á nýliðnu búnaðarþingi voru gerðar nokkrar breytingar á samþykktum Bændasamtaka Íslands, en þær eru helstar að kjörtímabil stjórnar og fulltrúa er stytt úr þremur árum í eitt og hverju aðildarfélagi er gert að kosta setu sinna fulltrúa á búnaðarþingi. Ekki náðist samkomulag að þessu sinni um neinar grundvallar breytingar á skipulagi og félagsuppbyggingu Bændasamtakanna, en ákveðið var að skipa starfshóp sem ætlað er að finna leiðir til fjármögnunar samtaka bænda og koma með tillögur að fulltrúafjölda einstakra aðildarfélaga á búnaðarþingi. Þessi vinna er sett af stað frá hendi búnaðarþings í ljósi yfirlýsinga Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að hann hyggist leggja fram lagafrumvarp um búnaðargjald þar sem ekki verði áfram heimilt að nýta það til hagsmunagæslu. Þetta þýðir í raun að öll starfsemi félagssamtaka bænda er að óbreyttu í uppnámi.

 

Það er mat stjórnar Landssambands kúabænda að nauðsynlegt sé að hefja þegar undirbúning og aðlögun að þessum nýja veruleika. Í ljósi þess eru nú á þessum aðalfundi gerðar tillögur að breytingum á samþykktum samtakanna, þar sem öðrum þræði er verið að samræma þær samþykktum Bændasamtakanna en jafnframt stíga skref til lækkunar kostnaðar með fækkun fulltrúa á aðalfund. Jafnframt leggur stjórn ríka áherslu á að hér á fundinum verði teknar ákvarðanir um hvert stefna beri í ljósi þeirra breytinga sem framundan eru. Horfa þarf yfirvegað til allra átta í þessu efni, en meðal þess sem leggja þarf áherslu á er eftirfarandi:

·         Vinna að uppbyggingu félagsgjaldskerfis sem undirstöðu í grunnstarfi Landssambands kúabænda og aðildarfélaga þess. Jafnframt verði leitað annara leiða til að fjármagna einstaka þætti starfsins að hluta, eða öllu leiti s.s. rekstur naut.is.

·         Tryggja fjármuni til markaðs og kynningarstarfs með öllum þeim leiðum sem færar eru.

·         Vinna markvisst að lækkun kostnaðar í yfirstjórn og starfsemi LK jafnframt því að treysta sem kostur er gagnvirk samskipti við aðildarfélögin.

·         Leita eftir eftir því við Bændasamtök Íslands að endurskoða verkaskiptingu milli samtakanna með það markmið að stytta boðleiðir og auka skilvirkni.

·         Farið verði í viðræður við Bændasamtök Íslands um framtíðar skipulag og rekstur Nautastöðvar BÍ.

·         Farið verði yfir skipulag kynbóta- og fagstarfs nautgriparæktarinnar með það fyrir augum að nýta sem best fjármuni og lágmarka sem kostur er kostnað bænda, án þess að gæðum starfsins verði fórnað.

Jafnframt þessu þarf að skoða hvort og þá með hvaða hætti staðið verði að innheimtu og ráðstöfun búnaðargjalds til þeirra verkefna sem heimilt verður að nýta það til. Ekki kemur til greina að fallast á að gjaldinu verði ráðstafað lögformlega til einstakra samtaka sem hafa verkefnin með höndum, til þess er of mikil gerjun í þessu umhverfi enn sem komið er. Ef vera á með gjaldtöku af þessu tagi er eðlilegast að það verði sett í búgreinatengdan sjóð með skýrri skipulagsskrá og fjármunum ráðstafað þaðan til einstakra verkefna í lengri eða skemmri tíma.

 

Nú hefur Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ákveðið að skipa starfshóp um stefnumótun í mjólkurframleiðslu og mun hann væntanlega hefja störf innan tíðar. Óskað var tilnefninga í hópinn frá Landssambandi kúabænda, Bændasamtökum Íslands, Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði, Samtökum atvinnulífsins, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Alþýðusambandi Íslands auk fulltrúa ríkisins. Hópurinn skal skila niðurstöðu fyrir 1. desember n.k. Fyrsta verkefni þessa hóps hlýtur að vera að leggja mat á stöðu greinarinnar og þann árangur sem hefur orðið af núverandi mjólkursamningi.

 

Undanfarið hefur verið í gangi innan samfélagsins býsna óvægin umræða í garð starfsumhverfis greinarinnar, einkum þá tollvernd sem greinin býr við. Hafa þar geysað hvað mest um ritvelli sterklærðir hagspekingar og ýmsir umræðustjórnendur samfélagsins, dragandi of sterkar niðurstöður af oft á tíðum óþægilega grunnum forsendum þar sem verulega skortir á vandaða rannsóknarvinnu. Því er jafnan haldið fram að landbúnaðarkerfið sé úrelt og þauljöpluð er sú tugga að ofurtollar á innfluttar landbúnaðarvörur séu ein helsta ástæðan fyrir bágri afkomu almennings. Ekkert er þó fjarri sanni og við hljótum að krefjast þess að þeir aðilar sem ætlast til að vera teknir alvarlega framkvæmi slíka samanburði á sanngirnisnótum. Í þeirri vinnu sem framundan er hlýtur að verða dreginn fram sá árangur sem náðst hefur, en hér vil ég einungis nefna eitt dæmi í því sambandi. Í samantekt sem Innform ehf gerði fyrir Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði nú fyrr í þessum mánuði, kemur eftirfarandi fram; „Verð á mjólk til neytenda hefur hækkað mun minna en vísitala frá 2004. Samstarf stjórnvalda, launþegahreyfinga og afurðastöðva við verðlagningu mjólkur og mjólkurvara hefur því ótvírætt skilað tilætluðum árangri. Frá árinu 2004 hefur árlegur vinnslukostnaður lækkað um 2 milljarða króna“. Þó fátt annað væri til að telja hlyti það að teljast mikill árangur.

 

En hvað sem líður samfélagsumræðunni þurfum við fyrst og fremst að horfa til framtíðar í þessari vinnu. Markaðsþróunin og tækifærin sem henni fylgja eru ekki hlutir sem hægt er að eiga í skúffu til seinni tíma nota, ef við nýtum þau ekki sjálf gera það einhverjir aðrir. Það hvílir á okkur mikil ábyrgð, nautgriparæktin stendur fyrir nálægt 45% allrar landbúnaðarframleiðslu á Íslandi, veltir nálægt tveimur tugum miljarða króna á ári. Starfsgrein af þeirri stærðargráðu verður að eiga sér langtímamarkmið og sóknarvilja.

Góðir félagar, það ár sem að baki er hefur verið býsna snúningasamt og hafa einungis umfangsmestu hlutar starfsins verið taldir upp hér að framan. Reyndar er það svo að talsverður hluti þessa starfs snýst um það eitt að halda hlutum í sínu rétta fari frá degi til dags, svo þeir sem greinina stunda geti tiltölulega áhyggjulaust gengið til sinna verka. Þá var formaður óvenju víðförull á liðnu ári, bæði hér heima og erlendis. Að venju hefur formaður átt samskipti við fjölda aðila bæði innan landbúnaðarins sem utan og hafa þau öll verið ánægjuleg. Fyrir það allt skal þakkað. Meðstjórnarmönnum mínum þeim  Guðnýju Helgu, Trausta, Jóhanni og Jóhanni Gísla þakka ég gott samstarf sem og varamönnunum Jóhönnu og Guðrúnu. Þá fá starfsmennirnir Snorri Sigurðsson og framkvæmdastjórinn Baldur Helgi sérstakar þakkir fyrir mikið þolgæði í samstarfi. 

Megi starf aðalfundar verða greininni til heilla.“

 

3. Ávörp gesta

Sindri Sigurgeirsson formaður BÍ flutti kveðjur samtakanna til aðalfundar LK. Gat um nokkur mál frá liðnu Búnaðarþingi. Meðal annars varðandi stöðu og framtíð Nautastöðvar BÍ. Þar var m.a. ályktað um mögulega breytta eignaraðild, spurning væri hvort LK væri tilbúið koma bæði að rekstri og eignarhlutdeild stöðvarinnar. Gat síðan um ýmis önnur mál, meðal annars um nýja búvörusamninga og að hver búgrein hafi sinn samning. Ræddi síðan það álit sem fram kemur í álitsgerð MAST varðandi mögulegan innflutning fósturvísa og/eða sæðis til eflingar holdanautaræktunar. Þyrfti að hafa í huga að sú ákvörðun sem tekin verður mun mögulega hafa  bein áhrif á t.d. innflutning á nýju erfðaefni frá viðkomandi aðila í mjólkurkúastofninn.

Ræddi síðan um ýmis mál sem tengst hafa BÍ í fjölmiðlaumræðu síðustu mánuða og loks um málefni LbHÍ.

 

Jón Gunnarsson formaður atvinnuveganefndar Alþingis þakkaði ræðu formanns LK og ávarp formanns BÍ. Taldi að nautgriparæktin stæði á krossgötum, auka þyrfti framleiðslu og það umtalsvert. Velvilji stjórnvalda er fyrir hendi  vegna landbúnaðarins, sbr. ákvæði stjórnarsáttmála. Ræddi síðan fjölmiðlaumræðu almennt, m.a. um aðild að ESB.

Atvinnuveganefnd hefur átt fundi með forystumönnum LK og farið í heimsóknir til einstakra bænda á liðnum mánuðum. Atvinnuveganefnd fjallar almennt um mál atvinnulífsins, það er kostur að hafa menn eins og Harald Benediktsson sem nefndarmann og hefur mikla þekkingu á íslenskum landbúnaðí út frá fyrri störfum sem formaður BÍ og bóndi. Þurfum að hafa í huga þá miklu fjárfestingaþörf sem fyrir liggur varðandi endurnýjun fjósa og bygginga vegna aukinnar framleiðslu og sölu.

 

Karvel Lindberg Karvelsson framkvæmdastjóri RML ræddi snertifleti starfs RML og kúabænda sem eru margir. Gat um þá helstu m.a. varðandi fóðurráðgjöf og hina sérhæfðu vinnu sem tengist ræktunarstarfi greinarinnar auk bútækniráðgjafar og rekstraráætlana. Gat sérstaklega um átaksverkefni varðandi nautakjötsráðgjöf. Höfum átt gott samstarf við bæði forystumenn LK og MS varðandi þá stöðu sem komin er upp varðandi þörf aukinnar framleiðslu og þörf ráðgjafar vegna þeirrar stöðu.

 

Bjarni Brynjólfsson starfsmaður SAM flutti kveðjur frá starfsfólki og stjórn SAM. Búgreinin stendur á krossgötum, ánægjuleg tímamót eru, þörf á meiri framleiðslu bæði í mjólk og nautakjöti. Þurfum hins vegar aðlögun að breyttum tíma, m.a. varðandi framleiðsluskipulag, þ.m.t. framtíð kvótakerfisins. Kerfið hér á landi er að mörgu leyti frjálsara en í Evrópu, megum ekki gleyma því.

 

Sigurður Ingi Jóhannnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Íslensk mjólkurframleiðsla stendur á tímamótum, aukin sala og afnám kvótakerfis innan Evrópulanda á næsta ári. Ákveðið hefur verið að stofna starfshóp um framtíð mjólkurframleiðslunnar hér á landi í ljósi breyttra aðstæðna, sá hópur á að skila áliti síðasta lagi  1.des. nk.  Annar starfshópur hefur fengið það hlutverk að skoða tollamál landbúnaðarins almennt, sá hópur er búinn að halda einn fund og á að skila áliti 1.október.

Ákveðið var að fjölga nýlega  kvótaviðskiptadögum um einn dag, frá því að vera tveir dagar á ári, í þrjá viðskiptadaga innan ársins, spurning hvort núverandi  fyrirkomulag sé besta aðferðin við aðilaskipti greiðslumarks.

Ræddi núverandi stöðu í framleiðslu- og sölumálum mjólkur. Leiðin áfram verður að horfa á útflutning mjólkurvara þó svo að tryggja verði, eins og verið hefur, aðgengi þessara vara á innanlandsmarkaði. Rækta þarf enn meira upplifun erlendra ferðamanna á öllu sem íslenskt er, þar á meðal er innlend matvælaframleiðsla.

Kvótakerfi var sett á sínum tíma út frá stöðunni  sem þá var. Nú eru aðrir tímar og því þörf á endurskoðun á stuðningsformi til greinarinnar.  Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að auka matvælaframleiðsluna hér á landi til framtíðar.

 

Samúel U. Eyjólfsson í Bryðjuholti spurði  hvort aukið yrði við beingreiðslur í kjölfar aukningar á mjólkurneyslu.

 

Sigurður Ingi sagði að það yrði ekki gert hins vegar hlyti ávinningurinn að felast í að fullt afurðstöðvaverð yrði greitt fyrir alla mjólk óháð greiðslumarki

 

Valgerður Kristjánsdóttir Mýrum 3 spurði um hvenær kæmi svar  um innflutning  á nýju erfðaefni  í holdanautaræktunina.

 

Sigurður Ingi sagði að því yrði svarað eins fljótt og mögulegt væri, ekki þyrfti nauðsynlega að breyta gildandi löggjöf, möguleiki væri að veita undanþágu frá gildandi lögum.

 

4. Erindi

Hagfræði mismunandi landnýtingarkosta – Eggert Þröstur Þórarinsson, Seðlabanka Íslands.

 

Eggert ræddi almennt um nýtingu á mismunandi landkostum. Eitt form landnýtingar getur á stundum haft hamlandi áhrif á möguleika annarra. Aðrir þættir hafa veruleg áhrif, sbr. gengisfall íslensku krónunnar í kjölfar hrunsins. Verð bújarða endurspeglast oftast í þeirri nýtingu sem fyrir er á viðkomandi bújörð. Ferðaþjónustan hefur aukið atvinnustigið vítt og breytt um landið. Nautgriparæktin er kjarnagrein og verður það áfram miðað við þær forsendur sem eru í dag.

Ræddi síðan breytilegan kostnað við framleiðsluna  og einnig afkomuþróun síðustu ára skv. niðurstöðum Hagþjónustunnar.

Kjötframleiðsla af nautgripum er erfið þegar rætt er um þá grein sem aðalbúgrein en getur hentað með öðrum búgreinum, einkum mjólkurframleiðslunni. Sauðfjárræktin á í erfiðleikum, búin of lítil og í raun afkomubrestur. Sauðfjárræktin á undir högg að sækja í þéttbýlum sveitum og að hluta annarsstaðar. Hrossaræktin, þar hefur átt sér stað mikil uppbygging í aðstöðu en erfitt er að sjá að greinin geti greitt þann kostnað.

Akuryrkjan er áhætturekstur, háð mjög uppskerumagni. Kornræktin komin til að vera sem hliðargrein m.a. hjá kúabændum og svínabændum.

Svína- og alifuglarækt, þar eru fáar einingar en mögulega ætti að færa framleiðsluna í meira mæli út á svæðin þar sem akuryrkjan er. Garðyrkjan hefur eflst síðustu ár svo og loðdýraræktin.

Ferðaþjónustan hefur eflst mjög á síðustu árum en virðist þó vera ákveðið gullgrafaæði í dag. Skógrækt í dag er lífstíll, en verður mögulega á löngum tíma  alvörubúgrein.

 

Heppilegasta landýtingin er fjölbreytileikinn. Kjarnagreinarnar verða næstu ár nautgriparæktin og ferðaþjónustan.

 

Framleiðslugeta nautgriparæktarinnar – Árni Geirsson og Kristín Rós Jóhannesdóttir,  Alta ráðgjafafyrirtæki

Árni Geirsson.Við vinnslu verkefnisins var unnið aðallega út frá gögnum úr skýrsluhaldi nautgriparæktar, forðagæsluskýrslum, gögnum frá LK úr samantekt um fjölda fjósa og nýtingu auk annarra gagna m.a. frá Baldri Helga framkvæmdastjóra LK.

Búin til tvö líkön, annað er excellíkan sem hægt er að slá inn tölur. Hitt líkanið, stofnlíkan má nota til frekari greiningar. 

Forsendur eru; húsnæði, nyt og stofnþróun. Virðist hafa dregið úr ásetningi kvígukálfa síðustu missseri sem er áhyggjuefni. Um 1.900 lausir básar á kúabúum í dag. Mikill breytileiki er í nyt milli búa. Þar ætti að vera hægt að sækja framleiðsluaukningu.

Fjöldi ásettra kvígukálfa reiknaður sem hlutfall af fjölda mjólkurkúa á hverjum tíma. Meðalaukning í nyt síðustu 30 ár er að jafnaði 1,5% á ári í kilóum verðefna.

Kristín Rós Jóhannesdóttirkynnti þrjár mögulegar sviðsmyndir út frá líkanagerðinni.

Lágspá: Básafjöldi stendur í stað og meðalnyt en  meðalending eykst um 20 daga, (seinkun á förgun um 2,2%).

Miðspá: Básafjöldi  eykst um 100 bása á ári, nyt eykst um 1% á ári og meðalending  eykst um 50 daga, (seinkun á förgun um 5,6%).

Háspá: Básafjöldi eykst um 200 bása á ári, nyt eykst um 2% og  meðalending eykst um 80 daga, (seinkun á förgun um 7,8%).

Þær ályktanir sem dregnar voru af mismunandi sviðsmyndum voru eftirfarandi:

Auka þarf meðalnyt, auka þarf meðalendingu stofnsins, óvist hversu langt er að hægt að fara í þeim þætti, stofnstærðin takmarkandi í fjölgun kvígukálfa allra næstu ár, þörf fjárfestinga í aðstöðu næstu ár ef fjölgun verður í stofninum. Að fjölga kúm  er kostnaðarsamara en að auka meðalnyt. Gat síðan um í lokin að aukin framleiðsla þarf að vera hagkvæm fyrir bændur til að þeir fáist til að leita leiða til aukningar.

 

5. Niðurstöður kjörbréfanefndar

 

Valdimar Guðjónsson Gaulverjabæ kynnti niðurstöður kjörbréfanefndar sem eru eftirfarandi:

Mjólkursamlag Kjalarnesþings

Jóhanna Hreinsdóttir, Káraneskoti

Björgvin Helgason, Eystra-Súlunesi

Kúabændafélagið Baula á Vesturlandi

Jón Gíslason, Lundi

Laufey Bjarnadóttir,  Stakkhamri

Pétur Diðriksson, Helgavatni

Félag nautgripabænda við Breiðafjörð

Hallur Pálsson, Naustum

Hörður Grímsson, Tindum – ekki mættur

Félag kúabænda í Ísafjarðarsýslum

Sigmundur H. Sigmundsson, Látrum

Nautgriparæktarfélag Vestur-Húnavatnssýslu

Valgerður Kristjánsdóttir, Mýrum 3

Pétur Sigurvaldason, Torfustöðum

Félag kúabænda í Austur-Húnavatnssýslu

Brynjólfur Friðriksson, Brandsstöðum.

Jóhannes Torfason, Torfalæk.

Félag kúabænda í Skagafirði

Róbert Jónsson, Réttarholti

Jón Einar Kjartansson, Hlíðarenda

Þórarinn Leifsson, Keldudal

Félag eyfirskra kúabænda

Aðalsteinn Hallgrímsson, Garði

Helga Hallgrímsdóttir, Hvammi

Aðalsteinn Hreinsson, Auðnum

Tryggvi Jóhannsson, Hvassafelli

Hermann Ingi Gunnarsson, Klauf

Félag Suður-þingeyskra kúabænda

Ásvaldur Þormóðsson, Stóru-Tjörnum

Þuríður Pétursdóttir, Baldursheimi

Sveinbjörn Sigurðsson, Búvöllum – varamaður

Nautgriparæktarfélag Vopnafjarðar

Jóhann Björgvin Marvinsson, Svínabökkum – ekki mættur

Félag nautgripabænda á Héraði og fjörðum

Halldór Sigurðsson, Hjartarstöðum

Gunnar Jónsson, Egilsstöðum V  – varamaður

Nautgriparæktarfélag Austur-Skaftafellssýslu

Bjarni Ingvar Bergsson, Viðborðsseli

Félag kúabænda á Suðurlandi

Valdimar Guðjónsson, Gaulverjabæ

Elín Bjarnveig Sveinsdóttir, Egilsstaðakoti

Bóel Anna Þórisdóttir, Móeiðarhvoli

Samúel U. Eyjólfsson, Bryðjuholti

Pétur Guðmundsson, Hvammi

Ólafur Helgason, Hraunkoti

Ásmundur Lárusson, Norðurgarði

Sævar Einarsson, Stíflu

Jórunn Svavarsdóttir, Drumboddsstöðum

Borghildur Kristinsdóttir, Skarði

Elín Heiða Valsdóttir, Úthlíð

Sigríður Jónsdóttir, Fossi – varamaður

 

6. Almennar umræður

Egill Sigurðsson formaður stjórnar MS og Auðhumlu þakkaði boð á fundinn. Hann sagði frá fulltrúafundum fyrirtækisins síðustu vikna, það væri mikill áhugi fyrir hendi hjá bændum fyrir aukinni framleiðslu og áhugi yngri bænda mikill. Skilaboðin eru skýr af hálfu ráðherra að núverandi stuðningskerfi yrði áfram meðan verið væri að vinna að stöðumati og vinna stefnumörkun greinarinnar.

Stjórn Auðhumla hefur ákveðið að greiða fullt afurðastöðvaverð fyrir alla mjólk árið 2015 óháð greiðslumarki.

 

Guðrún Sigurjónsdóttir á Glitstöðum  þakkaði skýrslu stjórnar og framlögð erindi, bæði í dag og á fagþingi í gær. Það er  algjörlega óviðunandi hversu erfitt að fá framleiðsluspá fyrir greinina vegna of mikillar notkunar á heimanautum. Það er einnig óviðunandi að hafa ekki gögn til að meta afkomu greinarinnar á hverjum tíma.

 

Hallur Pálsson Naustum ræddi aukninguna á greiðslumarkinu, og hvernig það kemur fram varðandi þau bú sem eru  að fullnýta alla básana og hafa stillt greiðslumarkið í samræmi við framleiðsluna.

 

Sveinbjörn Sigurðsson Búvöllum  ræddi fortíðina þegar skerðingar gengu yfir, nú væri sem betur fer staðan allt önnur. Ræddi afnám búnaðargjaldsins og framtíð félagskerfisins, líklegt ef ekki verði breyting til einföldunar þá verður ekki nema hluti kúabænda t.d virkir félagsmenn í kjölfarið.

Velti fyrir sér þeim mikla breytileika  sem er milli manna í afurðum og hversu áreiðanlegar tölur væru úr skýrsluhaldinu.

Íslenski kúastofninn er ekki í raun sjálfbær þegar hver einasti kvígukálfur er settur á, nauðsynlegt er að fá nýtt erfðaefni inn í mjólkurkúastofninn.

 

Valgerður Kristjánsdóttir Mýrum 3 sagðist sammála orðum Sveinbjörns varðandi nauðsyn nýs erfðaefnis, þurfum innblöndun sem fyrst.  Spurning hvort ekki eigi að aftengja greiðslumarkið við framleiðsluna, einhver föst stærð en síðan aukning hjá þeim sem vilja og framleiða þá á afurðastöðvaverði.

Þórarinn Leifsson Keldudal sagði að sér fyndist eðlilegt að greiðslumarkið sem slíkt ætti að vera sameiginlegt verkefni allra kúabænda og sem slíkt stjórntæki líka fyrir dreifingu stuðningsgreiðslana.  Spurning hlyti að koma upp við þessar aðstæður að hafa eitt verð á alla framleiðsluna.

 

Sigmundur Sigurðsson Látrum sammála orðum Þórarins um greiðslumarkið.  Sagði gagnvart sæðingum með heimanautum þá virðist erfitt að skrá slíkt í Huppunni.  Taldi hægt að auka framleiðsluna ef menn einhentu sér í það, tók dæmi af því svæði sem hann kemur frá.

 

Laufey Bjarnadóttir Stakkhamri ræddi þá staðreynd að einungis ca. 20% framleiðenda hafa borið  uppi umframframleiðsluna síðustu ár. Spurning hvort ekki væri hægt að hafa greiðsluhvetjandi kerfi  á mjólk,  þ.e. á mjólk sem er umfram greiðslumark hvers og eins. Minntist á að gögn hafi borist seint til aðalfundarfulltrúa.

 

Egill Sigurðsson formaður stjórnar MS og Auðhumlu  hvatti til þess menn stæðu saman í þessari framleiðslu, væntanlega er hægt að greiða umframframleiðsluna hærra verði ef vilji væri til þess.

 

Baldur Helgi framkvæmdarstjóri LK svaraði Laufeyju um gögnin til aðalfundarfulltrúa, reynt hefði verið að koma þeim jafnóðum inn á læsta svæðið á vefnum.

Valdimar Guðjónsson Gaulverjabæ ræddi breytingar bæði í framleiðsluumhverfinu og einnig varðandi  samþykktir LK og einföldun félagskerfisins. Sömuleiðis mun stoðkerfið taka breytingum og aukinn kostnaður fara beint á hvern bónda.

 

Samúel U. Eyjólfsson Bryðjuholti ræddi tillögu um framleiðsluskyldu upp í 100%,  er ekki ástæða að hafa aðeins borð fyrir báru, t.d. staðnæmast við 98% ? Eins varðandi tilfærslu á á A, B og C- greiðslum, spurning hvort sú tillaga  sé réttmæt sem liggur fyrir fundinum. Síðan er það Nautastöðin, eigum við að taka þátt í rekstri þess fyrirtækis, hugsanlega yrði hún ekki rekin í óbreyttu formi í mörg ár enn.

 

Pétur Diðriksson Helgavatni  þakkaði fyrir góð erindi á fagþingi í gær, leggja þarf áherslu á halda áfram á þessari braut. Jafnframt ræddi hann orð ráðherra um framtíðarsýnina og vilja til að auka matvælaframleiðsluna á Íslandi.

Skortur á nautakjöti núna er afleiðing þess að sérhæfing eykst í mjólkurframleiðslunni og því miður er framlegðin of lág í sérhæfðri nautakjötsframleiðslu. Þessa þróun sjáum við líka í nágrannalöndum. Hins vegar, þeir sem vilja stunda þessa framleiðslu áfram, þurfa nauðsynlega að fá nýtt blóð í stofninn. 

Varðandi fyrirsjáanlega þörf á endurbótum á aðstöðu þá þurfum við verulega bústækkun og jafnframt að minnka vinnu við hverja framleiðslueiningu, þar kemur íslenska kýrin illa út. Nauðsynlegt sem aldrei fyrr að fá nýtt kúakyn til framleiðslu á mjólk. Hins vegar þarf þá að beina stuðningi í þá tvær mismunandi áttir, þ.e. lækka beingreiðslur til þeirra sem væru með nýtt kyn en þá hærri á íslensku kýrnar. Við eigum að leggja til tillögur um þessi mál m.t.t. næsta búvörusamnings. Vakti að lokum athygli á þeirri gífurlegri þörf sem fyrir liggur á heimsvísu á aukinni matvælaframleiðslu.

 

Gunnar Jónsson Egilsstöðum þakkaði góð erindi í gær og í dag. Sérstök staða uppi hjá kúabændum í dag, mikil breyting frá þvi fyrir 30 árum. Áskorunin í dag er að framleiða sem allra mest, bæði á innanlandsmarkað og einnig til útflutnings. Við eigum að halda þessu á lofti í umræðunni. Nýliðun er ávallt krefjandi verkefni en ekki erfiðari en var fyrir 30 árum. Vill þakka mjólkuriðnaðnum fyrir þeirra hlut í vinnslu og markaðssetningu mjólkurvara. Stjórnvöld hafa lýst yfir vilja til að auka matvælaframleiðslu hér innanlands, hins vegar hvernig þetta verður gert hefur ekki komið fram hjá þessum sömu stjórnvöldum. Byggðastofnun hefur boðið fram ákveðna lánamöguleika  til nýliðunar en gera þarf meira en þau kjör sem þar bjóðast núna. Meira þarf til  ef auka á verulega framleiðsluna, þ.e. betri framleiðslutæki inn í  fjósin, kýr sem fæðast í íslensku fjósi verða íslenskar kýr,  eigum við frekar að flytja inn mjólkina beint ?  Við eigum að nýta þá kosti sem eru í boði.

Jóhann Nikulásson í St-Hildisey þakkaði fyrir mikinn áhuga á fagþinginu í gær. Ræddi framleiðslukostnað búanna og hagræðingu innan vinnslunnar sem nemur líklega tveimur milljörðum króna á ári. Þetta samvarar um það bil heildarkjarnfóðurkostnaði kúabænda á ári.

Þakkaði jafnframt hvatningu ráðherra landbúnaðar um aukningu matvælaframleiðslu. Bar jafnframt saman aðstæður og stuðning við framleiðsluna t.d. í Noregi og hér á landi. Skoða þarf einnig lækkun byggingakostnaðar á hverja básaeiningu, þar skiptir máli hvað kýrin mjólkar á ári. Ef á að endurnýja núverandi fjós þá eru þrjár leiðir, mjög ódýrar lausnir (braggar)  eða hækka verð á markaði.  Þriðji möguleikinn er til staðar,  en það aukin framleiðsla á hvern bás, fljótlegast þar er nýtt erfðaefni í stofninn.

 

Sigurður Loftsson formaður LK  ræddi efni  umræðunnar, varðandi hagtölusöfnun þá eru þau mál í óviðunandi horfi.

Varðandi aukningu á greiðslumarki milli ára þá eru þessar leikreglur í gildi sem raun ber vitni. Hins vegar er ástæða til að nefna orð ráðherra í dag varðandi stefnumótunarvinnu. Sömuleiðis lýsti Sigurður ánægju sinni með orð Egils um fullt afurðaverð út árið 2015 eða næstu 21 mánuð. Að færa á milli A og C greiðslna felur í sér hvata til að jafna framleiðslu ársins. Skilvirkni C-greiðslna er mikil.

Ræddi framtíð búnaðargjaldsins og félagsaðild í breyttu kerfi, líklegt að ekki verði allir með þegar innheimt verður með öðrum hætti en nú er. Breytileiki er mikill í afurðum milli búa en hann virðist einnig vera til staðar í nágrannalöndum.

 

7. Nefndarstörf

Að loknum umræðum hófust nefndarstörf  en alls  bárust 30 tillögur til aðalfundarins frá aðildarfélögunum og stjórn LK auk tillögu frá stjórn um breytingar á samþykktum LK.

Starfsnefndir fundarins voru þrjár:

Starfsnefnd 1. Formaður Jóhanna Hreinsdóttir Káraneskoti.

Starfsnefnd 2. Formaður Þórarinn Leifsson Keldudal.

Starfsnefnd 3. Formaður Elín Bjarnveig Sveinsdóttir Egilsstaðakoti.

Nefndir störfuðu frá kl 16 á föstudag og fram til kl 11  á laugardag.

 

8. Afgreiðsla mála

 

Starfsnefnd 1. Jóhanna Hreinsdóttir Káraneskoti

1.Tillaga um breytingar á samþykktum á LK

Jóhanna Hreinsdóttir Káraneskotifylgdi tillögunni úr hlaði en nefndin ræddi tillöguna ítarlega en nefndin leggur til að fyrirliggjandi tillaga frá stjórn verði samþykkt óbreytt sem m.a. kveður á um að það verði 50 fulltrúar á bak við hvern fulltrúa inn á aðalfund LK sem þýddi fækkun fulltrúa inn á aðalfund LK.

Samúel  U. Eyjólfsson Bryðjuholtiræddi tillöguna, ef þessi tillaga verður samþykkt er þörf á að virkja vel aðalfundarfulltrúa fyrir aðalfund og fulltrúar fá rýmri tíma fyrir fund til að skoða tillögur fyrir aðalfund.

Jóhannes Torfason á Torfalækræddi fækkun fulltrúa inn á aðalfund, það þarf hugsa þau mál vel með tilliti til virkni félagsmanna.

Sveinbjörn Sigurðsson Búvöllumvelti fyrir sér kostnaði við aðalfundinn, spurning að draga úr kostnaði við greiðslur til aðalfundarfulltrúa.

Jón Gíslason Lunditaldi þörf á að gerð yrði grein fyrir stöðu fjármála hjá samtökunum við afgreiðslu þessarar tillögu.

Sigmundur H. Sigurðsson á Látrumræddi tillöguna og rakti umræður sem áttu sér stað í starfsnefndinni.

Sigurður Loftsson formaður LKræddi fjármál samtakanna, ljóst að borð væri fyrir báru í eitt eða tvö ár fjárhagslega  með tilliti til núverandi fjölda fulltrúa inn á aðalfund en hins vegar hefur ráðherra boðað afnám búnaðargjaldsins í núverandi mynd og hagsmunasamtök eins og LK yrði að takast á við slíkt.

Jóhanna Hreinsdóttir Káraneskoti ræddi tillöguna og vangaveltur um fjölda fulltrúa, í dag eru um 27  félagsmenn á bak við hvern fulltrúa en tillagan gengur út á að þeir verði 50 sem þýðir miðað við núverandi fjölda félagsmanna fækkaði aðalfundarfulltrúm úr 39  í 24 fulltrúa.

Jóhannes Torfason á Torfalæklagði fram breytingatillögu um að í stað 50 nautgripabændur kæmi fjöldatalan 35 í staðinn.

 

Breytingatillagan samþykkt með 26 atkvæðum.

Tillagan þannig breytt borin undir atkvæði:

 

„Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Sögu 28. – 29. mars 2014 samþykkir eftirfarandi breytingar á samþykkktum félagsins.

Grein 5.3 verði svohljóðandi; Fjöldi fulltrúa frá hverju félagi skal miðast við fjölda nautgripabænda á félagssvæðinu sem skrifaðir hafa verið fyrir innleggi mjólkur eða nautgripakjöts í afurðastöð árið fyrir aðalfund. Skal einn fulltrúi kosinn á aðalfund fyrir hverja byrjaða 35 nautgripabændur.
Lögaðilar svo sem einkahlutafélög, félagsbú eða sameignarfélög geta einnig talist nautgripabændur samkvæmt þessari grein.
Komi upp ágreiningur um fjölda nautgripabænda sem telja til fulltrúakjörs hjá hverju aðildarfélagi skal stjórn LK úrskurða um málið eftir að hafa aflað upplýsinga fráafurðastöðvum.„

Tillagan þannig breytt, samþykkt með 31 atkvæði.

Jóhanna Hreinsdóttir Káraneskoti fylgdi tillögu nefndarinnar úr hlaði varðandi grein 7 í samþykktum LK.

Grein 7. verði svohljóðandi;

„7.1. Stjórn LK skipa fimm menn kosnir á aðalfundi leynilegri kosningu og skulu allir félagsmenn vera í kjöri.

7.2. Fyrst skal kosinn formaður í beinni kosningu. Fái enginn meira en helming greiddra atkvæða skal kosið aftur bundinni kosningu milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu. Ef jafnt verður að nýju skal hlutkesti varpað.
Síðan skal kjósa fjóra meðstjórnendur. Náist ekki niðurstaða um hverjir séu rétt kjörnir stjórnarmenn í einni umferð kosninga, skal kosið aftur bundinni kosningu milli þeirra sem jafnir eru. Sé jafnt að nýju skal hlutkesti varpað.

Stjórnin skiptir með sér verkum varaformanns, ritara og meðstjórnenda svo fljótt sem kostur er.

Formaður skal sjálfkjörinn sem fulltrúi á búnaðarþing, en að öðru leyti skal kjör búnaðarþingsfulltrúa fara fram með sama hætti og stjórnarkjör.

7.3. Heimilt er að skipa uppstillinganefnd vegna kosninga á aðalfundi, enda hafi fundarstjórum borist tillaga um slíkt í upphafi fundar. Uppstillinganefnd skal skipuð þremur aðalfundarfulltrúum og skal hún skila inn tillögum um jafn marga einstaklinga og kjósa skal, að öðrum kosti telst tillagan ekki gild.“

Tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum

Grein 13. verði svohljóðandi;
Ákvæði samþykkta þessara gilda frá og með aðalfundi 2014. Búnaðarþingsfulltrúar sem kosnir voru á aðalfundi 2012 halda þó kjörgengi sínu fram til aðalfundar 2015 í samræmi við samþykktir Bændasamtaka Íslands.

Greinargerð.

Á nýliðnu búnaðarþingi voru gerðar nokkrar breytingar á samþykktum Bændasamtaka Íslands og þingsköpum búnaðarþings, sem ætlaðar eru til einföldunar og aukinnar skilvirkni. Þannig er kjörtímabil búnaðarþingsfulltrúa og stjórnar stytt úr þremur árum í eitt og stjórnarmönnum fækkað úr sjö í fimm. Þá er einn varaformaður í stað tveggja og varamenn stjórnar koma inn í röð eftir atkvæðavægi, í stað þess að hver stjórnarmaður hafi sinn varamann. Jafnframt eru ákvæði samþykkta og þingskapa um kosningar stjórnar skýrðar frá því sem áður var og í raun færð til samræmis við það verklag sem tíðkað hefur verið m.a. hjá Landssambandi kúabænda. Þær breytingar sem hér eru lagðar fram á sjöundu grein og með bráðabirgða ákvæði í þrettándu grein á samþykktum LK eru því hugsaðar til samræmis við það verklag sem staðfest hefur verið í samþykktum BÍ og þingsköpum búnaðarþings.

Tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Þá voru allar tillögurnar bornar upp í heild. Tillögurnar samþykktar með öllum greiddum atkvæðum.

 

2. Tillaga til stjórnar LK um breytingu á 10.grein samþykkta LK.

Jóhanna Hreinsdóttir Káraneskoti formaður starfsnefndar fylgdi eftirfarandi tillögu úr hlaði:

Jón Gíslason Lundi lagði til orðalagsbreytingu, hún samþykkt og tillagan þannig breytt borin upp:

 „Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Sögu 28. – 29. mars 2014samþykkir að beina því til stjórnar að undirbúa breytingar  á 10. gr.samþykkta samtakanna  fyrir aðalfund 2015. Greinin verði svohljóðandi  ,, mál sem á að taka til afgreiðslu á aðalfundi LK skuli hafa borist skrifstofu LK eigi síðar en 20 dögum fyrir aðalfund“  en ekki 7 dögum eins og nú er. „

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

3.

„Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 28. og 29. mars 2014 samþykkir að fela stjórn að leita samninga við Bændasamtök Íslands um framtíðar skipulag og rekstur Nautastöðvar BÍ. Fundurinn heimilar stjórn að koma á fót á eigin vegum, eða sem ráðandi aðili að stofnun einkahlutafélags um rekstur stöðvarinnar. Samhliða verði stjórn falið að fara í  viðræður við BÍ um framtíðar skipulag kynbótastarfs nautgriparæktar í landinu.“ 

 

Tillagan samþykkt samhljóða

 

4.

„Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 28. og 29. mars 2014, leggur áherslu á eftirfarandi við þær breytinga sem boðaðar hafa verið á lögum um innheimtu búnaðargjalds:

 •         Beinni ráðstöfun tekna, sem aflað er með innheimtu búnaðargjalds eða með viðlíka hætti, til einstakra aðila verði hætt, þannig að allir núverandi þiggjendur gjaldsins sitji við sama borð.

•          Þeim fjármunum sem innheimtir kunna að verða með búnaðargjaldi eða með öðrum viðlíka hætti, verði settir í búgreinaskiptan sjóð og ráðstafað þaðan samkvæmt tillögum hverrar búgreinar fyrir sig til þeirra verkefna sem heimilt verður samkvæmt lögunum.

•          Álagningarprósenta verði lækkuð til samræmis við þau verkefni sem falla út“.

 

Tiilagan samþykkt samhljóða.

 

5.

„Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 28. og 29. mars 2014, telur brýnt að í ljósi þeirra breytinga sem framundan eru á fjármögnun félagskerfis og fagstarfs kúabænda verði nú þegar ráðist í aðgerðir til að auka hagkvæmni og skilvirkni, jafnframt því að fjármögnun starfsins verði tryggð. Með það fyrir augum verði m.a. horft til eftirfarandi þátta.

 

• Unnið verði að uppbyggingu félagsgjaldskerfis sem undirstöðu í grunnstarfi Landssambands kúabænda og aðildarfélaga þess. Jafnframt verði leitað annara leiða til að fjármagna einstaka þætti starfsins að hluta, eða öllu leiti s.s. rekstur naut.is.

• Fjármunir til markaðs- og kynningarstarfs verði tryggðir með öllum þeim leiðum sem færar eru.

• Markvisst verði unnið að lækkun kostnaðar í yfirstjórn og starfsemi LK jafnframt því að treysta sem kostur er gagnvirk samskipti við aðildarfélögin.

• Leitað verði eftir því við Bændasamtök Íslands að endurskoða verkaskiptingu milli samtakanna með það markmið að stytta boðleiðir og auka skilvirkni.

• Farið verði yfir skipulag kynbóta- og fagstarfs nautgriparæktarinnar með það fyrir augum að nýta sem best fjármuni og lágmarka sem kostur er kostnað bænda, án þess að gæðum starfsins verði fórnað.

 

Fundurinn felur stjórn að vinna markvisst að þessum markmiðum í samstarfi viðaðildarfélögin, þannig að komin verði grunnur að nýju skipulagi á aðalfundi LK 2015.“

 

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

6. 

„Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 28. og 29. mars 2014, felur stjórn að leita allra leiða til að draga úr kostnaði og auka tekjur sambandsins. Þar verði meðal annars horft til eftirfarandi þátta:

–          Lækkun á ferða og fundakostnaði.  Aðalfundir aðildarfélaga verði skipulagðir með þeim hætti að lágmarka kostnað fulltrúa LK við fundina.

–          Farið verði yfir skipulag á  aðalfundi LK með tilliti til kostnaðar.

–          Hækkun á tekjulið vegna naut.is. Þar er horft til sölu á auglýsingum, notendagjöldum og/eða leita styrkja vegna veffræðslu.

–          Styrkir til aðildarfélaga verði lækkaðir um 50% frá fyrra ári. Stefnt verði að því að fella þessa styrki niður í áföngum.

–          Rekstur á skrifstofum sambandsins. Leitað verði leiða til að lækka húsaleigu og rekstrarkostnað.“

 

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

Starfsnefnd 2. Þórarinn Leifsson Keldudal formaður

 

7.

„Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 28. og 29. mars 2014 lýsir yfir áhyggjum af litlum rannsóknum í nautgriparækt hér á landi og beinir því til stjórnar Landssambands kúabænda og fagráðs í nautgriparækt að leita leiða til að auka rannsóknir í nautgriparækt og stoðgreinum nautgriparæktarinnar.“

 

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

8.

„Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 28. og 29. mars 2014 beinir því til MAST að framkvæmd eftirlits með kúabúum verði samræmt á milli umdæma.“

 

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

9.

„Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 28. og 29. mars 2014,  fagnar átakinu „Meiri mjólk“  og beinir því til forráðamanna Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins að setja aukinn kraft í vinnu við verkefnið í ljósi þeirra tækifæra sem framundan eru í mjólkurframleiðslunni.“

 

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

10.

„Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 28. og 29. mars 2014, beinir því til stjórnar LK og stjórnar SAM að ljúka sem fyrst vinnu við verkefnið „Fyrirmyndarbú“ – leiðbeiningar um góða búskaparhætti á kúabúum.“

 

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

11.

„Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 28. og 29. mars 2014, beinir því til  stjórnar LK að hvetja kúabændur til þess að skipuleggja sitt kynbótastarf  með því að gera kynbótaáætlun sem komið er á framfæri við frjótækna þannig að tryggt sé að sæðið sé tiltækt þegar á þarf að halda.„

 

Jón Gíslason Lundi ræddi tillöguna og hvort ekki ætti að beina tillögunni til fleiri aðila eins og RML.

Þórarinn Leifsson formaður nefndar  ræddi tillöguna, það eru búnaðarsamböndin sem reka þessa þjónustu. Hins vegar geta bændur sjálfir unnið þessa áætlun.

Samúel U. Eyjólfsson taldi tillöguna ætti að beinast einnig til RML.

Sigurður Loftsson formaður LK ræddi tillöguna og taldi eðlilegt að fela stjórn LK framgang tillögunnar.

Sigmundur Sigurðsson Látrum taldi óþarft að beina tillögunni sérstaklega til RML, á sínu svæði gera bændurnir sjálfir sæðingaáætlun, flestir fyrir áramót. Hvatningin í tillögunni er til bænda.

Aðalsteinn Hallgrímsson í Garði ræddi tilöguna og hvort tillagan ætti að beinast til stjórnar LK.

 

Starfsnefndin tók tillöguna til endurskoðunar og að lokinni yfirferð nefndarinnar um breytingu á orðalagi,  var tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með þeirri breytingu að í stað “búnaðarsambanda“  , sem var í upphaflegri tillögu nefndarinnar, kom í staðinn „stjórnar LK“.

 

Tillagan þannig samþykkt samhljóða.

 

12.

„Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 28. og 29. mars 2014 beinir því til RML að framkvæma kvíguskoðanir tvisvar á ári.“

 

Gunnar Jónsson Egilsstöðum ræddi tillöguna og taldi á stundum væru starfsmenn að dæma júgur á kvígum þegar þær hefðu lokið 1.mjólkurskeiði, slíkt væri ekki gott.

Jón Gíslason Lundi ræddi hver væri nauðsyn á fjölda kvígna til dóms á þessum eiginleikum.

Halldór Sigurðsson á Hjartarstöðum nefndi að stundum væri búið að lóga kvígunum undan ákveðnum nautum þegar komið væri í fjósið til að skoða  kvígurnar.

Þórarinn Leifsson í Keldudalræddi umræðu í fagráði um nauðsynlegan fjölda kvígna fyrir afkvæmadóm, þar hefði verið staðnæmst við að reyna að dæma allar kvígur undan ræktunarnautum en ekki heimanautum.

Sveinbjörn Sigurðsson Búvöllumveltir fyrir sé sömu atriðum og Halldór Sigurðsson.

 

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

13.

„Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á hótel Sögu 28. – 29. mars 2014 beinir því til stjórnar LK að hvetja til miðlunar á ungkálfum og kúm milli búa eins og leyfilegt er vegna sjúkdómavarna.“

 

Aðalsteinn Hallgrímsson Garðivelti fyrir sér hvort ekki mætti tengja þetta www.naut.isog jafnframt að greitt yrði eitthvað fyrir þetta.

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

14.

„Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 28. og 29. mars 2014, beinir því til stjórnar LK að haldið verði áfram með Veffræðslu LK í ljósi góðrar reynslu af starfseminni. Jafnframt leiti stjórnin leiða til að fjármagna þetta starf með öðrum hætti en af starfsfé samtakanna.“

 

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

15.

„Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 28. og 29. mars 2014, lýsir ánægju með að komin sé niðurstaða Matvælastofnunar um mat á áhættu vegna innflutnings á holdanautasæði og fósturvísum frá Geno Global Ltd. í Noregi. Fundurinn telur að í niðurstöðum matsins felist mikil tækifæri til að efla holdanautabúskap á Íslandi með hagkvæmum og skilvirkum hætti. Á grundvelli þessara niðurstaðna er stjórn Landssambands kúabænda falið að vinna einarðlega að því að bændum standi til boða nýtt erfðaefni sem fyrst.“

 

Laufey Bjarnadóttir Stakkhamri ræddi tillöguna og viðhorf manna sem kallaðir voru til fyrir nefndina en það voru þau Erna Bjarnadóttir, Halldór Runólfsson og Vilhjálmur Svansson. Gerði hún grein fyrir því að einungis var gert áhættumat fyrir 16 þekkta sjúkdóma en  margir skildir eftir og þar fyrir utan væru margir óþekktir til.  Fram hefði komið að jafnvel enn meiri áhætta væri á smitsjúkdómum með innflutningi á frosnu sæði en hráu kjöti.  Búnaðarþing hafi nýlega sent frá sér ályktun um mótmæli gegn innflutningi á hráu kjöti og því væri mótsögn í hagsmunagæslu á vettvangi bænda.

Guðný Helga Björnsdóttir Bessastöðum ræddi  tillöguna og mismunandi viðhorf  þeirra aðila sem kallaðir voru á fund nefndarinnar.

Jón Gíslason Lundi ræddi áhættumat almennt. Í ljósi þeirra matsgerða sem liggja fyrir virðist þetta vera innan marka. Vitnar til reglna Ný-Sjálendinga um bann við innflutningi á hráu kjöti annars vegar og hins vegar ræktunarstarf þeirra og innflutnings á erfðaefni þangað. Lagði til eftirfarandi breytingu á tillögunni:

 

„Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 28. og 29. mars 2014, lýsir ánægju með að komin sé niðurstaða Matvælastofnunar um mat á áhættu vegna innflutnings á holdanautasæði og fósturvísum frá Geno Global Ltd. í Noregi. Í ljósi niðurstaðna áhættumatsins telur fundurinn að í innflutningi holdanautasæðis felist mikil tækifæri til að efla holdanautabúskap á Íslandi  með hóflegri áhættu  og hóflegum kostnaði.  Því felur fundurinn stjórn LK að vinna ákveðið að því að  bændum standi til boða  að nýtt erfðefni sem fyrst.“

Sigurður Loftsson formaður LKræddi tillöguna og hvernig LK hefur unnið að þessu máli undanfarandi ár með það í huga að efla nautakjötsframleiðslu hér innanlands. Það er ekki við hæfi að bera saman þessa tillögu  og bann við innflutningi við hráu kjöti. Ráðuneyti hefur ákveðið að setja álit MAST í umsagnarferli en á endanum hefur ráðuneytið ákvörðunarvald í þessum málum.

Laufey Bjarnadóttir Stakkhamri vonaðist að aðalfundurinn væri upplýstari um feril málsins í nefndinni.

 

Breytingatilllagan samþykkt  með 19 atkvæðum gegn 7. Tillagan þannig breytt samþykkt samhljóða.

 

Starfsnefnd 3.  Elín Bjarnveig Sveinsdóttir formaður

 

16.

„Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Hótel Sögu 28.-29. mars 2014, beinir því til stjórnar LK. að hún beiti sér fyrir því að ákvarðanir sem hafa áhrif á framleiðsluumhverfi mjólkurframleiðenda séu teknar og kynntar bændum tímanlega  svo þeir geti brugðist við væntanlegum breytingum áður en þær taka gildi.“

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

17.

„Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Hótel Sögu 28.-29. mars 2014, áréttar mikilvægi þess að mjólkuriðnaðinum sé tryggt nægilegt hráefni til að sinna þörfum markaðarins á hverjum tíma og skorar á kúabændur, sem og fagstofnanir þeirra, að leggja sitt af mörkum til að svo megi verða. Því hvetur fundurinn bændur til að nýta sér faglegar leiðbeiningar sem þeim standa til boða til að mynda bæði hjá Mjólkursamsölunni og Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins.“

Laufey Bjarnadóttir Stakkhamri lýsti sig sammála efni tilögunnar og hvatti til samþykktar hennar.

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

18.

 „Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Hótel Sögu 28.-29. mars 2014,  beinir því til Hagstofu Íslands að úrvinnslu hagtalna fyrir landbúnaðinn verði flýtt eins og kostur er. Jafnframt beinir fundurinn því til bænda að þeir skili bókhaldsgögnum til Hagstofunnar um leið og ársuppgjöri er lokið.“

 

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

19.

„Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Hótel Sögu 28.-29. mars 2014, beinir því til stjórnar LK að gera úttekt á árangri „Stefnumörkunar 2021“ sem unnin var árið 2011, og endurskoða það sem þurfa þykir. „  

 

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

20.

„Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Hótel Sögu 28.-29. mars 2014, lýsir yfir ánægju með „Sáttmála um upprunamerkingar matvæla“, sem undirritaður var nýlega af hálfu Bændasamtakanna, Samtaka atvinnulífsins og Neytendasamtakanna. Fundurinn telur löngu tímabært að merkingum matvæla sé þannig háttað að neytendur þurfi ekki að velkjast í vafa um hvar þau eru framleidd og hvetur stjórn BÍ að fylgja málinu eftir.“

 

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

21.

„Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Hótel Sögu í Reykjavík 28. og 29. mars 2014 leggur til að beingreiðslur í mjólkurframleiðslu skiptist í eftirfarandi hlutföllum frá og með verðlagsárinu 2015:

A-hluti: 40%

B-hluti: 35%

C-hluti: 25%

C-hlutinn skiptist sem hér segir:  15% í júní, júlí, ágúst, september, október og nóvember, en 10 % í desember.

Jafnframt leggur fundurinn til að til að fá fullar A-greiðslur þurfi framleiðendur að leggja inn sem nemur 100% af greiðslumarki býlisins. Þá leggur fundurinn til að C-hluta beingreiðslnanna verði deilt út á mánuðina júní-desember, til að draga úr árstíðasveiflu mjólkurframleiðslunnar.

 

Greinargerð.

Söluaukning mjólkurafurða undanfarna mánuði á sér ekki fordæmi. Við þær aðstæður er afar mikilvægt að skipting beingreiðslna feli í sér hvata til aukinnar framleiðslu og jöfnunar á árstíðasveiflu mjólkurframleiðslunnar. Greiðslumark mjólkurframleiðslunnar er ákveðið með hliðsjón af sölu mjólkurafurða á innanlandsmarkaði og því eðlilegt að útdeiling á stuðningi við greinina taki einnig mið af þeirri stöðu. Jafnframt sýna tölur úr skýrsluhaldi nautgriparæktarinnar að kýr sem bera að sumrinu skila að jafnaði minni afurðum en kýr sem bera á öðrum árstímum, sem leiðir m.a. til að samdráttur í innvigtun mjólkur yfir hásumarið verður meiri og skarpari en ástæða er til. Með því að auka vægi C-greiðslna yfir sumarmánuðina skapast hvati til bættrar fóðrunar og aukinnar framleiðslu á þeim árstíma. Aukið jafnvægi innan ársins í framleiðslu og sölu mjólkurafurða eykur hagkvæmni mjólkurvinnslunnar, sem er eitt brýnasta hagsmunamál kúabænda.

Í dag

40-35-25%

A-greiðsla

20,80 kr.

17,50 kr.

B-greiðsla

15,50229

15,3055

C-greiðsla

7,381624

10,9325

Deilt á innvigtun innan greiðslumarks á C-greiðslutímabilinu

 

Jórunn Svavarsdóttir Drumboddsstöðumspurði um þak á C-greiðslunni, er það ekki háð greiðslumarkinu.

Samúel U. Eyjólfsson Bryðjuholti sagðist  hafa verið í minnihluta innan nefndarinnar, vildi ekki ganga svona langt í tilfærslu milli A og C.

Sigmundur Sigurðsson Látrum sagðist vera ósammála tillögunni, óbreytt skipting væri betri útfærsla.

Jón Gíslason Lundi ræddi tillöguna og taldi ákveðinn misskilning vera í málflutningi Sigmundar.

Aðalsteinn Hallgrímsson Garði ræddi tillöguna og hvert ætti að beina tillögunni, er það ekki til stjórnar LK.

Baldur Helgi ræddi tillöguna og útskýrði tilhögun breytinga ef tillagan yrði samþykkt.

 

Tillagan samþykkt með meginþorra atkvæða gegn einu mótatkvæði.

 

22.

„Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 28. og 29. mars 2014, leggur áherslu á að hafin verði vinna við nýjan samning um starfsskilyrði í mjólkurframleiðslu, með það að markmiði að efla samkeppnishæfni og treysta afkomu greinarinnar. Áður en til þess kemur er nauðsynlegt að meta þá reynslu sem komin er af framkvæmd núgildandi samningsins, þ.á.m. kostnaðarþróun í greininni, áhrif kvótakerfisins og stöðu verðlagningar og tolla.  Fundurinn leggur áherslu á að við gerð nýs samnings verði horft til eftirtalinna meginatriða:

 

·         Tryggt verði öruggt framboð  nautgripaafurða fyrir íslenska neytendur á hagstæðu verði.

·         Skapaðar verði sem bestar aðstæður til að nýta sóknarfæri á erlendum mörkuðum.

·         Tryggð verði staða nautgriparæktarinnar sem eins af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar er keppt geti við aðrar atvinnugreinar og aðra valkosti um fólk, fjármagn og land.

·         Áhersla verði áfram lögð á heilnæmi afurða og kröfur til dýravelferðar í nautgriparækt.

·         Viðhalda jákvæðri ímynd greinarinnar og afurða hennar.

 

Á grundvelli þessara markmiða verði gengið til samninga við ríkisvaldið um starfsskilyrði greinarinnar. „

Tillagan samþykkt samhljóða

 

9. Reikningar LK, launakjör stjórnar og fjárhagsáætlun

Baldur Helgi framkvæmdarstjóri fór yfir niðurstöður ársreiknings ársins 2013, tekjur voru 56,6 milljónir króna en gjöld rúm 51 milljón króna, fjármunatekjur rúmlega 1,6 milljónir króna. Hagnaður varð af starfseminni um rúmar 7,2 milljónir króna. Ársreikningur  samþykktur samhljóða.

 

Lagt til að breytingar á launum stjórnarmanna verði miðaðar  við breytingu á launavísitölu í febrúar ár hvert. Tillagan samþykkt með meginþorra atkvæða gegn tveimur atkvæðum.

 

Tillaga um fjárhagsáætlun samþykkt samhljóða.

 

10. Kosningar

Valdimar Guðjónsson formaður kjörnefndar kynnti tillögur kjörnefndar. Að því loknu var gengið til kosninga.

 

Kosning formanns:

Sigurður Loftsson 32 atkvæði

Trausti Þórisson 1 atkvæði

Valdimar Guðjónsson 1 atkvæði

Auðir seðlar 2.

 

Kosning meðstjórnenda:

Trausti Þórisson 32 atkvæði

Jóhann G.  31 atkvæði

Guðný Helga Björnsdóttir 29 atkvæði

Jóhann Nikulásson 24 atkvæði

 

Jóahnna Hreinsdóttir 5 atkvæði

Laufey Bjarnadóttir 2 atkvæði

Valdimar Guðjónsson 2 atkvæði

Nokkrir aðrir eitt atkvæði auk tveggja auðra seðla.

 

Kosning tveggja varamanna í stjórn:

Laufey Bjarnadóttir 23 atkvæði

Guðrún Lárusdóttir 18 atkvæði

 

Næstar í atkvæðatölum voru Elín Heiða Valsdóttir með 5 atkvæði og Bóel Anna Þórisdóttir og Valgerður Kristjánsdóttir með 3 atkvæði.

 

Kosning skoðunarmanna:

Elín Bjarnveig Sveinsdóttir og Pétur Diðriksson kosin með lófaklappi svo og varamaður; Valdimar Sigmarsson.

 

11. Önnur mál

Samúel U. Eyjólfsson ræddi starfsemi og skipulag samtakanna. Ef fækkun fulltrúa verður umtalsverð þá gæti verið heppilegt að geta kallað til varamenn ef einhver stór mál eru til umræðu. Þakkaði fyrir veffræðsluna, það er gott framtak. Lítið rætt um verðlagsmál á fundinum. Nefndi að lítið væri í boði í formi námsverkefna BSc. hjá LbHÍ á sviði nautgriparæktar.

Guðný Helga Björnsdóttir ræddi þörf fleiri námsverkefna og rannsóknaverkefna á sviði nautgriparæktar, fagráð nautgriparæktar hefur hvatt LbHÍ til aukinnar virkni í framboði verkefna.

 

12. Fundarslit

Sigurður Loftsson formaður LK þakkaði fundarmönnum traustið í kosningum. Næg verkefni bíða eins og oft áður. Ræddi verðlagsmál en verð hefur ekki breyst í töluverðan tíma.  Þakkaði starfsmönnum fundarins góð störf svo og aðalfundarfulltrúum og sleit fundi kl 16.55.

 

Fundagerð ritaði

Runólfur Sigursveinsson.