Beint í efni

Aðalfundur LK 2009

28.03.2009

Aðalfundur LK 27.-28.mars 2009 haldinn á Hótel Sögu, Reykjavík

1.Fundarsetning
Þórólfur Sveinsson formaður LK setti fund og bauð fólk velkomið til starfa. Kynnti tillögu  að fundarstjórum, þá Jón Gíslason og Valdimar Guðjónsson og voru þeir samþykktir og tóku við stjórn fundarins. Þeir kynntu tillögu að kjörbréfanefnd, þá Magnús Sigurðsson, Pétur Diðriksson og Ragnar Magnússon. Sömuleiðis kynntu þeir tillögu að fundarritara aðalfundar, Runólf Sigursveinsson. Báðar tillögur samþykktar.

 

2.Skýrsla stjórnar og fagráðs
Formaður Þórólfur Sveinsson minntist í upphafi látins félaga, Odds Gunnarssonar á Dagverðareyri sem lést á liðnu ári. Oddur var m.a. í fyrstu stjórn LK.  Fundarmenn vottuðu Oddi virðingu sína með að rísa úr sætum.
Formaður ræddi stöðu kúabænda, sem væri ef til vill betri en margra annarra í samfélaginu þó útgjaldavandinn væri mikill.
Vakti athygli á tveimur jákvæðum atburðum á síðasta starfsári, landbúnaðarsýning Búnaðarsambands Suðurlands á Hellu og vígslu nýrrar Nautastöðvar BÍ á  Hesti í Borgarfirði.

Ræddi þau mál sem gætu komið til kasta nýrrra stjórnar LK, meðal annars mögulegar breytingar í starfsumhverfi kúabænda með inngöngu í ESB á næsta kjörtímabili.

Fjallaði um stöðu kúabænda í ljósi m.a. skerðingarákvæða sem sett voru í  tengslum við fjárlagagerð undir lok árs.  Ef verðlagsþróun verður svipuð og nú lítur út fyrir þá verði þessi skerðing ekki eins veruleg og leit út fyrir í upphafi árs.
Eitt af mestu hagsmunamálum kúabænda og annarra atvinnurekenda er að gengi íslensku krónunnar nái ákveðnu jafnvægi. Skuldastaðan er víða ískyggileg en jafnframt er breytileiki í afkomu  innan stéttarinnar mjög mikill.
Afkoma mjólkuriðnaðarins er einnig áhyggjuefni og viðvarandi taprekstur gengur ekki.

Hins vegar verður mikilvægi matvælaöryggis enn ljósari við þær aðstæður sem íslenska þjóðin býr nú við.

Ræddi störf stefnumörkunarnefndar sem starfað hefur á vegum LK, bæði með tilliti til framtíðar kvótakerfsins og einnig möguleika á útflutningi. Spurning hvort mjólkuriðnaðurinn ætti ekki að leita fyrir sér með samstarfi við erlend mjólkurvinnslufyrirtæki eins og Arla t.d. varðandi markaðssetningu.

Ljóst að greiðslumark yfirstandandi verðlagsárs er ekki í samræmi við sölu síðaustu mánaða og mun hafa áhrif á greiðslumark næsta verðlagsárs.

Hin opinbera verðlagning á hluta mjólkurvara er orðin verulega hamlandi, nýmjólkin er undirverðlögð en þrátt fyrir það er verulegur sölusamdráttur þar síðustu ár.

Ræddi úrskurð Samkeppniseftirlits varðandi starfsemi BÍ, þetta álit snertir ekki bara BÍ  heldur allra aðildarfélaga þess. Ræddi m.a. verðlagningarákvæði búvörulaga, spurning hvort ástæða er til fyrir LK að beita sér fyrir því að tekið verði upp viðmiðunarverð á nautgripakjöti sem heimilt er samkvæmt búvörulögum.

Ræddi loks að þetta yrði síðasta skýrsla sín til aðalfundar LK en hann tók við starfi sem formaður árið 1998. Mikið hefur áunnist á þeim tíma. Eftir sem áður er  meginvandamálið hár framleiðslukostnaður í mjólkurframleiðslunni.
Þórólfur þakkaði öllum samstarfið á liðnum árum.

 

3.Ávörp gesta


Haraldur Benediktsson formaður BÍ tók undir orð formanns LK um gott samstarf  BÍ og LK. Ræddi síðan breytingar á matvælafrumvarpinu en BÍ hefur skilað inn nýrri umsögn til Alþingis. Væntanlega verður frumvarpið að lögum á sumarþingi í ár.
Gat um tillögu að breytingu á búvörulögum sem er í smiðum, þar verður skýrð betur m.a. meðferð umframmjólkur á markaði.
Ræddi álit Samkeppniseftirlitsins um starfsemi BÍ, þarna er tekist á um sérlög annars vegar og hins vegar lög um samkeppni. Nauðsynlegt er að skýra betur þessi mál með tilliti til framtíðar.
Að lokum minntist hann á mikilvægi matvælaöryggisþáttarins sem hefði fengið aukið vægi í kjölfar efnahagsástandsins

Steingrímur Sigfússon sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra  minntist á þær breytingar sem orðið hafa  í kúabúskap síðustu áratugi, mikil skuldsetning er í greininni m.a. í erlendum lánum. Á sínum tíma var Lánasjóður landbúnaðarins haldreipi við erfiðar aðstæður. Minnti á þær aðgerðir sem þegar hafa verið ákveðnar til að létta undir, m.a. varðandi seinkun á virðisaukaskilum, liðsinni Bjargráðasjóðs varðandi áburðarkaup auk annarra almennra aðgerða. Búast má við að samdráttur verði á sölu afurða sem síðan hefur áhrif innan frumframleiðslunnar. Hins vegar má ekki gleyma því að matvælaframleiðsla er ávallt grunnurinn að annarri atvinnustarfsemi, olíuverð hefur heldur lækkað og aðfengið fóður að einhverju marki. Mikilvægt að fjármagnskostnaður náist niður, væntingar eru um slíkt hér innanlands þ.e. lítil verðbólga framundan. Vextir hér innanlands ættu að lækka á næstu mánuðum ef svo fer fram sem horfir. Erlendis eru vextir í sögulegu lágmarki.

Mikilvægt er að nýta ríkisstuðning sem best á innlendum markaði, með það að markmiði hefur verið unnið frumvarp  í ráðuneytinu um breytingu á búvörulögum. Frumvarpið hefur verið kynnt í landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd. Ljóst er þó að frumvarpið mun ekki nást í gegn á þessu þingi.

Ljóst er að á næsta kjörtímabili þarf að skoða landbúnaðarmálin sérstaklega m.t.t  framtíðarþróun atvinnugreinarinnar.

Minntist á fund sem haldinn var í gær með fulltrúum bænda og ráðuneytis vegna vanefnda á samningum milli ríkis og bænda. Ljóst er að næsta ár verður erfitt í þjóðfélaginu. Könnunarviðræður munu fara af stað milli ráðuneyta fjámála og landbúnaðar og bænda um hvernig með eigi að fara með núverandi samninga í búvöruframleiðslu.

Sóknarfæri eru víða í atvinnugreininni m.a. í kornræktinni en í gær kom út skýrsla um mögulega aukningu í þeirri grein á allra næstu árum.

 

Atli Gíslason formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar gat um tvö mál sem hafa verið í umræðu í nefndinni, matvælafrumvarpið og breytingar á búvörulögum.
Matvælafrumvarpið var endurflutt í tíð síðustu ríkisstjórnar, nefndi þá vinnu sem verið hefur í gangi um að hægt verði að setja ákveðnar girðingar ef vilji er til þess m.a. varðandi salmonellu- og camphylosýkingar. Svíar  og Finnar hafa náð slíku fram.

Gat síðan um frumvarp um breytingu á búvörulögum sem unnið hefur verið að varðandi ríkisstuðning og markaðsfærslu umframmjólkur. Frumvarpinu ekki beint að Mjólku heldur almennt um að menn gætu ekki starfað utan þess kerfis sem við búum við, sem er skilvirkt og þjónar bæði neytendum og bændum.

Minnti að lokum á þá samþjöppun sem orðið hefur t.d. á verslun með matvæli og samþjöppun á aflaheimildum. Viljum við fá en mjög stór bú í mjólkurframleiðslu með lítilli tengingu við hinar dreifðu byggðir ?

 

Kjartan Ólafsson formaður Framleiðnisjóðs landbúnaðarins gat um gott samstarf sjóðsins og LK.  Væntanlega verður engin stór breyting í starfsemi sjóðsins á næstunni nema þá helst að styrkja enn frekar atvinnuskapandi verkefni á landsbyggðinni.

 

Umræður um ávörp gesta

Valgerður Kristjánsdóttir kvaðst ánægð með orð ráðherra og formanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar hér á undan. Meðal annars um málsmeðferð matvælafrumvarpsins. Lýsti andstöðu sinni við Evrópusambandsaðild. Lýsti eigin reynslu af að koma inn í greinina, byggði upp og tæknivæddist og keypti kvóta. Þetta er mjög fjármagnsfrekur rekstur og skoða þarf sérstaklega greiðslumarksmálin. Ræddi skilarétt á vörum úr verslunum, þarna þarf að taka á málum gagnvart verslunum.

Ólafur Magnússon framkvæmdastjóri Mjólku. Ræddi orð Atla Gíslason hér á undan, MS hefur rúmlega 98% markaðarins á sinni könnu. Mjólka er tilkomin vegna þessa óheyrilega kostnaðar sem felst í kvótakaupum. Búin hafa stækkað og samþjöppunin eykst, líkt og hefur gerst í sjávarútveginum. Minnti á framleiðslu á vegum einstakra bænda, „Beint frá býli“. Kallar á breytingar á núverandi kerfi en er algjörlega andsnúinn því frumvarpi sem kynnt hefur verið um breytingu á búvörulögum.

 

4. Erindi Gylfa Magnússon viðskiptaráðherra
Ræddi snertifleti viðskiptaráðuneytis við kúabændur, meðal annars neytendastofa og merkingar matvæla. Önnur stofnun ráðuneytisns er Samkeppniseftirlitið. Sú stofnun er mikilvæg m.t.t. samkeppnissjónarmiða og vakti meðal annars athygli á að sú samþjöppun sem er hér á markaði, t.d. í smásölugeiranum og eins varðandi aðföng t.d. bænda.
Fall krónunnar hefur haft margvísleg áhrif sem bændur verða fyrir,  m.a. varðandi lán í erlendri mynt en þetta skapar einnig margvísleg tækifæri fyrir innlenda framleiðslu. Krónan mun væntanlega ekki ná fyrri hæðum en þó styrkjast eitthvað frá því sem nú er.
Þrátt fyrir allt eru margvísleg gildi ósködduð, m.a. þær stoðir sem samfélagið býr við og þær náttúrulindir sem landið býr yfir. Hvetur kúabændur og aðra bændur til að gera meira úr þeirri fjölbreytni framleiðslu sem felast í tengingu við landið og staðbundinnar framleiðslu. Til dæmis hafa Frakkar náð umtalsverðum árangri varðandi fjölbreytni og sérhæfingu í matvælavinnslu. Tengja afurðirnar meira við upprunann. Gera matvælin áhugaverðari fyrir neytendur, þarna eru umtalsverð tækifæri. Einsleit framleiðsla hefur verið mjög ráðandi hér á landi fram undir þetta.
Til að Ísland komist út úr þrengingunum þarf að koma fjármálakerfinu af stað aftur. Allar líkur er á að þetta takist, þetta þýðir að ríkisvaldið verður að skera niður í opinberum stuðningi á næstu misserum. Hins vegar til lengri framtíðar þá er framtíðin björt. Ísland hefur jafnvel meiri burði en aðrar þjóðir að takast á við framtíðina. Staðan erlendis setur stöðuna hér á landi í stærra samhengi, Ísland varð fyrst til að finna fyrir skellinum og tekur stóra dýfu strax. Flestar nágrannaþjóðir hafa nánast falið vandann með því að láta viðkomandi ríkissjóð taka á sig skellinn tímabundið en fyrr eða síðar munu þeir þurfa að takast á við það sem við i erum  þegar farin að vinna á.   Við þurfum að taka á okkar eigin málum m.a. að auka sjálfstraust okkar til framtíðar.

 

Umræður um erindi Gylfa Magnússonar

Sigurgeir Hreinsson spurði í hvaða stöðu við hefðum verið, ef við hefðum haft  evruna í  þeim þrengingum sem við höfum upplifað núna.
Gylfi Magnússon sagði veikingu gjaldmiðilsins, íslensku krónunnar, væri ákveðinn kostur til að byggja upp hraðar en hins vegar ef við hefðum evruna þá hefði skellurinn ekki orðið eins mikill strax. Íslenska krónan hefur bæði kosti og galla, gallarnir felast í óstöðugleika og við veikingu krónunnar hækka erlendar skuldir.
Þórolfur Sveinsson spurði um gengisþróun næstu mánaða og vaxtaþróun.
Gylfi Magnússon taldi að til lengri tíma muni íslenska krónan styrkjast.  Nafnvextir munu lækka á næstu mánuðum, sbr. síðustu verðlagsmælingu. Raunvextir munu væntanlega verða tiltölulega háir vegna fjármagnsþarfa ríkisins á  næstu misserum
Sveinbjörn Sigurðsson velti vöngum um réttarstöðu lántakenda gagnvart bönkunum varðandi erlenda lántöku og mögulega skaðabótaábyrgð þeirra.
Gylfi Magnússon sagði að þeir aðilar sem lánuðu þessa fjármunir séu þegar komnir í þrot
Valgerður Kristjánsdóttir spurði um verðtrygginguna og mögulega niðurfellingu lána um 20%.
Gylfi Magnússon sagði að skýringar á verðtryggingunni væri að finna fyrst og fremst í því að þetta er örmynt með miklum sveiflum og það þýðir að ef hún yrði afnumin þá yrðu vextirnir í sömu sveiflu og verðbólgan. Ef okkur tekst að ná öruggum tökum til langs tíma á verðbólgunni þá skapist jafnvægi. Hins vegar er önnur mynt og stærra myntsvæði líklegra til árangurs.  Varðandi niðurfellingu um íbúðalána um 20%, þá er einfaldlega staðan sú að Íbúðarlánasjóður færi í þrot og ríkisvaldið hefur ekki þessa fjármuni til að standa undir slíku.
Baldur Helgi Benjamínsson spurði um myntráð er það einhver möguleiki til framtíðar ?
Gylfi  Magnússon sagði að þetta þyrfti að gerast í gegnum mjög öflugan gjaldeyrisvarasjóð og fastgengisstefnu t.d í gegnum evru. Gallarnir eru að mikla fjármuni þarf til að byggja upp öflugan gjaldeyrisvarasjóð og hins  vegar að gjaldeyrisframboð og vextir yrðu ekki í höndum íslendinga heldur tengdist beint vöruviðskiptum við útlönd. Þetta yrði vandmeðfarið í framkvæmd

 

6. Reikningar lagðir fram
Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri  kynnti niðurstöður reikninga en þeir lágu frammi í möppum aðalfundarfulltrúa. Tekjur um 37,3 milljónir af búnaðargjaldi, frá Framleiðsluráðssjóði 2,6 milljónir, vaxtatekjur 5 milljónir. Laun og launatengd gjöld 14,4 milljónir og annar rekstrarkostnaður 26,8.  Jákvæð niðurstaða rekstrarreiknings er rúmar 3,4 milljónir.
Reikningar samþykktir samhljóða.

 

7. Umræður um skýrslu stjórnar
Þórir Jónsson þakkaði störf formanns og stjórnar á liðnu ári. Gerði að umtalsefni erfiða fjárhagsstöðu margra kúabænda.  Afurðaverðsþróun hefur ekki nægilega fylgt þeim hækkunum sem orðið hafa. Megum ekki við því að missa út úr greininni kraftmikið ungt fólk.
Minnti á starf stefnumörkunarhópsins og gildi þeirrar vinnu
Eiríkur Egilsson þakkaði störf stjórnar, spurning um leiðir til að takast á við erlendu lánin, hvort ekki væri ástæða að skoða leið Íslandsbanka sem hann er að bjóða. Hvetur stjórn LK að skoða þessa útfærslu.
Sigurgeir Hreinsson þakkaði störf stjórnar og sérstaklega Þórólfi formanni. Minnti á orð Þórólfs  um þann vanda sem er í greininni, sem er útgjaldavandi. Hins vegar eru blikur á lofti varðandi tekjuhliðina. Verð er ákveðið að hluta í gegnum verðlagsnefnd og þær vörur eru í raun undirverðlagðar. Hættan er fyrir hendi að vinnsluvörurnar verði ekki samkeppnishæfar við innfluttar sambærilegar vörur. Breyting á búvörulögum er nauðsynleg til að takast á við  þessi mál. Ef við höfum ekki tryggt að umframmjólk fari á erlendan markað þá hrynur þetta kerfi sem við búum við í dag. Spurningin er einnig að fara eftir þeim lögum sem eru í gildi í dag.
Þakkaði vinnu við að koma fram athugasemdum við matvælafrumvarpið, bæði hjá BÍ og hjá Atla Gíslasyni formanni sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Samkeppniseftirlið hefur gildi sem slíkt eins og kom fram í máli Gylfa Magnússonar
Pétur Diðriksson  velti fyrir sér því umhverfi sem landbúnaðurinn er að fara inn í. Við erum með misræmi í verðlagningu afurða mjólkurinnar. Hættan er sú að mjólkuriðnaðurinn geti ekki greitt skráð lágmarksverð. Það er grundvallaratriði að taka á þessum málum. Ef afurðasölufyrirtæki í eigu bænda væru ekki með 98% af markaðnum þá væri mjólkurframleiðslan í uppnámi vegna verðstríðs. Í löndum eins og Bretlandi og Þýskalandi eru fjölmargir smáir vinnsluaðilar að selja þessar vörur til örfárra stórra smásöluaðila. Afleiðingin er flótti úr mjólkurframleiðslunni í Bretlandi. Þetta er atriði sem menn þurfa að átta sig á. Mikilvægt er að hver vörutegund geti gefið ákveðna framlegð. Rekstrarumhverfið skiptir máli, verðum að ná áttum og koma iðnaðinum á réttan kjöl.
Eftir 25 ár gætu verið 3-400 kúabú starfandi í landinu, þetta væri viðráðanlegt fyrir fjölskyldu að takast á við, háð staðsetningu býla og landrými. Dreifing framleiðslunnar í meira mæli en nú er, er óskhyggja.
Varðandi Evrópusambandsaðild þá er hættan sú að við getum ekki keppt við afurðaverð erlendis, stuðningsgreiðslur til viðbótar yrðu að mestu styrkir sem væru ákveðnir af ríkisvaldi á hverjum tíma til viðbótar við styrki ESB.
Fjölbreytni í framleiðslu getur verið markmið í sjálfu sér, hins vegar verðum við að átta okkur á tvennu, annars  vegar örsmár markaður og hins vegar sú hefð sem fyrir þessu er,  t.d. í Frakklandi en er engin hér. Leysum ekki mál landbúnarins í heild sinni með þessum hætti.
Ólafur Magnússon  ræddi umræðuna hér á undan, menn verða að vera samkvæmir sjálfum sér. Smásöluverslunin í eigu fárra, á sama hátt er MS ráðandi. Spurning hvort þetta eigi ekki að vera svipað og grunnnet Símans, menn leggi allir þar inn en síðan geti verið fleiri sem sinni úrvinnslunni. Menn verða að tala varlega um viðskiptavini sína, sem í þessu tilviki eru smásöluverslanirnar. Við hjá Mjólku viljum samkeppni og svigrúm og gefa þannig fleirum tækifæri.
Sif  Jónsdóttir  sagði að afstaða sín til ESB væri að hluta vegna kvíða, hvað yrði í boði. Verðum að sinna hinum eiginlegu bústörfum, erum með aðra til að sinna markaðnum.
Egill Sigurðsson formaður MS og Auðhumlu ræddi verðlagningarkerfi mjólkuriðnaðarins og drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum. Kerfi sem notað er hverju sinni verður að virka gagnvart öllum. Samkeppni verður að byggjast á réttum grunni, við nýtum markaðinn til hámarksnýtingar allrar framleiðslunnar. Til dæmis varðandi duft til sælgætisframleiðslunnar. Að skilja á milli söfnun hrámjólkurinnar og annarra þátta er mjög erfitt í framkvæmd. Þakkaði fyrir starf LK á liðnum árum og sérstaklega samstarfið við Þórólf Sveinsson.
Sigurður Loftsson ræddi orð Gylfa m.a. að framtíðarhorfur væru bjartar, hins vegar verðum við að lifa af samtímann. Hann nefndi einnig orð Gylfa um fjölbreytni framleiðslu og matarmenningu sem hefur gildi í sjálfu sér. Megum þó ekki gleyma þeirri meginframleiðslu sem fer hina hefðbundu leið í gegnum sameiginlega vinnslu. Ræddi verðlagningarmálin, hækkunarþörf núna er í kringum 4% samkvæmt útreikningi en þar er ekki inni áburðarverðshækkunin. Langmikilvægast er þó hvernig tekið verði á erlendum skuldum kúabænda. Þakkaði orð Atla Gíslasyni um hvernig standa þarf að málum til að viðhalda dreifingu framleiðslunnar um landið í stað of mikillar samþjöppunar. Vinna að stefnumörkun greinarinnar þarf að taka mið af hvernig á að bregast við ef við förum inn í ESB. Ræddi orð Steingríms Sigfússonar landbúnaðarráðherra um könnunarfundi varðandi búvörusamninga, jákvætt að viðræður væru að hefjast.
Sveinbjörn Sigurðsson nefndi afkomu kúabænda en rætt er um vanda ca. 250 kúabænda, hinir hafa það allgott. Spurning hvernig á að taka á þessu og eins hvernig ímynd kúabænda er. Verðum að vera jákvæð m.t.t. stöðunnar og framtíðar.
Ræddi uppbyggingu félagskerfis bænda, er ekki þörf á að aðildarfélögin haldi aðalfundi sína á undan Búnaðarþingi.
Þórólfur Sveinsson ræddi ímynd greinarinnar og skuldastöðu hluta kúabænda. Tók undir með Eiríki um að skoða leið t.d.  Íslandsbanka varðandi erlendu lánin.

 

8. Kjörbréfanefnd skilar áliti
Magnús Sigurðsson formaður kjörnefnda kynnti tillöguna.  Til viðbótar hafa bæst þrír við frá fulltrúafjölda á aukafulltrúafundi sem haldinn var fyrr í morgun, fulltrúarnir verða 35 og þeir sem bæst hafa við eru: Magnús I. Hannesson, Valgerður Kristjánsdóttir og Sigurður Þór Þórhallsson.

 

Magnús Sigurðsson lagði eftirfarandi tillögu fyrir fundinn:
Mjólkursamlag Kjalarnesþings
Magnús I. Hannesson Eystri Leirárgörðum
Jóhanna Hreinsdóttir Káraneskoti
Mjólkurbú Borgfirðinga
Guðrún Sigurjónsdóttir Glitsstöðum
Jón Gíslason Lundi
Pétur Diðriksson Helgavatni
Félag nautgripabænda við Breiðafjörð
Hallur Pálsson Naustum
Bára Sigurðardóttir Lyngbrekku
Félag kúabænda í Ísafjarðarsýslum
Sigmundur H. Sigmundsson Látrum
Nautgriparæktarfélag V-Húnavatnssýslu
Valgerður Kristjánsdóttir Mýrum III
Pétur Sigurvaldason Neðri-Torfustöðum
Félag kúabænda í A-Hún
Magnús Sigurðsson Hnjúki
Linda B. Ævarsdóttir Steinnýjarstöðum
Félag kúabænda í Skagafirði
Valdimar Sigmarsson Sólheimum
Ingibjörg Hafstað Vík
Þórarinn Leifson Keldudal
Búgreinaráð BSE
Sigurgeir Hreinsson Hríshóli
Jóhannes Jónsson Espihóli
Þorsteinn Rútsson Þverá
Ásta Pétursdóttir Hranastöðum
Félag þingeyskra kúabænda
Marteinn Sigurðsson Kvíabóli
Sif Jónsdóttir Laxamýri
Sveinbjörn Þór Sigurðsson Búvöllum
Félag kúabænda á Héraði og Fjörðum
Gunnar Jónsson Egilsstöðum
Jóhann Gísli Jóhannsson Breiðavaði
Nautgriparæktarfélag Vopnfirðinga
Margrét Sigtryggsdóttir Háteigi
Nautgriparræktafélag A-Skaftfellinga
Eiríkur Egilsson Seljavöllum
Félag kúabænda á Suðurlandi
Þórir Jónsson, Selalæk
Arnheiður Dögg Einarsdóttir, Guðnastöðum
Elín B. Sveinsdóttir, Egilsstaðakoti
Katrín Birna Viðarsdóttir, Ásólfsskála
Ragnar Magnússon, Birtingaholti
Ólafur Helgason, Hraunkoti
Valdimar Guðjónsson, Gaulverjabæ
Samúel U. Eyjólfsson, Bryðjuholti
Sigurður Þór Þórhallsson, Önundarhorni

35 réttkjörnir fulltrúar mættir

 

9. Skipan í nefndir og nefndarstörf
Jón Gíslason kynnti starfsnefndir aðalfundar, formaður starfsnefndar 1 er Jóhannes Jónsson, formaður starfsnefndar 2 er Þórarinn Leifsson og formaður starfsnefndar 3 er Guðrún Sigurjónsdóttir. Nefndir hófu síðan störf eftir kaffihlé á föstudeginum og luku störfum um kl 11 á laugardag.

 

10. Kosning formanns LK
Tveir höfðu tilkynnt framboð til formanns LK, þeir Sigurgeir  Hreinsson Hríshóli og Sigurður Loftsson Steinsholti. Báðir frambjóðendur kynntu sig með stuttri tölu áður en kosning fór fram og hvaða verkefni væru brýnust í starfi LK. Síðan var gengið til kosninga.
Kosningar fóru þannig að Sigurður Loftsson fékk 20 atkvæði og  Sigurgeir Hreinsson 14 atkvæði, einn seðill auður.
Siguður Loftsson þakkaði það traust sem sér hafði verið sýnt og  þakkaði einnig Sigurgeir Hreinssyni fyrir drengilega kosningabaráttu.
Sigurgeir Hreinsson óskaði nýkjörnum formanni til hamingju með kjörið sem formaður LK og kvaðst fullviss um að hann stæði sig vel í starfi.

 

11. Afgreiðsla mála

Tillögur starfsnefndar 3 –
Tillaga 1.
Starfsnefnd 3 hefur fjallað um liði 2 og 3 í stefnumörkun LK og komist að eftirfarandi niðurstöðu:
Gera verður ráð fyrir að í framtíðinni lendi innlend búvöruframleiðsla  í stóraukinni samkeppni við innflutning. Það gæti gerst á a.m.k. á þrennan hátt:
• Með aðild að ESB. Aðild myndi að öllum líkindum hafa í för með sér tollfrjálsan innflutning  á búvörum og ólíklegt að útflutningstækifæri, styrkjakerfi ESB og stuðningur innanlands dugi til að framleiðslan haldist í svipuðu horfi og verið hefur.
• Með WTO-samningum. Ef samningar nást munu þeir örugglega auka aðgengi erlendrar búvöru að íslenskum markaði.
• Óháð alþjóðasamningum er óvarlegt að gefa sér að pólitískur vilji sé ævarandi fyrir því að viðhalda sömu innflutningsvernd og verið hefur.
Undir þessa framtíðarsýn þurfa íslenskir kúabændur að búa sig með því að auka samkeppnishæfni sinnar framleiðslu. Það þarf að gerast bæði heimafyrir á búunum sjálfum og með bættu rekstrarumhverfi, s.s. með aðgengi að rekstrarfé á skikkanlegum vöxtum. Þá er hætta á að óvissa um framtíðina hamli uppbyggingu og þróun greinarinnar, ekki síst vegna mikils fasta kostnaðar. Af þeim sökum er m.a. nauðsynlegt að líta til endurskoðunar á kvótakerfinu.                                                    
 Afar mikilvægt er að LK  haldi vöku sinni gagnvart þeim breytingum sem að ofan eru nefndar og veiti stjórnvöldum aðhald í tengslum við alla ákvarðanatöku sem  kollvarpað getur rekstrarskilyrðum landbúnaðarins og stefnt matvælaöryggi þjóðarinnar í hættu.
Hafa ber sérstaklega í huga að vegna smæðar markaðarins gæti lítils háttar innflutningur stórskaðað innlenda framleiðslu.
Samþykkt samhljóða.

Tillaga 2.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 27.-28. mars 2009, fagnar þeirri vinnu sem Bændasamtök Íslands hafa unnið í sambandi við umræður um aðild að ESB og tekur undir þær meginniðurstöður að aðild að ESB þjóni ekki hagsmunum þjóðarinnar.
Samþykkt samhljóða.

Tillaga 3.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 27.-28. mars 2009 felur stjórn LK að kanna möguleika á að gera markvisst átak í brunavörnum útihúsa.
Greinargerð:
Á síðustu árum hafa orðið allmargir stórbrunar í fjósum hérlendis þar sem hundruð nautgripa hafa orðið eldi og reyk að bráð og telur fundurinn því þörf á átaki á landsvísu í þessum efnum. Ætti það ekki síst að beinast að fyrirbyggjandi aðgerðum, svo sem eftirliti og endurbótum á raflögnum.

Sveinbjörn Sigurðsson gat um að þetta mál hefði verið rætt á Búnaðarþingi, hægt að fá rafmagnseftirlit án kostnaðar, hins vegar yrðu menn að kosta þær lagfæringar sem þar er lagt til.
Sigmundur H. Sigmundsson ræddi um eftirlitskerfi sem hann hefur notað mörg undanfarin ár. Við nánari skoðun á fjósi í vetur kom í ljós að þörf er á endurnýjun á mörgum þáttum varðandi raflagnir. Spurning hvort þau efni sem eru seld til nota í útihúsum séu undir nægu eftirliti.

Tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga 4.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 27.-28. mars 2009,  skorar á stjórnvöld að gera nú þegar þær ráðstafanir sem þarf til að fjármálafyrirtæki í landinu geti veitt atvinnulífinu lífsnauðsynlega fjármagnsfyrirgreiðslu.
Samþykkt samhljóða.

Tillaga 5.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 27.-28. mars 2009, skorar á peningastefnunefnd að lækka stýrivexti verulega við næstu stýrivaxtaákvörðun. Í því sambandi bendir fundurinn á að mjög hefur dregið úr verðbólgu, og í síðasta mánuði varð verðhjöðnun. Því eru engar forsendur fyrir því að íþyngja bæði heimilum og atvinnuvegum með himinháum vöxtum.
Samþykkt samhljóða.

Tillaga 6.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 27.-28 mars 2009,  skorar á landbúnaðaráðherra að beita sér fyrir markvissum aðgerðum til að bæta stöðu og rekstrarumhverfi landbúnaðarins, sem líður fyrir himinháar aðfangahækkanir, gengisfall, mikla verðbólgu undanfarið ár, háa vexti og rekstrarfjárskort.  Einkum er mikilvægt að sem fyrst verði komið til móts við skuldugustu búin.  Skuldbreytingar og skilmálabreytingar á lánum og hverjar þær aðgerðir sem tryggt geta áframhaldandi rekstur búanna eru nauðsynlegar og því lengur sem slíkar aðgerðir dragast, þeim mun stærri vanda verður við að eiga. Jafnframt þarf að huga að stöðu vinnslufyrirtækja landbúnaðarins, en versnandi staða þeirra kann fyrr eða síðar að koma niður á afurðaverði til bænda.

Samúel  U. Eyjólfsson gerði athugasemd um orðalag, orðalagsbreyting samþykkt og tillagan í heild þannig samþykkt

Tillaga 7.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 27.-28. mars 2009, skorar á umhverfisráðherra að framlengja um 5 ár bráðabirgðaákvæði reglugerðar nr. 804/1999, sem mælir fyrir um frestun á gildistöku ákvæðis 6. greinar sömu reglugerðar varðandi 6 mánaða geymslurými fyrir búfjáráburð. Telur fundurinn nær útilokað fyrir bændur að stofna til byggingarframkvæmda á meðan það efnahags- og óvissuástand varir sem nú er.
Samþykkt samhljóða.

Tillaga 8.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 27.-28. mars 2009, skorar á viðskiptaráðherra að móta reglur um skilarétt verslana á ferskri matvöru, með það að markmiði að tryggja eðlilega samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu og góða meðferð ferskra matvæla.
Greinargerð:                                                                                                                                              
Í verslun með matvörur tíðkast að verslanir geti hvenær sem er krafist þess að framleiðandi taki til baka vörur,  t.d. er þær nálgast  síðasta söludag. Þetta felur í sér hættu á að meðferð vörunnar sé ekki nægjanlega góð þar sem verslanir bera ekki endanlega ábyrgð á henni. Þá kann þetta að skapa skekkju í samkeppnisumhverfi milli annars vegar innlendra framleiðenda og hins vegar erlendra sem ekki verða krafðir um að taka vörur til baka. Þetta verður til þess að verslanir leggja áherslu á að selja vörur sem ekki er skilaréttur á. Því er nauðsynlegt að móta sanngjarnar reglur um skilarétt ferskra matvæla.
Samþykkt samhljóða.

Tillögur frá starfsnefnd 1
Tillaga 9.
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 27. og 28. mars 2009 mælir með því unnið verði sérstakt verkefni í samstarfi við mjólkureftirlit SAM sem hefði það markmið að tryggja enn betur gæðaöryggi hrámjólkur innan núverandi gæðaviðmiðana.
Samþykkt samhljóða.

Tillaga 10.
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 27. og 28. mars 2009 telur einboðið að ef kemur til breytinga á búnaðargjaldi af lagatæknilegum ástæðum, hljóti allir sem njóta nú tekna af búnaðargjaldi að sitja við sama borð.
Samþykkt samhljóða.

Tillaga 11.
Aðalfundur Landsambands kúabænda haldinn 27. og 28. mars 2009, vekur athygli á nauðsyn þess að leikreglur í viðskiptum með matvæli skaði ekki samkeppnisstöðu innlendra framleiðenda.  Í því sambandi bendir fundurinn á eftirfarandi:
A. Banna þarf að vörur séu seldar undir kostnaðarverði á neytendamarkaði enda býður slíkt heim hættunni á ósanngjörnum undirboðum markaðsráðandi aðila.
B. Opinber verðlagning mjólkurafurða má ekki vera með þeim hætti að það kalli á óeðlilega undirverðlagningu einstakra vörutegunda.
Í ljósi þess að búast má við aukinni samkeppni erlendis frá er áríðandi að hugað sé að þessum atriðum sem fyrst.

Jón Gíslason ræddi B.liðinn í tillögunni, meðal annars að nýmjólkin hér er undirverðlögð meðan ákveðnar vinnsluvörur er látnar bera mismuninn í verðlagningu
Guðrún Sigurjónsdóttir gerði athugasemd við A.lið tillögunnar, hvort ekki er óþarfi að hafa seinni hlutann þess liðar inn í tillögunni.
Jóhannes Jónsson flutningsmaður  tillögunnar svaraði því til að í úrskurði Samkeppniseftirlits hefði undirboð markaðsráðandi aðila verið tilgreint sérstaklega og því hefði þetta verið sett inn.
Þórir Jónsson spurði hvert tillagan ætti að beinast.
Fundarstjóri taldi að það yrði á valdi stjórnar hvernig tekið yrði á málinu.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga 12.
Aðalfundur Landsambands kúabænda haldinn í Reykjavík 27. og 28. mars 2009 skorar á stjórn LK að beita sér fyrir því að kúabændur sitji ekki eftir launalega séð, þrátt fyrir alvarlegt ástand í þjóðfélaginu.
Samþykkt samhljóða.

Tillaga 13.
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Sögu 27. – 28. mars 2009 beinir því til stjórnar  LK að setja aukinn þunga í stefnumótun varðandi útflutning mjólkurafurða, í samstarfi við mjólkuriðnaðinn.

Jón Gíslason vakti athygli á því hve lítið hefur áunnist í þessum útflutningsmálum síðustu árum. Er mjög óánægður með þann litla árangur sem hefur orðið í þessum  málum síðustu ár þrátt fyrir stór orð ýmissa áhrifamanna.
Pétur Diðriksson ræddi tilurð tillögunnar og hann taldi tillöguna ágætan vegvísi fyrir stjórn LK  að vinna eftir.
Arnheiður D. Einarsdóttir  ræddi tillöguna og orð Jóns Gíslasonar, taldi nauðsynlegt fyrir mjólkurframleiðendur og þá samtök eins og LK að móta stefnu varðandi útflutningsmálin.
Jóhannes Jónsson ræddi einnig tilurð tillögunnar og nefndarstarfið, m.a. hefði verið kallað eftir gögnum frá t.d. fyrirtækinu Nýlandi.
Sif Jónsdóttir ræddi mögulega sérstöðu m.t.t. fóðrunar hér á landi. Eins með mögulega aðra nýtingu mjólkurinnar  eins og í lyfjaiðnaðinn.
Baldur Helgi Benjamínsson kynnti mun á mjólkurverði til danskra bænda og til íslenskra bænda og þess munar sem er á vinnslukostnaðinn, munurinn virðist vera mjög mikill.
Jón Gíslason taldi að þessir möguleikar í útflutningi kæmu skýrt fram í dæmi Baldurs. Vakti athygli á því að með breytingum á notkun kjarnfóðurs á síðustu misserum þá væru bændur þegar búnir að breyta fitusýrusamsetningu mjólkurinnar, án þess að nokkur hreyfði andmælum.
Jóhanna Hreinsdóttir ræddi ummæli Guðbrands Sigurðssonar um markaðskostnað á einni vörutegund. Sá kostnaður er geysimikill auk flutningskostnaðar á markað.
Magnús Sigurðsson ræddi tillöguna, hæpið að leggja aukinn þunga í útflutning miðað við núverandi aðstæður í efnahagslegu tilliti.
Samúel U. Eyjólfsson spurði hvort mögulegt væri að flytja út duft og stofna lítið mjólkurbú erlendis og selja þaðan vöruna. Í stað þess að flytja vatn að stórum hluta á markað.
Jóhannes Jónsson taldi þörf á þessari vinnu við stefnumótun, það er grunnþáttur á hverjum tíma að vita hvert við viljum stefna. Varðandi orð Samúels þá er það spurning hvort ekki eigi þá að fá starfandi fyrirtæki erlendis til að vinna úr hráefninu.

Samþykkt með þorra atkvæða, tveir á móti.

Tillaga 14.
Aðalfundur Landsambands kúabænda haldinn í Reykjavík 27. og 28. mars 2009 skorar á landbúnaðarráðherra og þingmenn að gera nauðsynlegar lagabreytingar sem skýra ákvæði búvörulaga þar sem fjallað er um forgang framleiðslu innan greiðslumarks á innanlandsmarkaði.
Samþykkt samhljóða.

Tillaga 15.
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 27. og 28.  mars 2009 beinir því til stjórnar LK. að beita sér fyrir því að breyta verðskerðingarákvæðum mjólkur vegna líftölu án þess þó að slakað verði á gæðakröfum.
Greinargerð:
Með núverandi fyrirkomulagi er mjólk verðfelld allan innleggsmánuðinn fari líftala yfir 400.000 pr.ml. þó aðeins sé um eitt innlegg að ræða. Langoftast er um einhverskonar slys eða óhöpp að ræða þegar líftala hækkar svo mikið. Æskilegra væri að verðfella aðeins viðkomandi innlegg eða jafnvel allt innlegg þeirrar viku.

Sveinbjörn Sigurðsson lagði til að fella þessa tillögu með tilvísun til annarrar tillögu sem fundurinn samþykkti fyrr á fundinum.
Jóhannes Jónsson útskýrði tillöguna, skilningur sinn væri að skerðing ætti að verða jafnmikil, einfaldlega að skellurinn yrði enn meiri gagnvart því innleggi sem um er að ræða.
Jón Gíslason taldi að færi tillagan óbreytt í gegn byði hún upp á misskilning.
Jóhannes Jónsson ræddi tillöguna og lagði til orðalagsbreytingu.
Magnús Hannesson taldi tillöguna óþarfa og hvatti fundarmenn að fella hana.

Tillagan  felld með 10 atkvæðum gegn 8.

Tillaga 16.
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 27. og 28. mars 2009 krefst þess að þróun forritsins Huppu verði hraðað.

Eiríkur Egilsson kvartaði yfir því að upplýsingar um sæðingarnaut kæmu seint
Jón Gíslason sagði reynslu sína af forritinu væri góð og því vildi hann snúa tillögunni við og lýsa ánægju yfir því sem komið væri.
Birna Þorsteinsdóttir taldi búgreinina eiga það inni að unnið yrði betur og hraða þróunarvinnunni. Til dæmis þyrfti að laga ýmis mál varðandi útprentanir og eins varðandi skráningu á burði.
Arnheiður D. Einarsdóttir  lýsti ánægju sínni með forritið sem slíkt en hins vegar þyrfti að gera enn meira í þróun forritsins.
Sigurgeir Hreinsson lýsti sömuleiðis yfir ánægju sinni yfir því sem að þegar hefur verið gert en þyrfti að hraða þessari vinnu. Væntanlega hefði verið betra að vinna forvinnuna meira áður en forritið var sent í dreifingu.
Sif Jónsdóttir hvatti til að hraða þessari vinnu, gott sem komið væri.

Jón Gíslason lagði fram  eftirfarandi breytingatillögu:

“Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 27. og 28. mars 2009 lýsir yfir ánægju með forritið Huppu að svo miklu leyti sem það er tilbúið  en krefst þess að þróun þess verði hraðað.”

Tillagan  þannig samþykkt samhljóða.

Jóhannes Jónsson  ræddi síðan þá punkta sem vísað hafði verið til starfsnefndar 1 úr drögum stefnumörkunarhóps en það voru punktar 10, 11, 12 og 13. en þeir fjalla um verðlagningu, möguleika á útflutningi, stöðu mjólkuriðnaðarins og mögulega aðkomu íslenska mjólkuriðnarins að mjólkuriðnaði annarra landa.

Tillögur frá starfsnefnd 3
Tillaga 17.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 27.-28.mars 2009, beinir því til stjórnvalda að taka sem fyrst ákvörðun í málefnum Bjargráðasjóðs. Núverandi óvissa um stöðu og framtíðarhlutverk sjóðsins er óviðunandi.
Samþykkt samhljóða.

Tillaga 18.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í reykjavík 27.-28.mars 2009, samþykkir að formenn aðildarfélaga ásamt stjórn LK endurskoði samþykktir LK og samræmi eftir föngum samþykktir aðildarfélaga þess. Hópurinn ljúki störfum svo tímanlega að tillögur hans verði lagðar fyrir aðalfund LK 2010.
Samþykkt samhljóða.

Tillaga 19.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 27.-28.mars 2009, felur stjórn LK að greiða fyrir upplýsingaskil á bókhaldsgögnum í þeim tilgangi að hafa alltaf tiltækar nýjar upplýsingar um stöðu greinarinnar.

Sigurður Loftsson ræddi tillöguna, hún kom frá stjórn upphaflega og þá var hún þannig orðuð,  að skoða möguleika á greiðslum. Spurning hvort núverandi tillaga væri  of sterklega orðuð.
Guðrún Sigurjónsdóttir sagði að þeir sem skrá beint í Dk geti sent til BÍ í miðlægan gagnagrunn og þar er möguleiki að vinna þetta miðlægt. Spurning hvort þarna væri verið að byggja upp tvöfalt kerfi.
Þórarinn Leifsson sagði að hugsun nefndarmanna hefði verið sú að nýta beint gögn  frá þeim bókhaldsstofum sem búnaðarmiðstöðvarnar eru með. Greiðslan er hugsuð fyrst og fremst til að kosta aukaúrvinnslu, hún er þegar unnin einu sinni á ári en þarna höfðu menn í huga að tengja úrvinnslu virðisaukaskilum, þ.e. tvisvar á ári.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga 20.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 27.-28. mars 2009, beinir því til stjórnar LK, að beita sér fyrir að fjármunum  úr óframleiðslutengdum stuðningi núverandi mjólkursamnings verði varið til að greiða að fullu eyrnamerki í nautgripi.
Greinargerð: 
Þar sem öllum nautgripaeigendum er skylt að merkja gripi sína samkvæmt lögum um búfjárhald og fl. nr. 103 frá árinu 2002 sbr. 17. grein og reglugerð nr. 289 frá árinu 2005 um merkingar búfjár, munu greiðslur þessar nýtast öllum nautgripaeigendum.
Samþykkt samhljóða.

Tillaga 21.
 Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 27.-28. mars 2009 beinir því til stjórnar LK að gera úttekt á kostnaði við kúasæðingar í landinu. Í framhaldi af því er stjórninni falið að vinna tillögur til að jafna sæðingakostnað milli svæða með það að markmiði að sem flestir geti nýtt sér sæðingar og tekið þannig þátt í hinu sameiginlegu kynbótastarfi.
Greinargerð:
Kostnaður bænda vegna sæðinga er gríðarlega misjafn eftir landssvæðum og er þar margfaldur munur á. Þetta veldur því m.a að á dreifbýlli svæðum þar sem kostnaðurinn er hæstur, verður notkun heimanauta meiri en æskilegt getur talist. Það eru hins vegar ótvíræðir heildarhagsmunir kynbótastarfsins og þar með allra kúabænda að notkun sæðinga sé sem allra útbreiddust og mest.
Samþykkt samhljóða.

Þórarinn Leifsson formaður starfsnefndar  2 ræddi síðan punkta 4, 5, 6, 7, 8 og 9 sem lágu fyrir nefndinni úr drögum að stefnumörkun sem send hafði verið út fyrir fundinn. Nefndin skilaði ekki skriflegri tillögum um þau mál en mikil umræða varð í nefndinni um kvótakerfið og framleiðslustýringuna, erfiðleika skuldsettra kúabúa, matvælaöryggi og lækkun framleiðslukostnaðar m.a. með afkastameira kúakyni.

 

12. Kosningar
Magnús Sigurðsson kynnti tillögu kjörnefndar að nýrri stjórn og er hún eftirfarandi: Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson, Sigurgeir Hreinsson og Sveinbjörn Sigurðsson.

Gengið til skriflegra kosninga og niðurstöður urðu eftirfarandi:

Guðný Helga Björnsdóttir   33 atkvæði
Jóhann Nikulásson  32 atkvæði
Sigurgeir Hreinsson  32 atkvæði
Sveinbjörn Sigurðsson  31 atkvæði

 

Magnús Sigurðsson kynnti tillögu kjörnefndar að tveimur varamönnum í stjórn; Gunnar Jónsson og Pétur Diðriksson.
Magnús I. Hannesson stakk upp á Jóhönnu Hreinsdóttur sem varamanni í stjórn:

Gengið var til skriflegra kosninga og niðurstöður urðu eftirfarandi:

Jóhanna Hreinsdóttir  25 atkvæði
Gunnar Jónsson  24 atkvæði
Pétur Diðriksson  17 atkvæði

Jóhanna og Gunnar því réttkjörin  sem varamenn í stjórn LK.

13. Fjárhagsáætlun LK 2009
Baldur Helgi Benjamínsson kynnti tillöguna,reiknað með tekjum upp á tæpar 48 milljónir króna. Laun skrifstofu og stjórnar 17 milljónir, annar rekstrarkostnaður tæplega 31 milljón króna. Hagnaður verður um 5 milljónir miðað tæpar  5 milljónir í vaxtatekjur.
Samúel U. Eyjólfsson spurði um kostnað við heimasíðu.
Baldur Helgi svaraði því til að um væri kostnað bæði vegna naut.is og líka kjot.is

Fjárhagsáætlun samþykkt samhljóða.

 

14. Kosningar til Búnaðarþings
Magnús Sigurðsson kynnti tillögu kjörnefndar en kjósa á 5 fulltrúa en kjörnefnd leggur til að fundurinn velji úr 8 nöfnum.
Uppástunga kom um einn mann til viðbótar, Pétur Diðriksson, listinn leit þá þannig út:

Arnheiður D. Einarsdóttir
Guðný Helga Björnsdóttir
Guðrún Sigurjónsdóttir
Gunnar Jónsson
Jóhann Nikulásson
Jóhann Jónsson
Jón Gíslason
Siguður Loftsson
Pétur Diðriksson

Gengið var til skriflegra kosninga og niðurstöður urðu eftirfarandi:
Guðný Helga Björnsdóttir 29 atkvæði
Sigurður Loftsson   28 atkvæði
Arnheiður D. Einarsdóttir 20 atkvæði
Jóhannes Jónsson  19 atkvæði
Guðrún Sigurjónsdóttir 17 atkvæði

Aðrir fengu færri atkvæði.

 

Magnús Sigurðsson kynnti tillögu kjörnefndar um 5 varafulltrúa LK á Búnaðarþing en kjörnefnd leggur til að fundurinn velji úr 8 nöfnum.

Eiríkur Egilsson
Jóhanna Hreinsdóttir
Sif Jónsdóttir
Þórarinn Leifsson
Þórir Jónsson
Gunnar Jónsson
Jóhann Nikulásson
Pétur Diðriksson

Gengið var til skriflegra kosninga og niðurstöður urðu eftirfarandi:
 Gunnar Jónsson  27 atkvæði
Sif Jónsdóttir  22 atkvæði
Þórir Jónsson  21 atkvæði
Eiríkur Egilsson 20 atkvæði
Jóhanna Hreinsdóttir 20 atkvæði

Dregið var á milli Eiríks og Jóhönnu, kom nafn Eiríks á undan og því er hann 4.varamaður.

Magnús Sigurðsson kynnti tillögu kjörnefndar um tvo skoðunarmenn, þau Pétur Diðriksson og Katrín Birnu Viðarsdóttur sem aðalmenn og Magnús I. Hannesson varaskoðunarmann. Samþykkt með lófaklappi

 

15. Önnur mál
Þórólfur Sveinsson flutti þakkarorð til aðalfundarfulltrúa og stjórnarmönnum fyrir samstarfið á liðnum árum og óskaði samtökunum alls hins besta.
Þórólfur hylltur af fundarmönnum með langvinnu lófaklappi.
Jón Gíslason þakkaði fyrir fundinn, fannst margt gott hafa verið gert á fundinum en sér virtist  menn veigra sér við  að taka á erfiðum málum. Meðal annars framtíð kvótakerfis en það er okkur orðið mjög íþyngjandi. Annað mál er nýtt kúakyn og takmörkuð umræða um það mál á fundinum. Er sjálfur að vinna að þeim málum en mjög erfitt er að fá innflutningsleyfi fyrir fósturvísum, á meðan er leyft að flytja inn notuð landbúnaðartæki svo dæmi sé nefnt.
Sigurður Loftsson formaður LK þakkaði Þórólfi Sveinssyni fyrir hin margvíslegu störf í þágu kúabænda á liðnum árum. Jafnframt bauð Sigurður velkominn til starfa nýjan stjórnarmann, Sigurgeir Hreinsson. Þakkaði að lokum starfsmönnum fundarins fyrir þeirra störf og sleit fundi kl.  17.22

Runólfur Sigursveinsson
fundarritari