Aðalfundur LK 2008
05.04.2008
Aðalfundur LK 4-5.apríl 2008 á Selfossi
1.Fundarsetning
Þórólfur Sveinsson formaður LK setti fund kl 10.10 og bauð fundargesti velkomna. Tilnefndi Gunnar Kr. Eiríksson sem fundarstjóri og tók Gunnar við fundarstjón, hann kynnti til starfs annan fundarstjóra Sif Jónsdóttir. Kynnti tillögu að kjörnefnd sem fundurinn samþykkti.
2. Skýrsla stjórnar og fagráðs – Þórólfur Sveinsson
Formaður LK, Þórólfur Sveinsson, flutti skýrslu sína en hún var jafnframt fjölfölduð fyrir fundarmenn. Megináhersla í skýrslu formanns var á verðlagsmál mjólkur og þá vinnu sem hefur verið í gangi vegna leiðréttingar á verðlagsgrundvelli. Farið var í sérstaka úttekt á fjármagnsliðnum verðlagsgrundvallar. Eftir standa enn til leiðréttingar rúmar 500 þúsundir sem skildar voru eftir við síðustu ákvörðun verðlagsnefndar.
Vakti athygli á breytingum á hlutföllum mjólkurverðs, þ.e. hvað kemur frá ríkisvaldinu í gegnum ákvæði mjólkursamnings og hins vegar frá afurðastöð, reiknað á kr/l eru hlutföllin nú 60,4% frá afurðastöð og 39,4% frá mjólkursamningnum.
Þá fjallaði formaður um afkomu afurðastöðva, ljóst að þátttaka mjólkuriðnaðarins varð mjög kostnaðarsöm á sínum tíma fyrir þær en nýttist mjög til að lækka verð til neytenda. Ljóst að ef gengisþróun verður svipuð og hún er í dag þá verða næstu misseri erfið fyrir rekstur kúabúa. Jafnframt þarf að endurskoða framsetningu á tölum um fjármagnskostnað
Skoða þarf á næstu misserum framtíð opinberrar verðlagningar á mjólkurvörum, kemur þar margt til, m.a. mun meiri samþjöppun í mjólkuriðnaðinum en þegar núgildandi mjólkursamningur var gerður, verulegar breytingar á framleiðsluaðstöðu kúabænda, afkoma mjólkuriðnarins orðin mjög erfið og loks minnkandi hlutur ríkisvaldsins í stuðningi við greinina.
Núgildandi verðlagsgrundvöllur er að stofni til frá 2001. Ekki hefur tekist að ná fram lækkun á framleiðslukostnaði eins og ætlunin var á sínum tíma. Vitnaði Þórólfur m.a. í skýrslu danskra ráðgjafa sem unnu skýrslu í tengslum við úttekt RANNÍS á sínum tíma um íslenska mjólkurframleiðslu.
Sömu heilbrigðisreglur munu brátt taka gildi og í ESB, hluti þeirra verndartolla sem eru núna eru krónutala og fer hlutfallslega minnkandi við hækkandi verðlag. Nokkur og/eða talverð lækkun framleiðslukostnaðar er forsenda þess að ná að halda innlenda markaðnum, annars verður hluti neyslunnar í formi erlendra mjólkuvara á næstu árum.
Þá ræddi Þórólfur breytingar á mönnun helstu embætta í stjórnsýslu á sviði landbúnaðar, m.a nýr landbúnaðarráðherra og ráðuneytisstjóri. Þakkaði að lokum samstarfsmönnum sínum samstarfið á liðnu starfsári.
3. Ávörp gesta
Einar Kr. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
Ræddi þá uppbyggingu sem hefur verið í gangi í atvinnugreininni. Aukinn kostnaður við aðföng er íþyngjandi fyrir greinina en að hluta þessa kostnaði hefur verið mætt með hækkun afurðastöðvaverðs frá og með 1.apríl sl. Því miður eru engar líkur á að aðföngin lækki á næstunni. Því er nauðsynlegra en nokkru sinni að leita allra ráða til að lækka rekstrarkostnað og gæta aðhalds í fjárfestingu.
Ráðherra gat þess að hann hefði nú ákveðið að fella niður tímabundið gjald á tilbúnar fóðurblöndur frá löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Niðurfellingin gildir til áramóta
Nýlega ákvað Sviss og ESB að vinna að lækkun tolla sín á milli um landbúnaðarvörur. Þetta gæti leitt til hraðari breytinga en menn töldu áður. Ljóst að hinar EES-þjóðirnar þurfa að fylgjast vel með þessari þróun.
Ráðherra fjallaði síðan um hækkandi matvælaverð í heiminum; lækkandi gengi krónunnar kann að leiða til þess að útflutningur landbúnaðarvara verði umfangsmeiri en hann er í dag. Mikilvægt að vinna á þeim nótum.
Haraldur Benediktsson formaður BÍ
Ræddi þá umræðu sem er í gangi núna um að lækka tolla á svínakjöti og alifuglakjöti. Þessar greinar eru um helmingur allrar kjötframleiðslu hér innanlands og skipti því miklu máli fyrir allan landbúnaðinn. Umræðan um síðustu ákvörðun verðlagsnefndar var allnokkur en miklu skipti sú undirbúningsvinna sem fram fór af hálfu hagsmunasamtakanna áður en kom til hækkunar á mjólk. Samstarf BÍ og LK hefur verið gott undanfarið ár og nú hillir loks undir nýtt skýrsluhaldskerfi í nautgriparækt.
Bjarni Guðmundsson formaður stjórnar Framleiðnisjóðs
Framleiðnisjóður hefur starfað í 40 ár, á yfirstandandi ári hefur sjóðurinn um 190 milljónir til ráðstöfunar, um helming er ráðstafað til verkefna í þróun og rannsóknastarf og um helmingur til atvinnunýsköpunar hjá bændum, um 22 milljónir fóru á liðnu ári til rannsókna á sviði nautgriparæktar, m.a. varðandi nýtt fóðurmat og um orsakir kálfadauða. Saknar rannsókna og þróunarverkefna á sviði rekstrar í nautgriparæktinni. Samkeppnishæfni atvinnugreinar felst ekki síst í því að fagleg þekking fólks sé sem best, Framleiðnisjóður landbúnaðarins getur lagt lóð á þær vogarskálar.
Snorri Sigurðsson framkvæmdastjóri búrekstrarsviðs LBHÍ
Snorri flutti þakkir rektors skólans til fundarins og sagði jafnframt frá góðu samstarfi skólans og LK. Sagði að Hvanneyri væri ákveðinn gluggi að íslenskum landbúnaði og gat þess m.a. að um 4000 manns hafi komið í heimsókn í fjósið á Hvanneyri á síðasta ári. Gat um breytt rekstrarfyrirkomulag búrekstrar við skólann sem er í undirbúningi.
Halldór Runólfsson yfirdýralæknir
Þakkaði fyrir boð á fundinn, gat um breytingar sem eru að verða á starfsumhverfi matvælaframleiðenda og eftirliti í kjölfar innleiðingar á regluverki ESB á sviði landbúnaðarframleiðslu. Ræddi um strangar sjúkdómavarnir hér á landi og því starfi yrði haldið áfram. Gat um þau tilvik sem hafa komið upp síðustu misseri varðandi sjúkdóminn hringskyrfi, annar sjúkdómur sem veldur tjóni er garnaveiki, ákveðin vinna er í gangi varðandi smitvarnir og garnaveiki, nefnd að ljúka störfum á því sviði. Þá gat Halldór um júgurbólguna, smitandi veiruskitu og kálfadauða. Ísland er eitt fárra landa sem er laust við kúariðu. Mikilvægt að halda slíkri góðri stöðu. Dýraverndarmál koma ávallt einstaka sinnum fyrir og þörf á vakandi eftirliti.
Gat um sýnatöku úr nautgripum til að geta staðfest að ákveðnir sjúkdómar væru ekki til staðar hér og mikilvægi þess að viðhalda þeirri góðu stöðu.
4. Almennar umræður
Sif Jónsdóttir ræddi nýliðun bænda, hvað eru margir að koma inn í atvinnugreinina, þeir eru sorglega fáir. Hvað með ræktarland ? Við þurfum að huga að nýliðun og viðhalda ræktunarlandi. Ákveðin bjartsýni er nauðsynleg til að fá fólk til starfa.
Sigurgeir Hreinsson. Stór hluti tillagna sem liggja fyrir fundinum snúast um kjaramál enda lá þá ekki fyrir síðasta ákvörðun verðlagsnefndar. Hins vegar líðum við ávallt fyrir það hve hækkanir koma seint. Ræddi umræðuna sem hefur átt sér stað samhliða og í kjölfar hækkunar til bænda. Við getum mjög auðveldlega rætt verð á nýmjólk í samanburði við aðra drykkjavöru. Varðandi tollamálin, þá þurfum við að stíga varlega til jarðar og vakti athygli að svínaslátrun er einn þriðji af slátrun sláturleyfishafa, þó svo að tollar verði lækkaðir á hvíta kjötinu þá mun einfaldlega aukinn kostnaður koma á sláturhúsin sem hlýtur að koma til hækkunar á slátrunarkostnaði annarra kjötgreina.
Velti fyrir sér landnotkun, síðustu ár hefur verið tekið ræktarland til annarra nota en landbúnaðar. Nauðsynlegt að staldra við í því sambandi og skerpa löggjöfina.
Sigurður Baldursson ræddi greiðslumarkskerfið og undraðist verð á greiðslumarkinu. Gagnvart nýliðun greinarinnar er nauðsynlegt að fjalla framtíð þessa kerfis. Við höfum of lítið sinnt nýtingu korns m.t.t. hækkandi verðs aðfanga.
Laufey Bjarnadóttir ræddi skýrslu formanns og spurði hvort allur stuðningur ríkis við mjólkurframleiðslunni væri reiknaður inn í það hlutfall sem formaður hafði nefnt í skýrslu sinni. Ræddi nýtingu á landi og nausyn þess að viðhalda ræktunarlandi til næstu kynslóða.
Birna Þorsteinsdóttir þakkaði störf stjórnar og skýrslu. Vakti athygli á því að svo virtist að tiltölulega lítil hækkun hefði verið á flutningsgjöldum samkvæmt verðlagsgrundvallarmódelinu. Ræddi síðan um búnaðargjald og nauðsyn lækkunar þess á næstum misserum og að þjónustan verði í meira mæli seld beint.
Pétur Diðriksson þakkaði stjórn LK störf. Vakti athygli á því að eðli atvinnugreinarinnar er þannig að í langflestum tilvikum er ein fjölskylda sem stendur að baki framleiðslunnar. Eini möguleiki okkar til lækkunar er að draga úr launakostnaði okkar sjálfra og/eða draga úr fjárfestingu. Hins vegar verður atvinnugreinin á hverjum tíma að vera samkeppnishæf um fólk. Þessi nýliðunarumræða verður ávallt að vera til staðar. Sú staða er uppi að fjöldi bænda getur ekki selt jörðina á fullu verði, þ.e. næsta kynslóð tekur við án þess að það sé greitt raunvirði fyrir. Hver nýtur þess ? Öll þjóðin, því annars yrði framleiðslan mun dýrari en hún er í dag.
Það er hrein fáfræði að halda að tollalækkanir komi ekki við hefðbundinn landbúnað. Nefndi framleiðslustýringarkerfið, hafa þyrfti í huga að allar aðgerðir til að halda markaði kosta peninga. Aðgangur að markaði er ekki án kostnaðar
Stærsta málið fyrir framleiðendur er að ná niður kostnaði í framleiðslunni, ein leiðin er að auka framleiðslu út úr hverju fjósi
Ræddi síðan að svo gæti farið að settir yrðu í auknum mæli útflutningstollar á landbúnaðarvörur. Þar með yrði það alls ekki sjálfgefið að fá einstakar vörur fluttar milli landa.
Þórólfur sagði að í gangi væri ákveðin stefnumótunarvinna af hálfu stjórnar og væntanlega kynntar niðurstöður þeirrar vinnu á næsta aðalfundi. Svaraði Laufeyju að allar greiðslur eru inni í opinberu greiðslum í samanburðinum sem hann sýndi í framsöguerindi. Svaraði einnig Birnu um flutningskostnað, trúlega hefði einfaldlega orðið raunlækkun á þessum lið á þessu árabili.
5.Mjólkurframleiðsla á heimsvísu – staða og horfur
Henrike Burchardi, International Farm Comparsion Network
Fjallaði fyrst um helstu framleiðslusvæði mjólkur í heiminum og kostnað við framleiðsluna, þau svæði sem eru með lægstu verð eru Eyjaálfa og lönd eins og Argentína, Indland og Úkranía. Fóðurkostnaður sem hlutfall af mjólkurverði er mismunandi eftir löndum, í löndum eins og USA þar er þetta hlutfall hátt, þ.e. fóðurkostnaður lágur í hlutfalli við verð á mjólk, snýst síðan við í Eyjaálfu. Markaður fyrir mjólk hefur tekið miklum breytingum síðustu ár, eftir mitt árið 2006 fer duftverð og smjör verulega upp og hefur farið upp í 5000 dollara/tonn duftverðið og smjörverð upp í um 4000 dollarar/tonn en nú hefur verðþróun aðeins snúist við og verð heldur lækkandi. Fóðurverð hefur á sama tíma tvöfaldast. Ástæður þessara sveiflna er aukinn markaður fyrir mjólkurvörur, sem felst m.a. í fólksfjölgun (1,2-1,3% á ári), aukinn kaupmáttur, breyting lífshátta og aukning þess vegna (aukin ostaneysla). Loks eru það áhrif frá Kína en þar hefur mjólkurneysla aukist úr 9 kg/íbúa/ári upp í 24 kg/íbúa/ári.
Á framboðshliðinni hafa þættir eins og breytingar á stuðningskerfi landbúnaðar ESB-landa áhrif, einnig afnám kvóta í Ástralíu og tollar á útfluttar mjólkurvörur eins og í Argentínu og Indlandi. Þá hefur breyting á stefnu einstakra ríkja varðandi stuðning til ræktunar á lífeldsneyti haft áhrif á framboðið. Umbreytingar á einstökum þjóðfélögum hafa áhrif eins og í Rússlandi og Úkraníu. Loks hefur veðráttan veruleg áhrif eins og þurrkar í Ástralíu, Argentínu og hluta ESB. Þá má nefna einnig að mjög litlar birgðir eru til staðar á svæðum sem áður voru með verulegar birgðir eins og hjá Evrópusambandinu og Bandaríkjunum.
Hver verður þróunin næstu ár í mjólkurverði til bænda? Virðist heldur lækka í bili en trúlega meiri sveiflur almennt í verði á heimsmarkaði næstu ár.
Hlutverk ICFN er að skapa meiri skilning á mjólkurframleiðslu á heimsvísu. Alls eru 80 lönd þátttakendur í starfi ICFN. Samtökin safna gögnum um framleiðslukostnað einstakra landa í mjólkurframleiðslu. Eru sjálfstæð, vísindaleg óháð samtök, árlega gefa þau út upplýsingar um framleiðslukostnað og samanburð milli landa um framleiðslukostnað. Auk þess fylgjast þau með mjólkurmarkaðnum á hverjum tíma á heimsvísu. Alls starfa milli 15-20 manns við stofnunina í Kiel. Aðferðin sem stofnunin notar er að fá upplýsingar um kostnað tveggja dæmigerða búa, annað nálægt meðaltali að stærð og hitt mun stærra og viðkomandi fær til baka úrvinnslu á kostnaðinum í samanburði við önnur lönd.
Breyting á framleiðslu mjólkur síðustu árin eru þær helstar að aukning er í N-Kína og Indlandi, samdráttur er í Evrópu og Ástralíu.
Um 150 milljónir kúabúa eru í heiminum, þar af um helmingur í Indlandi sem eru mjög lítil að stærð. Meðalstærð 1- 2 kýr í Indlandi, stærstu búin í Argentínu, Ástralíu, N-Sjálandi og Bandaríkjunum.
Kynnti niðurstöður um framleiðslukostnað nokkurra landa og mjólkurverð á móti. Ætlunin er að safna gögnum frá Íslandi til samanburðar. Framleiðni vinnuafls er einnig mjög mismunandi milli landa í mjólkurframleiðslu, danskir kúabændur framleiða um 250 lítra á vinnustund og svipað á N-Sjáland og bandarískir kúabændur þar á eftir.
Lagði áherslu á að bændur þyrftu að geta keppt við landverð og vinnuafl, auk þess gefið eðlileg laun til að geta keppt við aðrar greinar atvinnulífsins. Lagði að lokum áherslu að til að keppa á þessum markaði þyrfti mjólkurframleiðslan að vera tilbúin á hverjum tíma að aðlagast breyttum aðstæðum.
Töluverðar umræður urðu í kjölfar erindis Henrike m.a. um liklega stöðu íslenskrar mjólkurframleiðslu í ofangreindum samanburði.
6. Kjörbréfanefnd skilar áliti
Magnús Sigurðsson lagði eftirfarandi tillögu fyrir fundinn:
Mjólkursamlag Kjalarnesþings
Magnús I. Hannesson Eystri Leirárgörðum
Haraldur Magnússon Belgsholti (varamaður)
Mjólkurbú Borgfirðinga
Laufey Bjarnaddóttir Stakkhamri
Jón Gíslason Lundi
Pétur Diðriksson Helgavatni
Félag nautgripabænda við Breiðafjörð
Hallur Pálsson Naustum
Bára Sigurðardóttir Lyngbrekku (varamaður)
Félag kúabænda í Ísafjarðarsýslum
Sigmundur H. Sigurðsson Látrum
Nautgriparæktarfélag V-Húnavatnssýslu
Valgerður Kristjánsdóttir Mýrum III
Félag kúabænda í A-Hún
Magnús Sigurðsson Hnjúki
Linda B. Ævarsdóttir Steinnýjarstöðum(varamaður)
Félag kúabænda í Skagafirði
Valdimar Sigmarsson Sólheimum
Sigurður Baldursson Páfastöðum
Þórarinn Leifson Keldudal
Búgreinaráð BSE
Sigurgeir Hreinsson Hríshóli
Trausti Þórisson Hofsá
Elín Stefánsdóttir Fellshlíð (varamaður)
Ásta Pétursdóttir Hranastöðum (varamaður)
Félag þingeyskra kúabænda
Marteinn Sigurðsson Kvíabóli
Sif Jónsdóttir Laxamýri
Sveinbjörn Þór Sigurðsson Búvöllum
Félag kúabænda á Héraði og Fjörðum
Halldór Sigurðsson Hjartarstöðum
Jóhann Gísli Jóhannsson Breiðavaði
Nautgriparæktarfélag Vopnfirðinga
Enginn fulltrúi mættur
Nautgriparræktafélag A-Skaftfellinga
Eiríkur Egilsson Seljavöllum
Félag kúabænda á Suðurlandi
Katrín Birna Viðarsdóttir Ásólfsskála
Arnheiður Dögg Einarsdóttir Guðnastöðum
Guðbjörg Jónsdóttir Læk
Valdimar Guðjónsson Gaulverjabæ
Gunnar Kr. Eiríksson Túnsbergi
Bóel Anna Þórisdóttir Móeiðarhvoli
Þórir Jónsson Selalæk
Ragnar Magnússon Birtingaholti (varamaður)
32 réttkjörnir fulltrúar mættir
7. Framhald umræðna
Haraldur Magnússon ræddi landnotkun, nauðsynlegt að vera á varðbergi, að missa ekki land úr landbúnaðarnotum hér á landi. Þó svo við eigum þetta land, bændur, þá höfum við það ekki í sjálfu sér til ráðstöfunar nema fáa áratugi.
Eiríkur Egilsson það þarf að skoða þessi mál um land í samhengi, trúlega fer mest af landi til spillis þegar heilu jarðirnar eru seldar og í stað hefðbundinnar landnota kemur ef til vill ekki nema einn sumarbústaður en engin landnot.
Varðandi greiðslumarkskerfið þá þurfum að tala varlega um þau mál. Hins vegar er ljóst að erfitt er að rökstyðja kvótakaup við núverandi aðstæður þar sem hlutfall ríkisstuðnings í heildarverði er mun lægra en var áður. Skoða þyrfti að bæta í C-greiðslu í júlí og ágúst.
Valgerður Kristjánsdóttir sammála Eiríki um að skoða þyrfti að auka álag í gegnum C-greiðslu í júlí og ágúst.
Þá kynnti fundarstjóri breytingu á útsendri dagskrá en það væri erindi Auðar Lilju Arnþórsdóttur sóttvarnardýralæknis um hringskyrfi.
8. Erindi – Auður Lilja Arnþórsdóttir sóttvarnardýralæknir Matvælastofnun
Auður Lilja lýsti sjúkdómnum hringskyrfi en orsakavaldur er húðsveppur sem veldur miklum óþægindum í húð, er mjög harðgerður og sveppagró geta lifað í mörg ár í umhverfinu. Einkenni koma oftast fram í hálsi og höfði, myndast hrúður og síðan hárleysi í blettum Afleiðingarnar eru vanlíðan og skemmd á húð auk smithættu fyrir fólk. Sjúkdómurinn er algengur erlendis.
Hér á landi hefur þessi sjúkdómur greinst á þremur bæjum núna nýlega en upphaflega kom þessi sjúkdómur með innflutningi 1933, síðan greindist hann í Eyjafirði 1966 og undir Eyjafjöllum 1987, tókst með miklum aðgerðum að útrýma sjúkdómnum þá, bæði í Eyjafirði og undir Eyjafjöllum.
Þessi tilvik sem komu upp nýlega í Eyjafirði og Skagafirði lýsa sér öðruvísi en áður en ekki vitað hvers vegna. Sérstakar aðgerðir eru í gildi gagnvart þeim búum þar sem veikinnar hefur orðið vart. Meðal annars ákveðinn hlífðarfatnaður á viðkomandi búi og heimsóknir bannaðar, sótthreinsun. Metið í hverju tilviki hvort fargað er gripum. Einnig er reynt að fara í athugun á mögulegum smitleiðum. Ekki hefur enn tekist að greina smitleiðir á þessa þrjá bæi í Skagafirði og Eyjafirði.
Auður Lilja hvatti til samstöðu um aðgerðir til að útrýma þessum sjúkdómi.
Gunnar Jónsson velti fyrir sér hvort ekki eigi að farga strax öllum sýktum gripum.
Auður Lilja sagði að alltaf væri leitað samkomulags við bónda í hverju tilviki. En best er að farga öllum sýnilega sýktum gripum.
Halldór Sigurðsson spurði um meðhöndlun vegna sjúkdómsins
Auður Lilja svaraði að eingöngu væri um sótthreinsiefni væri að ræða
Pétur Diðriksson spurði um smitleiðir.
Auður Lilja sagði að menn þyrftu að fara varlega, ekki síst í ferðum erlendis, sérstaklega að snerta ekki dýrin, smit getur verið í töluverðan tíma, kjötið er ósýkt og hæft til neyslu
Þórarinn Leifsson spurði hvort þessi nýju tilvik sem hefðu komið upp hér á landi gæt átt uppruna í öðrum sveppategundum.
Auður Lilja taldi slíkt ólíklegt. Vakti athygli á að viðkomandi bæir verða undir eftirliti þó svo að talið sé að búið sé að útrýma sjúkdómnum á viðkomandi bæ.
9.Skipan í nefndir og nefndarstörf
Þórólfur Sveinsson kynnti starfsnefndir aðalfundar, þrjár nefndir munu starfa. Eftirtaldir fulltrúar verða formenn einstakra nefnda. Gunnar Kr. Eiríksson í starfsnefnd 1, Sigurgeir Hreinsson í starfsnefnd 2 og Katrín Birna Viðarsdóttir formaður í starfsnefnd 3. Fundi síðan frestað og nefndir hófu störf.
Nefndir störfuðu síðan sídegis á föstudag og fyrir hádegi á laugardag og fundur hófst að nýju kl 13 á laugardag.
10. Afgreiðsla mála
Baldur H Benjamínsson kynnti ársreikning Landssambandsins, niðurstöður jákvæðar á rekstrarreikningi um 10,9 milljónir króna. Eignir eru 38.313.861 króna og skuldir alls 2.939.193. Kynnti jafnframt fyrirliggjandi fjárhagsáætlun, þar er reiknað með hagnaði upp á 2,5 milljónir króna.
Þórarinn Leifsson kynnti tillögur starfsnefndar 1
Tillaga 1.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 4. – 5. Apríl 2008, leggur áherslu á að allar hugmyndir um lækkun á innflutningstollum ganga þvert á gefin fyrirheit stjórnvalda undanfarin ár. Þá væru slíkar lækkanir afar illa tímasettar nú þegar hyllir undir samkomulag um nýjan WTO-samning, sem ráða mun þróun heimsviðskipta með búvörur í framtíðinni og þar með um þróun tollverndar landbúnaðarafurða.
Þórólfur Sveinsson lagði til orðalagsbreytingu á tillögunni. Breytingatillaga Þórólfs samþykkt samhljóða og tillagan þá þannig eftir breytingu:
Tillaga 1.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 4. – 5. Apríl 2008, leggur áherslu á að allar hugmyndir um lækkun á innflutningstollum á matvælum ganga þvert á gefin fyrirheit stjórnvalda undanfarin ár. Þá væru slíkar lækkanir afar illa tímasettar nú þegar hyllir undir samkomulag um nýjan WTO-samning, sem ráða mun þróun heimsviðskipta með búvörur í framtíðinni og þar með um þróun tollverndar landbúnaðarafurða.
Tillaga 2.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 4. – 5. apríl 2008, lýsir undrun sinni á aðgerðum Samkeppniseftirlits í kjölfar Búnaðarþings 2008. Bent er á að bændur eiga aðild að Bændasamtökum Íslands og þar með Búnaðarþingi sem einstaklingar.
Samþykkt samhljóða.
Tillaga 3.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 4. – 5. apríl 2008, beinir því til stjórnar að leita leiða til að kostnaðarbreytingar við mjólkurframleiðslu skili sér fyrr en nú er í afurðaverði. Eins er brýnt að sá viðmiðunargrunnur sem nýttur er við að meta framleiðslukostnað kúabúa, sýni með sem skýrustum hætti afkomu þeirra á hverjum tíma. Jafnframt skoði stjórn LK hvort verðmyndun aðfanga til mjólkurframleiðslu sé eðlileg í samanburði við nágrannalöndin.
Greinargerð:
Verðlagsnefnd búvöru ákveður mjólkurverð til bænda og hefur hún stuðst við verðlagsgrundvöll kúabús til að meta kostnaðarbreytingar í greininni. Margt bendir þó til að grundvöllurinn endurspegli orðið illa þróun ýmissa kostnaðarliða. Því er nauðsynlegt að öll tiltæk verkfæri verði nýtt til að meta raunverulega stöðu greinarinnar og afurðaverð leiðrétt í samræmi við það.
Margt bendir til að hér ríki fákeppni á markaði og virðist sem verð á sumum aðföngum til mjólkurframleiðslu sé óeðlilega hátt í samanburði við verð í nágrannalöndum okkar og heimsmarkaðsverð hráefna.
Tillaga 3 samþykkt samhljóða
Tillaga 4.
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Selfossi 4. – 5. apríl 2008, felur stjórn að kanna möguleika á því að nýta það svigrúm sem gert er ráð fyrir í búvörulögum og gildandi samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar, til að hætta opinberri verðlagningu á mjólk til framleiðenda, þótt opinberri verðlagningu sé haldið áfram á heildsölustigi. Niðurstöður verði lagðar fyrir næsta aðalfund LK til frekari ákvörðunartöku.
Fram kom tillaga um smávægilega orðalagsbreytingu . Tillagan samþykkt á þann hátt samhljóða.
Tillaga 5.
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Selfossi 4. – 5. apríl 2008, skorar á stjórn LK að skoða hvaða leiðir séu færar til að lækka búnaðargjald á greininni. Niðurstöður verða kynntar á næsta aðalfundi LK.
Tillaga 5 samþykkt samhljóða
Formaður starfsnefndar 1, Þórarinn Leifsson, sagði frá því að ein tillaga sem hefði komið til nefndarinnar til umfjöllunar um að leita nýrra leiða í framleiðslustýringu og stuðningsformi, hefði ekki verið afgreidd úr nefndinni þar sem sú vinna sem tillagan fjallaði um, er nú þegar í farvegi á vegum LK.
Sigurgeir Hreinsson formaður starfsnefndar 2 sagði fyrst frá því að tillaga frá Nautgriparæktarfélagi Vopnfirðinga um gripagreiðslur á alla nautkálfa hefði ekki hlotið framgang í nefndinni og kynnti eftirfarandi tillögur frá nefndinni:
Tillaga 6.
Aðalfundur LK 2008 samþykkir að tilhögun greiðslu úr lið 6.4 óframleiðslutengds- og/eða minna markaðstruflandi greiðslna í samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu frá 10.maí 2004 verði ráðstafað á eftirfarandi hátt verðlagsárin 2008/2009 og 2009/2010:
Verðlagsárið 2008/2009
Þróunarfé 8 milljónir
Jarðrækt 30 milljónir
Greiðslur vegna þátttöku í kynbótastarfi 25 milljónir
Eingreiðsla á greiðslumark óháð nýtingu 34 milljónir
Alls: 97 milljónir
Verðlagsárið 2009/2010:
Þróunarfé 8 milljónir
Jarðrækt 30 milljónir
Greiðslur vegna þátttöku í kynbótastarfi 106 milljónir
Alls: 144 milljónir
Greiðslur vegna þátttöku í kynbótastarfi miðaðst við að fullnægjandi upplýsingum um afurðir og efnainnihald sé skilað í skýrsluhald nautgriparæktarinnar.
Jón Gíslason ræddi tillöguna, taldi að helstu vankantar í skýrsluhaldinu væri vöntun á ættfærslum og notkun heimanauta. Lagði til breytingatillögu á tillögunni í þá veru að skotið verði inn orðunum„meðal annars“ í síðustu málgrein. Hún samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.
Arnheiður D. Einarsdóttir ræddi tillöguna og var ósátt við breytingatillöguna því þar með væri búið að opna á ýmislegt gæti komið til greina sem stuðningur.
Hallur Pálsson ræddi stuttlega kynbótastarfið og nauðsyn umræðu um það á þessum fundum.
Guðný Helga Björnsdóttir nefndi að hægt væri hægt að skerpa á tillögunni með orðalagsbreytingu.
Valdimar Guðjónsson lagði til breytingu á núverandi tillögu.
Jón Gíslason ræddi tillöguna og lagði til að báðar breytingatillögur Valdimar og Guðnýjar yrðu felldar þar sem eins og tillagan hljóðar núna sé það augljóst að stjórn LK mun verða ráðandi ráðstöfun þessa fjár.
Þórarinn Leifsson lagði til að báðar breytingatillögur yrðu felldar, bæði tillaga Guðnýjar og Valdimars.
Breytingatillaga Valdimars felld með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða svo og tillaga Guðnýjar.
Tillagan því samþykkt með breytingatillögu Jóns með yfirgnæfandi meirhluta atkvæða og er eftirfarandi:
Aðalfundur LK 2008 samþykkir að tilhögun greiðslu úr lið 6.4 óframleiðslutengds- og/eða minna markaðstruflandi greiðslna í samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu frá 10.maí 2004 verði ráðstafað á eftirfarandi hátt verðlagsárin 2008/2009 og 2009/2010:
Verðlagsárið 2008/2009
Þróunarfé 8 milljónir
Jarðrækt 30 milljónir
Greiðslur vegna þátttöku í kynbótastarfi 25 milljónir
Eingreiðsla á greiðslumark óháð nýtingu 34 milljónir
Alls: 97 milljónir
Verðlagsárið 2009/2010:
Þróunarfé 8 milljónir
Jarðrækt 30 milljónir
Greiðslur vegna þátttöku í kynbótastarfi 106 milljónir
Alls: 144 milljónir
Greiðslur vegna þátttöku í kynbótastarfi miðaðst meðal annars við að fullnægjandi upplýsingum um afurðir og efnainnihald sé skilað í skýrsluhald nautgriparæktarinnar.
Sigurgeir Hreinsson lagði fram tillögu um eftilitsgjöld frá starfsnefnd 2:
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 4.-5.apríl 2008 beinir því til stjórnar Landssambands kúabænda að taka saman hvaða eftirlitsgjöld eru lögð á greinina og leita leiða til hagræðingar í framkvæmd eftirlits
Birna Þorsteinsdóttir velti fyrir sér hvort fyrirliggjandi tillögur frá starfsnefnd 2 og 3 sköruðust.
Guðný Helga Björnsdóttir taldi að þarna væru tvo mál að ræða.
Jón Gíslason taldi að þessar tvær tillögu sköruðust að hluta og lagði til að formenn nefndanna ræddu tillögurnar.
Arnheiður D. Einarsdóttir ræddi tillöguna og taldi að þessar tvær tillögur hefðu vísun á mismunandi þætti og væru þannig aðskildar.
Ákveðið að fresta afgreiðslu tillögunnar þar til síðar á fundinum.
Tillaga 7.
Sigurgeir Hreinsson mælti fyrir eftirfarandi tillögu frá starfsnefnd 2:
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 4.-5.apríl 2008 beinir því til Bændasamtaka Íslands að láta haga sundurliðun á fjármagnsliðum í bókhaldsforritinu dk Búbót, þannig að fram komi annars vegar raunverulegur greiddur fjármagnskostnaður, og hins vegar breytingar á höfuðstól skulda vegna gengisbreytinga eða breytinga á vísitölu neysluverðs. Einnig að flýta skattauppfærslu í fyrrnefndu forriti.
Tillaga samþykkt samhljóða
Tillaga 8.
Sigurgeir Hreinsson mælti fyrir eftirfarandi tillögu frá starfsnefnd 3:
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 4.-5.apríl 2008, ítrekar fyrri ályktanir þess efnis að aflögð verði alveg stimpilgjöld við þinglýsingu. Mikilvægt er að allir lántakendur njóti þess og fundurinn ítrekar að raunveruleg samkeppni milli banka verður aldrei nema að aflögðum þessum gjöldum.
Tillagan verði til Alþingis.
Tillaga samþykkt samhljóða
Tillögur frá starfsnefnd 3
Valgerður Kristjánsdóttir kynnti eftirfarandi tillögur til breytinga á samþykktum LK eftir umfjöllun í starfsnefnd 3.
Tillaga 9.
Tillögur til breytinga á samþykktum LK á aðalfundi 2008:
1. Tillaga frá FKS: Félag kúabænda á Suðurlandi óskar þess að gerð verði eftirfarandi breyting á 5. grein laga Landssambands kúabænda málslið 2. þar sem fjallað er um kjör aðalfundafulltrúa. Greinin hljóðar svona í dag. ,,5.2. Aðalfund sitja með fullum réttindum fulltrúar aðildarfélaganna kosnir á aðalfundum þeirra í leynilegri kosningu”. Við greinina bætist eftirfarandi: Sé starfrækt innan viðkomandi aðildarfélags trúnaðarmannaráð, sem kosið er á aðalfundi með framangreindum hætti og innifelur a.m.k. tvöfaldan þann fjölda fulltrúa sem félaginu ber, er aðalfundi þess heimilt að vísa fulltrúakjörinu þangað.
Guðbjörg Jónsdóttir spurði um uppsetningu tillögunnar, eins og hún er sett fram kemur hún fram frá Félagi kúabænda á Suðurlandi.
Þórólfur Sveinsson ræddi fyrirliggjandi tillögu og taldi eðlilegt að samþykkja hana óbreytta.
Tillagan samþykkt með 26 atkvæðum, enginn á móti
2. Tillaga frá stjórn LK: Grein 5.6. er þannig nú ,, Aðalfund skal boða á sannanlegan hátt með a.m.k. 14 daga fyrirvara til stjórna aðildarfélaganna. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað’’. Lagt er til að greinin orðist svo: ,, Aðalfund skal boða fyrir 10. janúar ár hvert til stjórna aðildarfélaganna. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað’’
Tillagan samþykkt með 27 atkvæðum og enginn á móti
3. Grein 10. er þannig: ,,Svo fljótt sem við verður komið eftir aðalfund hvers aðildarfélags skal stjórn þess senda LK aðildarskrá, ásamt skýrslu um störf félagsins á liðnu ári, upplýsingar um kosningar í stjórn og fulltrúa á fundi LK og annað sem máli kann að skipta’’. Lagt er til að greinin orðist þannig ,, Svo fljótt sem við verður komið eftir aðalfund hvers aðildarfélags skal stjórn þess senda LK aðildarskrá, ásamt skýrslu um störf félagsins á liðnu ári, upplýsingar um kosningar í stjórn og fulltrúa á fundi LK og annað sem máli kann að skipta. Þessar upplýsingar skulu hafa borist skrifstofu LK eigi síðar en 30 dögum fyrir aðalfund. Mál sem taka á til afgreiðslu á aðalfundi LK, skulu hafa borist skrifstofu LK eigi síðar en 7 dögum fyrir aðalfund“.
Eiríkur Egilsson spurði um hvort það væri réttur skilningur að ekki væri hægt að koma með tillögur inn á fundinn eða á fundinum sjálfum samkvæmt fyrirliggjandi tillögu.
Þórólfur Sveinsson sagði að þetta væri réttur skilningur á málinu.
Tilgangurinn væri að menn kæmu betur undirbúnir til aðalfundar.
Magnús Sigurðsson lagði til viðaukatillögu um að það væri síðan í valdi aðalfundar hvort leyfð væri upptaka nýrra mála á aðalfundinum sjálfum
Halldór Sigurðsson lagði til að í stað orðsins “aðildarskrá” kæmi “ félagatal”.
Magnús I. Hannesson velti fyrir sér hvort nauðsynlegt væri að miða við 30 daga fyrirvara um fulltrúakjör inn á aðalfund LK
Þórólfur Sveinsson benti á að tímaramminn til undirbúnings LK væri núna mjög þröngur og oft erfitt finna tíma til að mæta á aðalfundi aðildarfélaga.
Sigmundur H. Sigurðsson ræddi tillöguna og kvaðst fylgjandi því að hafa afmarkaðan tíma til undirbúnings fyrir aðalfund LK.
Fundarstjóri lagði fram breytingartillögu Halldórs – samþykkt samhljóða
Breytingatillaga Þórólfs og Magnúsar samþykkt samhljóða um að aðalfundur geti á hverjum tíma ákveðið að taka til afgreiðslu mál sem koma síðar.
Breytingatillaga Sigmundar um 20 daga fyrirvara samþykkt samhljóða
Tillagan í heild borin upp til atkvæða með áorðnum breytingum – samþykkt með 28 atkvæðum og er svohljóðandi eftir breytingar:
Grein 10. : ,, Svo fljótt sem við verður komið eftir aðalfund hvers aðildarfélags skal stjórn þess senda LK félagatal, ásamt skýrslu um störf félagsins á liðnu ári, upplýsingar um kosningar í stjórn og fulltrúa á fundi LK og annað sem máli kann að skipta. Þessar upplýsingar skulu hafa borist skrifstofu LK eigi síðar en 20 dögum fyrir aðalfund. Mál sem taka á til afgreiðslu á aðalfundi LK, skulu hafa borist skrifstofu LK eigi síðar en 7 dögum fyrir aðalfund. Aðalfundur getur þó ákveðið að taka til afgreiðslu mál sem koma síðar fram.
Þá voru kynntar aðrar tillögur úr starfsnefnd 3.
Katrín Birna Viðarsdóttir kynnti tillögu úr starfsnefnd 3 sem er til orðin úr tveimur tillögum úr nefndinni og einni tillögu frá starfsnefnd 1 sem hafði verið frestað fyrr á fundinum. Tillagan er svohljóðandi:
Tillaga 10
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 4. – 5. apríl 2008, felur stjórn að leita samstarfs við Matvælastofnun um útfærslu eftirlitskerfis landbúnaðarins. Haft skal að leiðarljósi að kerfið komi bændum og öðrum að þeim notum sem til er ætlast án þess að útfærsla þess verði verulega íþyngjandi.
Jafnframt láti stjórn LK taka saman hvaða eftirlitsgjöld eru lögð á greinina.
Tillagan samþykkt samhljóða
Þórir Jónsson mælti fyrir næstu tillögu starfsnefndar 3
Tillaga 11
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 4. – 5. apríl 2008, beinir til stjórnar LK að kanna kosti og galla þess að taka upp notkun örmerkja við einstaklingsmerkingu nautgripa.
Tillagan samþykkt samhljóða.
Jón Gíslason mælti fyrir síðustu tillögu starfsnefndar 3
Tillaga 12
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 4. – 5. apríl 2008 varar við því að gerðar verði einhverjar þær breytingar á störfum héraðsdýralækna sem ætla má að leiði til lakari dýralæknaþjónustu í strjábýlli héruðum.
Greinargerð:
Víða um land hagar svo til að starfandi héraðsdýralæknar sinna einnig almennum dýralækningum á starfssvæðum sínum og í strjábýlli héruðum er önnur dýralæknisþjónusta ekki fáanleg nema úr mikill fjarlægð og með ærnum tilkostnaði. Verði alger aðskilnaður eftirlits og almennrar dýralæknaþjónustu í samræmi við reglur ESB að veruleika er vandséð að nokkrir dýralæknar muni starfa í fámennustu héruðunum. Því mun fylgja verulegur kostnaður fyrir bændur og jafnframt er sú staða algerlega óásættanleg út frá dýraverndunarsjónarmiðum. Eðlilegt er að vegna strjábýlis fáist hér undanþága frá fyrrnefndum aðskilnaði, líkt og tíðkast í strjálbýlli landshlutum Noregs og Svíþjóðar.
Samþykkt samhljóða.
Tillaga 13. Ársreikningar LK 2007
Fundarstjóri bar upp fyrirliggjandi reikninga. Þeir samþykktir samhljóða
Tillaga 14. Tillaga um laun stjórnar og fulltrúa
Þórólfur Sveinsson gerði grein fyrir tillögu að launum fyrir stjórn og fulltrúa. Þóknun fyrir aðalfundarfulltrúa verði 15.000 kr/dag
Samþykkt samhljóða
Tillaga 15. Fjárhagsáætlun LK
Samþykkt samhljóða
11. Kosningar
Magnús Sigurðarson formaður uppstillinganefndar kynnti tillögu um formann til 1 árs sem væri Þórólfur Sveinsson Gengið var til kosninga og féllu atkvæði þannig:
Þórólfur Sveinsson 30 atkvæði
Auður og ógildir seðlar voru tveir
Þá kynnti Magnús tillögu um eftirtalda fjóra stjórnarmenn í stjórn LK til eins árs:
Gengið var til kosninga og féllu atkvæði þannig:
Guðný Helga Björnsdóttir Bessastöðum 32
Jóhann Nikulásson St-Hildisey II 32
Sigurð Loftsson Steinsholti 31
Sveinbjörn Sigurðsson Búvöllum 30
Eftirtaldir fengu eitt atkvæði:
Laufey Bjarnadóttir, Stakkhamri
Gunnar Jónsson, Egilsstöðum
Sigurgeir Hreinsson, Hríshóli
Þá kynnti Magnús tillögu um varamenn í stjórn LK, þau Gunnar Jónsson og Guðrún Lárusdóttir. Gengið var til kosninga og féllu atkvæði þannig:
Gunnar Jónsson 25 atkvæði
Guðrún Lárusdóttir 14 atkvæði
Skoðunarmenn til eins árs
Magnús kynnti tillögu að þeim Katrínu Birnu Viðarsdóttur og Pétri Diðrikssyni sem skoðunarmönnum og Valdimar Guðjónsson til vara.
Tillagan samþykkt með lófaklappi.
12. Önnur mál
Arnheiður D. Einarsdóttir spurði um hvort sú stofnun sem Henrike Burchardi, ynni hjá hefði tekið saman upplýsingar um styrki til landbúnaðar í mismunandi löndum
Baldur Helgi sagði að þessar upplýsingar væru til þannig að möguleiki væri að fá þessar upplýsingar frá samtökunum. Jafnframt hefði hún fundað með formanni og framkvæmdastjóra til að fá upplýsingar
Pétur Diðriksson velti því fyrir sér hvort hugsanlega væri möguleiki væri að tengjast upplýsingaveitu þessara samtaka í gegnum vef LK
13. Fundarslit.
Formaður LK, Þórólfur Sveinsson, þakkaði fyrir endurkjör sitt til formanns LK. Sagði jafnframt að væntanlega yrði stefnumótun eitt aðalmál næsta aðalfundar eins og hann hafði kynnt í skýrslu sinni fyrr á fundinum.
Þakkaði að lokum fulltrúum, starfsmönnum og fyrirlesara fyrir fundinn og sagði fundi slitið kl. 16.30
Fundarritari: Runólfur Sigursveinsson