Beint í efni

Aðalfundur FKS samþykkir tillögu um innflutning á erfðaefni til kynbóta

15.02.2006

Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi var haldinn í Árhúsum Hellu mánudaginn 13.febrúar. Alls voru um 60 manns á fundinum er flest var. Í skýrslu Sigurðar Loftssonar formanns kom m.a. fram að síðastliðið starfsár hefði verið annasamt en félagið minntist 20 ára afmælis síðastliðið vor  og í tengslum við þau tímamót gaf félagið út veglegt afmælisrit. Auk þess stóð félagið að málþingi um stöðu og framtíð mjólkurframleiðslunnar sem haldið var að Þingborg 31.janúar sl.
Alls voru haldnir 4 félagsráðsfundir þar af einn með ráðunautum Búnaðarsambandsins og stjórn félagsins fundaði síðan að auki með stjórn Búnaðarsambandsins síðla árs.

Baldur  Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri LK kynnti framkvæmd gripagreiðslna og ræddi jafnframt stöðu framleiðslu- og sölumála í mjólk og nautakjöti. Að lokinni framsögu Baldurs kom m.a. fram  hjá Pálma Vilhjálmssyni framkvæmdastjóra SAM að góð sala er á mjólkurvörum og  því ljóst að bændur þurfi að hafa sig allan við að fullnægja eftirspurn út þetta ár. Samtök afurðastöðva hafa beint þeim tilmælum til afurðastöðva að framlengja sérstaka álagsgreiðslu til bænda þannig að  hún verði greidd allt til loka aprílmánaðar. Í máli Magnúsar H. Sigurðssonar formanns stjórnar MS kom fram að afurðastöðvarnar hefðu ábyrgst greiðslu fyrir allan próteinhluta umframmjólkur sem til fellur  á þessu verðlagsári. Stjórn  SAM mun síðan ræða það síðar í vetur og vor hvort einhverjir möguleikar eru á frekar viðbótargreiðslum fyrir innlagða mjólk. 

Samþykktar voru tvær tillögur á fundinum, báðar frá Guðna Ragnarssyni á Guðnastöðum,
Önnur fjallar um kjarnfóðurtolla og er svohljóðandi:

“Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi 13.feb. 2006 í Árhúsum, Hellu beinir því til Landssambands kúabænda  að fá kjarnfóðurskatt niðurfelldan nú þegar.
Greinargerð:
Kjarnfóður á Íslandi er um 50% dýrara en í nágrannalöndum okkar og stafar það af kjarnfóðurtollum til að vernda innlenda fóðurverksmiðjur gegn innflutningi tilbúins kjarnfóðurs. Er raunin sú að aðeins eru tvær fóðurverksmiðjur eftir og virðast þær vera búnar að skipta markaðnum á milli sín. Engin virk samkeppni virðist eiga sér stað og verðmyndun kjarnfóðurs á Íslandi virðist vera úr sambandi við heimsmarkaðsverð á kornvörum og gengi krónunnar.”

Þessi tillaga var samþykkt samhljóða 

Hin tillagan var um innflutning á erfðaefni til kynbóta á íslensku kúnni og er svohljóðandi:

“Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi 13. feb. 2006 í Árhúsum, Hellu beinir því til Landssambands kúabænda að sækja um heimild til að flytja inn fósturvísa úr erlendu kúakyni. Þeir verði nýttir í tilraun með kynbætur á íslenskum kúm.
Greinargerð:
Íslenskir kúabændur eru að verða verulegir eftirbátar nágrannaþjóða okkar með kúakyn þar sem íslensku kýrnar ná ekki að mjólka nærri jafnmikið og stöllur þeirra erlendis, einnig er júgurgerð þeim langt að baki. Vegna lítils ræktunarhóps á Íslandi verður munurinn á okkar kúm og öðrum stórum ræktunarkynjum sífellt meiri. Þetta gerir það að verkum að munurinn á framleiðslukostnaði á Íslandi og nágrannalöndum okkar verður sífellt meiri.”

Þessi tillaga var samþykkt með 23 atkvæðum en 10 greiddu atkvæði á móti.
Á fundinum var kosið í félagsráð félagsins og jafnframt fulltrúar á aðalfund LK í vor.    Þá voru gerðar breytingar á samþykktum félagsins, m.a. í þá veru að framvegis verður formaður félagsins kosinn beinni kosningu af aðalfundi en áður var það félagsráð félagsins sem kaus formann.
Fundargerð aðalfundar félagsins verður birt síðar hér  á heimasíðu LK.